Einelti á vinnustöðum
29.4.2014 | 16:28
Helstu mistök eineltisteymis:
Fer af stað með vinnslu án þess að kvörtun sé nægjanlega skýr
Aflar ekki nauðsynlegra upplýsinga, undirbýr viðtöl illa
Dregur ótímabærar ályktanir, búin að ákveða hvernig er í pottinn búið
Gætir ekki að öryggi þolanda á staðnum á meðan á vinnslu stendur
Dregur úrvinnslu á langinn í þeirri von um að vandinn ,,hverfi
Ræðir ekki við geranda um EFNI kvörtunarinnar
Er meðvirkt þeim sem kvartað er yfir, leyfir reiði/afneitun hans að slá sig út af laginu, leyfir honum að taka stjórnina á vinnsluferlinu og gera það að sínu
Missir sjónar af umkvörtunarefninu
Fyrir vinnustaði/fyrirtæki
Fræðsluerindi um einelti á vinnustað. Beint er sjónum að forvarnarvinnu á vinnustað og farið yfir helstu birtingamyndir eineltis og kynbundins ofbeldis. Varpað er ljósi á algengar orsakir neikvæðrar framkomu fullorðinna í garð annars aðila og hvað oft einkennir persónur og aðstæður þolenda annars vegar og gerenda hins vegar. Raktir eru verkferlar og verklagi miðlað sem einkennir fagleg vinnubrögð við úrvinnslu eineltismála á vinnustað.
Markmiðið með fræðslunni er að hjálpa vinnustöðum/fyrirtækjum að verða sem mest sjálfbær í þessum málum í það minnsta geta gripið sem fyrst inn í áður en málið verður enn flóknara og umfangsmeira.
Þekkir þú svona yfirmann (grein)
ALLT UM EINELTI á ÍNN í kvöld kl. 20
18.4.2014 | 09:57
Í þætti Elínar Hirst í kvöld á ÍNN verður rætt um einelti og heimildarmynd Viðars Freys Guðmundssonar sem nefnist ALLT UM EINELTI.
Myndin er yfirgripsmikil umfjöllun þar sem fjölmargir deila þekkingu sinni, upplifunum og reynslu sem tengist með einum eða öðrum hætti einelti, orsök og afleiðingu.
Öll þekkjum við einhvern sem orðið hefur fyrir stríðni og einelti eða verið gerandi eineltis nema hvort tveggja sé.
Langflestir geta í það minnsta sett sig í spor þolenda eineltis. Einelti finnst þar sem hópur einstaklinga kemur saman, í leikskólum, á hjúkrunarheimilum, á öllum stöðum og stigum milli þess að vera barn og eldri borgari.
Það þarf ekki að hafa mörg orð um afleiðingar eineltis. Heimildarmyndin ALLT UM EINELTI birti þær vel. Brotið ,,sjálf með tilheyrandi fylgifiskum er alvarlegasta skaðsemi einelti. Brotin sjálfsmynd sýkir líðan, hugsun og atferli . Þolandinn er ekki einungis farinn að trúa því að hann sé ómögulegur heldur hættir hann að þora að treysta. Þegar maður er hættur að geta treyst aukast líkur á að maður misskilur eða oftúlkar orð og atferli annarra. Gleraugu tortryggni og ótta eru gleraugu sem enginn vill þurfa að ganga með.
OG JÁ, minning um einelti lifir. Það hefur komið skýrt fram að minning um einelti lifir. Þolandinn vill svo gjarnan geta gleymt, geta þurrkað út sárar minningar eineltis og sópað afleiðingunum undir teppi. En svo einfalt er það bara oft ekki. Við hið minnsta áreiti sem minnir á tímabil eineltisins blossar upp sársaukinn og höfnunartilfinningin og gildir þá einu þótt liðin séu jafnvel 30/40 ár.
En minningin um að hafa meitt og sært getur verið allt eins þrautseig í huga gerandans, jafnvel þótt langt sé um liðið.
En hver er svo kjarni alls þessa? Jú það er HVERNIG VIÐ KOMUM FARM VIÐ AÐRA, hvernig við tölum um aðra þegar þeir heyra ekki til þ.e. virðing fyrir samferðafólki okkar án tillits til hvort okkur líkar við það eða hvað okkur kann að finnast um það.
Það er sem sé ekkert grátt svæði þegar kemur að framkomu og hegðun og hver og einn ber ábyrgð á sinni hegðun.
Ég hvet alla til að horfa á myndina. Ég hvet skóla, íþrótta- og æskulýðfélög til að sýna börnunum myndina og ræða efni hennar og foreldra til að gera slíkt hið sama.
Hér er linkur inn á ALLT UM EINELTI
Umræðan um einelti í fjölmiðlum í dag
30.3.2014 | 20:12
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni um einelti í fjölmiðlum dag, fyrst Margrét Pála og svo nú í kvöldfréttum Þorlákur með Olweusaráætlunina.
Ég fagna þessari umræðu eins og allri sem lýtur að einelti.
Fyrirbyggjandi aðgerðir skipta öllu og þá að ekki sé einungis gripið til þeirra þegar upp kemur erfitt eineltismál. Mikið frekar að umræða/fræðsla um góða samskiptahætti og gagnkvæma virðingu sé hluti af menningu og lífstíl staðarins, fléttað og samtvinnað inn í starfsemina.
Takist það er vel hægt að treysta börnunum til að vera saman án þess að stöðugt sé fylgst með þeim frá einni mínútu til annarrar.
Ekkert eitt leysir annað af hólmi. Allt þarf að vera virkt í þessum málum: Uppbygging og viðhald á jákvæðri staðarmenningu; fyrirbyggjandi aðgerðir og svo auðvitað markviss og fagleg vinnubrögð, ef kvörtun berst um einelti.
(sjá nánar á kolbrunbaldurs.is)
Fræðslumyndbönd fyrir börn um hegðun, framkomu, stríðni og einelti
16.2.2014 | 13:25
Verið er að leggja lokahönd á 3 myndbönd, fyrir yngsta stig grunnskóla, miðstig og það þriðja er fyrir unglingastigið. Myndböndin voru tekin upp 9. nóvember 2013 í Grunnskóla Grindavíkur með góðfúslegu leyfi skólastjóra. Fjöldi barna á hverjum fyrirlestri er milli 200 og 300. Myndböndin verða sett á You Tube og verða linkar aðgengilegir á kolbrunbaldurs.is
Rætt er um í fyrirlestrunum hvað einkennir góða framkomu og hegðun og þá kröfu að allir eigi að vanda sig í framkomu við aðra hvernig svo sem þeim kunni að líka við eða finnast um aðra.
Farið er í helstu birtingamyndir eineltis þar á meðal rafrænt einelti og hvernig djók getur t.d. stundum umbreyst í einelti.
Talað er um þolendur og gerendur eineltis og helstu einkenni og aðstæður þeirra. Einnig af hverju sumir krakkar vilja stríða og meiða aðra krakka.
Rætt er um mikilvægi þess að láta ekki mana sig í að taka þátt og ekki vera þögult vitni heldur láta einhvern fullorðinn vita strax og vart verður við einelti.
Lögð er áhersla á við krakkana að maður þarf ekki að stríða til að vera flottur.
Fyrirlesari er Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur og upptökumaður Garðar Garðarsson.
Kastljós hlaut viðurkenningu Barnaheilla
21.11.2013 | 08:17
Verðlaunaafhending. Ræða formanns í heild sinni
Hér má sjá hluta af ávarpi formanns.
Barnasáttmálinn er leiðarljós Barnaheilla - Save the Children. Sáttmálinn var undirritaður fyrir Íslands hönd árið 1990, fullgiltur árið 1992 og lögfestur nú í byrjun árs 2013. Með lögfestingunni hefur verið tekið stórt skref í réttarbót íslenskra barna. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, fyrir utan Bandaríkin og Sómalíu, hafa fullgilt sáttmálann og er hann því útbreiddasti mannréttindasamningur heims.
Barnasáttmálinn er eini alþjóðlegi samningurinn sem á sérstaklega við um börn og felur hann í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu hópur sem hafi sjálfstæð réttindi, óháð forsjáraðilum, og að þau beri að vernda gegn hvers kyns hættum og ofbeldi. Samningurinn tryggir börnum borgaraleg réttindi, félagsleg, menningarleg og efnahagsleg réttindi.
Mikilvægi lögfestingar Barnasáttmálans hér á landi sem og annars staðar er stórt skref í áttina að því að tryggja sjálfsögð réttindi barna enn frekar. Sáttmálinn er ekki einungis orð á blaði heldur leiðarvísir, verkfæri sem allir þeir sem koma að málefnum barna geta stuðst við. Auk þess hefur sáttmálinn mikilvægt forvarnargildi.
Barnasáttmálinn felur í sér hvatningu til að halda áfram að gera það sem þjóð gerir fyrir börn sín, að rækta persónuleika, og andlega og líkamlega getu þeirra. Að kenna þeim að lifa ábyrgu lífi í anda skilnings, umburðarlyndis, jafnréttis og vináttu milli þjóða og þjóðernis- og trúarhópa.
Okkur ber að heiðra barnæskuna og gæta þess að leyfa börnum að vera börn. Auk þeirrar sjálfsögðu skyldu okkar að sinna þeim andlega og líkamlega viljum við að þau njóti fjölbreytilegra tómstunda og leikja, menningar og lista og umfram allt eiga þau rétt á að lifa áhyggjulausri tilveru, finna til öryggis, gleði og kátínu.
Við höldum sannarlega í höndina á börnunum til fullorðinsára í hinum víðasta skilningi en á sama tíma og við kennum þeim getum við líka lært af þeim með því að hlusta á reynslu þeirra, upplifanir, skoðanir og viðhorf. Börn sjá, heyra og skynja ótal margt sem fer fram hjá okkur fullorðna fólkinu. Athyglisgáfa þeirra, vitund, næmni, einlægni og hreinskilni er meðal þess sem börnin geta kennt okkur eða í það minnsta minnt okkur á að hafa í heiðri.
Fyrir börnin, það dýrmætasta sem þjóð getur átt, finnst manni seint nóg gert. Foreldrar og forráðamenn ættu ekki að þurfa upplifa sig ein í þessu hlutverki þótt ábyrgðin hvíli vissulega hvað helst á þeim. Þetta er ekki bara mitt barn eða þitt barn heldur börnin okkar. Barnið þitt er mitt og mitt er þitt, í þeim skilningi að vökul augu okkar allra beinast ekki einungis í eina átt heldur horfum við allan hringinn.
Já kæru gestir í þessu mikilvæga verkefni viljum við standa þétt saman. Umbunin lætur ekki á sér standa. Við erum flest foreldrar, afar, ömmur, frændur, frænkur og vinafólk. Hversu mikið gleður það ekki að fylgjast með barni vaxa úr grasi og ganga inn í fullorðinsárin vel nestað af andlegu og líkamlegu heilbrigði, öryggi, sjálfstrausti og metnaði.
Að baki hverju barni stendur stór hópur, heilt samfélag. Starfsfólk skóla, íþrótta- og æskulýðsfélaga og félagasamtök koma sannarlega að uppeldi þeirra. Fjölmargir aðrir koma með óbeinni hætti þar að en eru engu að síður oft miklir áhrifavaldar. Ýmis fyrirtæki og stofnanir þar með taldir fjölmiðlar eru í áhrifastöðu enda er þeirra hlutverk að líta yfir hina mannlegu flóru og safna gagnlegum upplýsingum og fréttum og miðla þeim með skýrum og skilmerkum hætti.
Ágætu gestir
Viðurkennig Barnaheilla í ár er að þessu sinni veitt KASTLJÓSINU sem á árinu fjallaði með vönduðum hætti um kynferðisofbeldi gagnvart börnum og vakti með umfjöllun sinni þjóðina til enn frekari vitundar og vakningar um kynferðisglæpi gegn börnum, glæpi sem einmitt vegna þess hvers eðlis þau eru, koma síður fram í dagsljósið.
Upplýsingaöflun og framsetning Kastljóssins var sett fram á eins nærgætinn hátt og hægt var miðað við hversu vandasamt málið var. Segja má að umfjöllunin hafi sýnt í hnotskurn eitt af mikilvægustu hlutverkum fjölmiðils: Að starfa af einlægni og heiðarleika og á sama tíma að veita íslensku samfélagi þ.m.t. stjórnkerfum og stofnunum þess ákveðið aðhald.
Það krefst alveg sérstakrar fagmennsku og nærgætni að fjalla um álíka viðkvæmt málefni eins og kynferðisofbeldi gagnvart börnum án þess að vekja ótta hjá börnum eða foreldrum þeirra. Umfjöllun um svo viðkvæmt málefni þarf umfram allt að vera upplýsandi, laus við hræðsluáróður, laus við almennar fullyrðingar eða yfirfærslur frá fráviki yfir á heildina.
Þegar fjallað er um vandasöm málefni eins og kynferðisofbeldi gegn börnum reynir einnig á að geta aðgreint sjálfa sig frá umfjöllunarefninu og nálgast það á eins hlutlausan og fordómalausan hátt og hægt er. Erfiðar tilfinningar og neikvæðar hugsanir, reiði og sársauki gera eðli málsins samkvæmt vart við sig þegar upplýsingar berast eða rökstuddur grunur er um að brotið hafi verið á barni.
Sú umfjöllun sem Barnaheill veitir hér viðurkenningu leiddi til þess að ljót leyndarmál sem geymd höfðu verið í dýpstu sálarkimum fundu farveg upp á yfirborðið. Af mörgum var þungri byrði létt, byrði sem hafði e.t.v. sligað axlir í áraraðir.
Umfjöllun sem þessi er ekki síður fyrirbyggjandi. Hún er viðvörun til þeirra sem nú eru að misnota eða misbjóða börnum og til þeirra sem eru að gæla við þá hugsun að brjóta gegn börnum. Síðast en ekki síst er hún hvatning til þeirra sem hafa verið eða eru þolendur kynferðisofbeldis eða hvers lags ofbeldis til að koma fram og leita réttar síns og umfram allt fá stuðning og styrk, ekki einvörðungu frá þeim sem hafa sérhæft sig í að hjálpa á þessu sviði heldur einnig frá samfélaginu í heild sinni.
Kæru vinir
Barnaheill vilja með viðurkenningunni í ár heiðra verndun barna gegn kynferðisofbeldi. Aðstandendur Kastljóssins hafa með umfjöllun sinni á þessum málaflokki lagt lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn kynferðisglæpum gegn börnum. Barnaheill vilja þakka þeim og RÚV fyrir þetta framlag en jafnframt hnykkja á mikilvægi þess að ræða þessi mál af hreinskilni og ábyrgð.
Vönduð umræða skilar árangri með margs konar hætti og til lengri tíma. Tjáning og miðlun er ekki einungis límið í tengslum okkar við hvert annað heldur ein öflugasta forvörn sem völ eru á.
Gerum þessa tegund af forvörnum sem hluta af okkar lífsstíl.
Að lokum
Höldum vöku og tölum saman. Bolti vitundar og vöku má aldrei snerta jörðu. Til að honum sé ávallt haldið á lofti þarf margar hendur, samstilltan vilja og góða liðsheild.
Það gæti verið ég eða þú sem bjargar barni frá ofbeldi
Starfsfólk og stjórn Barnaheilla óskar aðstandendum Kastljóssins og RÚV velfarnaðar í framtíðinni. Ég vil auk þess nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim sem vinna að vernd barna gegn hvers kyns ofbeldi.
En nú, kæru gestir, er komið að því að afhenda viðurkenninguna. Ég vil biðja biðja Sigmar Guðmundsson ritstjóra að veita þessum fallega verðlaunagripi viðtöku sem Sigrún Ólöf Einarsdóttir glerlistakona gerði.
EKKI MEIR
3.10.2013 | 20:43
EKKI MEIR
Vefurinn er ætlaður starfsmönnum skóla, íþrótta- og æskulýðsfélaga, foreldrum og börnum sem og stjórnendum og starfsfólki vinnustaða.
Á vefnum er að finna upplýsingar og fræðslu um aðgerðir gegn einelti, forvarnir og verkferla við úrvinnslu eineltismála. Auk greina og pistla um þennan málaflokk er að finna dæmi um viðbragðsáætlun og tilkynningareyðublað fyrir skóla, félög, stofnanir og fyrirtæki.
Fræðsla 2013-14
EKKI MEIR fræðsluerindi fyrir kennara og starfsfólk grunnskóla, leiðbeinendur og þjálfara
Fjallað er um hvernig jákvæður staðarbragur og almenn vellíðan skilar sér til barnanna. Forvarnir og helstu birtingamyndir eineltis eru reifaðar. Sjónum er beint að þolendum og gerendum, helstu persónueinkennum og aðstæðum. Megináhersla fræðslunnar er úrvinnsla eineltismála, viðbrögð og viðbragðsáætlun í eineltismálum. Ferlið er rakið frá tilkynningu til málaloka. Loks eru reifuð algengustu mistök sem gerð eru við upphaf og vinnslu mála af þessu tagi.
EKKI MEIR fyrir kennara og starfsfólk framhaldsskóla
Farið er yfir hvernig forvörnum og úrvinnslu eineltismála er best háttað í framhaldsskólum þar sem þeir hafa ákveðna sérstöðu enda helmingur nemenda undir 18 ára aldri. Raktar eru helstu birtingamyndir eineltis á þessu aldursskeiði og hverju huga þarf sérstaklega að við vinnslu mála ef aðili/aðilar eru undir sjálfræðisaldri
EKKI MEIR fræðsluerindi sérsniðið fyrir foreldra
Fjallað er m.a. um reynslu þess að vera í sporum foreldra þolenda eineltis annars vegar og gerenda hins vegar. Einnig hlutverk og ábyrgð foreldra í forvarnarvinnu, mikilvægi samstarfs og samvinnu við skóla/íþrótta- og æskulýðsfélög. Farið er yfir viðbrögð og verkferla sem snúa að foreldrum þegar greiða þarf úr eineltismálum sem upp koma og varða börn þeirra
EKKI MEIR, fræðsluerindi fyrir vinnustaði
Beint er sjónum að forvarnarvinnu á vinnustað og farið yfir helstu birtingamyndir eineltis og kynbundins ofbeldis. Varpað er ljósi á algengar orsakir neikvæðrar framkomu fullorðinna í garð annars aðila. Raktir eru verkferlar og verklagi miðlað sem einkennir fagleg vinnubrögð við úrvinnslu eineltismála á vinnustað. Boðið er upp á aðstoð við gerð viðbragðsáætlunar. Aðstoð er einnig veitt við að setja saman almennar samskipta-, og siðareglur og við gerð starfsreglna eineltisteymis eða ráðgjafahóps sem ætlað er að taki á þessum málum komi þau upp.
Ofantalin fræðsluerindi eru byggð á hugmyndafræði bókarinnar EKKI MEIR. Bókin er leiðarvísir í aðgerðum gegn einelti og úrvinnslu eineltismála. Útgefandi er Skólavefurinn ehf
Fyrir skóla, félagasamtök og aðra sem vilja stuðla að fræðslu og upplýstri umræðu til verndunar börnum
Hvernig eflum við innra varnarkerfi barna gegn kynferðisofbeldi?
Farið er í birtingamyndir kynferðisofbeldis gagnvart börnum og hvaða hópar barna eru helst í áhættuhópi? Í erindinu er foreldrum leiðbeint með hvernig þeir geta frætt börn sín með viðeigandi hætti. Beint er sjónum að hvernig fullorðnir skulu bregðast við segi barn frá kynferðisofbeldi. Loks er varpað ljósi á mögulegar vísbendingar um að barn hafi orðið fyrir kynferðislegri misnotkun.
Fræðsla í samskiptum sérsniðin að þjálfurum, leiðbeinendum og sjálfboðaliðum
Rætt er um þjálfara- og leiðbeinendastarfið, hvaða kröfur eru gerðar til þessara starfshópa. Einnig kynntar aðferðir til að styrkja sjálfsaga og persónulegan metnað þátttakenda. Sjónum er beint að mikilvægi forvarnarsamstarfs félaga og foreldra í þeim tilfellum þar sem þátttakendur eru undir 18 ára aldri. Farið er yfir viðbrögð ef grunur leikur á um að iðkandi glími við vandamál/vanlíðan. Í erindinu er farið í almenn samskipti þjálfara/leiðbeinenda og þátttakenda, hvar mörkin liggja og hvernig bregðast skuli við agavandamálum sem upp kunna að koma.
Fyrstu ár grunnskólagöngunnar, fræðsla fyrir foreldra yngstu barnanna í foreldrafærni
Í þessu erindi er farið yfir það sem einna helst einkennir þroska og þarfir þessa aldurskeiðs. Foreldrum er veitt ákveðin verkfæri sem auka færni þeirra í samskiptum við börn sín þ.á.m. í þeim tilfellum þar sem um aga- og hegðunarvanda er að ræða. Sérstök áhersla er lögð á að kenna foreldrum hvernig þeir geta með markvissum hætti lagt grunn að sterkri sjálfsmynd og sjálfsöryggi barna sinna. Varpað er ljósi á hvað einkennir jákvæð samskipti, skýr fyrirmæli og mikilvægi þess að foreldrar séu samstilltir og samkvæmir sjálfum sér í samskiptum við börn sín.
Unglingastigið: Samskipti á heimili, tölvunotkun og netið
Farið er yfir helstu þroskabreytingar unglingsáranna og hvað gjarnan einkennir þetta aldursskeið. Ýmsir samfélagslegir áhrifaþættir og kynjamismunur er meðal efnisþátta þessa erindis. Rætt er um mikilvægi jákvæðrar samskipta á heimili, samspil aga og aðhalds annars vegar og viðeigandi sveigjanleika hins vegar. Rætt er um tölvunotkun unglinga, Netið og mikilvægi þess að setja reglur í því sambandi. Farið er yfir hlutverk og ábyrgð foreldra þegar kemur að því kenna unglingunum sínum jákvæða framkomu og hegðun og forvarnir gegn einelti.
Pöntun fræðslufyrirlesturs, viðtals á stofu eða símaviðtal er með tölvupósti:
www.kolbrunbald@simnet.is
eða í síma 899-6783
Fjarfundarkennsla er í boði eigi sveitarfélög og stofnanir á landsbyggðinni þess kost að fá fræðsluerindi á netfundi
Aðdragandi að EKKI MEIR
Um áramót 2011/12 leituðu forsvarsmenn Skólavefsins ehf til mín og óskuðu eftir að ég skrifaði handbók um eineltismál. Ég varð við þeirri beiðni og kom bókin EKKI MEIR út í ágúst 2012.
Í júlí hafði Æskulýðsvettvangurinn (ÆV) einnig samband og óskað eftir samstarfi um verkefnið EKKI MEIR. ÆV eru heildarsamtök UMF'Í, Skátanna, Landsbjargar og KFUM og KFUK.
Í samstarfinu fólst m.a. að aðstoða aðildarfélög ÆV við gerð upplýsingabæklings um eineltismál og viðbragðsáætlunar fyrir aðildarfélögin. Farið hefur verið á 12 staði um landið á vegum ÆV og haldnir opnir fræðslufundir um hugmyndafræði og verklag EKKI MEIR.
Einnig hafa verið haldnir fundir víða á Stór-Reykjavíkursvæðinu, í skólum, í boði foreldrafélaga og annarra félagasamtaka sem láta sig þessi mál varða.
Samstarf við Reykjavíkurborg, ÍA, UMFG, ÍBR og ÍSÍ
EKKI MEIR hefur verið í samstarfi við Vinsamlegt samfélag, verkefni á vegum Reykjavíkurborgar sem var ýtt úr vör haustið 2011. Haldnir voru fjórir fyrirlestrar á haustönn 2012 um eineltismál, forvarnir og úrvinnslu fyrir tengiliði leik-, og grunnskóla Reykjavíkur sem og starfsfólk frístundaheimila í Reykjavík.
Samtarf við önnur íþrótta- og ungmennafélög og styrkir
ÍA og UMFG óskuðu síðastliðinn vetur eftir fræðslu og þjálfun í úrvinnslu eineltismála. Hún hefur falið í sér, auk fræðslufyrirlesturs fyrir foreldra og starfsfólk, aðstoð við gerð samskipta- og siðareglna, viðbragðsáætlunar og leiðbeiningar við úrvinnslu eineltismála.
Verið er að skoða samstarf ÍBR og ÍSÍ við verkefnið EKKI MEIR á komandi vetri og einnig áframhaldandi samstarf við ÆV.
EKKI MEIR hlaut nú nýverið styrk úr Forvarnarsjóði Reykjavíkurborgar til að halda þrjú fræðsluerindi í skólum Breiðholts. Erindin verða haldin á haustönn 2013. Haldin verða erindi í þremur hverfum Breiðholts á komandi vetri.
Nýjustu greinar og viðtöl
Varnir gegn einelti, lífstíll en ekki átak. (Viðtal í Bæjarblaði Hafnarfjarðar í ágúst 2013)
EKKI MEIR. Höfnum stríðni og einelti (Grein birt í Kópavogsblaðinu í ágúst 2013)
Fræðsla um eineltismál í grunnskólum Breiðholts. (Viðtal í Reykjavíkurblaðinu í ágúst 2013)
Gerum okkur klár. Grein í Morgunblaðinu 14. ágúst 2013
Umræða um eineltismál í fjölmiðlum
Kastljós 31. apríl 2012. Umfjöllun um eineltismál
Kastljós 3. maí 2012. Framhaldsumræða um eineltismál
Í nærveru sálar, þættir sýndir á ÍNN 2009/2010 ef smellt er hér
Forðast að draga ótímabærar ályktanir
26.9.2013 | 08:01
Í ljósi þeirrar miklu umræðu um eineltismál þessa dagana vil ég benda á að heildarmynd máls liggur ekki fyrir fyrr en búið er að rannsaka það, ræða við alla aðila. Mál koma frekar upp, festa rætur og vinda upp á sig ef:
Skóli/félag og foreldrar hunsa að ræða um samskiptahætti og reglur með markvissum hætti
Sagt er að einelti sé tekið alvarlega en það síðan ekki gert
Úrvinnsla er dregin á langinn í þeirri von um að vandinn hverfi
Ekki er rætt við geranda (foreldra ef um barn er að ræða) um efni kvörtunarinnar
Ekki er gætt að öryggi þolanda á staðnum
Þeir sem vinna að úrvinnslunni eru meðvirkir: leyfa reiði/afneitun einhvers að villa sér sýn
Reyna að þagga málið
EKKI MEIR fræðsla í boði
12.9.2013 | 09:26
Útgefandi er Skólavefurinn ehf. Nánari upplýsingar um bókina og innihald fræðslunnar má sjá á www.kolbrunbaldurs.is

Erindi byggð á hugmyndafræði EKKI MEIR:
EKKI MEIR fyrir kennara og starfsfólk grunnskóla, leiðbeinendur og þjálfara íþrótta- og æskulýðsfélaga
EKKI MEIR fyrir kennara og starfsfólk framhaldsskóla
EKKI MEIR fræðsluerindi um eineltismála sérsniðið að foreldrum
EKKI MEIR, fræðsluerindi fyrir vinnustaði
Einnig er boðið upp á eftirfarandi fræðsluerindi:
Hvernig eflum við innra varnarkerfi barna gegn kynferðisofbeldi?
Fræðsla í samskiptum sérsniðin að þjálfurum, leiðbeinendum og sjálfboðaliðum
Grunnskólabarnið: samskipti foreldra og barna, þjálfun í foreldrafærni
Unglingastigið: Samskipti á heimilinu, tölvunotkun og netið
Fjarfundarkennsla er í boði eigi sveitarfélög og stofnanir á landsbyggðinni þess kost að fá fræðsluerindi á netfundi
Sálfræðistofa Kolbrúnar Baldursdóttur sálfræðings er flutt í Ármúla 5
Einstaklingsráðgjöf, para- og hjónaráðgjöf, uppeldisráðgjöf
Ráðgjöf í forsjár- og umgengnismálum
Handleiðsla og samskiptaþjálfun
Tímapantanir í síma 899 6783 eða í tölvupósti www.kolbrunbald@simnet.is
www.kolbrunbald@simnet.is
eða í síma 899-6783
Viðvarandi rifrildi og þras eitrar
8.9.2013 | 10:50
Ósætti og ítrekuð rifrildi foreldra hefur skaðlegri áhrif á börn en sumt fólk gerir sér grein fyrir. Foreldrar gleyma þessu stundum í tilfinningahita leiksins og halda að barnið/börnin séu bara að leika sér eða séu í sínum hugarheimi.
Þau eru hins vegar sennilegast að hlusta gaumgæfilega, fylgjast með framvindu mála full kvíða og vanmáttar. Stundum halda þau að ósætti mömmu og pabba sé sér að kenna.
Skilaboðin eru þessi:
Ekki rífast fyrir framan barnið/börnin ykkar. Það skaðar þau.
Gerum okkur klár
14.8.2013 | 21:06
Í upphafi haustannar þarf að yfirfara forvarnarstefnu og framkvæmd hennar, verkferla og vinnubrögð við úrvinnslu eineltismála og viðbragðsáætlun.
Meira hér
Gerum okkur klár
grein í morgunblaðinu í dag
Á Hvolsvelli í Hvolsskóla mánudaginn 26. nóvember
24.11.2012 | 10:42
EKKI MEIR! Vinnum gegn einelti!
Fræðsluerindi um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála verður haldið 26. nóvember kl. 17.30 19.00 í sal Hvolsskóla. Fyrirlesari er Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur og höfundur EKKI MEIR.
EKKI MEIR er leiðarvísir í aðgerðum gegn einelti fyrir starfsfólk skóla, íþrótta- og æskulýðsfélög, foreldra og börn. Á erindunum er Aðgerðaáætlun Æskulýðsvettvangsins gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun dreift sem og eineltis plakati og nýútkomnum Siðareglum Æskulýðsvettvangsins.
Bókin EKKI MEIR er seld á staðnum á kostnaðarverði.
Léttar kaffiveitingar í boði og allir velkomnir.
Upplestur úr barnabókum
24.11.2012 | 10:17
Eymundsson er 140 ára og í tilefni af því mun ágóðinn af öllum seldum barnabókum renna til Barnaheilla. Eymundsson verður með viðburði í öllum verslunum sínum þar sem ýmsir þekktir einstaklingar munu lesa uppúr barnabókum.
Frú Vigdís Finnbogadóttir verndari samakanna mun leggja þeim lið með því að lesa upp úr barnabók í Eymundsson Austurstræti í dag, laugardag kl. 14.
Hér má sjá ræðu formanns Barnaheilla í heild sinni.
Verndari Barnaheilla, Frú Vigdís Finnbogadóttir, forsætisráðherra, ráðherra, biskup Íslands og aðrir góðir gestir.
Til hamingju með daginn!
Í dag, á afmælisdegi Barnasáttmálans mun Barnaheill veita sína árlegu viðurkenningu til að vekja athygli á sáttmálanum og mikilvægi þess að íslenskt samfélag standi vörð um mannréttindi barna í öllum birtingarmyndum. Viðurkenningin er veitt einstaklingum, samtökum eða stofnunum sem hafa unnið sérstaklega að málefnum barna og með starfi sínu bætt réttindi og stöðu þeirra sem og lagt grunn að andlegu og líkamlegu heilbrigði þeirra.
Saga mannréttinda barna og Barnasáttmálans er samofin sögu Save the Children samtakanna. Eglantyne Jebb stofnaði Save the Children árið 1919. Jebb lagði áherslu á að öll börn skyldu njóta sömu réttinda óháð stöðu þeirra eða foreldra þeirra. Árið 1923 gerðu Save the Children samtökin drög að sáttmála sem var yfirlýsing um réttindi barna, oftast nefnd Genfaryfirlýsingin. Yfirlýsingin var samþykkt af Þjóðarbandalaginu árið 1924.
Ný yfirlýsing um réttindi barna var gefin út árið 1959, en þá var Þjóðarbandalagið liðið undir lok og Sameinuðu þjóðirnar búnar að taka við keflinu. Nú skyldi festa réttindi barna í lög og börnum ekki mismunað vegna kynþáttar, tungumála eða annars. Börn áttu nú rétt á nafni, þjóðerni og að alast upp hjá foreldrum sínum ef mögulegt er og skuli þau njóta ókeypis grunnmenntunar.
Á 7. áratugnum var farið að leggja áherslu á mikilvægi þess að þjóðir setji upp áætlanir um réttindi og velferð barna. Það leiddi til þess að ákveðið var að árið 1979 yrði alþjóðlegt ár barnsins hjá Sameinuðu þjóðunum. Í kjölfarið fór vinna í gang við gerð Barnasáttmálans og var hann samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989.
Barnasáttmálinn er leiðarljós Barnaheilla- Save the Children á Íslandi. Sáttmálinn var undirritaður fyrir Íslands hönd árið 1990 og fullgiltur árið 1992. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, fyrir utan Bandaríkin og Sómalíu, hafa fullgilt sáttmálann og er hann því útbreiddasti mannréttindasamningur heims. Nú liggur fyrir Alþingi Íslendinga frumvarp til laga um lögfestingu samningsins og fagna Barnaheill því og þeirri réttarbót sem því fylgir fyrir börn á Íslandi.
Barnasáttmálinn er eini alþjóðlegi samningurinn sem sérstaklega á við um börn og felur hann í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu hópur sem hafi sjálfstæð réttindi, óháð forsjáraðilum, og að þau ber að vernda gegn hvers kyns hættum og ofbeldi. Samningurinn tryggir börnum borgaraleg réttindi, félagsleg, menningarleg og efnahagsleg réttindi.
Öllum þeim sem koma að málefnum barna með einum eða öðrum hætti ber að rækta persónuleika og andlega og líkamlega getu þeirra. Í skyldum okkar felst að kenna þeim að lifa ábyrgu lífi í anda skilnings, umburðarlyndis, jafnréttis og vináttu milli þjóða, þjóðernis- og trúarhópa. Veitum einnig athygli réttindum barna til hvíldar og tómstunda, til að leika sér og stunda skemmtanir sem hæfa aldri þeirra og til þátttöku í menningarlífi og listum. Samkvæmt 12. og 13. grein Barnasáttmálans eiga börn rétt á að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif. Þau eiga jafnframt rétt á að tjá sig, leita sér upplýsinga, fá upplýsingar og miðla þeim.
Eitt af grunngildum Barnasáttmálans er réttur barna til að njóta umhyggju og ástar forráðaaðila sinna og það er einmitt í þessum gildum sem sjálfsmynd barnsins á sér rætur.
Til að barnið eigi þess kost að þróa með sér sterka sjálfsmynd og geti upplifað sig verðugan einstakling þarf það að finna að það skiptir máli, sé elskað án tillits til hugsana, tilfinninga eða atferlis. Tilfinningin um verðleika og að líða vel í eigin skinni öðlast barnið einna helst í samskiptum við uppeldisaðila sína.
Sjálfsmynd einstaklingsins samanstendur af fjölmörgum þáttum sem spannar bæði fortíð, nútíð og væntingar til framtíðar. Sjálfsmyndin byggir á hugmyndum og skoðunum sem einstaklingurinn hefur um sjálfan sig, hvernig hann metur sjálfan sig, skilgreinir sig, ber sig saman við aðra, mátar sig og speglar í viðbrögðum annarra.
Einstaklingur sem kemur út í lífið með gott sjálfstraust, metnað og innri aga hefur lært að bera virðingu fyrir tilfinningum sínum og tilfinningum annarra. Hann hefur lært að bera virðingu fyrir líkama sínum og er því líklegri til að vilja sneyða hjá því sem getur ógnað eða skaðað andlega eða líkamlega heilsu hans. Hann hefur öðlast færni í að skynja, meta og lesa aðstæður og á t.a.m. auðveldara með að greina hvenær um hópþrýsting er að ræða. Einstaklingur með sterka sjálfsmynd er sjálfsöruggari í allri sinni framkomu. Líkurnar á því að hann muni eiga góð og uppbyggileg samskipti við samferðarfólk sitt eru miklar.
Þannig má segja með sanni að forvarnirnar felist fyrst og síðast í sjálfsöryggi og persónulegum metnaði sem einstaklingurinn nýtir til að ná settum markmiðum og árangri.
En það kemur þó ekki einungis í hlut umönnunaraðila að hjálpa barninu að byggja upp heilsteypta sjálfsmynd. Fjölmargir aðrir koma við sögu. Og það eru einmitt þessir aðrir sem Barnaheill vill með viðurkenningu sinni heiðra að þessu sinni.
Viðurkenningin í ár er veitt samtökum sem leggja áherslu á að styrkja og efla sjálfsmynd ungs fólks og vera sterkar fyrirmyndir hvert fyrir annað.
Viðurkenning Barnaheilla- Save the Children á Íslandi er að þessu sinni veitt Jafningjafræðslunni
Jafningjafræðslan er fræðslu- og forvarnarverkefni sem byggir á hugmyndafræðinni "ungur fræðir unga" þar sem forvarnir eru unnar af ungu fólki fyrir ungt fólk. Fræðsla Jafningjafræðslunnar er unnin á jafnréttisgrundvelli og eru allir íslenskir fræðarar á aldrinum 17-21 árs.
Það er ekkert nýtt að ungt fólk er móttækilegra fyrir boðskap frá þeim sem eru á svipuðu aldursbili og það sjálft. Ástæðan er sú að ungmenni samsama sig öðrum ungmennum, gefa orðum þeirra oft frekar gaum en orðum fullorðinna og eru óhrædd við að tjá sig í félagsskap jafnaldra. Þetta er það sem oft er kallað tvöföld virkni Jafningjafræðslunnar, samræðurnar annars vegar og virkni fyrirmynda hins vegar.
Jafningjafræðslan var stofnuð á Íslandi árið 1996 af menntaskólanemum og studd danskri fyrirmynd og hét þá Jafningjafræðsla framhaldsskólanema. Upphaflega var Jafningjafræðslan stofnuð til að sporna við og draga úr neyslu vímuefna. Núna er Jafningjafræðslan rekin af Hinu Húsinu í Reykjavík og hefur starfsemi hennar orðið æ fjölbreyttari með árunum. Boðið er upp á hnitmiðaða fræðslu um ólík mál, umræðuvettvangur skapaður í félagsmiðstöðvum og skólum og vímulausar skemmtanir og uppákomur skipulagðar. Í öllu starfi Jafningjafræðslunnar er lögð áhersla á að efla og styrkja sjálfsmynd ungs fólks, enda besta veganestið sem unglingar fá út í lífið þar sem hún eykur velgengni og vellíðan.
Störf jafningjafræðara eru eftirsótt hjá ungu fólki og tugir sækja um ár hvert. Allir fræðarar gangast undir strangt ráðningarferli og inntökupróf. Þeir jafningjafræðarar sem eru valdir í störfin eiga það sameiginlegt að hafa ríka samskiptahæfileika, eiga auðvelt með að ná til ungs fólks og eru sjálfir góðar fyrirmyndir í sínu persónulega lífi.
Góðu gestir
UNGUR FRÆÐIR UNGAN er sú hugmyndafræði sem Barnaheill vill með viðurkenningunni í ár leggja áherslu á. Barnaheill vill með vali sínu beina sjónum samfélagsins að hæfileikum, dugnaði og hugmyndaauðgi ungs fólks og hvernig það nýtir hæfileika sína til að fræða og hvetja annað ungt fólk til dáða.
Við fullorðnu fyrirmyndirnar, foreldrar, forráðamenn, ömmur, afar, frænkur og frændur getum lagt lóð á vogarskálina með því að auka meðvitund unga fólksins í fjölskyldum okkar og ekki síður okkar sjálfra. Spyrjum spurninga eins og:
Get ég huggað einhvern með návist minni?
Get ég veitt einhverjum skjól?
Get ég veitt einhverjum aðstoð eða stuðning?
Get ég hrósað, örvað og hvatt til dáða?
Get ég gert eitthvað sem gleður? Brosað til þeirra sem ég mæti eða talað fallega við þá sem ég umgengst?
Ég vil þakka Jafningafræðslunni fyrir óeigingjarnt og metnaðarfullt starf. Ég vil þakka frumkvöðlum hennar og stofnendum hér á Íslandi. Ég vil þakka þeim sem hafa beitt sér fyrir því að styrkja starfsemina og skapa þær góðu aðstæður sem hún býr nú við.
Megi Jafningjafræðslan vaxa, þróast og eflast enn frekar um ókomin ár, ungu fólki til hamingju og heilla.
En nú, kæru vinir, er komið að því að veita viðurkenningu Barnaheilla- Save the children á Íslandi 2012. Ég vil biðja framkvæmdastjóra Barnaheilla Ernu Reynisdóttur að koma hingað og fyrir hönd Jafningjafræðslunnar þau Brynhildi Karlsdóttur og Hersi Aron Ólafsson og veita þessu fallega glerverki viðtöku. Mig langar að geta þess að verðlaunagripinn gerði Sigrún Ólöf Einarsdóttir glerlistakona.
Kolbrún Baldursdóttir, formaður Barnaheilla- Save the children á Íslandi
![]() |
Jafningjafræðslan hlaut verðlaun Barnaheilla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
EKKI MEIR á Hólmavík 22. nóvember
19.11.2012 | 18:39
Næsti viðkomustaður með EKKI MEIR er á Hólmavík á fimmtudaginn 22. nóvember. Tvö fræðsluerindi verða haldin þar, sá fyrri í grunnskólanum en sá síðari er kl. 16.30 í Félagsheimili Hólmavíkur og er sá fundur öllum opinn.
Komið er einnig inn á forvarnir og einelti á vinnustað og sjónum beint að tengslum forvarnarvinnu við staðarbrag og menningu. Áhersla er lögð á að útskýra með hvaða hætti staðarbragur tengist líðan starfsfólks og hvernig sú líðan er líkleg til að hafa áhrif á tíðni eineltismála. Leiða má líkum að því að þar sem forvarnarvinna er virk séu eineltismál fátíðari. Nefnd eru nokkur atriði sem eru nauðsynleg á vinnustað til að tryggja að góður andi varðveitist og viðhaldist. Framkoma sem einkennist af kurteisi og virðingu á að vera hluti af lífstíl en ekki tímabundið átak sem hrint er af stað í kjölfar t.d. kvörtunar um einelti.
Á erindinu verður Aðgerðaáætlun Æskulýðsvettvangsins dreift sem og eineltis plakati og nýútkomnum siðareglum Æskulýðsvettvangsins. Bókin EKKI MEIR verður auk þess seld á kostnaðarverði.
EKKI MEIR
25.10.2012 | 08:46
Svo mörg sorgleg mál hafa ratað inn á borð til mín nú eftir að EKKI MEIR kom út.
Þess vegna vil ég segja þetta:
Þolandi eineltis má aldrei tapa voninni. Sárin gróa seint, örin jafnvel aldrei. En það eru til aðferðir til að styrkja sjálfsmyndina og milda höfnunartilfinninguna og vanmáttinn.
Næsti fræðslufundur er í dag á Egilsstöðum. Að venju dreifum við veggspjöldum Æskulýðsvettvangsins og gænýrri Aðgerðaráætlun þeirra.
Að Æskuýðsvettvanginum standa UMFÍ, Skátarnir, KFUM og KFUK og Landsbjörg. Sjá nánar dagsskrá fyrirlestra á kolbrunbaldurs.is
Fræðslufundirnir eru öllum opnir.
Þekkir þú svona yfirmann?
24.3.2012 | 12:53
Þekkir þú svona yfirmann?
Ekki er öllum gefið að vera góður stjórnandi eða yfirmaður. Því miður eru dæmi um það að fólk sem skortir flest það sem telst prýða góðan stjórnanda rati í yfirmannsstöður. Dæmi eru um vanhæfan og slakan stjórnanda á vinnustað þar sem hámenntað fólk af báðum kynjum starfar sem og á vinnustað
þar sem lítillar menntunar er krafist.
Þessa grein má sjá í heild sinni á pressunni
Sjá einnig meira um eineltismál á upplýsingavefnum Höldum saman gegn einelti og kynferðislegri áreitni
www.kolbrunbaldurs.is
Mikilvægt að dómari eigi þess kost að dæma sameiginlega forsjá
16.2.2012 | 10:04
Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um breytingu á barnalögum. Tekin hefur verið út heimild dómara til að dæma foreldrum sameiginlega forsjá.
Þetta er miður.
Það er mjög mikilvægt að dómari eigi þess kost að geta dæmt sameiginlega forsjá. Þetta hefur án efa verið rökstutt víða og mun ég ekki gera það hér. Ekkert mál af þessu tagi er eins og skiptir verulegu máli að auka valmöguleika dómara og meðdómara.
Á mínum ferli sem sálfræðingur hef ég nokkrum sinnum verið meðdómari í forsjárdeilumálum og minnist ég a.m.k. tveggja dómsmála sem bráðvantaði að geta gripið til þess að dæma sameiginlegt forræði.
Djók
4.11.2011 | 08:52
Ég er bara að djóka eða "grín" heyrist býsna oft, einkum meðal barna og unglinga en einnig stundum hjá fullorðnum. Þessi setning er gjarnan sögð í kjölfarið á einhverri athugasemd í þeim tilgangi að draga úr mögulega neikvæðum áhrifum sem athugasemdin gæti haft á viðkomandi aðila. Þegar á eftir fylgir ég er bara að djóka eða "ég er bara að grínast" er stundum eins og eitthvað neikvætt sé undirliggjandi. Það sem sagt er með djók, eða grínívafi er náttúrulega stundum fátt annað en smá skot, og getur virkað á hinn aðilan sem móðgandi eða særandi athugasemd(ir).
Hvatar að baki þess að segja ég er bara að djóka geta verið allt frá því að vera kaldhæðinn húmor, biturleiki, kvikindisskapur, hatursfullar hugsanir eða bara afbrýðisemi. Stundum er viðkomandi að reyna að vera fyndinn í augum félaganna og gerir það með þessum hætti, en þá á kostnað einhvers annars. Sá sem bætir við ég var bara að djóka vill nefnilega ekki fá neinn bakreikning, t.d. að verða ásakaður um að hafa viðhaft neikvæða eða særandi framkomu. Verði hann krafinn skýringa segir hann einfaldlega já en ég var bara að djóka. Skilaboðin eru ekki taka það sem ég var að segja OF alvarlega en ég meinti það kannki samt.
Sennilega er þetta ekki svo háalvarlegt nema ef ekki sætu oft eftir blendnar tilfinningar hjá hinum aðilanum. Hugsunin og tilfinningin um að kannski hafi verið heilmikil meining og alvara að baki orðunum sem sögð voru situr eftir og vangaveltur um hvort eigi að taka athugasemdinni sem gríni eða alvöru. Hver svo sem niðurstaðan verður í huga viðkomandi skilja tjáskipti af þessu tagi oft eftir sig slæma tilfinningu. Öllu gríni fylgir jú oft einhver alvara.
En auðvitað verður að vera hægt að gantast eða spauga og sannarlega er gott að temja sér að taka sig ekki of hátíðlega. En börn eru börn og þau hafa ekki alltaf þroska til að vinna úr því sem sagt er í "djóki" eða "gríni". Orð bera alltaf einhverja ábyrgð. Ef neikvæð, jafnvel þótt sett fram í gríni, eiga þau það til að lifa lengur en þægilegt er, gera usla og raska sálarró.
Foreldrar og kennarar sem heyra börn nota þetta mikið, ættu að benda þeim á að þau gætu verið að særa þann sem þau tala við og að djókinu sé ekki endilega tekið sem slíku. Hægt er að hvetja þau til hugsa hvað þau eru að segja og spyrja sig hvort þau myndu vilja láta "djóka" svona með sig. Hreinskiptin samskipti eru auðvitað það sem hlýtur að vera eftirsóknaverðast að tileinka sér ef horft er til almennra samskipta manna á milli. Hæfni til að greina á milli þess hvað hægt er að segja án þess að særa og hvað best er að láta kyrrt liggja kemur með þroska og er einnig liður í almennu grunnuppeldi.
Kennum börnum okkar að hafa aðgát í nærveru sálar að leiðarljósi. Börn og fullorðnir hafa gott af því að rifja upp tvennt í þessu sambandi:
Hugsa áður en talað er og prófa sem oftast að setja sig í spor annarra.
Í þínum sporum
Höldum saman gegn einelti og kynferðislegri áreitni
www.kolbrunbaldurs.is
Í NÆRVERU SÁLAR komnir á kolbrunbaldurs.is
25.10.2011 | 19:55
Nú er hægt að sjá þættina Í nærveru sálar sem sýndir voru á ÍNN á árunum 2009 og 2010 á vefnum www.kolbrunbaldurs.is
Höldum saman gegn einelti og kynferðislegri áreitni.
Um er að ræða valda þætti, sérstaklega þá sem tengjast eineltismálum, einelti og kynferðislegri áreitni á vinnustað; einelti meðal barna og unglinga og viðtal m.a. við Rögnu Árnadóttur og Þórhildi Líndal um einelti eins og það kemur fram í íslenskum lögum.
Einnig er þar að finna þátt sem margir hafa spurt um og ber titilinn Skyggnst inn í heim lesblindra en þar lýsir ung kona með ótrúlegum hætti hvernig lífið getur gengið fyrir sig þegar glímt er við slæmt tilfelli af lesblindu.
Svavar Knútur ræðir um tölvufíkn eða tölvueinsemd eins og það er stundum kallað og síðast en ekki síst er þáttur um hvernig má kenna börnum að varast þá sem hafa í hyggju að beita þau kynferðisáreiti eða ofbeldi. Þessi þáttur er hugsaður fyrir foreldra og fagfólki skóla.
Fleiri þættir koma inn á vefinn innan tíðar m.a. um:
PMT uppeldistækni
Hugræna atferlismeðferð
Dáleiðslu
Áhyggjur og kvíða hjá ungum börnum
Leiðrétting á kyni þar sem Anna Kristjánsdóttir ræðir um líf sitt og reynslu.