Höldum saman gegn einelti og kynferðislegri áreitni

holdum_saman_gegn_einelti.jpg  heimsíða,
Höldum saman gegn einelti og kynferðislegri áreitni
hefur verið opnuð.

Allir þeir sem hafa með mannaforráð að gera geta nálgast hagnýtar upplýsingar um t.d. helstu grunnatriði viðbragðsáætlunar ef upp koma eineltismál eða kvörtun um kynferðislegt áreiti á vinnustað, í skóla eða í íþrótta-, æskulýðs- og félagsmiðstöðvum.

Um er að ræða hráefni sem sérhver stofnun getur nýtt til að hanna og þróa sína eigin viðbragðsáætlun sem hentar viðkomandi stofnun.

Einnig er á síðunni forvarnarfræðsla, upplýsingar um algengar birtingamyndir eineltis og kynferðislegs áreitis sem gagnast getur stjórnendum, nemendum, foreldrum, starfsmönnum, kennurum, þolendum og gerendum eineltis.

Ástæða fyrir stofnun heimasíðunnar www.kolbrunbaldurs.is. er að það virðist vera mikill áhugi i samfélaginu að taka þessi mál fastari tökum. Þess vegna langar mig að miðla hagnýtri þekkingu sem ég hef aflað mér um þennan málaflokk s.l. 20 ár til þeirra sem geta nýtt hana með einhverjum hætti.

 Í þínum sporum

Í þínum sporum

Í skugga eineltis
Enn einn dagur að kveldi,
einmana sorgbitin sál.
Vonlaus, vesæl ligg undir feldi,
vafra um hugans sárustu mál.


Líði barni illa í skólanum þarf að finna hvað veldur

Að afnema skólaskyldu yrði brjálaði enda klárlega ekki á döfinni. Það væri  hugmynd sem er ekki hugsuð út frá hagsmunum barna.

Líði barni illa í skólanum þarf að taka það háalvarlega, skoða í grunninn hvað veldur og hætta ekki fyrr en búið er að bæta úr þannig að barnið geti hlakkað til að koma í skólann og geti notið þess að vera þar.


Skólinn er ekki bara mikilvægur vegna námsefnisins. Það er svo margt annað sem börnin eru að fá út úr skólasókn en að læra á bókina eins og við vitum.  Að taka þennan rétt frá þeim væri mannréttindabrot.

Skil þó alveg þann punkt sem Margrét Pála er að nefna með mótiveringu foreldranna og að þeir sjái þetta ekki vera kvöð fyrir barnið sitt sem e.t.v. líður illa í skólanum.

Öll börn eiga rétt á því að líða vel í skólanum sínum. Góð samvinna við foreldra er lykilatriði.


Algengt er að menn reisi hús og hótel á leigulóð

Kínverski auðkýfingurinn Huang Nubo vill  kaupa Grímsstaði á Fjöllum.

Íslendingar eiga ekkert endilega lóðirnar undir húsum sínum.

Af hverju þarf að þessi maður endilega að eignast alla jörðina til að hugsanlega fá að reisa þar hótel og golfvöll?

 Mörg hótel á landinu eru á leigulóðum.


Hvernig líður þér á vinnustaðnum þínum?

Vitundarvakning á vinnustöðum?

Það er upplifun mín að vinnuveitendur/yfirmenn vilji í æ ríkari mæli huga að uppbyggingu jákvæðs andrúmslofts á vinnustaðnum enda er það grunnforsenda fyrir vellíðan starfsfólks. Telja má víst að flestir atvinnurekendur vilji hlúa vel að starfsfólki sínu og leggi ríka áherslu á að samskiptamenning vinnustaðarins einkennist af gagnkvæmri virðingu, umburðarlyndi og hlýlegum samskiptum manna á milli.

Ef jákvæð og uppbyggileg samskipti eiga að vera fastur kjarni vinnustaðamenningar þá þarf að nota sem flest tækifæri þegar hópur samstarfsfólks kemur saman til að skerpa á samskiptareglum og minna á að sérhver starfsmaður er ábyrgur fyrir sjálfum sér. Að byggja upp og viðhalda jákvæðum vinnustaðarbrag er hægt að gera með ýmsu móti.

Mikilvægt er að yfirmenn séu sjálfir góðar fyrirmyndir og að stjórnunarstíll þeirra einkennist af heiðarleika, réttlæti, virðingu og alúð fyrir vinnustaðnum, verkefnunum og fólkinu. Jákvæðum starfsanda má viðhalda með því að:

1. Ræða reglulega við starfsfólk um kjarna  góðra samskipta.
2. Ræða  við starfsmenn í starfsmannaviðtölum um líðan þeirra og upplifun á vinnustaðnum.
3. Bjóða upp á fræðslustundir og námskeið.
4. Minna reglulega á hvaða hegðun og framkoma er ekki liðin á vinnustaðnum.

Vellíðan á vinnustað byggist einnig á því að starfsmenn viti að ef upp kemur vandamál eins og t.d. eineltismál eða kynferðisleg áreitni þá sé kvörtun eða ábending um það tekin alvarlega og að tekið verði á málinu af festu og einurð. Starfsmenn þurfa jafnframt að vita hverjir það eru á vinnustaðnum sem hafa það hlutverk að annast umsjón og vinnslu slíkra mála og hvernig úrvinnsluferlið er í grófum dráttum. Mikilvægt er að upplýsingar um þetta ásamt viðbragðsáætlun vinnustaðarins sé aðgengileg á heimasíðu. Sumir vinnustaðir hafa auk þess sérstök tilkynningareyðublöð sem einnig er hægt að nálgast á heimasíðu.

Ef eineltismál, kvörtun eða ábending er sett í viðhlítandi farveg og hugað strax að málinu er líklegra að það hljóti farsæla lausn. Sé máli af þessu tagi ekki sinnt fljótt er líklegt að það vindi upp á sig og verði erfiðara viðureignar þegar kemur að því síðar meir að reyna að leysa það.

Stundum þróast mál þannig að lausn fæst ekki þrátt fyrir faglega íhlutun vinnustaðarins. Þá eiga yfirmenn þess kost að leita til utanaðkomandi  þjónustuaðila. 

Hafi yfirmenn ekki hugað að viðbragðsferli á vinnustaðnum er tilhneigingin oft sú að bíða (gera ekki neitt) í þeirri von um að vandinn hverfi. Þegar þjónustuaðilar eru loksins kallaðir til er málið oft orðið afar umfangsmikið og flókið. Ekki þarf að fara mörgum orðum um skaðsemi og neikvæðar afleiðingar ef mál af þessu tagi hafa fengið að vinda upp á sig um óskilgreindan tíma.


Meðgöngustaðgengill?

Umræðan um hvort leyfa eigi staðgöngumæðrun á Íslandi hefur verið áberandi að undanförnu bæði á Alþingi og í  tengslum við mál Jóels  litla sem eflaust er flestum enn í fersku minni.

Hugtakið „staðgöngumæðrun“ er þó e.t.v. ekki heppilegasta hugtakið yfir þennan gjörning. Frekar ætti kannski að tala um meðgöngustaðgengil, þar sem um er að ræða meðgöngusamning við konu um að hún gangi með barn fyrir annað foreldri/foreldra.  Sú kona sem gengur með barnið er ekki og  verður ekki móðir barnsins eftir fæðingu þess. Hún bíður líkama sinn til að ganga með barn fyrir aðra konu sem ekki á þess kost af einhverjum orsökum. Samkomulagið felur í sér tímabundið verkefni sem lýkur við fæðingu barnsins. Þess er hvorki vænst né er það, eðli málsins samkvæmt, æskilegt að meðgöngustaðgengill myndi nokkur tilfinningatengsl við barnið hvorki á meðgöngu né við fæðingu. Hugtakið staðgöngumæðrun og þá sérstaklega orðið mæðrun á því ekki við.

Með því að benda á þetta skal athugað að ekki er verið að lýsa afstöðu til meðgöngusamninga í þessum tiltekna pistli. Hér er aðeins verið að velta vöngum yfir hvort það íslenska hugtak sem valið hefur verið til að nota í þessu sambandi sé heppilegt ef tekið er mið af eðli þess sem um ræðir.


Skyldi hann sleppa?

11030201_baldur_02_jpg_620x800_q95.jpgNú er réttað yfir Baldri Guðlaugssyni og enginn veit hvort hann fái nokkurn dóm á sig.

Mun hann halda peningnum eða verður þetta fé gert upptækt?

Fái hann dóm, fangelsisdóm, skilorðsbundinn eða óskilorðsbundinn en fær að halda þessum milljónum segir það til um hvernig það verður með fjölmarga aðra í svipaðri stöðu þ.e. þá sem fengu innherjaupplýsingar og seldu.


Loksins, gamla frumvarpið mitt til laga að verða að veruleika

Mitt fyrsta og sennilega síðasta frumvarp til laga er að verða að veruleika að því sem ég best get séð. Hækka á ökuleyfisaldur í 18 ára.

Á sínum tíma taldi ég mig færa ágæt rök fyrir mikilvægi þess að hækka lágmarksaldur ökuleyfis í 18 ár. Ég mælti fyrir þessu frumvarpi síðla dags í nærveru afar fárra þingmanna. Þáverandi samgönguráðherra var reyndar svo almennilegur að vera viðstaddur.

Það vildu ekki margir þingmenn koma nálægt þessu frumvarpi. Pétur Blöndal var strax tilbúinn að vera með og Þuríður Backman bættist í hópinn á síðustu stundu.

Nú er þetta að verða raunin. Ég ætla ekki að þreyta bloggheim með rökum þessu tengdu en á þau til að sjálfsögðu.


Bara geri það og steinheld kjafti á meðan

Hvað sem öllu líður er dónalegt að púa á fólk. Jón Gnarr á ekki persónulega sök á þeim vanda sem þjóðin glímir nú við eða borgarbúar ef því er að skipta. Ég fagna hagræðingu og betra skipulagi. Margt hefur lengi mátt betur fara.

Finnst bara í lagi að vinna meira fyrir minna á meðan við komum okkur út úr þessu. Bara geri það á meðan kraftar leyfa og steinheld kjafti á meðan.


Var eina skilnaðarbarnið í bekknum

Já tímarnir hafa breyst. Í grunnskóla eða barnaskóla eins og það hét minnist ég þess að hafa verið eina skilnaðarbarnið í bekknum. Gagnvart skilnaði foreldra var í þá daga takmarkaður skilningur.

Hvernig líður skilnaðarbörnum?

Sumum skilnaðarbörnum líður illa. Þeim finnst jafnvel skilnaður foreldra sinna stundum vera þeim að kenna. Þau upplifa jafnvel skömm.  Líðan getur stundum verið svo slæm að börn fráskildra foreldra reyna að láta lítið fyrir sér fara og vilja helst ekki að aðrir í skólanum viti um skilnaðinn.

Margt hefur breyst á 40 til 45 árum.  Án þess að hafa einhverjar rannsóknarniðurstöður til að styðjast við, þá vil ég engu að síður fullyrða að í sumum tilvikum er hægt að finna bekk þar sem jafnvel helmingur barnanna eiga foreldrar sem ekki búa saman.  

Samhliða þeirri staðreynd að skilnaðir hafa farið vaxandi hefur viðhorf til skilnaðar almennt séð breyst.   Núna eru þeir sem sinna börnum hvort heldur í skóla eða í tómstundum farin að skilja betur áhrif skilnaðar á börn og mögulegar afleiðinga hans á sálarlíf barnanna.

Alvarlegar og langvinnar afleiðingar eru helst í þeim tilvikum þar sem skilnaðurinn hefur haft langan og átakamikinn aðdraganda og þar sem börnin hafa jafnvel orðið á milli hatrammrar deilu foreldranna. Ekki bætir úr skák ef foreldrarnir halda áfram eftir skilnaðinn að deila og skammast út í hvort annað og nota börn sín til að ná sér niður á hvort öðru.
En það er efni í annan pistil.


Bókin Sumarlandið hefur haft áhrif..á mig

Er að lesa bókina Sumarlandið eftir Guðmund Kristinsson.

Neita því ekki að þessi bók hefur áhrif á mig, hugsanir og sýn á, .. þið vitið hvað.

Í miðju amstri þessa samfélags er lestur bóka oftar en ekki hin besta hvíld vegna þess að hægt er að gleyma sér, oft algerlega.

Þessi bók er einstök. Ég ákvað að lesa hana með opnum huga en veit ég sjálf ekki baun í bala um þessi mál. Vil bara hlusta og vega og meta hvað mátast best.


Fréttamenn fengu bikar að gjöf á Bessastöðum í tilefni árs skóganna

Á blaðamannafundi á Bessastöðum í tilefni árs skóganna fengu fréttamenn gefins bikar sem er hannaður og smíðaður af Jóni Guðmundssyni, plöntulífeðlisfræðingi.

Á stilknum hangir hringur sem ekki er hægt að ná af. Hugmyndin er sú að bikarinn hafi þá eiginleika að hann tæmist aldrei af góðum áformum, því þau væru bundin í hring um hann miðjan og haggast ekki.

p1150127.jpg

p1150132.jpg

Ár skóganna, hér má sjá athöfnina á Bessastöðum

Árið 2011 er alþjóðlegt ár skóga að frumkvæði allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Markmiðið er að auka vitund um sjálfbæra nýtingu, verndun og þróun í öllum gerðum skóglenda. Skógrækt ríkisins mun, í samvinnu við aðra hagsmunaðila í skógrækt, koma að ýmsum viðburðum á árinu í tengslum við ár skóga.


Hún kallar ekki allt ömmu sína stúlkan að tarna

Birgitta Jónsdóttir er í óvenjulegum aðstæðum

Um hana má með sanni segja að hún lætur ekki troða á sér, hún er fylgin sér, staðföst og hugrökk. Birgitta kom í viðtal Í nærveru sálar í fyrra og ræddi um samskipti á Alþingi þar á meðal fremur neikvæð samskipti sem hún hafði bæði orðið vitni að og reynt sjálf.  Þátturinn bar yfirskriftina Er einelti á Alþingi?
Það er vonandi að samskipti á Alþingi hafi frekar batnað síðan og að þingmenn komi vel fram við hvern annan eins og gera má kröfu um á öllum vinnustöðum.

naerverusalar_rammi_1052439.jpg 


Nú er lag að birta jákvæðar fréttir

Svo virðist sem sumir fjölmiðlamenn séu hálf vonsviknir yfir að ekki sprakk allt í háaloft hjá VG í dag á fundinum sem beðið hefur verið eftir.

Það hefði náttúrulega verið feitt fréttaefni. 

Hvort sem það eru VG, sjálfstæðismenn eða framsóknarmenn þá skýtur það skökku við ef í ljós kemur að verið sé að vonast eftir að neikvæðir og erfiðir hlutir gerist til þess að geta birt einhverjar hasarfréttir fyrir blóðþyrsta.

Eru einhverjir sem vonast til að allt fari á versta veg hjá til að geta komið með einhverjar krassandi fréttir?

Það kann að vera gúrkutíð hjá fjölmiðlum núna en þá er einmitt lag að birta og fjalla um jákvæða hluti, skemmtilegar sammannlegar vangaveltur og margt það sem gott fólk er að gera vel og það sem er að ganga vel t.d. í stjórnun landsins og í lífi einstaklinga og hópa.

 

 


Við Reykjavíkurtjörn

Hlustaði rétt í þessu á Egil Ólafsson syngja lagið Við Reykjavíkurtjörn, texta samdi Davíð Oddsson.

Frábær texti

Höfundur lags er Gunnar Þórðarson.

Alin upp í Melunum, þá yljar sannarlega að hlusta á þetta lag og texta.

Kallar á fullt af minningum þegar maður lék sér við tjörnina og því umhverfi öllu. Þá var Melavöllurinn til og gamli kirkjugarðurinn við Suðurgötu var einn stór ævintýraheimur.

 


Að standa í biðröð eftir matargjöf er úrelt fyrirkomulag.

Að standa í biðröð eftir matargjöf er úrelt fyrirkomulag. Matarkortarkerfi hlýtur að henta betur.
Reykjavík og höfuðborgarsvæðið hefur einhvern veginn misst af lestinni þegar kemur að hagkvæmni og þróun í þessum málum. Á þetta hafa margir bent. 

Þetta fyrirkomulag sem verið hefur á matargjöfum er úrelt. Landsbyggðin, sumstaðar alla vega, hefur breytt þessu yfir í matarkort. Er nokkuð vit í öðru? Slíkt fyrirkomulag getur varla verið flókið miða við margt annað.

Hjálparsamtök, Fjölskylduhjálp og Mæðrastyrksnefnd hljóta einnig að þurfa að vinna saman, sameinast enda tilgangur og markmið þeirra það sama.


Ágætt ávarp

Ávarp forseta rann ljúflega í gegn. Vel þegið að heyra hann hvetja til samstöðu og samhugar hvert með öðru. Öll höfum við sjálfsagt gott að því að vera minnt á að sýna umburðarlyndi og forðast að dæma og gagnrýna. Það skaðar alla vega ekki að byrja árið á hugsunum sem þessum þótt vissulega megi reikna með bakslagi.

Eitthvað íslenskt, á Skólavörðustíg 14

img_2499.jpgEf ykkur vantar óvenjulega og fallega íslenska hönnun til að gefa í jólagjöf þá kíkið í kjallarann á Skólavörðustíg 14.
Allt frá pennum og skartgripum úr íslenskum við yfir í stórar ávaxtaskálar og lampa úr margs konar viði.

Verðið er gott og svo er alltaf hægt að skipta vörunni hjá þeim sem hana framleiðir.

Skólavörðustígur 14, kjallari


Jólatiltektin hjá sumu fólki, að setja dýr í poka og fleygja?

Tiltekt einhvers fyrir þessi jól felur í sér að setja ketti í poka og fleygja þeim í rusl eða út á víðavang.

Hvað býr innra með manneskju sem gerir svona?

Illska og hatur?
Heimska?
Allt þetta þrennt og meira til?

Það er ekki oft sem manni hreinlega sortnar fyrir augun og gælir við hinar verstu hugsanir um hvað manni myndi langa til að gera við fólk sem þetta gerir. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fréttir berast af viðurstyggilegum aðferðum við að losa sig við dýr.

Þessu fólki er ekki hægt að senda hugheilar jólakveðjur. 

Þeirra hlýtur að bíða reikningsskil gjörða sinna annars staðar.


Takk sömuleiðis

Mikið hafði ég gaman að því að heyra um hjónin sem tóku jólakortin sem þau fengu, skrifuðu á þau „takk sömuleiðis“ og sendu til baka til þeirra sem sendu þau.

Þetta kalla ég hugmyndaríki og góð nýting á fjármunum.

Ég heyrði að Lára Ómarsdóttir hafi sagt frá þessu í fréttum.

Svona lagað fær mann sannarlega til að brosa í skammdeginu og aðdraganda jóla.

Snilld.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband