Hjálp til handa börnum sem sýna árásargirni
17.1.2018 | 07:09
Ekki er óalgengt að börn sýni á einhverjum tíma bernsku sinnar árásargirni í tengslum við skapofsaköst. Oftast er um að ræða stutt tímabil en í sumum tilfellum getur slík hegðun staðið yfir í lengri tíma. Birtingarmyndir árásargirni fara m.a. eftir aldri og þroska. Dæmi um birtingarmyndir árásargirni er að henda hlutum, brjóta eða sparka í hluti, t.d. húsgögn og hurðir, ráðast á foreldra/systkini, lemja, sparka eða bíta. Ef tilfelli eru sjaldgæf þá er frekar um tilfallandi atvik að ræða svo sem að barnið er úrvinda, stressað og illa upplagt. Sé þetta hegðun sem birtist ítrekað og jafnvel án lítils tilefnis eru orsakir líklegast flóknari.
Börn sem sýna ítrekaða árásargirni verða ekki endilega ofbeldisfullir einstaklingar á fullorðinsárum sérstaklega ef gripið er inn í með viðeigandi íhlutun eða breytingum og unnið markvisst að því að hjálpa barninu að slökkva á hegðuninni. Ef gefið er eftir kröfum barnsins og árásargirni þess leyfð að viðgangast eru það skilaboð um að svona hegðun líðist í mótlæti og andstreymi.
Orsakir og áhættuþættir
Orsakir árásargirni og ofbeldishegðunar geta verið af ýmsum toga. Þær geta verið líffræðilegar þegar árásargirni á rót sína að rekja til raskana af einhverju tagi svo sem fráviks í vitsmunaþroska, athyglisbrests með eða án ofvirkni (ADHD) eða annarra raskana. Orsakir geta einnig verið sálfræðilegar eða aðstæðubundnar/félagslegar. Algengt er að um sé að ræða samspil margra þátta. Áhættuþættir eru persónuleikaeinkenni eins og erfiðir skapsmunir, lágt mótlætaþol, þrjóska, slök tilfinningastjórnun, ótti, kvíði og óöryggi. Árásargirni getur verið ein af birtingarmyndum mótþróahegðunar barna. Sum börn ráða illa við að heyra „nei“ ef þau vilja fá eitthvað eða ef þeim eru sett mörk. Sum bregðast illa við ef þeim er ætlað að sinna einhverju sem þau vilja eða nenna ekki að sinna. Undanfari árásargirni er reiði í tengslum við hugsanir um að vera beittur órétti, tilfinning um að vera fórnarlamb og aðrar neikvæðar hugsanir og tilfinningar. Þegar reiðin nær vissu stigi getur barnið orðið stjórnlaust og þá jafnvel árásargjarnt.
Uppeldisaðferðir
Í þessum málum hafa foreldrar iðulega reynt ýmsar uppeldisaðferðir til að mæta skapofsa og árásargirni barns síns og eru þá skammir algengastar, stundum hótanir um réttindamissi eða aðrar afleiðingar. Ítrekaðar skammir tapa fljótt áhrifamætti og auka jafnvel stundum á reiði barnsins. Í öðrum tilfellum eru foreldrar óaðvitandi að styrkja reiði og árásargirni barns síns með því að gefa fljótt eftir kröfum þeirra. Þetta er algengara t.d. í þeim tilfellum sem foreldrar eru orðnir þreyttir eða ráðalausir. Sumir foreldrar eru meðvirkir með barni sínu og vorkenna þeim. Enn aðrir foreldrar kenna sjálfum sér um og finnst þeir ef til vill hafa brugðist sem foreldrar. Foreldrar með sektarkennd gagnvart börnum sínum hafa iðulega minna þrek og úthald til að standast kröfur þeirra. Stundum eru foreldrar einfaldlega hræddir við skapofsa barns síns og árásargirnina og treysta sér þar af leiðandi ekki til að taka á því. Foreldrar sem glíma sjálfir við veikindi treysta sér kannski verr til að neita barni sínu af ótta við ofsafengin viðbrögð þeirra. Svör eins og „nei/kannski eða sjáum til seinna“ verður „okey þá“ og með því er barnið í raun að fá umbun fyrir að sýna skapofsa og árásargirni. Umbunin að fá sínu framgengt í kjölfar neikvæðrar hegðunar eykur líkur á því að hegðunin endurtaki sig.
Umhverfisþættir
Áhættuþættir skapofsa og árásargirni finnast stundum í umhverfi barnsins t.d. ef aðstæður á heimilinu eru erfiðar. Dæmi um streituvalda í fjölskyldu eru langvinn veikindi eða átök og deilur á heimilinu. Grundvallarbreytingar í lífi barnsins eins og skilnaður foreldra, nýtt foreldri, systkini/stjúpsystkini eða flutningar geta valdið barninu streitu sem síðan brýst út í reiði og árásargirni. Að sama skapi getur orsökin legið í þáttum sem tengjast skólanum, náminu, vinahópnum, tómstundum eða íþróttum.
Aðrar orsakir
Leita má orsaka í fleiri þáttum svo sem hvort barnið sé að fá nægan svefn, hollt mataræði og hreyfingu við hæfi. Allt eru þetta þættir sem eru mikilvægir börnum til að vera í góðu andlegu jafnvægi.
Áhorf ofbeldisefnis hefur einnig verið talið til áhættuþátta árásargirni. Samkvæmt rannsóknum er slíkt þó aðeins um að ræða hjá litlum hópi barna og unglinga. Enn aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á að aðeins lítinn hluta af árásargirni er hægt að útskýra með áhorfi á ofbeldi einu og sér. Hvað sem rannsóknum líður er mest um vert að vera meðvitaður um magn og gæði þess efnis sem barnið er að horfa á og hvort reglur um skjátíma séu í samræmi við aldur og þroska barnsins.
Að slökkva á árásargirni
Hjálpa þarf börnum sem beita árásargirni í bræðiskasti að stöðva hegðunina enda líður þeim sjálfum illa með hana. Ræða þarf við barnið í samræmi við aldur og þroska um hegðunina og neikvæðar afleiðingar hennar og fræða þau um hvar mörkin liggja. Samhliða þarf að finna aðrar vænlegar leiðir fyrir þau til að fá útrás fyrir gremju og reiði og til að leysa ágreiningsmál. Fyrirmæli til ungra barna þurfa að vera skýr og einföld. Sum börn meðtaka fyrirmæli betur ef þau eru sett upp með sjónrænum hætti. Börnum gengur einnig iðulega betur að slökkva á neikvæðri hegðun sé umbunar-, réttinda- og styrktarkerfi notað samhliða. Markmiðið er að hjálpa barninu að ná betri tilfinningastjórnun, auka mótlætaþol og úthald. Um leið og þroski leyfir þá þarf að hjálpa barninu að finna til ábyrgðar á eigin hegðun og að skilja að ofbeldi er ekki leið til lausnar.
Aðstoð við börn sem sýna árásargirni er margvísleg m.a. í formi samtala, fræðslu, umbunakerfis, atferlismótandi aðferða og sjálfstyrkingu.
Í tilfellum þar sem barn sýnir mótþróa og árásargirni er vert að kanna hvort gera þurfi breytingar á uppeldisaðferðum eða menningu heimilisins. Til að kanna það nánar er gott að renna yfir helstu atriði:
- Eru foreldrar samstíga?
- Er ástúð og umhyggja?
- Er samvera?
- Er fræðsla og samtöl?
- Er jákvætt andrúmsloft á heimilinu, hlegið, grín og gaman?
- Er veitt umbun við hæfi, hrós og hvatning?
- Eru sett mörk, er festa, aðhald og viðeigandi reglur sem hæfir aldri og þroska barnsins?
- Er reglum fylgt eftir?
Önnur úrræði
Foreldrar geta á öllum tímum sótt sér handleiðslu hjá fagaðila eða sótt foreldrafærninámskeið. Ráðgjöf er hægt að fá hjá sálfræðingi Heilsugæslu (ókeypis þjónusta fyrir 0 til 18 ára með tilvísun frá lækni). Einnig eru ráðgjafar í skólum landsins. Upplýsingar um PMTO á landsvísu má fá á www.pmto.is. Upplýsingar um þjónustu sveitarfélaga fæst hjá skóla- eða félagsþjónustu sveitarfélaganna.
Vinna fagaðila felst í að ræða við foreldra og barnið og leita orsaka/áhættuþátta í umhverfinu til að hægt sé að vinna með þá, laga og breyta því sem breyta þarf. Séu vísbendingar um að rekja megi orsök árásargirni til röskunar eða frávika af einhverju tagi þarf að fá það staðfest með viðeigandi sálfræðilegum greiningartækjum.
Viðbrögð við áreitni á vinnustað
5.1.2018 | 11:57
Allir vinnustaðir ættu að hafa viðbragðsáætlun til að fylgja ef kvartað er yfir óæskilegri hegðun á vinnustaðnum. Óæskileg hegðun getur birst með ýmsum hætti svo sem í formi kynferðislegrar áreitni. Áreitni er hegðun og framkoma sem er í óþökk tiltekins einstaklings og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi.
Önnur birtingarmynd er einelti. Um er að ræða endurtekna neikvæða hegðun og framkomu sem veldur vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður. Dæmi um birtingarmyndir eineltis er að hunsa, niðurlægja, gera grín að eða lítillækka, móðga, særa eða ógna og hóta manneskju. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Starfsmönnum þarf að vera ljóst með hvaða hætti hægt er að tilkynna atvik eða hegðun eins og þeirri sem hér er lýst, hvert skal beina tilkynningunni og hvernig úrvinnsluferlinu er háttað.
Tilkynningaeyðublað og verkferli
Tilkynningaeyðublað er aðgengilegt öllum ef það er á heimasíðu stofnunar eða fyrirtækis. Á mörgum vinnustöðum er ákveðinn hópur eða teymi sem fengið hefur það hlutverk að taka við og vinna úr kvörtunum af þessu tagi. Teymið hefur jafnvel fengið sérstaka fræðslu um hvernig verklagi skal háttað.
Í minni fyrirtækjum eða þar sem tengsl starfsmanna eru mikil t.d. vegna ættar- eða vinatengsla getur verið nauðsynlegt að fá utanaðkomandi sérfræðiaðstoð til að vinna í málinu.
Teymið hefur einnig ráðgefandi hlutverk. Starfsmaður ætti að geta leitað til teymisins, ráðfært sig við aðila þess eða fengið leiðbeiningar ef hann er t.d. óöruggur með hvað hann skal gera telji hann að brotið sé á sér á vinnustaðnum.
Dæmi um verkferli:
- Teymið ræðir við tilkynnandann til að fá ítarlegri upplýsingar
- Teymið ræðir við aðra sem kunna að hafa upplýsingar eða vitneskju um málið
- Teymið gerir aðgerðaráætlun og leggur undir þann sem tilkynnir. Hann nýtur jafnframt viðeigandi og nauðsynlegrar leiðbeiningar frá eineltisteyminu. Dæmi um atriði sem ákveðin eru í samráði við þann sem tilkynnir:
a) Hvernig upplýsingaöflun skuli háttað
b) Vinnsluhraði málsins
c) Hvenær talað er við meintan geranda.
Telji sá sem tilkynnir að honum sé ógnað á vinnustaðnum, sé t.d. ekki vært eftir að hafa kvartað, er skoðað með hvaða hætti hægt er að tryggja öryggi hans/líðan á meðan málið er kannað nánar t.d.:
a) Með tilfærslu eða breytingum á staðsetningu aðila á vinnustaðnum
b) Bjóða tilkynnanda upp á sveigjanleika í starfi telji hann það nauðsynlegt eða tímabundið leyfi frá störfum
- Meintur gerandi er boðaður í viðtal og upplýstur um efni kvörtunarinnar og honum gefinn kostur á að bregðast við
- Þegar rætt hefur verið við alla hlutaðeigandi aðila leggur teymið mat á heildarmynd málsins og upplýsir aðila um niðurstöður sínar með munnlegum og skriflegum hætti.
Sé það mat teymisins að kvörtun eigi við rök að styðjast þurfa stjórnendur að ákveða hvaða afleiðingar skulu vera fyrir geranda og hvernig hlúa skal að þolandanum. Í alvarlegustu málum af þessu tagi gæti atvinnurekandi, ef um opinbera stofnun er að ræða, ákveðið að grípa til aðgerða sambærilegar þeim sem sem kveðið er á um í Lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (1996 nr. 70). Sé grunur um lögbrot er tilkynnandi jafnframt hvattur til snúa sér með málið til lögreglu.
Sé það mat teymisins að kvörtun eigi ekki við rök að styðjast þarf engu að síður að vinna í málinu sem dæmi skoða aðstæður eða atburðarás sem leiddi til þess að starfsmaður taldi sig knúinn til að kvarta yfir öðrum starfsmanni. Vinna að því að koma samskiptum aftur í viðunandi horf og að öllum geti liðið vel á vinnustaðnum.
Nánar um úrvinnsluferlið:
Aðgerðir/íhlutun taka mið af fjölmörgum þáttum þ.m.t.:
a) Alvarleika kvörtunarinnar
b) Hvort um sé að ræða nýtt mál eða endurtekna hegðun
Upplýsingar/gögn sem verða til í einstöku máli og varða aðila þess skulu vera aðgengileg aðilum málsins.
Forvarnir á vinnustað
Á öllum tímum, óháð því hvort kvörtunarmál sé í vinnslu ætti fyrirtæki/stofnun að stuðla að markvissum forvörnum gegn óæskilegri hegðun á vinnustað eins og kveðið er á um í reglugerð nr.1000/2004. Samhliða úrvinnslu er auk þess skoðað hvernig:
a) Forvörnum er háttað og hvort ganga þurfi röskar fram í forvarnarvinnu
b) Samskiptum stjórnenda og starfsmanna er háttað
c) Hægt sé að betrumbæta staðarbrag enn frekar enda er jákvæður staðarbragur helsta forvörn gegn kynferðislegri áreitni og einelti.
Málalok og eftirfylgni
Máli lýkur þegar sá sem tilkynnir lætur vita að sú hegðun sem kvartað er yfir sé hætt.
Mál er tekið upp að nýju ef þörf þykir. Fylgst verður áfram með málsaðilum. Einnig er liður í eftirfylgni að veita málsaðilum, stundum vinnustaðnum í heild sinni, viðeigandi stuðning eða aðra aðstoð sem á við hverju sinni. Viðbragðsáætlun er endurskoðuð reglulega og í samræmi við reynslu af vinnslu mála sem tilkynnt er um á vinnustaðnum.
Hvað get ÉG gert?
23.12.2017 | 09:30
Aðdragandi jóla er gleðitími fyrir marga, börn jafnt sem fullorðna. Jólin eru hátíð barna og kæti þeirra og tilhlökkun er sennilega einn af hápunktum tilveru þeirra. Í samfélagi okkar finnst mörgum það vera sjálfsagt að börn séu áhyggjulaus, geti notið bernskunnar og hlakkað til ýmissa viðburða í lífinu. Allt um kring eru allsnægtir og úrvalið hefur aldrei verið meira hvort heldur af mat, fatnaði, leikföngum eða öðru afþreyingarefni. Það skýtur því skökku við að vita að hér búa börn sem hafa það slæmt og líður illa þrátt fyrir allt tal um rífandi góðæri. Margir þeirra sem komu illa út úr hruninu eru enn að berjast í bökkum. Húsnæðisvandi og hátt leiguverð eru meðal þátta sem standa fyrir þrifum. Staðfest er að það hafa ekki allar fjölskyldur húsaskjól. Sumar fá að halla höfði hjá vinum eða ættingjum í skamman tíma í einu eða búa í húsnæði sem ekki er mönnum bjóðandi.
Fátækt er í öðrum tilfellum fylgifiskur eða afleiðing annarra vandamála t.d. veikinda, þar með talið geðrænna veikinda eða fíknivanda. Börn foreldra sem glíma við langvinn veikindi, líkamleg eða geðræn, sitja oft ekki við sama borð og börn heilbrigðra foreldra. Sama má segja um börn þeirra sem búa á heimilum þar sem áfengis- eða fíknivandi er til staðar þótt slíkur vandi spyrji ekki um félagslega stöðu eða efnahagslega afkomu. Annar hópur barna sem líða þjáningar eru börn sem búa á ofbeldisheimilum. Heimilisofbeldi finnst í öllum tegundum fjölskyldna, óháð efnahag og félagslegri stöðu.
Börnin á þessum heimilum sem hér hefur verið lýst hlakka oft ekkert til jólanna né annarra hátíða nema síður sé. Sum segjast hata jólin. Kvíði og áhyggjur varna því að þau finni fyrir tilhlökkun. Áhyggjur barna í þessum aðstæðum snúast oft um hvernig ástandið verði á heimilinu á aðfangadagskvöld þegar jólin ganga í garð. „Verður mamma komin í glas fyrir mat? Náum við að opna pakkana áður en pabbi sofnar? Verður rifist og slegist eins og í fyrra? Hvert get ég flúið þegar lætin byrja? Kemur eitthvert lið heim?“
Þau sem eiga yngri systkini eru jafnvel komin með plan B og jafnvel C. Þessi börn hafa lært af reynslu sem hefur rænt þau barnæskunni og eru að axla ábyrgð eins og þau væru fullorðin. Þau reyna að halda væntingum í lágmarki, þá verða vonbrigðin minni. Ef þetta sleppur til um þessi jól þá er það bara bónus. Mörg eru búin að þrauthugsa hvort og þá hvað þau geti gert til að draga úr líkunum á að foreldrar þeirra skemmi jólin. „Ó, hvað það væri nú gaman ef við gætum borðað saman jólamatinn, opnað pakkana, hlegið og grínast og farið svo áhyggjulaus að sofa. Kannski verður það þannig um þessi jól?“
Verndandi þættir
Meðal verndandi þátta er að láta okkur þessi börn varða, vera meðvituð um þau og aðstæður þeirra og vera tilbúin að grípa inn í. Verndandi þáttur gegn fátækt er samfélagið og samstaða ættingja eða nágranna. Tilfinningatengsl við einhverja utan heimilis getur skipt sköpum, verið akkeri og haldreipi, styrkur og stuðningur. Okkur ber að vera meðvituð um líðan og aðbúnað ekki eingöngu okkar barna heldur allra barna sem verða á vegi okkar: barna vina okkar, vina og bekkjarfélaga barna okkar, barna samstarsfélaga eða barna nágranna. Ef við höfum áhyggjur af einhverju þessara barna þá þarf að spyrja: „Hvað get ég gert í stöðunni sem gagnast þessu barni?“
Ábyrgð, meðvitund og stundum þor er það sem þarf til að stíga inn í aðstæður eða atburðarás ef óttast er að hagsmunum barns sé ábótavant eða þær séu ekki boðlegar því. Stundum er nauðsynlegt að tilkynna mál til Barnaverndar eða hringja á lögreglu í tilfellum þar sem grunur leikur á um að heimilisofbeldi og/eða stjórnlaus neysla sé í gangi. Ef við verðum þess áskynja að barn býr við óviðunandi aðstæður er aðeins eitt sem ekki má gera og það er AÐ GERA EKKI NEITT.
Kaupa greiningu og losna við biðlista
13.12.2017 | 15:47
Slík staða ýti undir ójöfnuð. Efnaminni foreldrar verði að taka lán eða bíða. Greining sé algert lykilatriði til að fá viðeigandi þjónustu og aðstoð. Kolbrún segir afar mikilvægt að greining barna gangi hratt fyrir sig því annars sé hætta á að vandamál stækki og hlaði utan á sig.
Foreldrar hvattir til að kaupa greiningar á stofu út í bæ fyrir börn sín vegna biðlista hjá sálfræðingum skóla
13.12.2017 | 08:37
Vanlíðan barns sem tengist námi og námsgetu er merki um að eitthvað sé að. Það má ekki dragast lengi að greina vandann og veita viðeigandi úrræði ef barnið á ekki missa trú á sjálfu sér. Biðlisti í greiningu hjá Sálfræðiþjónustu skóla er langur. Foreldrum er bent á einkareknar stofur. Ekki allir foreldrar hafa ráð á að kaupa slíka þjónustu sem kostar aldrei minna en 100 þúsund
Hvar mun ég eiga heima um næstu jól?
27.10.2017 | 14:23
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Alþingi 2013. Ríkisstjórnir síðastliðin 10 ár hafa enn sem komið er einungis tekið tillit til hluta af ákvæðum hans. Þegar kemur að því hvernig búið er að börnum í íslensku samfélagi er margt ábótavant.
Hópur barna þvælist um á vergangi með foreldrum sínum vegna húsnæðisskorts og hárrar húsaleigu. Börn eru næm á tilfinningalegt ástand foreldra sinna og skynja vel óöryggi þeirra og kvíða. Viðvarandi óstöðugleiki og óvissa sem fátækar fjölskyldur glíma við kemur illa niður á börnunum. Ekki allar fjölskyldur vita svo dæmi sé tekið hvar þær munu eiga höfði sínu að að halla um næstu jól.
Flokkur fólksins mun leggja allt í sölurnar til að koma með lausnir til skemmri og lengri tíma í húsnæðismálum verði hann kjörinn á Alþingi. Skaðsemi þess að alast upp við aðstæður sem þessar eru iðulega miklar og djúpstæðar og kemur hvað verst niður á börnunum. Áhrif þess að búa við langvarandi óöryggi grefur undan trú og trausti barns á umhverfi sínu.
Það bíður þeirra flokka sem fá brautargengi í alþingiskosningum á laugardaginn og komandi ríkisstjórn ærið verkefni í þessum málum. Margir sem setið hafa á valdastóli hafa ítrekað lofað að ástandið muni batna en raunin er að það hefur versnað.
Flokkur fólksins óskar þess að fá tækifæri til að sýna að hann vill, getur og skal ganga í þessu mál af krafti fái hann tækifæri til.
Höfundur er sálfræðingur og skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Gerum grein fyrir okkar hagsmunatengslum, ef einhver eru, fyrir kosningar
27.10.2017 | 08:49
Ég var að hlusta á viðtal við Vilhjálm Árnason í morgun sem sagði að það væri bagalegt að frambjóðendur gerðu ekki grein fyrir hagsmunatengslum sínum fyrir kosningar. Þess er ekki krafist fyrr en komið er á þing. Því langar mig að setja hér fordæmi til að styðja þessi orð Vilhjálms og staðfesti hér með að hvorki ég né eiginmaðurinn eigum hluti né sitjum í stjórnum fjármálafyfirtækja. Við skuldum ekki skatta né önnur opinber gjöld og loks er gott að það komi fram að við erum ekki kröfuhafar á neina banka:)
Heimilið mitt er tjald
26.10.2017 | 19:31
Hvað skal segja? Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að lækka skatta á sama tíma og þau segja að engar frekari skerðingar verði. Engin umræða á þeim bæ um fólkið sem talað var við í fréttum sjónvarps kl. 19, fólkið sem býr í tjaldi og húsbíl vegna þess að það ræður ekki við að borga leigu á húsnæðismarkaði. Hvað hefur Miðflokkurinn sagst ætla að gera fyrir þetta fólk? Þau höfðu tækifæri í þrjú ár til að leysa þennan stóra vanda.
Mannréttindabrot gegn börnum fátækra
26.10.2017 | 14:26
Samkvæmt opinberum tölum er talið að foreldrar um níu þúsund barna séu undir lágtekjumörkum sem er með öllu óásættanlegt.
Þegar kemur að sjálfsögðum mannréttindum eins og skólagöngu verður að tryggja að börn sitji við sama borð án tillits til efnahagsstöðu foreldra þeirra. Krafa Flokks fólksins er að grunnskólar landsins verði gjaldfrjálsir með öllu og að börnum verði tryggður gjaldfrjáls og hollur matur í grunnskólum og leikskólum.
Heilbrigðiskerfið svelt
26.10.2017 | 08:31
Niðurskurður undanfarinna ára í heilbrigðisþjónustu hefur lengt biðina eftir heilbrigðisþjónustu. Þetta hefur valdið auknu álagi á heilbrigðisstofnanir og starfsfólk stofnana.
Stefna Flokks fólksins í heilbrigðismálum er að veita þá grunnþjónustu sem mörkuð er í lögum um heilbrigðisstofnanir og að margra mánaða biðlistar í aðgerðir eða greiningar heyri sögunni til. Undanfarin ár hafa verið allt að tveggja ára biðlistar í aðgerðir, á Barna- og unglingageðdeild og Þroska-og hegðunarmiðstöð.
Íslenska heilbrigðisstéttin býr yfir dýrmætum mannauði. Hluti sérfræðinga er reyndar löngu farinn af landi brott vegna versnandi starfskjara og vinnuumhverfis og fundið sér eftirsóknarverðari tækifæri á erlendri grundu þar sem störf þeirra eru betur metin að verðleikum. Það er á ábyrgð stjórnvalda að gera starfsumhverfið í íslenska heilbrigðiskerfinu aðlaðandi og eftirsóknarvert. Í dag vantar nokkur hundruð hjúkrunarfræðinga til starfa. Þar er ekki einungis launamálum og lélegu starfsumhverfi um að kenna. Undirmönnun og álag á heilbrigðisstarfsfólk er líka ástæðan. Flokkur fólksins krefst tafarlausra úrbóta í heilbrigðismálum.
Í síðustu fjárlögum var niðurskurðarhnífnum enn beitt af krafti á heilbrigðiskerfið. Í auknum mæli er verið að leggja grunn að einkareknum fyrirtækjum sem sinna grunnheilbrigðisþjónustu og sérhæfðum lækningum.
Einkavæðing er dýr lausn. Almenningur greiðir komugjald en ríkið borgar afganginn. Einkaaðilar eru milliliðir sem fá arð úr fyrirtækjum sínum. Hægt er að bera saman annars vegar bandaríska kerfið og hins vegar danska kerfið og er hið bandaríska kerfið tvöfalt dýrara.
Flokkur fólksins vill styrkja þessa meginstoð sem almenna heilbrigðiskerfið er. Veita þarf meira fjármagni beint og milliliðalaust í opinberar heilbrigðisstofnanir, heilsugæsluna og á Landspítalann. Þegar fjárframlög aukast er hægt að endurskipuleggja þjónustuna með það að leiðarljósi að fjölga heilbrigðisstarfsmönnum, létta álagið á starfsfólk og bæta starfsumhverfið. Í kjölfarið má ætla að grynnki á biðlistum. Biðlistar til tveggja ára eru með öllu óviðunandi og skýrt merki um langvarandi fjársvelti í þennan málaflokk.
Kolbrún Baldursdóttir er sálfræðingur og skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður.
Heilbrigðisstarfsfólki ætlað að hlaupa hraðar, gera meira
25.10.2017 | 18:32
Flokkur fólksins vill styrkja þessa meginstoð sem almenna heilbrigðiskerfið er. Veita þarf meira fjármagni beint og milliliðalaust í opinberar heilbrigðisstofnanir, heilsugæsluna og á Landspítalann. Þegar fjárframlög aukast er hægt að endurskipuleggja þjónustuna með það að leiðarljósi að fjölga heilbrigðisstarfsmönnum, létta álagið á starfsfólk og bæta starfsumhverfið. Í kjölfarið má ætla að grynnki á biðlistum. Biðlistar til tveggja ára eru með öllu óviðunandi og skýrt merki um langvarandi fjársvelti í þennan málaflokk.
Sjá greinina Heilbrigðiskerfið svelt í heild sinni hér
Höfundur er sálfræðingur og skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður.
Flokkur fólksins segir NEI við áfengissölu í matvöruverslunum og lögleiðingu kannabisefna
23.10.2017 | 20:15
Flokkur fólksins hefur skýra stefnu þegar kemur að vernd barna og ungmenna. Hann virðir þá vernd sem stjórnarskráin og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna veitir. Í 3. grein Barnasáttmálans segir að „Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda sem varða börn skulu byggðar á því sem börnum er fyrir bestu“. Áfengissala í matvöruverslunum eða lögleiðing kannabisefna er börnum ekki fyrir bestu. Við þessu segir Flokkur fólksins NEI.
Tveir frambjóðendur, báðir sálfræðingar, annar frá Flokki fólksins og hinn frá Framsókn ræða stefnur flokkanna í heilbrigðis- og skólamálum og margt fleira sem varðar velferð barna í íslensku samfélagi. Hér er slóðin:
Fátæk börn á Íslandi
21.10.2017 | 18:54
1. „Ég er leiður því ég get sjaldnast fengið það sama og vinir mínir. Ekki til peningur segir mamma þegar ég spyr hvenær ég fæ nýjasta tölvuleikinn. Kannski í afmælis eða jólagjöf segir pabbi stundum þegar ég spyr hann. Það þýðir lítil að tala um þetta. Verst þykir mér að geta ekki boðið vinum mínum heim. Ég vil ekki að þau sjái að ég á ekki herbergi og hvað er þröngt hjá okkur. Svo ef einhver vinur minn kæmi og yrði svangur þá er oft ekki mikið til í ísskápnum handa honum. En verst er að mamma og pabbi hafa ekki efni á að leyfa mér að fara á íshokkínámskeiðið eins og besti vinur minn fær“.
2. „Við mamma búum í einu litlu herbergi. Mamma og pabbi misstu allt í Hruninu. Við áttum fyrirtæki. Ég veit ekki hvenær við fáum íbúð. Ég hlakka mest til að fá íbúð þar sem ég get farið í sturtu. Við höfum ekkert svoleiðis núna. Ég fer í sturtu í sundi þegar ég þarf að fara í bað. Ég veit það þýðir ekki að kvarta. Það er bara engin peningur til. Ef ég eignaðist pening myndi ég kaupa mér föndurdót. Mér finnst allt í lagi að vera í gömlum fötum úr Rauða Kross búðunum á meðan mér er ekki strítt.“
Flokkur fólksins vill útrýma fátækt á Íslandi og krefst þess að ekkert íslenskt barn búi við fátækt. Velmegandi þjóð eins og Ísland þar sem lífskjör og hagsæld eru almennt góð á ekki að líða fátækt.
Greinina má sjá í heild sinni á visir.is.
Fátæk börn á Íslandi
Börn eiga ekki að þurfa að bíða eftir þjónustu í allt að tvö ár
17.10.2017 | 11:42
Flokkur fólksins setur skólastarf í öndvegi og leggur áherslu á sjálfsstyrkingu, mannleg samskipti, virðingu og kærleika. Mæta þarf barninu á einstaklingsgrundvelli svo hægt sé að mæta þörfum þess og gefa því kost á að njóta getu og færni sinnar.
Komi í ljós að barn glími við vanda af einhverju tagi skiptir snemmtæk íhlutun mestu máli til að barn fái viðeigandi þjónustu. Eins og staðan er í dag þarf barn sem glímir við námserfiðleika, félags- eða tilfinningarvanda að bíða í allt að tvö ár eftir að fá frumgreiningu á sínum vanda á vegum sveitarfélaga. Slík greining er forsenda þess að barn fái framhaldsgreiningu hjá Barna- og unglingadeild og Þroska- og hegðunarmiðstöð sem einnig er með margra mánaða biðlista. Biðlistar til talmeinafræðinga eru jafnlangir.
Flokkur fólksins vill ná niður biðlistum og eyða þeim hið fyrsta. Börn eiga ekki að þurfa að bíða eftir þjónustu sem þessari mánuðum saman. Forsenda þess að hægt sé að velja viðeigandi úrræði og finna leið til lausna á vanda eða vanlíðan barns er að fagleg greining liggi fyrir. Á meðan barnið bíður er hætta á að sjálfsmat þess beri hnekki og það fyllist óöryggi með sjálft sig. Aðgengi að þjónustu fagaðila til handa börnum, greiningum og meðferðum í þeim tilfellum sem það er metið nauðsynlegt þarf að verða betra og jafnara á landsvísu.
Hvar á að taka peningana?
15.10.2017 | 12:11
Þetta er spurning sem allir stjórnmálaflokkarnir fá um þessar mundir þegar loforðin streyma fram um hvernig þeir ætla að bæta samfélagið.
Flokkur fólksins vill að lífeyrissjóðakerfið verði endurskoðað, meðal annars að staðgreiðsla skatta sé greidd við inngreiðslu í sjóðina en ekki við útgreiðslu úr þeim eins og hún er núna. Þetta mun auka tekjur ríkissjóðs um tugi milljarða króna á ári sem hægt væri að setja t.a.m. í heilbrigðiskerfið, gjaldfrjálsa grunnheilbrigðisþjónustu og til að uppræta biðlista.
Gjaldfrjáls grunnheilbrigðisþjónusta og jöfn tækifæri til sálfræðiaðstoðar
15.10.2017 | 11:08
Hér er niðurlag greinar Sálfræðiþjónusta forvörn gegn sjálsvígum sem sjá má í heild sinni á visi.is
Flokkur fólksins vill að grunnheilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls. Vinna þarf í því að efla sálfræðiþjónustu í landinu annars vegar með því að þjónustan verði niðurgreidd eins og í nágrannalöndum okkar og hins vegar að heilsugæslustöðvar verði fullmannaðar sálfræðingum til að sinna öllum aldurshópum. Með þessum hætti geta allir haft jafnan aðgang að sálfræðiþjónustu og sömu tækifæri til að leita sálfræðiaðstoðar án tillits til efnahags eða fjárhagslegrar afkomu.
Einstaklingar eldri en 18 ára sem glíma við þunglyndi og kvíða með tilheyrandi fylgifiskum hafa oft ekki efni á sálfræðiaðstoð. Fólk getur að sjálfsögðu leitað til geðlækna og er sú þjónusta niðurgreidd af ríkinu. Bið eftir tíma hjá geðlækni er í sumum tilfellum býsna löng. Fólk hefur vissulega aðgang að bráðamóttöku í neyðartilfellum.
Einstaklingnum ber að hafa frelsi til að velja sér þá þjónustu sem hann telur að best mæti sínum sérþörfum hverju sinni. Þetta val þarf að geta verið óháð efnahag og fjárhagslegri afkomu. Væri sálfræðiþjónusta niðurgreidd eins og geðlæknaþjónusta gæti einstaklingurinn valið hvort hann vilji leysa úr sálrænum vanda sínum og ná bættari líðan með því að sækja meðferð hjá sálfræðingi eða fara í viðtal hjá geðlækni og jafnvel fá ávísuð geðlyf í sama tilgangi. Í mörgum tilfellum, sérstaklega þeim erfiðustu, þarf fólk þjónustu beggja fagaðila.
Eins og málin standa í dag hafa ekki allir jöfn tækifæri til að nýta sér sálfræðiþjónustu. Í raun má segja að sálfræðiþjónusta standi einungis þeim efnameiri til boða. Það þykir mörgum óskiljanlegt af hverju Íslendingum hefur ekki tekist að fylgja nágrannalöndum sínum í þessu efnum. Sálfræðiþjónusta er hluti af grunnheilbrigðisþjónustu í löndum sem við viljum bera okkur saman við.
Það er löngu tímabært að sálfræðiþjónusta verði hluti af þeirri grunnheilbrigðisþjónustu sem almannatryggingakerfið tekur þátt í að greiða niður. Forvarnarúrræðin á borð við sálfræðiaðstoð þurfa að vera aðgengileg öllum án tillits til efnahags.
Síðastliðinn áratug hafa sálfræðingar ítrekað reynt að fá ráðamenn til að sjá mikilvægi þess að niðurgreiða sálfræðiþjónustu m.a. með því að sýna fram á þann sparnað sem slíkur samningur myndi skapa í heilbrigðiskerfinu. Líklegt er að með tilkomu niðurgreiðslna á sálfræðiþjónustu geti dregið úr geðlyfjakostnaði. Væri slíkur þjónustusamningur til getur sálfræðiþjónusta sem slík flokkast sem raunhæf forvörn gegn sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum sem og öðrum erfiðleikum og vandamálum sem upp kunna að koma í lífi sérhvers einstaklings.
Sálfræðingar eru nú komnir á flestar heilsugæslustöðvar landsins og ber því að fagna. Sálfræðiþjónustan er gjaldfrjáls fyrir börn frá 0 til 18 ára og konur sem vísað er af Mæðravernd. Enn vantar töluvert upp á að fullmanna allar stöður sálfræðinga. Fjármagnið sem var eyrnamerkt til aukningar sálfræðiþjónustu m.a. fyrir fullorðna skilaði sér ekki sem skyldi til heilsugæslustöðva. Þær stöðvar sem myndu vilja bæta við stöðuhlutfall sálfræðings þyrftu þá að taka það af öðrum rekstrarlið t.d. fækka öðru starfsfólki. Engar skýringar hafa fengist á af hverju þeir fjármunir sem eyrnamerktir voru til að auka stöðuhlutfall sálfræðinga skiluðu sér ekki þangað sem þeim var ætlað. Niðurstaðan er sú að aðeins þær stöðvar sem voru með rekstrarafgang gátu aukið við stöðugildi sálfræðings til að sinna aldurshópnum sem er eldri en 18 ára.
Kolbrún Baldursdóttir er sálfræðingur og skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Aukið fé til fræðslu og forvarna í skólum og sjálfsstyrkingu fyrir börnin
15.10.2017 | 10:11
Femínistafélag Háskóla Íslands boðaði til málþings um kynferðisofbeldi þar sem fulltrúum stjórnmálaflokkanna var boðið að koma og svara hvað okkar flokkur ætlaði að gera í málefnum kynferðisofbeldis á Íslandi hljóti hann brautargengi í komandi kosningum.
Flokkur fólksins:
- Vill veita auknu fé í viðvarandi fræðslu og forvarna í skólum og sjálfstyrkingu fyrir börnin
-Ljúka hið fyrsta heildstæðri aðgerðaráætlun ríkisins í kynferðisofbeldismálum en hún hefur legið á borði stjórnvalda um langa hríð
- Vill að grunnheilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls
- Vill að aðgengi að sálfræðiþjónustu verði jafnt um allt land án tillits til efnahagslegrar afkomu
Flokkur fólksins:
- Hefur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllum málefnum er varða börn
-Leggur áherslu á að börn fái alltaf hlustun og njóti ávallt vafans segi þau frá ofbeldi
- Leggur áherslu á samvinnu skóla, grasrótarsamtaka og heimila í þessum málum sem öðrum er varðar börn
- Leggur áherslu á fræðslu um viðbrögð fullorðinna ef barn segir frá ofbeldi
- Leggur áherslu á fræðslu til stofnana og fagstétta um tilkynningarskylduna
Margt annað var rætt sem Flokkur fólksins tók undir þar á meðal að staða brotaþola í ofbeldismálum er óviðunandi. Brotaþolar verða að fá aukna aðkomu að eigin málum!

Dýraníð, finna þarf gerendur dýraníðs og hjálpa þeim að stöðva atferlið
18.9.2017 | 19:24