Mótmæli að Innri endurskoðun ráðist í heildarúttekt á braggabullinu
11.10.2018 | 13:28
Því var mótmælt í morgun á fundi borgarráðs að Innri endurskoðun verði falið að ráðast í heildarúttekt á öllu því ferli sem endurgerð braggans fól í sér.
Eftirfarandi bókun var gerð af borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Innri endurskoðun hér eftir vísað í sem IE getur varla talist óháð í þetta verkefni vegna ákveðinna tengsla og þeirra upplýsinga sem hún hefur haft allan tímann um framvindu endurbyggingar braggans. Í því ljósi munu niðurstöður heildarúttektar IE, þegar þær liggja fyrir varla álitnar áreiðanlegar. Hér er ekki verið að vísa í neina persónulega né faglega þætti starfsmanna IE heldur einungis að IE hefur fylgst með þessu máli frá upphafi í hlutverki eftirlitsaðila og getur því varla talist óháð. Annar þáttur sem gerir IE ótrúverðuga sem rannsakanda er að hún sá ekki ástæðu til að koma með ábendingar í ferlinu jafnvel þótt framúrkeyrslan blasti við. Sem eftirlitsaðili og ráðgjafi borgarstjóra hefði IE átt að benda á þessa óheillaþróun og skoða strax hvort verið væri að fara á svig við vandaða stjórnsýsluhætti. Að IE ætli nú að setja upp rannsóknargleraugun og skoða ferlið með hlutlausum hætti er þar að leiðandi óraunhæft að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og mun varla leiða til trúverðugra rannsóknarniðurstaðna.
Fulltrúi frá Innri endurskoðun var þessu ekki sammála og til að gæta alls réttlætis birtist hér viðbrögð IE:
Hér er enn og aftur misskilningur á hlutverki IE.
Við höfum gjarnan skilgreint innra eftirlit upp í þrjár varnarlínur. Gróflega er það svo að í fyrstu línu eru framkvæmdirnar, annarri línu þeir sem bera ábyrgð á verklaginu og gerð verkferla. Í þriðju línu er Innri endurskoðun sem hefur það hlutverk að meta virkni innra eftirlits á hverjum tíma. Það er það sem Innri endurskoðun hefur haft að leiðarljósi í öllum sínum störfum. Til þess að halda óhæði okkar er mikilvægt að tryggja að við séum utan við framkvæmd stjórnkerfisins. Við höfum í gegnum tíðina gert úttektir á sviði innkaupa, útboða og stjórnsýslu til að meta og sannreyna virkni innra eftirlits og höfum komið ábendingum á framfæri m.a. við borgarráð. Það er ekki á ábyrgð né hlutverk Innri endurskoðunar að vera þátttakandi í framkvæmdum.
Rannsakaði dúnmel í 15 ár
11.10.2018 | 07:06
Það er ótrúlegt að sækja þetta til Danmerkur þegar tegundin er til víða hér á landi, segir Jón Guðmundsson plöntulífeðlisfræðingur í samtali við Fréttablaðið. Strá sem gróðursett voru fyrir utan braggann í Nauthólsvík, sem fór hraustlega fram úr kostnaðaráætlun, kostuðu Reykjavíkurborg 757 þúsund krónur. DV greindi fyrst frá því.
Stöð 2 greindi svo frá því í kvöld að keyptar hafi verið 800 plöntur á 950 krónur stykkið. Kostnaður við gróðursetningu hafi numið 400 þúsund krónum til viðbótar. Heildarkostnaðurinn við stráin, sem heita Dúnmelur á íslensku, var því 1.157 þúsund krónur.
Sjá einnig: Borgarstjóri segir braggamál kalla á skýringar
Jón segir að hann hafi rannsakað dúnmel á árunum 1990 til 2005 en þess má geta að hann er eiginmaður Kolbrúnar Baldursdóttur, borgarfulltrúa Flokks fólksins. Hann hafi plantað nokkrum fræjum í Rangárvallasýslum. Þessi planta er búin að vera til á landinu í 60 til 70 ár. Hann segist undrandi á því að þessar upplýsingar séu ekki á allra vitorði sem að svona málum koma.
Dúnmelur er náskyldur melgresi, sem vex mjög víða á Íslandi. Hann má að sögn Jóns meðal annars finna við Hafnarfjörð. Það eru breiður af þessu við Hvaleyrarvatn, segir hann og heldur áfram. Ég var sjálfur beðinn um þessa tegund af fyrirtæki í bænum. Ég fór bara í reit í nágrenninu og færði þeim nokkur eintök, útskýrir hann.
Til gamans má geta að þegar leitað er að orðinu dúnmelur á Wikipediakoma fram upplýsingar um útbreiðslu á Íslandi. Honum hefur verið sáð á Íslandi til að græða upp foksanda. Vísað er í þrjár heimildir.