Þéttingastefnan komin út í öfgar?

Á fundi skipulags- og samgönguráðs lagði ég fram eftirfarandi tillögu:
Tillaga Flokks fólksins að meirihlutinn endurskoði þéttingarstefnu sína með það í huga að hlífa grænum svæðum, skólalóðum og útivistarsvæðum.

Fulltrúi Flokks fólks leggur til að meirihlutinn endurskoði þéttingarstefnu sína með það í huga að hlífa grænum svæðum, skólalóðum og útivistarsvæðum. Hér er aftur staðfest, og nú í ályktun íbúasamtaka í vesturhluta Reykjavíkur, hvernig samráð er hunsað. Fólki er boðið upp á að koma með tillögur og athugasemdir sem síðan er varla litið á. Í ályktuninni er lýst áhyggjum af hvernig þéttingastefna meirihlutans er farin að ganga á græn svæði borgarinnar. Segir í ályktuninni að „íbúar hafi ítrekað bent á þessa þróun í gegnum athugasemdir sínar við deiliskipulagsvinnu borgarinnar. Málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga ber þess merkis að vera eingöngu formlegs eðlis þar sem íbúum gefst í reynd ekki tækifæri til að hafa raunveruleg áhrif. Réttur til athugasemda er lítils virði ef einungis er tekið mark á athugasemdum frá opinberum aðilum en látið hjá líða að taka mark á athugasemdum íbúa. Samráðsleysið við borgarbúa sem ítrekað benda á hvernig auka megi gæði almenningsrýma er áberandi.“ Svo virðist sem engin takmörk séu þegar þétta á byggð. Ofuráhersla á þéttingu byggðar má aldrei vera gerð á kostnað grænna svæða í borginni

Fyrirvari settur við samþykkt ársreiknings m.a. vegna Félagsbústaða

Hér er fyrirvari Flokks fólksins við samþykkt ársreiknings borgarinnar 2019 sem settur var samhliða undirritun hans. Ástæðan fyrir þessum fyrirvara var m.a. vegna Félagsbústaða en ekki síður vegna þess með því að kjörnir fulltrúar áriti ársreikning kynnu þeir að vera persónulega ábyrgir ef kröfuhafar Félagsbústaða létu á það reyna hvort ársreikningar Félagsbústaða hf. hefðu gefið glögga mynd af rekstri og efnahag félagsins. Þá kynni sú persónulega ábyrgð einnig að ná til endurskoðunarnefndar Félagsbústaða og borgarinnar. Þetta voru orð Einars S. Hálfdánarsonar endurskoðanda sem sagði sig úr endurskoðunarnefnd borgarinnar á dögunum.

Hér er fyrirvari Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins staðfestir ársreikning 2019 með fyrirvara um að reikningsskilaaðferðir séu viðeigandi og að engar skekkjur séu vegna mistaka eða sviksemi sem endurskoðun hafði ekki upplýsingar um. Með þessu er fylgt fordæmi endurskoðenda sem hafa sjálfir varið sig með fyrirvara um skekkjur vegna mögulegra mistaka eða sviksemi. Þeirra markmið er að afla nægjanlegrar vissu um að ársreikningurinn sé án verulegra annmarka. Nægjanleg vissa er engu að síður sögð ágæt vissa þótt það tryggi ekki að vitað sé um allar skekkjur vegna mistaka eða sviksemi sem kunni að vera til staðar. Fulltrúi Flokks fólksins gerir einnig sérstakan fyrirvara við að reikningsskilaaðferðir Félagsbústaða standist skoðun og lög.

Tíðindum sætti þegar einn af endurskoðendum endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar sagði sig úr nefndinni vegna þeirrar reikningsskilaaðferðar sem brúkuð er hjá Félagsbústöðum, hin svo kallaða gangvirðisaðferð. Þar sem Félagsbústaðir eru félagslegt úrræði en ekki fjárfestingarfélag taldi hann að gera ætti fjárfestingar félagsins upp á kostnaðarvirði. Benti hann á að með því að kjörnir fulltrúar áriti ársreikning kynnu þeir að vera persónulega ábyrgir ef kröfuhafar Félagsbústaða létu á það reyna hvort ársreikningar Félagsbústaða hf. hefðu gefið glögga mynd af rekstri og efnahag félagsins. Þá kynni sú persónulega ábyrgð einnig að ná til endurskoðunarnefndar Félagsbústaða og borgarinnar.


Bloggfærslur 27. maí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband