Umfjöllun um einelti í íslenskum lögum
12.4.2010 | 12:09
Hvað er sagt og hvað er ekki sagt um einelti í íslenskum lögum?
Þrátt fyrir að heilmikil vitundarvakning hafi orðið á skilningi landsmanna á einelti og alvarlegum afleiðingum þess, eru enn að koma upp afar ljót eineltismál bæði í skólum og á vinnustöðum. Sum þessara mála fá að vaxa og dafna og hægfara leggja líf þolandans í rúst. Umræðan undanfarin misseri hefur verið mikil og farið fram jafnt í sjónvarpi, útvarpi og í dagblöðum. Rætt er um fyrirbyggjandi aðgerðir og hvernig skuli bregðast við komi upp mál af þessu tagi: hverjir eiga að ganga í málin og hvers lags ferli/áætlanir eru árangursríkastar?
Einn angi af umræðunni undanfarið misseri er hugmyndin um hina svokölluðu Sérsveit í eineltismálum. Þessi pæling er afrakstur vinnu lítils kjarnahóps sem berst gegn einelti á öllum stigum mannlegrar tilveru. Hugmyndin gengur út á að fái foreldri ekki úrlausn í eineltismáli barns síns geti þeir leitað til fagteymis á vegum stjórnvalda sem biði viðkomandi skólayfirvöldum aðstoð við lausn málsins. Að sama skapi gæti fullorðinn einstaklingur sem telur sig hafa mátt þola einelti á vinnustað og sem hefur ekki fengið úrlausn sinna mála hjá vinnuveitanda, leitað að sama skapi til teymisins. Hugmyndin hefur verið kynnt hópi ráðherra og ráðamanna víða um landið.
Það sem stendur í íslenskum lögum í þessu sambandi skiptir gríðarmiklu máli. Lög og reglugerðir hafa það hlutverk og markmið að vera jafnt leiðbeinandi sem upplýsandi fyrir fólkið í landinu eins og t.d. hvar mörkin liggja í almennum samskiptum.
Til að ræða þetta koma saman Í nærveru sálar mánudaginn 12. apríl Þórhildur Líndal, forstöðumaður Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni, Ragna Árnadóttir, ráðherra dómsmála og mannréttinda og Gunnar Diego, annar af tveimur framleiðendum heimildarmyndar um einelti. Gunnar er einnig þolandi langvinns eineltis í grunnskóla. Umræðan er afar krefjandi og ótrúlega flókin þrátt fyrir að flestir séu sammála um hvaða breytingar væru æskilegar og að mikilvægt sé að setja eitthvað neyðarúrræði fyrir þolendur fái þeir ekki lausn mála sinna í skóla eða á vinnustað.
Hvorki virðist skorta vilja né skilning hjá ráðamönnum um mikilvægi þess að liðka fyrir vinnslu þessara erfiðu mála og að tryggja að enginn eigi að þurfa að búa við að vera lagður í einelti mánuðum eða árum saman án þess að gripið sé til lausnaraðgerða.
Meðal þess sem spurt verður um og rætt er:
- Hefur eineltismál vegna barns einhvern tímann farið í gegnum dómstóla þar sem því er lokið með dómi?
-Hver er helsta aðkoma barnaverndar í þessum málum?
-Dæmi: ef foreldrar vilja ekki senda barn sitt í skólann vegna þess að það er lagt í einelti af skólafélögum sínum gætu foreldrar átt það á hættu að málið verði tilkynnt til viðkomandi barnaverndarnefndar þar sem að barnið er skólaskylt.
-Hvað í lögunum verndar unga þolendur eineltis?
-Hver er ábyrgð foreldra þeirra barna sem eru gerendur?
-Hver er ábyrgð skólans?
-Ætti að gera einelti refsivert eins og hvern annan glæp?
Hafa skal í huga í þessu sambandi að barn er ekki sakhæft fyrr en 15 ára. Oftast eru gerendur sjálfir í mikilli vanlíðan, þeir hafa stundum áður verið þolendur. Mjög algengt er að gerendur eineltis séu sjálfir með brotna sjálfsmynd, stríði við námsörðugleika eða eiga við aðra félagslega og tilfinningalega erfiðleika að stríða. Oft hefur einnig komið í ljós að erfiðleikar eru á heimili barna sem leiðast út í að vera gerendur eineltis.
Skólinn reynir oftast að gera sitt besta til að vinna úr þessum erfiðu málum. Staðreyndin er þó sú að þeir (starfsmenn og fagfólk skólans) eru eins og gengur, mishæf til að takast á við erfið og þung mál af þessu tagi.
Hvernig má styðja við bakið á þeim skólum sem eru ráðþrota og vilja skólar yfir höfuð fá utanaðkomandi aðstoð?
Fullorðnir þolendur eineltis
Fullorðinn þolandi eineltis t.a.m. á vinnustað á í raun í fá skjól að venda ef yfirmaður ákveður að gera ekkert í málinu. Margir ábyrgir og góðir stjórnendur fá utanaðkomandi faglega aðstoð í þessu sambandi og hefur það oftar en ekki gefið góða raun. Fjölmörg dæmi virðast þó vera um að yfirmaður grípi til þeirrar óábyrgu leiðar að láta þolandann taka pokann sinn og yfirgefa vinnustaðinn. Þá telja sumir stjórnendur að vandamálið sé úr sögunni. Enda þótt fullorðinn þolandi eineltis á vinnustað geti leitað til Vinnueftirlitsins og Jafnréttisstofu er þjónusta þessara stofnanna takmörkuð. Hvorug tekur á einstaklings- eineltismálum. Stéttarfélögin eru heldur ekki nægjanlega góður kostur því lögfræðingar þeirra sitja öllu jöfnu beggja vegna borðs og geta því ekki þjónustað þolandann sem skyldi. Þolandi eineltis á vinnustað sem yfirmaður ákveður að hafna á því fáa aðra möguleika en að fara dómsstólaleiðina sé hann staðráðinn í að fá úrlausn mála sinna á sanngjarnan og faglegan máta. Sú leið er eins og allir vita bæði afar tyrfin og kostnaðarsöm.
Frekari vangaveltur sem fram koma í þættinum Í nærveru sálar 12. apríl eru:
Hvað snýr beint að ráðherra dómsmála og mannréttinda?
Hvernig á að bregðast við til skamms/langs tíma?
Er hægt að gera einhverjar ráðstafanir fljótt?
Hvað er raunhæft og óraunhæft að setja í lögin?
Hvaða viðbætur er hægt að koma með strax sem kynnu að stuðla að því að mál af þessu tagi verði viðráðanlegra, auðveldara og hraðara í vinnslu?
Er þetta eins flókið og sumir vilja vera láta?
Af hverju hafa ráðuneyti þessara mála ekki getað sameinast um lausnir og unnið saman þrátt fyrir ítrekaða beiðni?
Fylgist með, mánudaginn 12. apríl á ÍNN.