Mataræði í reykvískum grunnskólum

ins_matarbreytt_984694.jpg

Stórt skref var stigið þegar ákveðið var að skólabörn skyldu fá heitan mat í skólum. Þessi breyting varð ekki á einni nóttu. Fyrir u.þ.b. 35 árum var í mesta lagi hægt að kaupa snúð og mjólk í gagnfræðaskólum borgarinnar. Eins og staðan er í dag er börnum boðið upp á heitan mat í flestum ef ekki öllum skólum í Reykjavík.  

Fyrirkomulag skólaeldhúsa er mjög breytilegt. Í sumum skólum eru foreldrar og börn mjög ánægð með þann mat sem boðið er upp á, matreiðslu hans og skipulag almennt séð. Í öðrum skólum er minni ánægja og í enn öðrum er einfaldlega veruleg óánægja.

Hvernig stendur á þessum mikla breytileika? Í sumum tilvikum er maturinn að mestu ef ekki öllu leyti aðkeyptur en í öðrum tilvikum er hann matreiddur í skólanum að öllu leyti eða a.m.k. að hluta til. Sumir skólar bjóða börnunum upp á unnar matvörur en aðrir skólar leggja áherslu á ferskt hráefni og að það sé matreitt í skólanum.

Hvernig svo sem þessum málum er háttað í einstaka skólum geta allir verið sammála um mikilvægi þess að börnin borði hollan og staðgóðan mat enda  skiptir það sköpum fyrir vellíðan þeirra, vöxt og þroska.

Mataræði í reykvískum grunnskólum er viðfangsefni þáttarins Í nærveru sálar mánudaginn 26. apríl. Við undirbúning þáttarins var haft samband við formann Menntasviðs. Hann kvaðst fagna þessari umræðu enda hafði Menntaráð nýlega haft málið á dagskrá og í kjölfarið samþykkt svohljóðandi tillögu:

Menntaráð felur fræðslustjóra að gera úttekt á samsetningu máltíða sem í boði eru fyrir nemendur grunnskóla Reykjavíkurborgar með tilliti til þeirra markmiða um hollustu matar sem fram koma í gæðahandbók Mennta- og Leikskólasviðs.

Sett hefur verið  á laggirnar nefnd sem hefur það verkefni að vinna í matarmálum fyrir bæði skólastigin, leik- og grunnskóla.

Í Í nærveru sálar munu þrír einstaklingar tjá sig um þetta mál. Það eru þau:
Jón Ingi Einarsson, fjármálastjóri Menntasviðs Reykjavíkurborgar. Hann á einnig sæti í hinni nýskipuðu nefnd.
Sigurveig Káradóttir, matreiðslumaður og foreldri barns í grunnskóla og
Þröstur Harðarson, matsveinn í Hagaskóla.

Atriði sem komið verður inn á:
Af hverju er þetta svona misjafnt milli skóla?  
Hver hefur ákvörðunarvald um hvernig þessu skuli háttað?

Komið verður inn á atriði eins og fjármagn sem veitt er til skólanna,  samninga/reglugerðir um skólaeldhús, mikilvægi þess að matreiðslufólk skóla hafi ríkt hugmyndaflug, útsjónarsemi og þar til gerða hæfni og færni til að sinna þessu mikilvæga starfi.

Hvernig er samspil embættiskerfisins og skólastjórnenda þegar kemur að því að ákveða útgjöld, ráðningar í störfin og ákvörðun um hvers lags matur (hráefni og matreiðsla) skuli vera í viðkomandi skóla?

Ef tekið er mark á óánægjuröddum sem heyrst hafa er ljóst að ekki sitja öll börn í grunnskólum borgarinnar við sama borð í þessum efnum. Unnar matvörur eru oftar á borðum sumra skóla en annarra. Þegar talað er um unnar matvörur er sem dæmi átt við reyktar og saltaðar matvörur, svo sem pylsur og bjúgu. Einnig matvörur úr dósum, pökkum eða annar samþjappaður matur sem oft er búið að bæta í ýmsum rotvarnarefnum.

Eins má spyrja hvernig þessum málum er háttað á kennarastofunum. Er til dæmis sami maturinn í boði fyrir börnin og kennarana?

Hagræðing og skipulag hlýtur að skipta sköpum ef bjóða á upp á hollan, góðan og jafnframt ódýran mat. Hafa matreiðslufólk skólaeldhúsa almennt tækifæri til að fylgjast með fjárhagsáætlun og hvernig hún stendur hverju sinni svo þau geti hagað innkaupum og aðlagað skipulag samkvæmt því.

Ef horft er til þess að samræma mataræði í skólum kann einhver að spyrja hvort ekki sé þá betra að skipulag skólaeldhúsa væri í höndum annarra en skólastjórnenda?

Eins og sjá má er málið ekki einfalt. Spurt er:

Hverjar verða helstu áherslur þeirrar nefndar sem nú skoðar málið og mun hún leita eftir samstarfi og samvinnu við foreldra?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þetta var langt mál um lítið efni.  Þegar ég var í barna skóla þá hafði ég með mér nesti útbúið af móður minni og ég er en við ágætis heilsu.

Hrólfur Þ Hraundal, 25.4.2010 kl. 10:51

2 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Sæll, já ég keypti mér snúð með súkkulaði sem dugði mér allan daginn. Ég held samt að mín góða heilsa í dag sé ekki því að þakka.

Málið er öllu flóknara en fram kemur hér að ofan. Það koma mér á óvart þegar ég fór að spyrjast fyrir um þetta hvað margir vinklar eru á þessu máli og ekki eru allir á sama máli um hvernig þessu skuli best varið.

Kolbrún Baldursdóttir, 25.4.2010 kl. 10:59

3 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Börnum er ekki "boðið" upp á heitan mat í grunnskólum Reykjavíkur, heldur borga foreldrar fyrir þá þjónustu. Séu foreldrar/ foreldri ekki tilbúin að borga nokkuð hátt verð fyrir hádegisverð barns í skóla fær barnið ekki heitan mat í hádeginu.

Fyrstu tvö ár sonar míns í Hagaskóla bjó ég alltaf til handa honum hádegismat, sem hann hafði með sér í skólann. Sá matur gat þó af skiljanlegum ástæðum ekki verið heitur, en þótti þó betri en það sem í "boði" var í skólanum.

Skólamatur er afar misjafn að gæðum. Í Hagaskóla er t.d. sárt kvartað undan óætum mat, sem kostar þó það sama og annars staðar. Kokkurinn þykir einfaldlega ekki góður.

Eftir að eldhús var loksins byggt við Vesturbæjarskóla þótti börnum þar maturinn afar góður. Þá fóru foreldrar loksins að borga fyrir hádegismat barna frekar en að senda þau með nesti, eftir öll þessi ár. (Áður var reyndar sendur matur frá einhverri hræðilegri stofnun, sem reyndist vera verri en flugvélarusl í þriðja heiminum. Börn, sem voru betra vön að heiman, þáðu ekki þann plastbakkamat)

Það er því allur gangur á matarræði barna í grunnskólum Reykjavíkur.

Gott samt að taka þetta fyrir.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 26.4.2010 kl. 03:12

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband