Dáleiðsla sem meðferðartækni. Síðasti þáttur Í nærveru sálar.

kolla.jpg

Dáleiðsla er ekkert nýtt fyrirbæri.  Dáleiðsla hefur verið notuð áratugum saman í margs konar tilgangi og við ólíkar aðstæður víða um heim. Dáleiðsla er vinsælt umfjöllunarefni og er oft notuð í sögubókum, í bíómyndum og á leiksviði.

Ýmsar skilgreiningar eru til á dáleiðslu. Eftirfarandi skilgreining er birt á Vísindavefnum:
Dáleiðsla kallar fram vitundarástand sem unnt er að nýta í lækningaskyni til að bæta almenna líðan og efla ákveðna þætti í fari fólks. Hún er til dæmis nýtt til þess að taka á svefnörðugleikum, erfiðum höfuðverkjum og til að efla einbeitni fólks í námi eða íþróttum.

Dáleiðsla er í hugum margra umvafin leyndardómi eins og svo oft er þegar um undirmeðvitundina er að ræða. Undirmeðvitundina er erfitt að rannsaka enda hvorki hægt að snerta hana né mæla. Við vitum þó að þarna er botnlaus brunnur minninga, drauma, óska og væntinga sem skjóta upp kollinum í vöku sem draumi og í dáleiðsluástandi. Þrátt fyrir að mun meira sé vitað um þetta flókna svið nú en t.d. fyrir fimmtíu árum þá er undirmeðvitundin enn og verður e.t.v. alltaf ráðgáta.

Dáleiðsla sem meðferðartækni er viðurkennd aðferð sem margir kjósa að reyna, til að ná betri líðan, fá lækningu við sjúkdómum, til að stöðva skaðlega hegðun eða tileinka sér og ástunda nýtt atferli sem það telur að leiði til góðs fyrir andlega og líkamlega heilsu.

Dáleiðslufélag Íslands er félagsskapur fagaðila sem hafa aflað sér tilheyrandi þekkingar á þessu sviði og öðlast grunnþjálfun til að stunda dáleiðslu. Formaðurinn Hörður Þorgilsson, sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði ræðir um dáleiðslu sem meðferðartækni í Í nærveru sálar hinn 3. maí  á ÍNN. Þetta er 76. þátturinn og jafnframt sá síðasti en Í nærveru sálar hefur nú, í hartnær, tvö ár verið fastur dagskrárliður á ÍNN. Hann mun upplýsa um sögu dáleiðslunnar, upphafið hér á Íslandi og  tilkomu félagsins.

Hvernig er dáleiðsluferlið? Hvernig eru ákjósanlegustu aðstæður til dáleiðslu? Hversu langan tíma tekur einn dáleiðslutími? Hvað þarf að útskýra fyrir dáþeganum?

Grundvöllur þess að dáleiðslutæknin geti virkað er að gagnkvæmt traust ríki milli dáleiðara og dáþega. Dáleiðslan sjálf byggist ekki hvað síst á einstaklingnum sjálfum og hvort hann sé nægjanlega sefnæmur.

Um dáleiðslu hefur oft gætt nokkurs misskilnings í hugum fólks. Margir telja t.a.m. að hinn dáleiddi missi meðvitund eða að hann komi ekki til með að muna neitt af því sem fram fór á meðan hann var í dáleiðsluástandinu. En þannig er því einmitt ekki farið. Einnig er trú margra að hægt sé að festast í ástandinu og að dáleiðarinn geti fengið hinn dáleidda til að gera eitt og annað sem hann myndi t.d. aldrei gera undir venjulegum kringumstæðum.

Meira um þetta í lokaþætti Í nærveru sálar 3. maí á ÍNN kl. 21.30.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband