Samverustund í Guðríðarkirkju í tilefni árlegs baráttudags gegn einelti og kynferðislegu áreiti

Hæðni og hunsun ein af birtingarmyndum eineltis.

Helgistund og dagskrá tileinkuð fullorðnum þolendum og aðstandendum þeirra í Guðríðarkirkju föstudagskvöld kl. 20 í tilefni árlegs baráttudags gegn einelti og kynferðislegu áreiti. Vöfflukaffi og umræður.

Þrátt fyrir vaxandi umræðu í samfélaginu og vilja fjölmargra til að fyrirbyggja einelti virðist sem vandamálið  spretti víða upp og lifi jafnvel ágætu lífi. Gera má því skóna að vandinn sé viðameiri en margur heldur vegna þess að fjölmargir þolendur treysta sér ekki til að opinbera einelti gagnvart sér. Á vinnustaðnum eru stjórnendur ábyrgir fyrir líðan starfsfólks. Í það minnsta ber þeim að sjá til þess að ekki viðgangist ofbeldi af neinu tagi á vinnustaðnum. Hvort takist að leysa vandann byggir alfarið á vilja og getu stjórnanda. Ef stjórnandi er jafnframt gerandi er ljóst að þolandi hefur oft ekki margra kosta völ en að hætta störfum.

Nánar um birtingarmynd eineltis

Hunsun og afskiptaleysi er ein birtingarmynd eineltis. Þolandinn lýsir þessu stundum þannig að það sé eins og hann sé ósýnilegur. Samstarfsmenn neita að vinna með honum, forðast að sitja hjá honum, litið er framhjá honum eins og hann sé ekki til staðar eða aldrei horft á hann. Upplýsingum er e.t.v. haldið frá viðkomandi, hann ekki látinn vita ef eitthvað stendur til og honum ekki boðið með þangað sem öðrum er boðið. Hvísl, baktal, undirróður, augnagotur eru jafnframt birtingarmyndir eineltis sem erfitt getur verið að staðreyna.
Meira áberandi birtingarmyndir er til dæmis þegar neikvæðum skilaboðum er komið áleiðis með rafrænum hætti. Búinn er til hópur á Facebook sem hefur það að markmiði að gera grín að, níða og hæða einhvern einn einstakling. Einnig þegar send eru skilaboð til eins eða fleiri með sms eða á MSN eða skrifað um hann á blogg- eða spjallsíðum.

Frekari dæmi eru t.d. beinar og óbeinar aðfinnslur við manneskjuna sem vísar til útlits eða atferlis. Stundum er eitthvað sagt á þessum nótum og síðan sagt að verið sé að grínast.  Slíkar aðfinnslur geta verið hvort heldur þegar enginn heyrir til eða í viðurvist annarra.  Einnig er ítrekuð gagnrýni, athugasemdir og jafnvel ásakanir um eitthvað sem ekki á við rök að styðjast.

Meira um þessi mál hér:
Hæðni og hunsun ein af birtingarmyndum eineltis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband