Stjórnlagaþing: Hvert viljum við stefna og hverjar eru veigamestu áherslurnar?

Ég hef mikla löngun til að taka þátt í að byggja upp þjóðfélagið sem við búum í og gera það enn betra. Þess vegna hef ég boðið mig fram til stjórnlagaþings. Margt í stjórnarskránni hefur staðið tímans tönn, stendur enn og mun gera ágætlega í komandi framtíð. Ekki þarf að breyta bara breytinganna vegna. 

Af hverju vil ég taka þátt í þessu verkefni?
Eftir áratuga reynslu af því að vinna með fólki finnst mér ég hafa nokkurn skilning á þörfum þess og væntingum til framtíðar og hvernig samfélag hentar að búa börnum okkar. Nú gefst tækifæri til að kryfja öll helstu grunnatriði þjóðarinnar með sjónarhorn fjöldans að leiðarljósi. Ein aðalforsenda framfara og vellíðunar er að eiga vandaða og góða stjórnarskrá. Til að eignast haldbæra og nýtilega stjórnarskrá þarf hún að vera auðskilin, beint lýðræði og stuttar boðleiðir þurfa að vera ríkjandi þar sem mannréttindi og samfélagsleg ábyrgð eru veigamiklir þættir.

Það er óskandi að þeir sem valdir verða á stjórnlagaþing verði hópur fólks sem ber gæfu til að vinna saman að þessu mikilvæga og virðulega verki sem endurskoðun stjórnarskrár Íslands er. Stjórnlagaþingmenn fá í hendurnar hráefni til að vinna úr sem m.a. er komið frá þjóðfundi. Mikilvægt er að raddir almennings nái eyrum stjórnlagaþingmanna.  Á þingið þurfa að veljast víðsýnir, andlega þroskaðir og vel gerðir einstaklingar sem kunna að hlusta, geta hugsað af skynsemi og innsæi og sem hafa það góða sjálfsmynd að þeir geri sér grein fyrir að enda þótt viðhorf þeirra og skoðanir kunni að mátast vel við þá sjálfa, er ekki víst að þær séu í þágu þjóðar sem heild.

Eftirfarandi þættir endurspegla það sem ég vil m.a. leggja áherslu á:

  1. Beint lýðræði hefur að gera með hvernig fulltrúar eru valdir til þess að stjórna. Beint lýðræði vísar til þess að einstaklingurinn sem slíkur eigi þess kost á að velja ráðamann án milligöngu annarra einstaklinga. Hver og einn fullveðja þjóðfélagsþegn á að eiga þess kost að hafa, með lýðræðislegri kosningu, áhrif á hverjum hann treystir til að gæta hagsmuna sinna í veigamiklum málum sem ekki bara lúta að nútíð og nánustu framtíð heldur hefur ekki síður að gera með komandi kynslóðir.

Hvernig er þetta í dag?
Eins og staðan er nú kjósum við menn og konur til valda sem velja síðan aðra til setu í nefndir og ráð. Í nefndum og ráðum eru síðan enn aðrir valdir og þeim fært upp í hendurnar völd til að taka ákvarðanir í veigamiklum, afmörkuðum þáttum, sumum hverjum sem varða mikla hagsmuni þjóðarinnar. Hér er langur vegur í það sem kallað er beint lýðræði. Ef litið er til baka má sjá mörg dæmi þess að fólkið í landinu fékk ekkert tækifæri til að koma sínum skoðunum og óskum á framfæri.  Oft hefur hópur aðila sem valinn er af einum eða fáum fengið tækifæri til að véla með dýrmætustu eign og auðlindir þjóðarinnar, skipulag og uppbyggingu borga og sveitarfélaga.  Hér hefur því verið um verulegan lýðræðishalla að ræða. Þegar aðstæður eru með þessum hætti eiga hagsmunaaðilar auðveldara með að véla um mikilvæg málefni þjóðarinnar. Þessu á stjórnarskráin að taka á.

Í hnotskurn: Allir þeir sem setjast í nefndir og ráð sem fara með stærstu og brýnustu hagsmunamál þjóðarinnar þurfa að vera valdir beint af kjósendum.

  1. Landið ætti að vera eitt kjördæmi og atkvæðavægi allra jafnt.  Einnig yrði til bóta ef hin svokölluðu prófkjör (persónukjör) fari fram á sama tíma og kosinn er stjórnmálaflokkur/samtök. Þetta myndi þá virka þannig að í stað þess að stjórnmálaflokkur raði fólki á lista spilar hann fram hópi fólks sem kjósendur raða sjálfir innan þess flokks sem þeir kjósa.

Fáir og öflugir flokkar sem keppa um sæti á Alþingi er æskileg staða. Margir litlir flokkar eða stjórnmálasamtök sem koma manni á þing veikir þingið og bíður frekar upp á þá hættu að völd komist til hagsmunaaðila.

  1. Kveðið er á um þrískiptingu ríkisvaldsins í stjórnarskránni. Ég tel að ráðherrar eigi að koma úr  þingmannahópi. Ef ekki þá er hætta á að ráðherra verði einangraður og skorti viðeigandi bakland og stuðning. Ennfremur kann hann þá að skorta aðhald sem eykur líkur á agaleysi hans sjálfs. Ráðherra sem er einnig þingmaður ákveðins flokks hefur með því viðeigandi bakland. Flokkurinn þarf að taka ábyrgð á honum og getur skipt honum út fyrir annan sem betur er fallinn til embættisins hverju sinni. Áfram ætti að vera sá möguleiki að ráða tímabundið til embættisins fagráðherra án pólitískra tengsla þegar brýn nauðsyn vegna sértækra úrlausnarefna kallar á slíkt.
  2. Fjárframlög til stjórnmálaflokka og einstaklinga í framboði verði heimil en þurfa að vera opin á öllum tímum. Gegnsæi skiptir í þessu sambandi meginmáli. Með gegnsæi liggur fyrir með opinberum hætti hvaða hagsmunaafl/öfl hafa styrkt frambjóðanda og um hversu mikla fjármuni.
  3. Dómarar og aðrir þeir sem fara með löggjafarvaldið skulu metnir af óhlutbundinni ráðningarnefnd og skal sá hæfasti ráðinn til embættis hverju sinni. Ef einhver vafi leikur á um hæfi aðila í ráðningarnefnd við ráðningu einstaklings skal viðkomandi nefndarmaður víkja sæti.
  4.  Allar stéttir ættu að eiga siðareglur.
  5. Ákvæðið sem snýr að undirskrift forseta undir löggjafarmál má ætla að sé barn síns tíma.  Lög ættu að taka gildi ef meirihluti á Alþingi samþykkir þau. Þau þurfa ekki frekari staðfestingar við.
  6. Auðlindir ættu að vera eign þjóðarinnar og á engin, einstaklingur, hópur eða samtök, rétt á að nýta þær sjálfkrafa. Samningar sem hafa að gera með auðlindir skulu vera opinberir frá upphafi þ.e. aðdragandinn að slíkum samningi og samningarferlið.  Komi í ljós að 20% atkvæðabærra manna sé ósátt við þann gjörning sem fyrirhugaður er, ætti málið að vera borið undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.
  7. Það sem bera á undir þjóðina:
     a) Veigamikil mál sem varða nýtingu (leigu) eða afhendingu til lengri tíma á einni af helstu auðlindum þjóðarinnar.
    b) Mál sem varða þjóðina sem fullvalda ríki, þátttöku þjóðar eða tengsl við alþjóðasamfélagið eða önnur alþjóðasambönd/samtök skulu borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Samþykki fæst með hreinum meirihluta þeirra sem greiða málinu atkvæði.
  8. Ísland ætti ávallt að vera hlutlaust þegar kemur að ákvörðun um ófrið eða innrásir í önnur lönd. Komi tillaga um að Ísland ætti að styðja eða ganga í stuðningslið með þjóð hvort heldur hún berst fyrir frelsi eða landi ætti sú tillaga einnig að vera borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu.
  9. Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar er tiltölulega nýr en betur má ef duga skal. Þennan kafla er hægt að betrumbæta enn frekar.
  10. Stjórnarskránni á að vera hægt að breyta þegar krafa kemur upp um breytingar. Ekki er nauðsynlegt að hún sé endurskoðuð ef það er mat þorrans að þess sé ekki þörf.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Sko - það eina sem ég held að eigi möguleika til að virka, er þjóðaratkvæðagreiðslu fyrirkomulag.

Í Sviss er það þannig, að nánast enginn veit af því hverjir eru þessir svokallaðir "governors" skv. enskri þíðingu - getum íslenskað sem stjórnendur. 

Þ.e. vegna þess, að þjóðaratkvæðagreiðslu fyrirkomulagið gerir það að verkum að völdin raunverulega eru hjá fólkinu.

Ef maður skoðar Sviss, þá sýnist mér þetta benda til, að þá verði stjórnmál síður áhugaverð fyrir ríka og ofsaríka, það dragi því úr spillingur í stjórnmálum, vegna þess að þú getur ekki tryggt með því að spilla einn einstakling að tiltekið mál fari í gegn og/eða tiltekið fyrirkomulag verði tekið upp sem henti þeim ríka eða tilteknu fyrirt.

Það verður alltaf vandi hér að tryggja virka þrískiptinu vegna nálægðar kunningjaþjóðfélagsins - en á móti kemur að smæðin ætti að auka fremur en hitt líklega skilvirkni þjóðaratkvæðagreiðslu fyrirkomulags.

---------------------

Punkturinn er - að með virku þjóðaratkvæða greiðslu fyrirkomulagi, þá minnkar vægi Alþingis - og stj.v.

Þá minnkar spillingin þar, þ.s. ríkir og ofsaríkir hafa minna gagn af að spilla fólki þar innan dyra.

Þ.e. ekki nauðsynlegt "per se" að það fólk sé kosið beinni kosningu. 

Lýðræðisfyrirkomulaginu þarf ekki að breyta að öðru leiti.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 24.10.2010 kl. 18:29

2 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Takk fyrir þessi skrif þín á síðuna sem eru vel þegin nú

Kolbrún Baldursdóttir, 24.10.2010 kl. 19:32

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband