Netfíkn: peningaspil á netinu s.s. netpóker er vandi sem margir unglingar glíma við

Í Mbl. i dag eru skrif um netfíkn sem sé sífellt að verða algengara vandamál. Ég tel að þetta vandamál sé allt eins meðal fullorðinna sem og unglingana þótt ívið meira hefur verið einblínt á þann aldurshóp. Hvað varðar unglinga þá tók ég þátt í rannsókn í samstarfi við sálfræðiskor HÍ á spilafíkn meðal 16-18 ára unglinga í framhaldsskólum. Þetta var í upphafi árs 2006. Meðal niðurstaða var að peningaspil á Netinu er vaxandi vandamál. Hér er um netpóker að ræða og annað sem tengist veðmálum. Þessu er ekkert öðruvísi farið á norðurlöndunum. Margsinnis hefur verið bent á mikilvægi þess að foreldrar séu vakandi yfir bæði þeim tíma sem börn þeirra verja á Netinu og eins hvað þau eru að gera þar. Fylgjast þarf með hvaða síður þau skoða og eins að hafa varann á öllum þeim peningaspilum sem þar eru í boði. Hins vegar getur verið afar erfitt ef foreldrar ætla allt í einu að fara að grípa inn í ef unglingurinn hefur árum saman fengið að hafa sína hentisemi með tölvuna. Þá er hætta á að unglingurinn mótmæli kröftuglega. Þessi eftirfylgd þarf að byrja snemma í lífi barnsins eins og allar aðrar forvarnir. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er alveg hárrétt hjá þér að á skal að ósi stemma.  Við verðum að byrja á að hafa þennan hemil á börnunum okkar.  Svona vandamál var ekki til þegar ég var að ala mín börn upp.  Sjónvarpsgláp en ekki tölvur.  Nú er ég með einn tíu ára, og ætla að gæta mín vel á því að fylgjast með honum.  Aldrei er góð vísa of oft kveðin  Kolbrún mín.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.3.2007 kl. 11:38

2 identicon

Ekki ætti að blanda saman netfíkn og spilafíkn, þar sem um tvö ólík vandamál er að ræða.   Þá held ég að það hljóti að vera rangt hjá þér að peningaspil á netinu sé vandamál hjá 16-18 ára.   Til að geta spilað á netinu verður þú að hafa kreditkort, sem þessi hópur er ekki með.

Skv. rannsókn Daníels Þórs Ólasonar, aðjúnkts við sálfræðiskor HÍ, er um 0,3-0,7% Íslendinga haldinn spilafíkn, sem er ekki ósvipað og í öðrum löndum þar sem aðgengið að peningaspilum er yfirleitt miklu meira.   Ég held einmitt að það væri mikill kostur að færa peningaspil hérlendis úr spilakössunum yfir á netið, t.d. rekið af góðgerðafélögum, þar sem hægt væri að stjórna spilamennskunni betur, t.d. hvað varðar takmörkun á hvað hver getur eytt miklu (Björn Bjarnason viðraði þessa hugmynd í umræðunni um þessi mál í janúar sl. og meira að segja Ögmundur Jónasson tók undir).   

Eins og fram kemur í skoskri skýrslu um þessi mál (http://www.scotland.gov.uk/Publications/2006/08/17134534/0)  skiptir einmitt miklu máli hvernig þessum málum er stillt upp.   Alls ekki rétt að koma með tillögur er byggja á því að banna allt - slík forræðishyggja stýrir yfirleitt ekki góðri lukku.

Sigurður J. (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 11:18

3 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Ég held það sé óhætt að orða það svo að peningaspil á netinu hafi farið vaxandi meðal þessa aldurshóps, t.d. netpóker.   Krakkar á þessum aldri, margir hverjir hafa talsverð fjárráð og sumir mikil fjárráð. Bæði vinna þau gjarnan með skóla sem og fá fé frá foreldrum sínum. Enn eigum við eftir að vinna endanlega úr þessari könnun sem ég vísa í og var í samstarfi við Daníel Þór. Um var að ræða framhald á rannsókn sem framkvæmd var af tveimur sálfræðinemum árið 2005. Það sem fyrir liggur í þessum niðurstöðum eru vísbendingar um að heildarfjöldi þeirra sem spila peningaspil hefur minnkað á meðan sá hópur sem stundar það að spila vikulega eða daglega hefur farið vaxandi. Hitt er að ég á erfitt með að sjá fyrir mér hvernig hægt er að hafa stjórn, takamarka peningaspilamennsku unglinga á netinu öðruvísi en einfaldlega að foreldrar fylgist með því.

Kolbrún Baldursdóttir, 5.3.2007 kl. 11:58

4 identicon

Kolbrún;

Póker er mjög vinsæll í dag á heimsvísu.  Hann hefur einnig verið vinsæll á meðal ungra drengja hérlendis, þar sem þeir spila aðallega í "raunheimi".   Fyrir 18 ára og eldri hafa t.d. verið haldin pókermót á veitingahúsum hér í bæ (telst ekki ólöglegt þar sem ekki er um fjárhættuspil að ræða - þú greiðir mótsgjald og þeir sem standa uppi sem sigurvegarar fá verðlaun, svipað og ef um bridge eða félagsvist væri að ræða).  

Hvað netið varðar, þá verður þú að hafa kreditkort til þess að geta tekið þátt í peningaspili.   Krakkar undir 18 ára hafa ekki slík kort og geta þ.a.l. ekki greitt fyrir þátttökuna.    Ég efast um að foreldrarnir láni þeim sín kreditkort og ég veit að það eru fá tilvik sem koma upp hjá greiðslukortafyrirtækjunum, þar sem krakkar hafa tekið kort foreldra sinna ófrjálsri hendi í þessu skyni.  

Nægt framboð er svo af póker-leikjum (sem og öðrum leikjum) á netinu sem kostar ekkert í og þ.a.l. bara lagt undir með "platpeniningum".    Ljóst er að margir ungir drengir eyða talsverðum tíma í slíkt, sem að sjálfsögðu getur farið yfir "strikið", en flokkast þá með annarri netfíkn, þ.e.a.s. ekki sem spilafíkn (e. impulsive gambling).

Ég er sammála þér hvað foreldrahlutverkið varðar, bæði hvað óhóflega netnotkun almennt snertir (hvort sem það eru leikir, MSN eða jafnvel blogg) og hvernig þau fara með peningana sína, þó svo að um sjálfafla fé sé að ræða.    Þarna er um mikilvægt atriði í uppeldinu að ræða.

Sigurður J. (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 17:45

5 identicon

Já, ég held að það væri nær fyrir Rauða krossinn, Landsbjörg og SÁÁ að loka spilakössunum í sjoppunum; þar byrja flestir ungir spilafíklar feril sinn, eins og fram kom í máli Júlíusar formanns SÁS, þegar umræðan stóð sem hæst um þessi mál í janúar sl.

Í staðinn ættu þessi félög að færa þetta yfir á netið, þar sem fólk yrði að skrá sig með kennitölu.   Þá væri hægt að stjórna því að aðeins 18 ára og eldri spiluðu og einnig nákvæmlega hvað hver getur eytt t.d. pr. dag, viku eða mánuð.   Tæknilega séð eru engin ljón í veginum þarna.

Bjarni Magnús (IP-tala skráð) 6.3.2007 kl. 16:32

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband