Ég er ekki komin í borgina til að láta fara vel um mig í þægilegum stól og hafa það huggulegt

Mér finnst áhugavert að lesa og heyra alls kyns skýringar bæði sérfræðinga og annarra á því sem gengið hefur á í borginni í vikunni. Sumar finnst mér alls ekki passa við það sem ég, sem borgarfulltrúi hef verið að upplifa síðustu daga og í sumar.

Varðandi þessi mál í vikunni höfum við í D M og F einfaldlega verið að bregðast við atferli og hegðun sem við erum ekki tilbúin að láta bjóða okkur og sem ég held að fæstir vildu láta bjóða sér. 

Í sumar hef ég nokkrum sinnum talað beint við meirihlutann um að vinna saman, vera meira saman í málum og á síðasta Velferðarráðsfundi stakk ég upp á að við stæðum saman að tillögu sem við vorum hvort eða er sammála um. 

Svo ég tali bara út frá sjálfri mér þá er ég þarna komin til að reyna að hafa áhrif til breytinga á því sem mér og Flokki fólksins finnst brýnt að breyta í borginni. Ég er ekki komin þarna til að hafa það huggulegt, fara í inniskóna og láta fara vel um mig í þægilegum stól. 

Síðustu árin hefur mér og fjölmörgum öðrum blöskrað aðgerðarleysi meirihlutans m.a. í málefnum er varða húsnæðismál og biðlista. Enda þótt margt hafi verið gert gott er einfaldleg líka mikið að sem við sem nú skipum meiri- og minnihluta verðum að laga. 

Ég hef verið með fjölmargar tillögur að úrbótum, margar unnar í samráði við borgarbúa og ég vil einfaldlega að þessar tillögur fái alvöru hlustun og skoðun hjá meirihlutanum og að einhverjar verði jafnvel að veruleika með eða án einhverra breytinga sem ég skil að stundum þurfi vissulega að gera á tillögum.

Meirihlutinn hefur völdin og hefur þess vegna allt í hendi sér hvaða tillögur okkar í stjórnarandstöðunni fá framgang og hvaða tillögum er ýtt út af borðinu.

Ein af mínum tillögum á síðasta borgaráðsfundi var einmitt um  samstarf og samvinnu til að hlutirnir gangi hraðar fyrir sig.  Mig langar bara virkilega að hjólin fari að snúast varðandi það sem brýnt er að bæta og breyta.

Hér koma tvær tillögur Flokks fólksins sem alls lagði fram sjö tillögur í borgarráð 16. ágúst. Þessar varða samstarf, samvinnu og skilvirkni.:

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að stýrihópur um þjónustustefnu á velferðarsviði hafi samráð við önnur svið sem málið varðar 

Lögð er til aukin og þéttari samvinna og samstarf milli sviða. Nýlega var stofnaður stýrihópur sem hefur það markmið að móta heildstæða stefnu um þjónustu sem velferðarsvið veitir þeim hópi sem vegna veikinda eða annarra orsaka þarfnast fjölþættrar aðstoðar, þ. á m. þaks yfir höfuðið. Fjölmargir einstaklingar hafa lengi verið í húsnæðisvanda og enn öðrum bíður gatan eða vergangur næstu mánuði. Á þessu þarf að finna lausn hið fyrsta. Í stýrihópinn hefur nú þegar verið vísað tillögum að húsnæðisúrræðum sem kalla á lóðarstaðsetningu eða ákvörðun um að kaupa íbúðir/eignir. Það er þess vegna lagt til að strax frá upphafi komi til náins samstarfs og samvinnu við þau svið sem nauðsynlega þurfa að koma að þessum málum svo sem skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem annast kaup á sértæku húsnæði og átaksverkefnum og umhverfis- og skipulagssvið sem útvegar lóðir og sér um skipulag (smáhýsi, búsetukjarnar). 

Takist viðkomandi sviðum að vinna að lausn húsnæðisvandans í Reykjavík í sameiningu má gera því skóna að framkvæmdir taki skemmri tíma en ella.

Og önnur um meiri skilvirkni en að mínu viti ganga hlutirnir oft allt of hægt í borginni

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar málsmeðferð, fyrirkomulag mála og fleira því tengt

1. Lagt er til að öllum erindum frá borgarbúum sem berast sviðum, ráðum, borgarfulltrúum og starfsmönnum Ráðhússins verði svarað innan 14 daga, ýmist með stuttu svari um móttöku eða efnislega. Í svari um að skeytið hefur verið móttekið komi fram að efnislegt svar berist eins fljótt og auðið er. 

2. Lagt er til að fyrirspurnum sem borgarfulltrúar leggja fram á fundum ráða eða nefnda sé svarað innan 20 daga

3. Lagt er til að mál (tillögur) borgarfulltrúa séu afgreidd innan mánaðar frá því að málið er lagt fram og komi þá aftur á dagskrá. 4. 

Lagt er til að skrifstofa borgarstjórnar haldi yfirlit yfir mál eftir því hverjir eru málshefjendur þeirra til að auka gagnsæi og rakningu mála. Um er að ræða yfirlit yfir tillögur, fyrirspurnir og önnur mál sem borgarfulltrúar leggja fram í borgarráði, borgarstjórn eða á nefndarfundum. Í yfirlitinu skal tiltekið á hvaða stigi málið er eða hvernig afgreiðslu það hefur fengið. Yfirlitið skal uppfært mánaðarlega og birt á heimasíðum borgarfulltrúa á ytri vef borgarinnar.

Flest önnur mál Flokks fólksins sem lögð hafa verið fram í sumar má finna á kolbrunbaldurs.is

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband