Allar skuldir beint til lögfræðinga í innheimtu

Ný regla hjá Félagsbústöðum er að allar skuldir eru sendar beint í innheimtu hjá lögfræðingum. Þetta kom fram í kynningu á fundi velferðarráðs í vikunni. Mér, borgarfulltrúa Flokks fólksins, hugnast ekki þessi breyting, finnst hún ekki manneskjuleg.
Ég lét bóka eftirfarandi:

Borgarfulltrúi þakkar kynninguna. Það sem vekur áhyggjur er að Félagsbústaðir hafa fallið frá því að gera samkomulag um greiðsludreifingu og greiðslufresti á skrifstofu félagsins. Ef fólk fer í skuld, stóra eða smáa er skuldin send kerfisbundið til lögfræðinga í innheimtu. Félagsbústaðir er fyrirtæki í eigu borgarinnar, sett á laggirnar til að halda utan um okkar verst settu borgarbúa. Enginn leikur sér að því að borga ekki. Margir hafa kvartað og stendur ógn af því Félagsbústaðir skuli siga á þá lögfræðingum eins og fólk orðar það sjálf. Oft er um að ræða fólk sem hefur staðið í skilum en eitthvað komið upp á. Dæmi er um að eins mánaða skuld er send umsvifalaust til t.d. Mótus. Það er umhugsunarefni að Félagsbústaðir skuli velja að beina skjólstæðingum í þessa átt í stað þess að gefa þeim tækifæri til að dreifa skuld sinni hjá Félagsbústöðum. Skjólstæðingar Félagsbústaða hafa lítið milli handanna og eru í viðkvæmri stöðu. Okkur í velferðarráði ber að hafa gagnrýna hugsun og taka allar ábendingar til greina og skoða með hvaða hætti hægt er að bæta starfsemina og gera enn betur í þágu notenda þjónustunnar. Reglur eru vissulega nauðsynlegar en þær þurfa að vera manneskjulegar, sanngjarnar og taka mið af aðstæðum hvers og eins.
 
Í kjölfarið kom ég með nýja tillögu:
Tillaga Flokks fólksins að fyrirtækið Félagsbústaðir haldi sjálft utan um greiðsludreifingu leiguskulda hjá leigjendum sínum og hætti alfarið að senda skuldir í innheimtu hjá lögfræðingum
Eins og fram kemur í kynningu hefur verið fallið frá því að gera samkomulag um greiðsludreifingu og greiðslufresti á skrifstofu félagsins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að Félagsbústaðir hætti við að falla frá því að gera samkomulag um greiðsludreifingu og greiðslufresti á skrifstofu félagsins heldur semji sjálft við leigjendur sem komnir er í skuld. Félagsbústaðir eiga að hugsa um skjólstæðinga sína fyrst og fremst en ekki styrkja lögfræðinga.
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband