Bylting á skólastarfi

Í dag á fundi borgarstjórnar mun ég leggja fram tillögu um að seinka skólabyrjun og hefja skóladaginn kl. 9:00

Tillaga Flokks fólksins að Skóla- og frístundarsvið eigi samtal við skólasamfélagið í Reykjavík með það að markmiði að leita að fleiri skólum sem eru tilbúnir að seinka skólabyrjun og hefja kennslu kl. 9:00

 

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela SFS (skóla- og frístundarsviði) að eiga samtal við skólasamfélagið í Reykjavík með það að markmiði að kanna hvort fleiri skólar eru tilbúnir til að seinka skólabyrjun og hefja kennslu kl. 9:00 í stað 8:00. Borgarfulltrúi gerir sér grein fyrir ákveðnum vanda sem gæti skapast hjá einhverjum foreldrum yngri barna sem þurfa sjálfir að mæta í vinnu kl. 8:00.  Hann væri þó hægt að leysa með því að bjóða upp á morgungæslu milli kl. 8:00 og 9:00 fyrir þau börn sem þess þurfa.  Einhverjir skólar hafa nú þegar seinkað skólabyrjun t.d. um 30 mínútur. Sumir skólar hafa einnig breytt lengd kennslustunda frá 40 mínútum yfir í 60 mínútur.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur rætt við skólastjórnendur um reynslu þeirra á seinkun skólabyrjunar og segja þeir hana góða. Börnin komi hressari í skólann og  séu virkari. Það sé rólegra yfirbragð á nemendum og minna álag á kennurum. Breytingin er  talin hafa verið til  góðs fyrir alla.
Með því að hefja skólastarf kl. 9:00 gefst kennurum tækifæri áður en kennsla hefst til að sinna t.d. undirbúningsvinnu eða foreldrasamskiptum sem þeir ella þyrftu að sinna í lok dags. Seinkun/breyting á upphafi vinnutíma kennara gæti einnig dregið úr umferðarálagi í borginni á háannatíma.

 

Greinargerð

Mikilvægt er að skoða heildarmyndina ef seinka á byrjun skóladags. Hvað varðar börnin þá eiga mörg börn erfitt með að vakna snemma sérstaklega þegar myrkur er úti. Alkunna er að flestum unglingum þykir gott að sofa á morgnana. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að unglingar á Íslandi fara seinna að sofa en unglingar þjóða sem við berum okkur saman við. Þeir unglingar sem fara mjög seint að sofa finnst eðli málsins samkvæmt erfitt að vakna á morgnana. Svefntími barna og sérstaklega unglinga er efni í aðra umræðu og sú umræða þyrfti að snúast um hvernig hægt er að styrkja foreldra í að taka á svefnmálum barna sinna. Það er umræða sem tengist ekki hvað síst snjalltækjanotkun barna og unglinga. Vitað er að snjalltækjanotkun barna að kvöldlagi og fram á nótt er að koma í veg fyrir að þau fari tímalega að sofa. Það er mikilvægt að skólarnir bjóði þeim foreldrum sem telja sig þurfa upp á leiðsögn um snjallsíma/samfélagsmiðlanotkun barna sinna að kvöldlagi.

Ávinningur af seinkun á upphafi skóladags er minni ef barn fer of seint að sofa og fær þar að leiðandi ekki nægjan svefn. Í þeim skólum sem kennsla hefst kl. 8.30 er nokkuð um það að börn komi engu að síður of seint sem gæti verið merki þess að betra er að byrja síðar eða kl. 9:00.
Hvað sem þessu líður er æskilegt að svefn unglinga í tengslum við  byrjun skóladags verði rannsakaður nánar. Áhugavert væri að skoða hvaða áhrif, ef einhver, seinkun upphafs skóladags hefur á lífsstíl barnanna og þar með talið svefnvenjur þeirra.

Það var mat eins skólastjórnanda sem borgarfulltrúi ræddi við sem hefur góða reynslu af seinkun skólabyrjunar að miklu máli skiptir hvernig heimilislíf og almenn rútína fjölskyldunnar er. Svefn er einn stærsti þáttur í lýðheilsu nemenda. Einhver kynni að óttast að ef skólabyrjun er seinkað að þá munu börnin fara seinna að sofa sem því nemur. Í samtali við skólastjórnendur töldu flestir að það yrði ekki raunin. Dæmi, ef barn fer að sofa kl. 2:00  fari það ekki endilega að sofa kl.  3:00 af því að það á að mæta klukkutíma seinna í skólann. Börn eins og fullorðnir hafa ákveðin „norm“ bæði sem börn, unglingar og síðar sem fullorðnir einstaklingar.  Útivistartíminn er enn ein breytan sem áhugavert væri að skoða í tengslum við svefn unglinga.
Niðurstaða samtal við þá sem hafa reynslu af því að hefja skóladaginn seinna er sú að almennt muni það  lengja svefntíma barnanna.

Ef hefja á kennslu kl. 9:00 í stað 8:00 eða 8.30 þarf að finna lausnir á ýmsu öðru. Áður hefur verið talað um að bjóða þarf upp á gæslu milli 8:00 og 9:00. Skoða þarf einnig hvort hægt væri að þjappa skóladagskránni meira saman til þess að nemendur séu ekki búnir seinna að degi til og komist þá seinna á íþróttaæfingar eða í annað tómstundanám.  Einnig þarf að finna leiðir til að stytta vinnutíma kennara að lokinni kennslu.  Mikilvægt er að kanna afstöðu og viðhorf foreldra til seinkunar skólabyrjunar t.d. hvort það myndi henta þeim verr að vita af barninu/unglingum heima eftir að foreldrar eru farnir til vinnu?

Mikilvægt er að heyra raddir kennara og hvernig þeir sjá þennan tíma að morgni til?  Ef hann á ekki að vera vinnutími (t.d. vegna sveigjanleika í starfi og mögulega styttri vinnuviku sem nú er til umræðu),  hvernig eiga þá kennarar að ná að ljúka vinnu sinni fyrir hefðbundinn fjölskyldutíma?

Eins og hér hefur verið rakið er að mörgu að huga í sambandi við að seinka byrjun skóladags. Nú þegar eru fordæmi fyrir að hefja kennslu ýmist kl. 8:30 eða 9:00 með góðum árangri. Sú tillaga sem hér er lögð fram er að skólabyrjun hefjist kl. 9:00. Það er mat flestra þeirra sem starfa í skólum sem hefja kennslu seinna að seinkunin hafi leitt til byltingar á skólastarfinu. Það er því full ástæða til að skóla og frístundarsvið kanni með markvissum hætti hvort fleiri skólar sýna áhuga á að hefja skóladaginn kl. 9:00

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband