Tillaga um sérstakan stuðning fyrir börn alkóhólista vísað frá í borgarstjórn

Börn alkóhólista er hópur barna sem hvorki heyrist hátt í né mikið er rætt um. Ótal margar breytur skjóta upp kollinum þegar kemur að þessum hópi. Hvað er þetta stór hópur? Hvernig gengur að ná til hans og hver er þörfin? Hver eru helstu einkennin og hverjir sjá þessi einkenni helst?

Enda þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar hvað varðar fræðslu og þekkingu um alkóhólisma er enn þöggun og fordómar í garð foreldra sem eru alkóhólistar og barna þeirra. Börnin reyna því oft að leyna vandanum eða afneita honum. 

Hvað er alkóhólismi?

Áfengi er löglegur vímugjafi fyrir fullorðna einstaklinga sem aðskilur það frá  ólöglegum vímugjöfum. Sjúkdómurinn alkóhólismi er þrískiptur sem hefur áhrif á vitsmuni, líkama og sál. Eitt af einkennum sjúkdómsins er stjórnlaus löngun í áfengi. Læknavísindin segja alkóhólisma vera sjúkdóm sem hægt er að halda í skefjum með bindindi en ekki lækna. Alkóhólismi er stigvaxandi sjúkdómur.  Það bjóðast mörg meðferðarúrræði fyrir alkóhólista í dag. Alkóhólismi er ekki lengur vonlaust ástand ef sjúkdómurinn er viðurkenndur og meðhöndlaður.

Áhrif og afleiðingar

Börn foreldra sem eru ánetjuð vímuefnum af hvers lags tagi búa við viðvarandi óöryggi, ótta og álag og axla ábyrgð langt umfram aldur og þroska. Áhrif og afleiðingar eru bæði skammtíma og langtíma. Sködduð sjálfsmynd og meðvirkni eru meðal alvarlegustu afleiðinganna. Meðvirkni er sjúkdómur sem herjar á aðstandendur alkóhólista og eru börn þar engin undantekning.

 

Meðvirkni getur leitt til þess að barn á í erfiðleikum með að bregðast við áreiti samkvæmt innstu sannfæringu. Dæmi um meðvirkni í fjölskyldu alkóhólistans er þörfin að láta allt líta vel út á yfirborðinu og þegja yfir hinum raunverulega vanda. Barn sem elst upp við alkóhólisma foreldris/foreldra getur átt erfitt með að meta og lesa í samskipti og  aðstæður og hefur færri bjargráð til að grípa í. Gott stuðningsnet barns, ráðgjöf og fræðsla getur skipt sköpum þegar kemur að neikvæðum áhrifum og afleiðingum þess að alast upp eða umgangast foreldri sem glímir við alkóhólisma.

Sérhæft stuðningsúrræði fyrir börn alkóhólista

Ég hef lagt fram tillögu í borgarstjórn þess efnis að borgarstjórn samþykki að setja á stofn stuðningsþjónustu eyrnamerkta börnum foreldra í neyslu. Mikilvægt er að öll börn í þessum aðstæðum hafi aðgang að stuðningsþjónustunni án tillits til hvort barnið sjálft sé metið í áhættuhópi, hvort það búi hjá foreldrinu sem glímir við áfengisvanda eða sé í umgengni við það. Ekki á að vera þörf á sérstakri tilvísun í úrræðið heldur sé látið nægja að forsjáraðili óski eftir stuðningi og meðferð fyrir barn sitt eins lengi og það þarf og vill þiggja. Stuðningurinn myndi vera í formi sálfræðiþjónustu, persónulegrar ráðgjafar, hópastarfs og fræðslu. Markmiðið væri m.a. að hjálpa börnum alkóhólista að hlúa að eigin sjálfsmynd, rækta félagslega færni og fræðast. Markmiðið væri einnig að hjálpa börnunum að greina á milli fíknisjúkdómsins og persónunnar sem glímir við hann. Stuðningsþjónustunni er ætlað að veita börnunum viðurkenningu á stöðu sinni og aðstæðum í fjölskyldum þar sem áfengi- og almennur neysluvandi er til staðar. Foreldrar ættu einnig að geta fengið ráðgjöf og fræðslu eftir atvikum.

Sérhæft stuðningsúrræði fyrir börn alkóhólista skilar sér margfalt. Barn sem fær tækifæri við öruggar aðstæður til að tjá sig um neysluvandamál foreldris getur losað um djúpstæða vanlíðan og áhyggjur. Börn sem alast upp við þessar aðstæður trúa því stundum að þau beri ábyrgð á neyslu foreldris með einhverjum hætti. Fræðslan skiptir barn miklu máli og sú vitneskja að neysluvandi foreldrisins sé ekki á ábyrgð þess að neinu leyti. Samtal um áfengisvanda foreldrisins getur stuðlað að því að barn losni við tilfinningar á borð við skömm og sektarkenndar. Slík leiðrétting á íþyngjandi tilfinningum og hugsunum er börnum mikill léttir og markar jafnvel nýtt upphaf í lífi þeirra.

 

Sambærileg þjónusta sem hér er lögð til að Reykjavík stofnsetji er veitt af SÁÁ. SÁÁ hefur unnið gott starf með börnum alkóhólista í mörg ár en árangursmat liggur þó ekki fyrir. Vinna SÁÁ fríar ekki Reykjavíkurborg frá skyldum sínum gagnvart börnum alkóhólista. Vissulega hefur þessum börnum verið hjálpað í Reykjavík. Það hefur samt ekki komið fram hvað hefur verið gert nákvæmlega fyrir þennan hóp og hversu mikið. Reykjavíkurborg hefur alla burði til að stofna eigið úrræði fyrir börn alkóhólista og skipuleggja metnaðarfullt stuðningsúrræði þeim til hjálpar.

Grein birt í Morgunblaðinu 20.11.2019

Hér er bókun Flokks fólksins í málinu:

Lagt var til að borgin setji á laggirnar sértækt úrræði fyrir börn alkóhólista og auðvitað öll börn sem eiga foreldra sem glíma við neysluvanda. Eina sérhæfða úrræðið sambærilegt þessu sem lagt er til hér býðst hjá SÁÁ. Vissulega hefur þessum börnum verið hjálpað í Reykjavík þótt ekki sé vitað í hvað miklum mæli né hversu markviss vinnan er.  Reykjavíkurborg hefur alla burði til að stofna sérhæft metnaðarfullt úrræði fyrir börn alkóhólista þeim til hjálpar. Tillögunni um sérhæft úrræði fyrir þennan hóp var ekki vel tekið sem slíkri af formanni velferðarráðs sem lagði til að henni yrði vísað frá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill í þessu sambandi nefna að í  vikunni skrifaði barnamálaráðherra og fram­kvæmda­stjóri UNICEF á Íslandi, undir  samn­ing um stuðning fé­lags­málaráðuneyt­is­ins við inn­leiðingu á verk­efn­inu Barn­væn sveit­ar­fé­lög. Með samn­ingn­um er stefnt að því að ís­lensk stjórn­völd og öll sveit­ar­fé­lög á Íslandi hafi á næsta ára­tug hafið mark­vissa inn­leiðingu Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna og tileinki sér barna­rétt­inda­nálg­un í verk­efn­um, stefnu­mót­un og ákvörðunum.  Þessi tillaga um að borgin setji á laggirnar sérstakt úrræði fyrir börn alkóhólista samrýmist  vel verkefninu um Barnvæn sveitarfélög.

Hér er um að ræða eitt verkfæri í verkfærakistu innleiðingar  Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélaga. Borgarmeirihlutinn þarf nauðsynlega að fara að setja börn og þarfir þeirra, þ.á.m. þessara barna í enn meiri forgang en gert hefur verið.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband