Tíðar ferðir valdhafa borgarinnar erlendis tómt bruðl

Tugum milljónum árlega er varið í ferðir borgarstjóra, aðstoðarmanns hans, borgarfulltrúa og miðlægrar stjórnsýslu til útlanda ýmist á fundi, ráðstefnur eða í skoðunarferðir. Á sama tíma er þessi meirihluti sífellt að tala um losun gróðurhúsalofttegunda og að draga verði úr mengun. Í þessu tali þeirra er sjónum venjulega beint að bílaumferð og bíleigendum en minna fer fyrir umræðu um mengun og losun eiturefna út í andrúmsloftið á stærri mælikvarða.

Í borgarráði líður varla sá fundur að meirihlutinn samþykki ekki ferð borgarstjóra með fríðu föruneyti. Slík ferð þriggja aðila var samþykkt á síðasta fundi og skulu þeir fara á loftlagsráðstefnu til Madrid. Ég gat ekki setið á mér að bóka um þetta og lýsa því yfir að þetta væri bruðl og tal um kolefnisspor væri hreinn tvískinnungsháttur.

Mér finnst þetta hin mesta sóun og þurfi að senda einstakling í eigin persónu nægir að senda einn. Mér finnst lítið að marka allt þetta tal þessa meirihluta um kolefnisspor á sama tíma og ekkert lát er á ferðum valdhafa borgarinnar erlendis.

Hvar er Skype? Hvar er fjarfundatæknin? 

Hvað varðar skoðunarferðir fara oft margir af fagsviði eða úr fagráði. Ég spyr mig hverju þetta skilar? 
Engu fyrir borgarbúa svo mikið er víst. Þetta er jú gaman fyrir þann sem fer því reynslan og jákvæðar minningar frá skemmtilegri skoðunarferð í boði borgarbúa eru jú hans og hans eins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband