Lenska að senda framkvæmdastjóra heim en stjórn fríar sig ábyrgð
23.1.2020 | 14:39
Ber ekki stjórn fyrirtækis höfuðábyrgð á rekstri þess? Í annað sinn á stuttum tíma er framkvæmdastjóri í fyrirtæki í eigu borgarinnar sendur heim en stjórnarformaður situr sem fastast og stjórnin öll ef því er að skipta. Þetta mátti sjá hjá Félagsbústöðum en þar pakkaði framkvæmdastjóri saman en stjórnarformaður til langs tíma sat sem fastast og situr enn. Nú er sama upp á teningnum hjá Sorpu.
Skýrsla innri endurskoðunar er komin út og er svört. Ekki ætla ég á þessu stigi að setja mig í dómarasæti en mér finnst skjóta skökku við að framkvæmdarstjóri taki alla ábyrgð á mistökum, klúðri eða hvað eina sem þarna hefur verið í gagni á meðan stjórn fríar sig ábyrgð.
Í morgun lagði ég fram eftirfarandi tillögu í borgarráði:
Flokkur fólksins leggur til að stjórnarmaður Reykjavíkur í Sorpu víki sæti úr stjórn og ætti í raun öll stjórnin að segja af sér. Henni hefur mistekist hlutverk sitt.
Enn ein svört skýrsla innri endurskoðunar hefur birst á þessu kjörtímabili sem varla er hálfnað og snýr nú að stjórnarháttum Sorpu. Í skýrslunni koma fram ástæður framúrkeyrslu sem varð á áætluðum framkvæmdakostnaði vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi og móttökustöðvar í Gufunesi. Framkvæmdarstjórn, undir stjórn stjórnar Sorpu hafði lagt til að tæpum 1,4 milljörðum króna yrði bætt við fjárhagsáætlun fyrirtækisins vegna næstu fjögurra ára. Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar gerði jafnframt úttekt á stjórnarháttum félagsins og fann þar margt athugavert og jafnvel ámælisvert. Að sögn framkvæmdastjóra höfðu hvorki stjórnarformaður né aðrir stjórnarmenn frumkvæði að því að afla upplýsinga um heildarkostnað á hverjum tíma til að gera viðeigandi samanburð við áætlanir. Í kjölfari áfellisdóms sem stjórnin fær hlýtur stjórnarmaður Sorpu að víkja úr stjórn? Það er varla hægt að henda allri ábyrgðinni á framkvæmdarstjórann? Ábyrgðin hlýtur fyrst og fremst að vera stjórnarinnar í þessu máli. Stjórn Sorpu reynir að fría sig ábyrgð m.a. með því að segja að hún hafi kallað eftir úttekt innri endurskoðunar.
Greinargerð
Í skýrslunni eru margháttaðar athugasemdir. Á meðal þess sem fram kemur í skýrslunni að stýrihópur eigendavettvangs og rýnihópur stjórnar Sorpu, sem áttu að hafa eftirlit með verkefninu, hafi reynst lítt virkir. Þá hafi framvinduskýrslur framkvæmdastjóra til stjórnar vegna byggingar GAJA verið ómarkvissar og stundum með röngum upplýsingum, auk þess sem skýrslugjöf hefði átt að vera reglubundnari. Í skýrslu innri endurskoðunar segir m.a.: Fullnægjandi upplýsingagjöf og misvísandi orðanotkun í skýrslum til stjórnar var sérstaklega óheppileg þar sem stjórn Sorpu var að meirihluta skipuð nýjum fulltrúum eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 auk þess sem nýr formaður stjórnar hafði ekki verið áður í stjórn.
Varla er búið að gleyma því að stjórn Sorpu óskaði nýlega eftir að Reykjavík veiti samþykki sitt fyrir lántöku vegna mistaka sem gerð voru hjá Sorpu. Sótt var um 990 milljóna króna lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Engar haldbærar skýringar voru gefnar fyrir því að það vantaði rúman 1.6 milljarð inn í rekstur Sorpu. Stjórnarmeðlimur borgarinnar í Sorpu var bara pirruð á minnihlutanum að samþykkja þetta ekki möglunarlaust í borgarstjórn. Meirihlutinn í borginni spurði einskis, gekk bara þegjandi í ábyrgð fyrir láni af þessari stærðargráðu. Reykjavík sem meirihlutaeigandi situr í súpunni þegar kemur að þessum byggðasamlögum. Borgin tekur mesta skellinn á meðan hin sveitarfélögin sigla lygnari sjó. Flokkur fólksins bar fram tillögu um að borgin skoði fyrirkomulag byggðasamlaga með tilliti til lýðræðislegra aðkomu borgarbúa að þeim. Hún var ekki samþykkt. Í ítrekuðu klúðri Sorpu kristallast þetta. Ef borgin ætlar að halda áfram að vera í byggðasamlagi þá þarf fjárhagsleg ábyrgð Reykjavíkur á rekstri byggðasamlaga að vera meiri en ábyrgð annarra sveitarfélaga þá á Reykjavík jafnframt að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við þá ábyrgð. Stjórnarmaður borgarinnar þarf einnig að vera manneskja sem er laus við meðvirkni og er tilbúin að spyrna við fótum sé eitthvað rugl sýnilega í gangi.
Tillögunni var frestað
Það sem svo gerist er að hún er tekin fyrir næst og felld eða vísað frá