Að miða niðurgreiðslu við fæðingardag er ósanngjarnt

Ég lagði fram tillögu í borgarráði 14. maí að niðurgreiðsla vegna dagforeldra miðist við afmælismánuð barns en ekki afmælisdag. Ekkert hefur spurst af henni. Ég bað fjármálastjóra að taka saman fyrir mig hver yrði kostnaðurinn við þessa breytingu. Hann vísaði fyrirspurninni til skóla- og frístundaráðs en þaðan hefur heldur ekki heyrst múkk.
 
Þetta skiptir heilmiklu máli ef barn er fætt seint í mánuðinum.
 
Hér er tillagan:
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að niðurgreiðsla vegna dagforeldra miðist við afmælismánuð barns en ekki afmælisdag
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að niðurgreiðsla vegna dagforeldra miðist við afmælismánuð barns en ekki afmælisdag. Það e.a.s. að niðurgreiðslan miðist við mánuðinn sem barn er níu mánaða, (sex mánaða hjá einstæðu foreldri), en ekki afmælisdag barnsins.
 
Fordæmi eru fyrir þessu í öðrum sveitarfélögum í nágrenni Reykjavíkur sem miða niðurgreiðslu vegna dagforeldris við fæðingarmánuð barns en ekki fæðingardag. Að miða niðurgreiðslu við fæðingardag er ósanngjarnt. Foreldrar þeirra barna sem fædd eru seint og jafnvel síðustu daga mánaðar sitja ekki við sama borð og foreldrar barna sem eru fædd fyrr í mánuðinum. Samkvæmt þessari tillögu skulu framlög hefjast í þeim mánuði sem barn er 9 mánaða en ekki skal miða við afmælisdag barns. Ástæða er sú að ef barn er fætt seint í mánuðinum fá foreldrar enga niðurgreiðslu á þeim mánuði. Um þetta munar hjá langflestum foreldrum. R20050146
 
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband