Ég vil ekki fara í skólann
10.3.2022 | 08:56
Sniðganga skóla eða skólaforðun er skilgreind sem meðvituð eða ómeðvituð hegðun sem barn eða unglingur sýnir þegar mæta á í skólann. Hegðunin birtist í erfiðleikum með að sækja skóla hvort sem um er að ræða heilan skóladag eða hluta úr degi í lengri eða skemmri tíma (Kearney, Albano 2007).
Vísbendingar eru um að skólaforðun sé vaxandi vandamál og erfitt getur verið að ná tökum á alvarlegustu tilvikunum. Rannsóknirnar sýna að skólaforðun hefst mun fyrr en á unglingastigi og á sér oft rætur í leikskóla. Miklar fjarvistir frá skóla geta verið kvíðavaldandi fyrir börn og unglinga og valdið því að sniðgangan ágerist enn frekar þegar þau missa ítrekað úr námi.
Skólaforðun kemur til vegna þess að barninu líður illa í skólanum. Með því að forðast skólann er barnið oftast að senda skilaboð þess efnis að eitthvað í skólanum valdi svo mikilli vanlíðan og streitu að það geti ekki hugsað sér að sækja skólann.
Ástæður skólaforðunar geta verið margvíslegar. Nefna má erfiðleika í námi, vanda varðandi vitsmunalegan þroska eða aðrar raskanir, greindar eða ógreindar. Um getur verið að ræða félagslega þætti, að barni sé strítt, það lagt í einelti, að því standi ógn af einhverju á leið í eða úr skóla eða að það eigi í samskiptaerfiðleikum við einhvern í skólanum. Stundum er um að ræða samspil margra þátta. Sum börn glíma við kvíða og félagskvíða sem veldur því að þau vilja ekki fara út eða blanda geði við aðra krakka.
Þörf á vitundarvakningu
Auka þarf vitund foreldra um þetta vandamál með fræðslu. Umfram allt þarf að komast að raun um með barni, foreldrum og kennara hvað það er sem barnið er að forðast í skólanum. Finna þarf hina undirliggjandi ástæðu og leysa úr henni með öllum tiltækum ráðum. Því langvinnari sem vandinn er því erfiðari er hann viðureignar. Kvíðinn vex og úrvinnsla verður flóknari og erfiðari þegar fram líða stundir. Börn, sem eru hætt að mæta í skólann, ná sér ekki öll aftur á strik.
Dæmi um ástæður skólaforðunar geta einnig verið af þeim toga að barnið taki meðvitaða ákvörðun um að mæta ekki vegna þess að eitthvað annað áhugaverðara stendur því til boða að gera. Barnið velur e.t.v. að vera heima við tölvu, eigi það þess kost, fremur en að fara í skólann. Öll mál af þessu tagi þarf að vinna á einstaklingsgrunni. Fyrirfinnist undirliggjandi ástæða þarf að taka á henni.
Samræmd viðmið til að greina skólaforðun
Árið 2015 tóku grunnskólar Breiðholts í notkun samræmt skólasóknarkerfi (samræmdar viðmiðunarreglur) í 1.-10. bekk til að fylgjast með fjölda mála af þessum toga og vinna markvisst gegn skólaforðun. Nokkru síðar var hvatt til þess að önnur hverfi borgarinnar gerðu slíkt hið sama. Um var að ræða viðmiðunarkerfi sem sýndi hættumerki, s.s. rauð flögg, þegar skólasókn færi niður fyrir ákveðin skilgreind viðmiðunarmörk. Í kerfinu er ekki gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, vegna leyfa, veikinda eða óleyfilegra fjarvista.
Viðmiðunarflokkunum er skipt í þrjú stig eftir alvarleika. Langvinn, alvarleg skólaforðun á við þegar hún hefur staðið yfir lengur en eitt ár og flokkast þá sem stig 3. Þegar á 3. stig er komið er þörf á sértækri íhlutun og nauðsynlegt getur verið að vísa málinu til Barnaverndar. Þetta á við um nemendur sem hafa ekki svarað þeim inngripum sem hafa verið reynd og vandinn því orðinn langvinnur og alvarlegur.
Hvernig hafa viðmiðin nýst?
Samræmdar skólasóknarreglur eða miðlægt viðmiðunarkerfi hefur nú verið við lýði í fjögur ár og er hugsað til að greina á milli ástæðu fjarvista. Ekki hafa allir skólar þó stuðst við kerfið. Vel kann að vera að stjórnendum einhverra skóla finnist erfitt að ekki skuli vera gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, s.s. vegna veikinda annars vegar og óleyfilegra fjarvista hins vegar.
Ég tel tímabært að skoða með markvissum hætti hvort og þá hvernig hinar samræmdu viðmiðunarreglur um skólasókn hafi nýst til að greina á milli ástæðu fjarvista hafi nýst. Hinn 15 mars næstkomandi mun ég leggja fram tillögu í borgarstjórn um að gerð verði úttekt á hvernig reglurnar hafa nýst þeim grunnskólum sem stuðst hafa við þær.
Lífið eftir Covid
Nú er skólasókn vonandi að komast í eðlilegt horf eftir tveggja ára skeið sem litast hefur af Covid með tilheyrandi fylgifiskum. Leiða má líkur að því að skólaforðun hafi aukist með faraldrinum og fleiri börn hafi bæst í þann hóp sem forðast skólann. Þeim börnum sem leið ekki vel í skólanum fyrir Covid, líður kannski ekki miklu skár nú. Um þessar mundir bíða rúmlega 1800 börn eftir fagaðstoð, m.a. sálfræðinga, og biðlistinn lengist með hverri viku. Settar hafa verð 140 m.kr. til að fjölga fagfólki hjá skólaþjónustunni sem eru því miður aðeins dropi í hafið. Betur má ef duga skal.
Grein: Skólaforðun. Vaxandi vandamál?
Birt í Morgunblaðinu 10. mars. 2022