Einelti á vinnustað vísbending um stjórnunarvanda
6.8.2007 | 20:48
Fjölmiðlar hafa fjallað um einelti sem kraumað hefur í einhvern tíma á einum þekktum vinnustað hér í borg.
Birtingarmyndir eineltis á vinnustað eru margar. Í hnotskurn hefur þetta fyrirbæri að gera með það að einn eða fleiri taka upp á því að baktala, rægja, vera með tilefnislausar aðfinnslu og neikvæðar athugasemdir í garð einhvers eins aðila. Orsakir eru margslungnar, engan veginn einhlítar og eflaust mismunandi eftir eðli og aðstæðum sérhvers vinnustaðar.
Kjarni málsins er að sá aðili sem fyrir þessu verður, skynjar oftar en ekki lítið samhengi í árásunum. Hann spyr sjálfan sig: Hvað hef ég gert? Hvað er eiginlega með mig? Hvernig á ég að vera til þess að þetta ástand hverfi?
Allt kemur fyrir en ekki, ástandið bara versnar.
Ef um hóp er að ræða sem hefur krunkað sig saman undir forystu eins eða tveggja aðila þá fer, alla vega til að byrja með, undirróðurinn og baktjaldarmakkið yfirleitt fram án vitundar þess sem verið er að tala um. Hópurinn magnast og reynir að fá fleiri í lið með sér. Vegna þess að um hóp er að ræða (3 eða fleiri) er auðvelt fyrir hvern og einn í hópnum að leita réttlætingar. Illskan gagnvart þessum eina aðila sem oft heltekur hópinn getur gengið svo langt að samúð og samkennd þverr með öllu og andúð gagnvart þessum sem eineltið beinist að verður algert. Í kjölfarið kemur hundsun. Þolandinn upplifir sig ósýnilegan og finnur að hópnum stendur slétt á sama um hvernig honum reiðir af.
Hverjir eru gerendur?
Þeir sem eru frumkvöðlar að einelti leitast við að safna saman í kringum sig fólki til að taka með sér þátt í að að ráðast að einhverjum einu sem þeir telja einhverra hluta vegna ómögulegan eða telja sig eiga harma að hefna. Gerendur eru gjarnan fólk sem hefur lágt sjálfsmat, er óánægt með sig sem manneskjur og/eða sem fagaðila, gengur illa í sínu einkalífi og hefur jafnvel sjálft verið fórnarlamb eineltis.
Í sumum tilvikum er gerandinn aðeins einn. Það stoppar hann þó ekki í að vera með eilífar, neikvæðar aðfinnslur, skítkast og niðurlægjandi athugasemdir sem skjótast út leynt og ljóst við möguleg og ómöguleg tækifæri. Markmiðið er að brjóta þann sem þetta beinist að niður, helst svo rækilega að hann/hún hættir störfum.
Hvar er yfirmaðurinn?
Ef svona ástand sprettur upp og fær að þrífast um einhvern tíma er mál að skoða stjórnunarhætti vinnustaðarins. Ef yfirmaður/menn eru ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að skynja ástandið eða neita meðvitað eða ómeðvitað að viðurkenna vandann þá er ekki von til þess að mál sem þetta leysist.
Dæmi eru um að yfirmenn falli í þá gryfju að kalla þann sem fyrir þessu verður á teppið og fullyrða að þar sem svo margir eru óánægðir með hann/hana, hlýtur vandinn að liggja hjá viðkomandi.
Því sé e.t.v. best að í stað þess að fara að takast á við reiða hópinn, þá sé ráð að þolandinn hætti störfum. Gildir þá einu hversu góður fagmaður viðkomandi er, eða nokkuð annað, ef því er að skipta.
Mörg mál af þessu tagi lykta einmitt með þessum hætti. Fyrir þann sem fer úr starfi á þessum forsendum bíður fátt annað en eymd. Sjálfstraustið er í molum. Viðkomandi er fullur efasemdar um sjálfan sig rétt eins og manneskja sem hefur verið beitt langvarandi heimilisofbeldi.
Einkennin er flest þau sömu.
Ofangreind lýsing er ein af mörgum birtingarmyndum eineltis á vinnustað og er einungis til umhugsunar. Vinnustaðareineltið sem fjölmiðlar hafa fjallað um þessa helgi er samkvæmt nýjustu fréttum loks í farvegi.
Spyrja má í því sambandi: Hvað þurfti til?
Hugsanlegt svar: Opinbera umræðu eða hvað?
Hvað margir hafa þjáðst og hverjar eru afleiðingarnar liggur hins vegar ekki fyrir í þessu tilviki frekar en mörgum öðrum sambærilegum.
Athugasemdir
Er hugsanlegt að í þessu máli sem mest er rætt um í fjölmiðlum þessa dagana, sé það stjórnandinn sem er fórnarlambið? Dæmi þess eru vel þekkt, stjórnandinn liggur oft betur við höggi/baktali og þesskonar einelti heldur en flestir aðrir.
Marta B Helgadóttir, 7.8.2007 kl. 02:51
>Góð athugasemd Marta.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 7.8.2007 kl. 17:02
Heyr heyr...
Hvort sem það er stjórnadinn eður ei, þá er einelti gjörsamlega óþolandi og á ekkert frekar að líðast meðal fullorðinna...
Bjarney Hallgrímsdóttir, 7.8.2007 kl. 23:11
Ef það er stjórnandinn sem er fórnarlambið,hvers vegna eru undirmenn að hætta störfum !!? Einelti er algjörlega óþolandi fyrirbrigði og það er skylda framkvæmdastjóra að ganga í málið og gera það sem þarf .Ef hann gerir það ekki er hann ekki starfi sínu vaxinn. Það er einmitt spurningin í þessu máli.
Snorri Hansson, 8.8.2007 kl. 14:48