Ræða ekki einstaklingsmál í fjölmiðlum

Ég heyrði í kvöldfréttum í gærkvöldi viðtal við konu sem sagði frá því að henni hafi verið sagt upp störfum hjá fyrirtækinu Alcoa þegar hún var á sinni 9. vakt.
Konan rakti söguna eins og hún leit út frá hennar bæjardyrum. 
Þegar leitað var eftir viðbrögðum hjá Alcoa var sagt eitthvað á þá leið:

„Við ræðum ekki einstaklingsmál í fjölmiðlum“

Það eru ákveðnar stéttir, t.a.m. heilbrigðisstéttir sem mega ekki ræða einstaklingsmál á opinberum vettvangi vegna þess að þær eru bundnar þagnarskyldu.
Er því þannig farið hjá Alcoa?

Í þessu tilfelli hefur fyrrverandi starfsmaður komið fram í fjölmiðlum og lýst slæmri meðferð á sér af hálfu þessa fyrirtækis. Er því ekki eðlilegt að Alcoa geri slíkt hið sama og skýri mál sitt þannig að þeir sem hlusta geti lagt mat á hvað raunverulega átti sér stað þarna?

Að afgreiða málið með því að segja  „við ræðum ekki einstaklingsmál í fjölmiðlum“ eru viðbrögð sem eru til þess fallin að gefa í skyn að það hafi nú eitthvað ekki verið í lagi með þennan starfsmann og því hafi orðið að segja honum upp. Látið er að því liggja að með því að ræða ekki málið í fjölmiðlum sé fyrirtækið að gera þessum fyrrum starfsmanni sínum einhvern greiða, eða þannig.

Með því að skilja málið eftir í þessum farvegi nýtur fyrirtækið frekar vafans en fyrrverandi starfsmaðurinn síður.  Eitthvað með hana er skilið eftir liggjandi í loftinu.  Hættan er á að sumt fólk sem heyrir þetta hugsi eitthvað á þá leið að konan hafi verið einhver vandræðagripur sem fyrirtækið varð að losa sig við en hugsi e.t.v. síður að fyrirtækð vilji ekki tjá sig þar sem það braut gegn konunni.

Með því að neita að tjá sig þegar fjölmiðlar leita eftir skýringum getur það líka vakið upp grunsemdir að fyrirtækið kunni að hafa eitthvað að fela. Með því að nota þögnina vill fyrirtækið áfram fá að njóta vafans. 

Svo fremi sem Alcoa er ekki bundið þagnarskyldu gagnvart starfsmönnum sínum núverandi eða fyrrverandi ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að það komi fram á sjónarsviðið með útskýringar. Annars verður svona fjölmiðlaumfjöllun eins og einhvers konar ágiskunarleikur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hansson

Atvinnuveitandi útlistar það ekki fyrir fjölmiðlum hvers vegna einhverri persónu er sagt upp störfum. Það væri alveg út í hött. En af því sem konan segir er hægt að lesa í eitthvað af málavöxtum. Hún fann sig alls ekki á staðnum og gat því ekki lært til verka. Hún var ekki búin að ná því eftir níu daga. ????

Snorri Hansson, 27.10.2007 kl. 12:18

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Mér finnst að Alcoa eigi að þegja í þessu máli, vinnuveitendur eiga EKKI að tjá sig opinberlega um starfsmenn, það mundi bara enda í bulli.  Vonandi jafnar konan sig og kemst í gott starf fljótlega.

Ásdís Sigurðardóttir, 27.10.2007 kl. 12:38

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þetta er viðkvæmt mál og eg er sömu skoðunar og þeir hérna á undan/það er best að Fyrt.segi ekkert um þetta,sem gæti skaðað bæði/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 27.10.2007 kl. 13:28

4 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Almannatengslalygari Alcoa var nógu liðug í kjaftinum í kvöldfréttatíma sjónvarps.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 27.10.2007 kl. 22:02

5 Smámynd: Alcan dagbókin

Það er alveg rétt að fyrirtæki eiga ekki að ræða þessi mál sérstaklega. Þessi mál eru einfaldlega of viðkvæm til þess að "talsmaður" geti komið þar að.  Hef ekki séð þetta viðtal ennþá og get þess vegna ekki rætt það með beinum hætti.

Hinsvegar geri ég alvarlegar athugasemdir við commentið hjá Dharma,  sér í lagi eftirfarandi setningu.  Fyrirtæki reka aldrei fólk í bríaríi, eða "af því bara".

Fyrirtæki reka víst fólk í bríaríi og af því bara.  Skora hér með Dharma (og alla) að lesa dagbókina (bloggið mitt) og segja hvar fýlugjörn, ekkert sérstaklega vel gefin, óstundvís og dónaleg er þar að finna.

Alcan dagbókin, 28.10.2007 kl. 00:16

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mér finnst þetta mál með ólíkindum, og ég skrifa það alfarið á Alcoa.  Konan flutti með fjölskyldu sína austur til að vinna þarna.  Og meðferðin á henni sýnir að það er bara ekki allt í lagi með þetta fyrirtæki og stefnu þess í málefnum starfsmanna þeirra.  Nokkuð augljóst.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.10.2007 kl. 14:48

7 Smámynd: Marta B Helgadóttir

Jæja nú þarf að lesa nýjasta nýtt á minni síðu.

Marta B Helgadóttir, 28.10.2007 kl. 20:52

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband