Tímamót: afmæli skörungs

Þennan dag, árið 1898 fæddist afi minn Sr. Sigurður Einarsson síðast prestur í Holti.
Hann lést árið 1967 en þá var ég 8 ára.
Sr. Sigurður var skáld, ræðuskörungur og litríkur pólitíkus ásamt því að vera útvarspmaður um árabil.

Ég átti því láni að fagna að kynnast þessum afa mínum lítillega. Eitt sumar dvöldum við móðir mín um tíma í Holti.
Eldsnemma á morgnana þegar allir sváfu, héldum við afi í Holtsós en þar hafði hann sett út net. Eitt sinn fengum við eina 13 silunga í netið.  Að sjálfsögðu var silungur í matinn á hverjum einasta degi. Mér þótt þessi matur alls ekki góður, þurfti að leggja mikla vinnu í að hreinsa fiskinn, týna beinin úr og skrapa roðið af.  Fullorðna fólkinu fannst silungurinn mikill hátíðarmatur og þá ekki hvað síst fannst þeim roðið lostæti. Ég og önnur stelpa jafnaldra sem þarna var stödd harðneituðum að setja roðið inn fyrir okkar varir. 

Eitt sinn þegar við sátum við matborðið sagði afi minn að hann skyldi gefa okkur sitthvorar 100 krónurnar ef við borðuðum roðið bara þetta eina skipti.  Þetta voru heilmiklir peningar í þá daga og stórfé í augum barns.  Hin stelpan lét ekki segja sér þetta tvisvar heldur slafraði í sig roðinu. Ég hins vegar, bara kúgaðist.  Hún fékk eins og um var samið 100 krónur afhentar formlegar við matarborðið í viðurvist heimilisfólksins en ég, eins og vitað var,  fékk ekki neitt.

Nokkrum mínútum síðar fann ég að bankað var í mig undir borðinu. Þegar ég kíkti undir borðið blasti við mér fallegur hundrað króna seðill.

Váaaaa hvað ég varð glöð, svo glöð að ég gat því miður ekki þagað heldur stökk á fætur,  veifaði seðlinum, hló og skríkti.  Í þá daga var það víst ekki til siðs að börn væru með peninga í fórum sínum svo ég var krafin af móður minni um að afhenda henni seðilinn umsvifalaust.  Ég hélt nú ekki,  hljóp út, niður túnið eins hratt og ég komst og hún á eftir ... og náði mér...
Eins gott,  fyrst svo þurfti að fara, að ég skyldi ekki hafa pínt roðið ofan í mig Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Til hamingju með hann afa þinn, á þessum tímamótum.  Falleg og skemmtileg sagan um hundraðkrónuseðilinn.  En veistu að ég borða alltaf roðið með á silungnum, þegar hann er steiktur, roðið er krumsí og hið mesta hnossgæti.  Borða reyndar hausinn líka. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.10.2007 kl. 10:28

2 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Frábær saga.

Steingerður Steinarsdóttir, 29.10.2007 kl. 12:43

3 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Skemmtileg saga Kolbrún mín.

Kristín Katla Árnadóttir, 29.10.2007 kl. 20:01

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Senn koma dagarnir, bjartir á brá,

bláir í augum og léttir í spori.

Nú vil ég leggja lag mitt við þá....

Orti hann afi þinn ekki ljóð sem byrjar svona?

Árni Gunnarsson, 29.10.2007 kl. 22:24

5 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Komdu sæl.

Blessuð sé minning þess góða manns. Mér hlýnar um hjartarætur að minnast hans.

Hann skírði mig og bróður minn annan í okkar prestakalli í sveitinni heima.

Ljóð hans eru einstök.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 30.10.2007 kl. 01:33

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Við eigum þó eitthvað sameiginlegt, Kolbrún Baldursdóttir, ég var í sveit hjá séra Sigurði og Hönnu, en hún var uppeldissystir ömmu minnar. Ég minnist líka ferðanna í Holtsós ásamt mörgu öðru (ekki sízt að Vallnatúni, Hvammi og Ásólfsskálakirkju) og á hér mynd af honum haldandi á einum silungnum. Þórður Tómasson er frændi fyrrnefndrar ömmu minnar. Kynnin af Sigurði og dvölin í Holti hafa orkað sterkt á mig og ég ort um það eitt ljóð (HÉR) í Lesbókinni rúmum 50 árum eftir dvöl mína þar. (Tek það fram, af því að ljóðið er á netinu allt birt í belg og biðu án greinaskila, að þarna er um fjórar átta línu vísur að ræða.) - Með kveðju,

Jón Valur Jensson, 30.10.2007 kl. 02:05

7 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Kærar þakkir fyrir þetta Jón Valur og þið öll.

Kolbrún Baldursdóttir, 30.10.2007 kl. 10:25

8 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Innilega til hamingju með þessi tímamót. Hafðu það gott mín kæra.

Ásdís Sigurðardóttir, 2.11.2007 kl. 01:54

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband