Skortur á líffærum lengir biðina

Magnús Þór Þórisson beið í tvö ár eftir að fá nýja lifur.  Vart er hægt að ímynda sér þá streitu og angist sem hlýtur að fylgja því að bíða eftir líffæri. Nagandi óvissa um hvenær það verður og hvort það verði e.t.v of seint.

Stjórnvöld ætla samkvæmt nýjustu fréttum að endurskoða samning við Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn um líffæraflutninga. Það er sannarlega fagnaðarefni.

Grundvöllur þess að hægt sé að stytta biðina eftir líffærum er sú að fleiri gefi líffæri. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvað felst í svona samningi milli þjóða um líffæraflutninga, hvort um sé að ræða kaup á líffærum eða líffæraskipti. Þó skyldi maður halda að bið sérhvers einstaklings kynni að styttast ef um væri að ræða skipti þ.e. að íslendingar leggi til líffæri á móti því að fá líffæri.
Eitt er víst að það sárvantar líffæri. 

Ég hef áður skrifað um hina svokölluðu Lífsskrá Landlæknisembættisins.  Um er að ræða yfirlýsingu vegna meðferðar við lífslok. Í Lífsskránni er einnig yfirlýsing um líffæragjöf þ.e. hvort viðkomandi vilji gefa líffæri ef hægt er að nýta þau til að bjarga lífi annarra eða bæta það. 

Því fleiri líffæragjafar því styttri verður bið líffæraþega. Það er e.t.v. stór hópur manna og kvenna sem myndi gjarnan vilja gefa líffæri sín eftir andlát ef hægt er að nýta þau til að bjarga öðrum. Hins vegar hefur þetta fólk kannski ekki leitt hugann að þessu upp að því marki að ganga frá því að fylla út Lífsskráreyðublaðið og koma því Landlæknisembættisins. Hvort það sé nauðsynlegt til að hægt sé að nota líffæri viðkomandi eftir andlát veit ég ekki. Það kann að vera að það nægi að nánustu ástvinir tilkynni að þeim hafi verið kunnugt um þessa ósk hins látna. 
Gott er að minnast þess þegar hugsað er um þetta viðkvæma mál að engin veit hvort hann eigi eftir að fylla hóp líffæraþega síðar á ævinni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Íslendingar hafa verið afar tregir til að gefa líffæri.   Það þyrfti að vera meiri hvatning.....og svo eyðublað hjá landlækni sem allir geta skrifað sig á.  Er sjálf alltaf á leiðinni að fylla út þessa lífslokapappíra.

Hólmdís Hjartardóttir, 6.9.2008 kl. 20:05

2 identicon

Takk fyrir þessa góðu áminningu til okkar - virkilega þarft að taka sér taki og skrá sig á svona blað.

Ása (IP-tala skráð) 6.9.2008 kl. 20:39

3 Smámynd: Rebekka

Ég er skráð sem líffæragjafi, enda höfum við ekkert við þau að gera eftir andlátið .

Mér finnst reyndar að lögin ættu að vera þannig að fólk þyrfti að skrá sig sérstaklega vilji það EKKI gefa líffæri, en ekki öfugt eins og það er núna.

Rebekka, 7.9.2008 kl. 10:22

4 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Flestir eru jákvæðir til að gefa líffæri, enda finnst mér að ef maður er tilbúinn til að þiggja líffæri fyrir sig eða börnin sín, þá verður maður að vera tilbúinn til að gefa þau líka. Vandamálið er ekki að fólk sé neikvætt því að gefa líffæri, heldur hitt að koma því á framfæri. Þess vegna væri eðlilegra að ganga útfrá jái í stað neis, þá meina ég að ef ekki er búið að skrá nei, þá gildir já. Allir þeir sem eru á móti því að gefa líffæri, verða þá að skrá sig, annars eru líffærin tekin ef hægt er að nota þau.

Ásta Kristín Norrman, 7.9.2008 kl. 11:00

5 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Svo innilega sammála ykkur.

Getum við ekki reynt að vekja athygli löggjafans á þessu?

Kolbrún Baldursdóttir, 7.9.2008 kl. 11:05

6 Smámynd: Sigrún Óskars

Ég held að aðalatriðið sé að mínir nánustu viti að ég vil gefa líffæri mín, ef ég kemst í þá aðstöðu. Skráningar á einhverja pappíra skipta engu máli, því ef aðstandendur segja nei, þá gildir það.

Góð og þörf umræða hjá þér Kolbrún.

Sigrún Óskars, 7.9.2008 kl. 13:12

7 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Sigrún; Aðstæður geta samt verið þannig að það sé enginn ættingi viðstaddur til að gefa samþykki sitt. Og ef viðkomandi er ekki skráður líffæragjafi fara líffærin til spillis

Ég missti  37 ára gamlan frænda um daginn. Hann var að bíða eftir lifur en gat ekki beðið lengur

Heiða B. Heiðars, 7.9.2008 kl. 15:50

8 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Samhryggist þér innilega Heiða vegna frænda þíns.

Kolbrún Baldursdóttir, 7.9.2008 kl. 16:08

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Veistu Kolbrún mín að ég hundskammast mín fyrir að gera þetta ekki.  Það er bara svo skrýtið, að ég er ekki alveg tilbúin, samt veit ég að ég verð ekki vör við þetta sjálf, þegar og ef að því kemur.  En þetta bara er svo einhvernveginn..... æ ég get ekki útskýrt það.  En hvar nær maður í svona form ? á spítalanum ?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.9.2008 kl. 16:10

10 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Á netinu landlaeknir.is er að finna eyðublaðið.

Reyndar finnst mér formið óþarflega flókið, það þarf undirskrift umboðsmanns og annan til vara og svo tvo vitundarvotta. 

Kolbrún Baldursdóttir, 7.9.2008 kl. 16:23

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband