Ekkert lát á skemmdarverkum

Ein er sú starfsstétt sem klárlega fer vaxandi næstu misseri.  Það er starfsstétt öryggisvarða og vaktmanna. Nú er svo komið í okkar þjóðfélagi að fátt fær að vera í friði. Skemmdarverk eru unnin í skjóli nætur á flestu því sem hægt er að skemma og skemmdarvargar hafa mögulegan aðgang að.
Helst allt þarf að vakta ef það á ekki að vera eyðilagt og dugar ekki til samanber skemmdaverk sem unnin voru á Þristinum þrátt fyrir öfluga öryggisgæslu á svæðinu.

Þetta er sorglegt og margir spyrja sig hverju þetta sætir. Skemmdarrvargar sem oft eru enn á barnsaldri, þ.e. undir 18 ára,  eru ekki í leit að fé heldur einungis að fá útrás fyrir reiði, gremju, hatur og vonbrigði. Sumir þessara aðila eru ofur áhrifagjarnir og hlaupa upp til handa og fóta þegar félagar þeirra hvetja þá til afbrota. Um mögulegar orsakir og ástæður er hægt að skrifa langan pistil.

Margir skemmdarvargar komast upp með þetta. Eftir að hafa skemmt fyrir tugi ef ekki milljónir króna tölta þeir heim að sofa. Hvort þeir sofi svefni hinna réttlátu skal ekkert um sagt.

Fjölmargir komast hjá því að sæta nokkurri ábyrgð nokkurn tímann einfaldlega vegna þess að þeir nást ekki.  Foreldrar barna sem næst að góma þurfa að axla ábyrgð og oft á tíðum greiða stórar fjárhæðir vegna skemmdaverka barnanna.  Hvort og þá með hvaða hætti þessir foreldrar vinna úr málinu með börnum sínum er málefni sérhverrar fjölskyldu. Sumar fjölskyldur taka á þessu af krafti en aðrar finna e.t.v. einungis til vonleysis og vanmáttar.

Þessari umræðu þarf að halda vakandi. Því fyrr sem hægt er að byrja að kenna börnum að bera virðingu fyrir eigum annarra og hjálpa þeim að skilja verðmætagildi hluta því betra. Skemmdarverk eru afbrot. Hvert tilfelli þarf að ræða, kryfja og vinna úr svo auka megi líkur þess að það verði ekki endurtekið.

Almenn umræða um alvarleika málsins er alla vega byrjun hvernig svo sem gengur síðan að auka skilning og innsæi ungmennanna.

Finnum sem flestar og fjölbreyttar leiðir til að ná til þessara barna, hjálpa þeim og hjálpa foreldrunum að hjálpa þeim.  Séu engir eftirmálar, engar afleiðingar, má reikna með að það virki sem hvatning fyrir skemmdarvargana að skemma meira.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband