Betri líðan hjá börnum nú en árið 2006?
1.11.2009 | 11:14
Í könnun sem Rannsókn og Greining gerðu í febrúar á þessu ári kemur fram að ekki séu skýr merki um að líðan barna á Íslandi sé að breytast til verri vegar þrátt fyrir það erfiða þjóðfélagsástand sem ríkt hefur í kjölfar hrunsins 2008.
Þetta kemur mörgum alls ekki á óvart. Ýmsir hafa ekki getað merkt breytingar til hins verra hvað varðar almenna líðan barna sem beinlínis má rekja til hruns fjármálakerfisins fyrir rúmu ári síðan.
Margir hafa þó komið fram á sjónarsviðið og viljað fullyrða að börnum líði mun verr nú en áður og megi rekja aukna vansæld þeirra til erfiðleika sem fjölmargir foreldrar eru nú að glíma við í kjölfar hrunsins. Það gefur augaleið að ef foreldrum líður illa fara börnin oft ekki varhluta af því sama hversu vel foreldrarnir vilja leyna því.
Gestur Í nærveru sálar 2. nóvember er Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík. Rannsókn og Greining hefur gert kannanir á líðan barna og unglinga í hartnær tíu ár. Bryndís mun upplýsa áhorfendur um einstakar niðurstöður þessarar nýju könnunnar og bera þær saman við sambærilegar niðurstöður t.d. frá árinu 2006.
Við ræðum þessi mál vítt og breytt og reynum að átta okkur á hvaða þættir það eru sem liggja til grundvallar betri líðan hjá sumum börnum ef samanborið við á þeim árum sem þjóðin bjó við mikinn hagvöxt og velsæld.
Hafa skal í huga í umræðu sem þessari að ekki er hægt að alhæfa út frá rannsóknarniðurstöðum heldur er hér um að ræða mikilvægar vísbendingar sem hægt er að byggja á þegar verið er að skoða með hvaða hætti hægt sé að betrumbæta samfélagið og þar með líðan borgaranna.
Með því að gera sambærilegar rannsóknir yfir langan tíma kemur í ljós hvar skóinn kreppir á hverjum tíma í samanburði við fyrri ár. Með þessum hætti er hægt að sjá með áþreifanlegum hætti hvernig hlutirnir kunna að vera að þróast samhliða öðrum breytingum í þjóðfélaginu.
Mörgum finnst það sérkennilegt ef börnum almennt séð líði betur og séu kátari nú en á árum áður, fyrir hrunð.
En hvaða skýringar liggja þarna að baki?
Ástandið sem hafði myndast hér í samfélaginu og sá lífstíll sem þúsundir manna og kvenna höfðu tileinkað sér hafði einfaldlega ekki góð áhrif á börnin. Mörg voru farin að verja minni tíma með foreldrum sínum og skynjuðu án efa spennu og æsing þeirra sem tóku þátt í lífgæðakapphlaupinu.
Nú er þjóðin smám saman að komast niður á jörðina. Þeir sem höfðu tapað áttum eru að finna sig. Þeir líta sér frekar nær núna og hafa meiri tíma og svigrúm til að taka eftir ástvinum sínum og börnunum. Tengsl eru án efa að styrkjast, samvera er meiri og ró hefur færst yfir fjölmörg heimili. Oft er það þannig að eitthvað gott kemur út úr hverjum raunum. Ef það er betri líðan einhverra barna í þjóðfélaginu getum við verið bjartsýn.
Meira um þetta Í nærveru sálar á ÍNN 2. nóvember.
Flokkur: Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 13:09 | Facebook