Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Mikið atvinnuleysi?

Það er engum blöðum um það að fletta að það er heilmikið atvinnuleysi á Íslandi um þessar mundir. Atvinnuleysi er auk þess eitthvað sem er hægt að mæla á hverjum tíma með nokkrum áreiðanleika. Umræðan um gríðarlegt atvinnuleysi er nánast dagleg. Þess vegna undrast maður yfir því að einnig daglega, eru blöðin stútfull af atvinnuauglýsingum.

Víða er ekki betur séð en það vanti fólk í hin fjölbreyttustu störf. Sjálf er mér kunnug um lausar stöður sem ekkert hefur gengið að ráða í. Ástæðan er m.a. sú að viðkomanda sem boðið hefur verið staðan er á bótum og vill halda áfram að vera á bótum eins lengi og mögulegt er. Bjóðist aðila starf fyrir milligöngu VMST sem hann neitar að taka veldur það missi bótaréttar í 40 bótadaga.

Hópur atvinnulausra er ekki einsleitur. Sumir atvinnulausir þiggja með þökkum að fá vinnu enda þótt hún sé ekki alveg á þeirra sér-eða áhugasviði. Þetta er fólk sem umfram allt vill vinna jafnvel þótt launin séu lægri en bæturnar. Öðrum þykir e.t.v. bara gott að vera á bótunum eins lengi og þeir mögulega geta og hafna því vinnutilboðum eins lengi og þeir geta.


Þolandi í bernsku, gerandi á vinnustað

Það er til mikils að vinna að reyna allt til að sporna við að einelti komi upp og þrífist í grunnskólum. Mörg dæmi eru um að einstaklingur sem hefur verið þolandi eineltis í bernsku verði á fullorðinsárum gerandi eða liðsmaður geranda eineltis á vinnustað. 

Þolandi langvarandi eineltis kemur oftar en ekki út í lífið með brotna sjálfsmynd.  Algengt er að hann finni fyrir öfund í garð fólks sem gengur vel í lífinu. Hann finnur fyrir reiði og jafnvel heift.  Þegar inn á vinnustað er komið reynir hann oft að byrja að safna í kringum sig liðsmönnum og telur að með því sé hann að tryggja að verða ekki sjálfur undir eða útilokaður með einhverjum hætti. 

Sá sem eineltið beinist að getur í sjálfu sér verið næstum hver sem er. Ekki er óalgengt að fyrir valinu verði einhver einstaklingur sem gerandanum tekst að sannfæra aðra um að sé með einum eða öðrum hætti ómögulegur eða hafi einhver sérréttindi á staðnum sem hinir hafi ekki.

Í Samfélaginu í nærmynd í morgun á Rás 1 ræddi ég um fyrirbyggjandi aðgerðir í skólum. Um er að ræða þá hugmynd að sálfræðingur og námsráðgjafi eða annað fagfólk skólans gangi í bekki með ákveðin skilaboð (sjá nánar á pressan.is). 

Hlusta má á viðtalið með því að smella hér.


Til skólayfirvalda

eineltimbl0014335.jpgSem skólasálfræðingur grunnskóla hef ég ásamt námsráðgjafa gengið í alla bekki frá 4.-10. bekk og fært þeim ákveðin skilaboð í forvarnarskyni. Ég hvet skólayfirvöld á landinu öllu til að gera slíkt hið sama og senda sálfræðing skólans, námsráðgjafa eða annan fagaðila inn í bekki með þessi skilaboð og fleira þeim tengdum.

Með þessari aðgerð er verið að gefa börnunum mikilvæg skilaboð sem líkleg eru til að fyrirbyggja að upp komi eineltismál í viðkomandi skóla.

Meðal þess sem við sögðu við börnin var að einelti eða stríðni er ekki liðið í þessum skóla.
Sjá meira hér

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband