Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2015

Hrafn Jökulsson, eldhugi og hugsjónarmaður sem fær fólk með sér

ViðurkeninngmyndbestHrafn Jökulsson hlaut í dag Viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children á Íslandi árið 2015. Með Hrafni á myndinni eru Stefán Þór Herbertsson, Erna Reynisdóttir, Róbert Lagerman og Kolbrún Baldursdóttir.

(Úr ræðu formanns)

"Hrafn hefur verið óþreytandi við hugsjónastarf á Íslandi og Grænlandi. Hann og félagar hans í skákfélaginu Hróknum hafa ásamt nánum samstarfsfélaga, Stefáni Þór Herbertssyni, formanni KALAK, vinafélagi Íslands og Grænlands boðað fagnaðarerindi skákar og vináttu meðal Austur-Grænlendinga.

Hrafn er landsþekktur eldhugi og rithöfundur og frábær fyrirmynd. Óhætt er að segja að hann hugsi stórt og kunni að virkja fólk til þátttöku í ævintýrum sínum. Hann er vel meðvitaður um mikilvægi þess að börn hafi trú á sér og veit að gott sjálfstraust byggir á mörgum stólpum. Sá andlegi grunnur sem Hrafn og félagar hans hafa styrkt með því að kenna börnum skákíþróttina felur í sér fjölþætta færni. Hún þjálfar m.a. sjónminni og sjónræna rökhugsun, þjálfar barn í að hugsa sjálfstætt, viðhafa gagnrýna hugsun, fást við óhlutbundin viðfangsefni og finna rökleg tengsl.

Þannig leggur skákíþróttin svo ótal margt á vogarskálar þroska barns sem hana stundar. Auk einbeitingar sem skákin krefst,  þolinmæði og sjálfsaga, auðgar íþróttin ímyndunaraflið og iðkendur læra að hugsa í lausnum. Skákíþróttin kallar á hugrekki, að þora að taka ákvörðun og hún þjálfar iðkendur í að lesa í, greina og meta stöðu.

Félagslegur ávinningur þeirra sem stunda skákíþróttina á sér einnig margar hliðar. Tengsl myndast þótt aðilar hafi það eina markmið sameiginlegt, að tefla skák og ætla að vinna hana.
Þannig getur skákborðið laðað að börn frá gjörólíkum menningarheimum, eins og Hrafn lýsir sjálfur:
Skákin er einfaldlega frábært tæki til þess að efla samskipti og vináttu enda þarf enga tungumálakunnáttu til að læra leikreglurnar og allir geta verið með.

Þetta viðhorf samrýmist vel hugsjónum Barnaheilla, sem hafa lagt mikla áherslu á VINÁTTUNA með t.a.m. Vináttuverkefni Barnaheilla sem á þriðja tug leikskóla hafa tekið upp frá og með byrjun næsta árs. Viðhorfið styður jafnframt það sem Barnaheill á Íslandi hefur reglulega minnt á í ræðu og riti og það er rétt barna til tómstunda og þátttöku í lífi og leik, óháð stöðu foreldra þeirra í þjóðfélaginu.

Skákin hentar þannig einstaklega vel í samfélagi eins og á Grænlandi þar sem landfræðilegar aðstæður og mannfæð bjóða börnum almennt ekki upp á mörg tækifæri til tómstundaiðkunar. Með skáklandnámi Hróksins og KALAK á Grænlandi hefur fjöldi Grænlenskra barna fengið tækifæri til að þroska með sér þá færni sem skákíþróttin veitir, sem þau hefðu mögulega annars farið á mis við.

Skákfélagið Hrókurinn var stofnað í kringum aldamótin af Hrafni og félögum hans sem tefldu saman á Grandrokk og naut félagið mikillar velgengni. Það átti fyrir rest 13 gullpeninga og var Íslandsmeistari í skák. Vinafélag Grænlands og Íslands, KALAK, var stofnað í Norræna Húsinu í Reykjavík miðvikudaginn 4. mars 1992 og voru stofnfélagar 43.

Skáklandnám Hróksins og Kalak á Grænlandi hófst um 2003 en á þeim tíma var skák nær óþekkt á Grænlandi. Alþjóðlegt skák­mót var haldið í fyrsta sinn á Græn­landi það sama ár.

Í gegnum skákina hafa þessar tvær þjóðir, Ísland og Grænland orðið sem ein fjölskylda en, „ Við erum ein fjölskylda“, er einmitt kjörorð skákmanna. ´

Síðan þá hafa liðsmenn Hróksins og Kalak ekki einvörðungu heimsótt fjölda bæja og þorpa og kennt börnum skák heldur hafa einnig gefið börnum á Grænlandi gjafir svo sem taflsett, fatnað og aðrar nauðsynjavörur.

Og að lokum er gaman að  nefna að Hrafn og Hrókurinn hefur frá upphafi verið virkur þátttakandi í því sem kallað er sundkrakkaverkefni Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands. Á hverju ári, undanfarin 10 ár, hefur 11 ára börnum frá litlu þorpunum á austurströnd Grænlands verið boðið til Íslands, að læra sund og kynnast íslensku samfélagi".

Úr ræðu formanns Barnaheilla- Save the Children á Íslandi við afhendingu viðurkenningar Barnaheilla 2015. Athöfnin var haldin 20. nóvember á afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

 

 


LÍFSBÓKIN, þáttur um félags- og sálfræðileg málefni

Lífsbókin 1Þættirnir LÍFSBÓKIN (4 alls) voru keyptir af útvarpsstöðinni Útvarpi Sögu og hafa nú allir verið sendir út.

Hægt er að hlusta á þá undir linknum Eldri þættir á heimasíðu Útvarp Saga

16. nóvember Flýtingar í grunnskólum
Meginþema:

Í þættinum er fjallað um þegar barni er flýtt um bekk og stundi námi með ári eldri krökkum. Einnig ef barni er flýtt með þeim hætti að það fer einu ári fyrr í grunnskóla. Að flýta barni í námi er ákvörðun sem vanda þarf vel til. Eftir að barni hefur verið flýtt upp um bekk er ekki aftur snúið í raun. Þegar barni er flýtt með þeim hætti að það byrjar ári fyrr í skóla kemur það oft í kjölfar þess að tekið hefur verið eftir því að það er óvenju bráðþroska miða við jafnaldra.

Í þættinum verður rætt við Ingu Westman en hún er móðir drengs sem ákveðið var að yrði færður upp um bekk og einnig er rætt við unga menn,þá Jón Steinarsson og Hjörvar Óla Sigurðsson en báðir stunduðu nám með ári eldri krökkum.

5. nóvember Ættleiðingar á Íslandi
Meginþema:

Öll þráum við að tilheyra fjölskyldu með einum eða öðrum hætti og oft án umhugsunar væntum við þess að eignast okkar eigin barn.

Það getur tekið mikið á, tíma, þrek og oft mikla angist ef í ljós koma vandamál tengd því að eignast barn þegar þráin að verða foreldri er yfirþyrmand. Ættleiðing er valkostur sem fjölmargir í þessum sporum kjósa að skoða og velja. Ættleiðing er þó ekki einungis möguleiki í þeim tilfellum hjóna sem geta ekki eignast barn. Þetta er meðal annars valmöguleiki samkynhneigðra hjóna. Um nokkurt skeið hafa einhleypir einnig átt þess kost að ættleiða börn ekki einungis íslensk börn heldur einnig börn erlendis frá.

Í þættinum verður fjalla um hvernig þessum málum er háttað hér á Íslandi og rætt við Sigríði Grétu Þorsteinsdóttur og Kristbjörgu Ólafsdóttur sem ásamt mökum sínum hafa ættleitt börn erlendis frá.

14. október Einelti á vinnustað
Meginþema:

Afleiðingar eineltis geta verið alvarlegar og lita oft ævi þess sem fyrir því verður. Einelti sem varir í einhvern tíma skaðar sjálfsmyndina. Hvaða þolandi eineltis kannast ekki við tilfinninguna um að finnast hann vera ómögulegur, finnast hann ekki geta treyst neinum lengur, jafnvel ekki sjálfum sér þegar kemur að því að meta og lesa í aðstæður og samskipti? Birtingarmyndir eineltis á vinnustað geta verið mismunandi.

Í þættinum er fjallað m.a. um helstu birtingamyndir, helstu einkenni og aðstæður þolenda og gerenda og síðast en ekki síst hvaða ferla vinnustaður þarf að hafa til að taka á málum af þessu tagi með faglegum og manneskjulegum hætti. Rætt er við Jón Þór Aðalsteinsson sem upplifði að hafa verið lagður í einelti á fyrri vinnustað sínum. Segir hann frá því hvernig verkstjórinn beitti hann og aðra starfsmenn andlegu og líkamlegu ofbeldi.

5. október ADHD og stúlkur
Meginþema:

Þátturinn fjallar um stúlkur og ADHD. ADHD er skammstöfun fyrir Attention Deficite and hyberactivity disorder.

Barn sem glímir við ADHD og fær ekki aðstoð við hæfi i formi hvatningar og aðlögunar og stundum lyfjameðferðar er í hættu með að missa trú á sjálft sig og upplifa óöryggi í félagslegum aðstæðum.  Í þættinum er fjallað um ADHD með sérstaka áherslu á stúlkur. Einkenni hjá stúlkum geta birst með ólíkum hætti en hjá drengjum. Leitað mun fanga m.a. í gögn  adhd samtakanna sem finna á vefnum adhd.is. og rætt er við Sæunni Kristjánsdóttur, móður stúlku sem glímir við ADHD.

Umsjónarmaður þáttanna og dagskrágerð annaðist Kolbrún Baldursdóttir

 


Þú ferð í taugarnar á mér

Þú ferð í taugarnar á mér.

Sjá grein sem birt var í Fréttablaðinu í gær 8. nóvember 2015 á Degi gegn einelti.

Þeir sem eru andstyggilegir við aðra manneskju og leggja kerfiðsbundið fæð á hana hafa kannski, af einhverjum orsökum, aldrei elskað sjálfan sig?

yes yes.jpg


Þráin að eignast barn

Lítið barnÞátturinn LÍFSBÓKIN verður sendur út í dag, fimmtudag 5. nóvember kl. 17 á Útvarpi Sögu. Fjallað er um ættleiðingar á Íslandi.
Viðtöl eru við Sigríði Grétu Þorsteinsdóttur og Kristbjörgu Ólafsdóttur.
Meginþema:
Öll þráum við að tilheyra fjölskyldu með einum eða öðrum hætti og oft án umhugsunar væntum við þess að eignast okkar eigin barn.
Það tekur mikið á, tíma, þrek og oft mikla angist ef í ljós koma vandamál tengd því að eignast barn þegar þráin að verða foreldri er yfirþyrmandi mikil. Ættleiðing er valkostur sem fjölmargir í þessum sporum kjósa að skoða og velja.
Ættleiðing er þó ekki einungis möguleiki í þeim tilfellum hjóna sem geta ekki eignast barn. Þetta er meðal annars valmöguleiki samkynhneigðra hjóna. Og um nokkurt skeið hafa einhleypir einnig átt þess kost að ættleiða börn ekki einungis íslensk börn heldur einnig börn erlendis frá.
Í þættinum verður fjalla um hvernig þessum málum er háttað hér á Íslandi og rætt við foreldra sem hafa ættleitt börn erlendis frá.
Þátturinn var gerður í september 2014.


8. nóvember

íþróttamynd 2Sunudaginn 8. nóvember næstkomandi er Eineltisdagurinn á Íslandi. Að helga einum degi baráttunni gegn einelti er gott mál því það minnir okkur á að huga enn frekar að þessum málaflokki.

Á heimasíðunni www.kolbrunbaldurs.is er að finna stutt myndbönd um eineltisfræðslu fyrir grunnskólabörn. Einnig fræðslufyrirlestur fyrir foreldra. 

Á vefnum er auk þess að finna upplýsingar og fræðslu um aðgerðir gegn einelti, forvarnir og verkferla við úrvinnslu eineltismála. Auk greina og pistla um þennan málaflokk er að finna sýnishorn af viðbragðsáætlun og tilkynningareyðublaði fyrir skóla, félög,  stofnanir og fyrirtæki.

Fræðslufyrirlestrarnir eru byggðir á bókinni EKKI MEIR sem er handbók um forvarnir og úrvinnslu eineltismála.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband