Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015
Það sem huga þarf að þegar barn hefur grunnskólagöngu
21.5.2015 | 15:50
Góður undirbúningur undir grunnskólagöngu getur skipt sköpum fyrir líðan barns öll grunnskólaárin.
Það er eitt og annað sem mikilvægt er fyrir foreldra að huga að áður en skólinn byrjar í ágúst. Upplagt er einnig að nota sumarið til að kenna og þjálfa ýmsa þætti s.s.:
Að getað bjargað sér í búningsklefanum
Skrúfa frá/fyrir sturtu
Þurrka sér
Passa upp á dótið sitt
Huga þarf sérstaklega að börnunum sem kvíða skólagöngunni.
Í þeim tilfellum er mikilvægt að foreldrar ræði við kennarann um að barnið sé kvíðið svo hægt sé að undirbúa fyrstu dagana í skólanum með tilliti til þess.
Dæmi um mótvægisaðgerðir sem geta hjálpað barninu:
Hafa samráð hvernig tekið er á móti barninu að morgni
Finna barninu tengilið í matsal/frímínútum
Biðja kennara um að hafa barninu nálægt sér í skólastofunni þar til það kemst yfir mesta kvíðann
Ef kennari á að geta veitt barni viðhlítandi stuðning hvort heldur vegna persónulegra þátta eða aðstæðna þá þarf hann að vita ef t.d.:
Barnið á við veikindi að stríða, skerðingu/fötlun
Sérþarfir, veikleikar/styrkleikar sem vitað er um á þessu stigi
Sérstakar venjur eða siði
Einnig:
Ef einhver í fjölskyldunni er langveikur
Ef nýlega hefur orðið andlát í fjölskyldunni, skilnaður eða aðrar stórar breytingar
Ef skilnaður stendur fyrir dyrum og hvernig umgengni muni þá verða háttað
Í 45 mínútna fræðsluerindi er farið er yfir þessi helstu atriði sem huga þarf að þegar barn byrjar í grunnskóla. Einnig verður farið nokkrum orðum um þroska og þarfir þessa aldurskeiðs, leiðir sem auka samskiptafærni foreldra við börn sín. Síðast en ekki síst hvernig foreldrar geta með markvissum hætti lagt grunn að sterkri sjálfsmynd og sjálfsöryggi barna sinna.
Skólar geta pantað erindið með tölvupósti á netfangið:
kolbrunbald@simnet.is
Nýliðun í stjórn Barnaheilla- Save the Children á Íslandi
21.5.2015 | 08:52
Á aðalfundi Barnaheilla, þriðjudaginn 11. maí sl. gengu nýjir inn í stjórn þeir Már Másson, Ólafur Guðmundsson og Bjarni Karlsson.
Í stjórn sitja sem fyrr Kolbrún Baldursdóttir, formaður, Sigríður Olgeirsdóttir, varaformaður, María Sólbergsdóttir, Þórarinn Eldjárn, Helga Sverrisdóttir, Guðrún Kristinsdóttir og Gunnar Hrafn Jónsson.
Barnaheill- Save the Children á Íslandi eru frjáls félagasamtök sem stofnuð voru árið 1989. Þau eiga aðild að Save the Children International en að þeim standa 30 landsfélög sem starfa í 120 löndum. Samtökin hafa barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu sínu starfi og eru helstu áherslur barátta gegn ofbeldi á börnum, heilbrigðismál og að rödd barna heyrist betur í íslensku samfélagi.
Á myndinni eru frá vinstri:
Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri og stjórnarliðarnir: Már Másson, Helga Sverrisdóttir, Ólafur Guðmundsson, Guðrún Kristinsdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, formaður, Þórarinn Eldjárn, María Sólbergsdóttir og Bjarni Karlsson. Á myndina vantar Gunnar Hrafn Jónsson og Sigríði Olgeirsdóttur.
Réttindi skilnaðarbarna. 10 boðorð
17.5.2015 | 12:59
Réttindi skilnaðarbarna
1. Að barnið sé vel búið undir áhrif og afleiðingar skilnaðar og foreldrar ræði opinskátt við barnið, hvað skilnaður felur í sér
2. Að barnið fái að vita að það eigi ekki neina "sök" á skilnaðinum
3. Að barnið fái útskýringar á skilnaðinum og - ef mögulegt er - skilning á því að skilnaður foreldranna sé hugsanleg lausn á vanda þeirra
4. Að barnið sé ekki látið ráða, hvort foreldranna fari með forsjá þess
5. Að barnið geti helst verið áfram í sínu umhverfi. Að það þurfi ekki að skipta um leik.- eða grunnskóla og verði öllu jafnan fyrir sem minnstri röskun
6. Að þörfum barnsins fyrir umgengni við það foreldri sem ekki hefur forsjá sé uppfyllt og að barnið fái í auknum mæli, samhliða auknum þroska, að vera með í ákvarðanatöku varðandi umgengni
7. Að barninu sé tryggð umgengni við fjölskyldur beggja foreldra, ekki síst afa og ömmur
8. Að foreldrar hlífi barninu við eigin vandamálum og að barnið þurfi ekki að hlusta á illt umtal um hitt foreldrið
9. Að barnið sé ekki meðhöndlað sem fullorðið og taki á sig hjálparhlutverk gagnvart foreldri
10. Að foreldrar hugsi hvort barnið sé tilbúið ætli þeir að stofna nýja fjölskyldu. Að foreldrar gæti í það minnsta að undirbúa barnið vel ef breytingar á heimilishögum þess standa fyrir dyrum