Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2018

Borgarskömm hvernig farið er með aldraða

Það eru tugir eldri borgara sem bíða eftir að komast á hjúkrunar- og dvalarheimili. Um 100 eldri borgarar bíða á Landspítala háskólasjúkrahúsi og er biðin þar stundum upp undir ár. Fólk í heimahúsum bíður enn lengur. Í hverjum mánuði eru endurnýjuð nokkur færni- og heilsumöt því þau gilda aðeins í ár. 

Þetta er dapurt svo ekki sé meira sagt, að borgarstjórnarmeirihlutinn hafi ekki leyst þennan vanda á þeim árum sem hann hafði tækifæri til. Þetta eru afleiðingar lóðakortsstefnu sem ríkt hefur hjá núverandi borgarstjórn.

Það gengur svo langt í hrókeringum með líf aldraðra sem þarfnast heimilis hér í Reykjavík að þeir eru fluttir hreppaflutningum í aðra landshluta vegna þess að það er ekkert pláss fyrir þá hér í Reykjavík þar sem þeir eiga þó heima. Aldraðir eru jafnvel fluttir burt gegn vilja sínum, í burtu frá fjölskyldu sinni og öllu félagslegu öryggi sem þeir hafa byggt upp í Reykjavík, borginni þeirra. Hjón eru aðskilin, slitin frá hvort öðru og geta ekki notið ævikvöldsins saman. Hvernig er komið fyrir okkur þegar stjórnvöld fara svona með foreldra okkar, afa, ömmur og langafa- og ömmur?

Flokkur fólksins vill taka á þessum málum af festu og öryggi. Burt með lóðaskortsstefnu núverandi borgarmeirihlutans. Við viljum ganga til samvinnu við lífeyrissjóðina, þar sem peningar fólksins liggja og byggja hjúkrunar- og dvalarheimili. Málið þolir enga bið.

Flokkur fólksins vill einnig að ráðinn verði hagsmunafulltrúi aldraðra sem kortleggur málefni eldri borgara og heldur utan um aðhlynningu og aðbúnað þeirra. Hann á að sjá til þess að húsnæði, heimahjúkrun, dægradvöl og heimaþjónusta sé fullnægjandi og koma í veg fyrir félagslega einangrun aldraðra með öllum ráðum.


Dauðsjá eftir að hafa tilkynnt eineltismál á vinnustöðum borgarinnar

Fólk sem verður fyrir einelti eða annarri óæskilegri hegðun er margt hvert duglegt að tilkynna málið enda sífellt verið að hvetja það til þess. En í allt of mörgum tilfellum dauðsér fólk eftir að hafa einmitt gert það. Ástæðan er sú að vinnslan sem við tekur er hvorki fagleg né réttlát. Þá er ekki verið að tala um hvort niðurstaða málanna hafi orðið tilkynnanda í vil eða ekki. Á því er vissulega allur gangur.

Kvörtunarmál sem hér um ræðir hafa ýmist verið unnin á vinnustaðnum sjálfum eða hjá sjálfstætt starfandi aðilum sem keyptir hafa verið til verksins. Kjósi Reykjavíkurborg að leita til sjálfstætt starfandi fagaðila til að rannsaka og meta eineltiskvörtun þýðir það ekki að borgaryfirvöld séu ekki lengur ábyrgðaraðili á að unnið sé í málinu með faglegum og réttlátum hætti. Ábyrgðin er ávallt borgarinnar sé um borgarstofnun að ræða.

Greinin er hér í heild sinni


Þakklát fyrir SÁÁ. Skömm að því að borgin skuli ekki styrkja starfið meira en raun ber vitni

Það var okkur Karli Berndsen sem skipar 2. sæti á lista Flokks fólksins í Reykjavík mikill heiður að vera boðin á fund heiðursmanna SÁÁ í hádeginu.
Ég gat sagt þeim frá reynslu minni sem barn og stjúpbarn alkóhólista sem og starfsreynslu minni á Fangelsismálastofnun, í skóla- og í barnaverndarkerfinu.
Við kynntum stefnumál Flokks fólksins og Karl toppaði þetta svo með að ræða um sitt fólk og hvar borgaryfirvöld hefðu brugðist t.d. í aðgengismálum. Á myndinni með okkur er Valgerður læknir hjá SÁÁ.
Það er skömm að því að borgin skuli ekki styðja betur við bakið á SÁÁ sem bjargað hefur lífi þúsunda. Held þeir fá skítnar 19 milljónir á ári ef ég heyrði rétt..

saasaa2

Fékk mitt veganesti frá þremur konum, allar einstæðar mæður sem börðust fyrir sínu lifibrauði

Ég fékk mitt veganesti frá þremur konum, mömmu, Áslaugu Sigurðardóttur, móðurömmu, Maríu Ásmundsdóttur og föðurömmu Ólafíu Sigríði Þorsteinsdóttur. Allar voru þær einstæðar mæður sem þurftu að berjast fyrir sínu lifibrauði. Þessum konum á ég mikið að þakka. Pabbi, Baldur Gíslason gerði það sem hann gat fyrir mig en hann glímdi við alkóhólisma. Móðurafa mínum Sr. Sigurði Einarssyni náði ég að kynnast ári áður en hann lést. Þau kynni voru góð og sannarlega eftirminnileg. Föðurafa, Gísla Bjarnasyni frá Steinnesi kynntist ég aldrei. Hann dó ungur.

kolla með mömmuFormóðir og forfaðir - CopyAfi SpabbiGísli Bjarnason frá Steinnesi


10 efstu frambjóðendur Flokks fólksins í Reykjavík

Þetta eru 10 efstu frambjóðendur Flokks fólksins í komandi borgarstjórnarkosningum:


1. Kolbrún Baldursdóttir | Sálfræðingur
2. Karl Berndsen | Hárgreiðslumeistari
3. Ásgerður Jóna Flosadóttir | Viðskiptafræðingur og formaður Fjölskylduhjálpar Íslands
4. Þór Elís Pálsson | Kvikmyndaleikstjóri
5. Halldóra Gestsdóttir | Hönnuður
6. Rúnar Sigurjónsson | Vélvirki
7. Hjördís Björg Kristinsdóttir | Sjúkraliði
8. Þráinn Óskarsson | Framhaldsskólakennari
9. Friðrik Ólafsson | Verkfræðingur
10.Birgir Jóhann Birgisson | Tónlistarmaður


Einangraðir og vannærðir eldri borgarar

Rúmliggjandi aldraður einstæðingur með eina maltdós og lýsisflösku í ísskápnum var einn þeirra þrettán í sjálfstæðri búsetu sem Berglind Soffía Blöndal rannsakaði í meistararitgerð sinni. Hún heimsótti þessa þrettán og voru þeir allir vannærðir samkvæmt evrópskum stöðlum. M.ö.ö hluti aldraðra í Reykjavík sveltur eitt heima.

Flokkur fólksins býður nú fram í fyrsta sinn í sveitarstjórnarkosningum í vor. Flokkur fólksins vill að skipaður verði hagsmunafulltrúi fyrir aldraða til að tryggja að enginn lifi við þær aðstæður sem lýst er hér að framan. Hlutverk hagsmunafulltrúans verði að byggja upp öflugt og heildstætt kerfi sem heldur utan um aðhlynningu og allan aðbúnað aldraðra. Hagsmunafulltrúinn skal sjá til þess að húsnæði, heimahjúkrun, dægradvöl og heimaþjónusta fyrir aldraða verði fullnægjandi. Hann skal tryggja að unnið sé samkvæmt viðurkenndum manneldismarkmiðum og hollustu í fæðuvali á hjúkrunarheimilum, þjónustumiðstöðvum og heimsendum máltíðum.  Hlutverk hans skal og vera að að koma í veg fyrir að aldraðir einangrist einir heima matarlausir og hjálparvana.

Slagorð Flokks fólksins er FÓLKIÐ FYRST. Þess vegna mun Flokkur fólksins í öllu tilliti setja fólkið í fyrsta sæti.  Annað skal bíða á meðan við tryggjum fæði, klæði og húsnæði fyrir alla.

Eins og staðan er nú, dvelja um 100 eldri borgarar á Landspítala háskólasjúkrahúsi þrátt fyrir að vera í þeirri aðstöðu að geta útskrifast og farið heim. Þetta er dapurt svo ekki sé meira sagt, að nú skuli Dagur B.Eggertsson og borgarstjórn hans hafa setið með stjórnartaumana í  Ráðhúsinu í átta ár án þess að leysa vandann.  Það gengur það langt í hrókeringum með líf aldraðra sem þarfnast hjálpar að fyrir kemur að þeir séu fluttir hreppaflutningum í aðra landshluta vegna þess að það er ekkert pláss fyrir þá þar sem þeir vilja vera.  Fluttir burt jafnvel gegn vilja sínum, í burtu frá fjölskyldu sinni og öllu félagslegu öryggi. 

Það þarf stórátak í málefnum aldraðra, átak sem  krefst samstarfs ríkis og bæjar.  Skortur á hjúkrunar- og dvalarheimilum er þó fyrst og fremst á ábyrgð núverandi borgarstjórnar sem hefur vanrækt málefni aldraðra árum saman. 

Flokkur fólksins vill gera eldri borgurum kleift að lifa góðu og áhyggjulausu lífi hvort heldur er í heimahúsi eða á hjúkrunarheimili. Þjónusta fyrir aldraða þarf að vera samstillt og samþætt til að hægt sé að koma til móts við óskir og þarfir hvers og eins.  Hagsmunafulltrúa aldraðra er ætlað að vinna að þessu markmiði.

Flokkur fólksins vill búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld

Kolbrún Baldursdóttir skipar 1. sæti Flokks fólksins í Reykjavík


Börn eru látin bíða og bíða

Fimm sálfræðingar eiga að sinna sautján leik- og grunnskólum í Breiðholti. Svona er ástandið í þessum málum víða í Reykjavík. Það skal því engan furða að biðin eftir sálfræðiþjónustu skóla sé löng enda hefur þessi málaflokkur verið sveltur árum saman.

Börn með vitsmunafrávik þurfa að bíða mánuðum og jafnvel árum saman eftir greiningu.

Snemmtæk íhlutun skiptir máli. Því fyrr sem vandinn er greindur því fyrr er hægt að koma barninu til hjálpar með viðeigandi úrræðum og einstaklingsnámsskrá eftir atvikum.

Flokkur fólksins vill útrýma biðlistum þegar börn eru annars vegar og styrkja Þjónustumiðstöðvar svo hægt verði að auka sálfræðiaðstoð við börn í leik- og grunnskólum. Einn sálfræðingur getur í mesta lagi sinnt tveimur skólum ef vel á að vera. Börn og foreldrar þurfa að hafa greiðan aðgang að skólasálfræðingi og sérhver leik- og grunnskóli ætti að hafa aðgang að talmeinafræðingi.

Efnaminni foreldrar hafa ekki ráð á að fara með barn sitt til sálfræðings út í bæ. Dæmi eru um að efnaminni foreldrar taki lán til að geta greitt fyrir sálfræðiþjónustu, viðtöl, ráðgjöf og/eða greiningu á einkareknum stofum þar sem bið eftir þjónustu hjá sálfræðideildum Þjónustumiðstöðva telur stundum í mánuðum.

Flokkur fólksins vill efla geðrækt í skólum og styrkja skólana til að aðstoða börn sem eru einmana, einangruð og vinalaus með markvissum aðgerðum s.s. sjálfsstyrkingarnámskeiðum. 

Börn eiga ekki að þurfa að bíða þarfnist þau sérfræðiaðstoðar af einhverjum toga. Flokkur fólksins hefur hagsmuni barnsins í fyrirrúmi í einu og öllu og í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið löggiltur hér. Í þriðju grein hans er kveðið á um að allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda sem varða börn skulu byggðar á því sem börnum er fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki  eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.

 

 


Ég var þetta barn

Ég var eitt af þessum börnum sem var á sífelldum flækingi. Þegar ég fæddist bjó ég á Víðimel þar sem við, fimm manna fjölskylda, bjuggum inn á ömmu í 40 fermetra þakíbúð. Næst lá leiðin í nýbyggingu í Sólheima. Um þetta leiti var pabbi farinn að drekka mikið og misstum við þetta húsnæði. Þá var flutt á Hjarðarhagann í rúmt ár og enn versnaði pabba. Fyrir dyrum lá skilnaður og fluttum við systkinin með mömmu þá á Barónsstíg. Þar bjuggum við í rúmt á þegar aftur var flutt í þakíbúð á Víðimel. Þá kom loks vel þeginn stöðugleiki í nokkur ár þar til flutt var enn á ný og að þessu sinni á Nesveg. 

Fyrir barn að flytja svona oft er erfitt hvað varðar ótal margt en ekki hvað síst að eignast vini og viðhalda vinskap.

Þetta er verið að bjóða mörgum börnum upp á í dag. Endalaus þvælingur vegna húsnæðisskorts. Sumir geta hvorki leigt hvað þá fjárfest í húsnæði. 

Allir þurfa þak yfir höfuðið. Það fylgir því mikil vanlíðan að hafa ekki öruggan samastað enda um eina af okkar aðal grunnþörfum. Allt frá hruni hefur staða þeirra verst settu einungis farið niður á við og er nú algerlega óviðunandi í Reykjavík. Börnin í þessum aðstæðum hafa mörg hver átt dapran tíma og sum gengið í allt að fimm grunnskóla. Tíðir flutningar hafa áhrif á sjálfsmynd barna. Þau hafa varla aðlagast og myndað tengsl þegar þau þurfa að flytja aftur. Það setur að mörgum börnum kvíða og áhyggjur þegar þau hugsa hvort þeim takist að eignast vini á enn einum nýjum stað.

Margt ungt fjölskyldufólk getur kannski stólað á foreldra sína og ættingja en það verður að horfast í augu við þá staðreynd að ekki allir foreldrar eiga kost á því að hjálpa börnunum sínum í húsnæðismálum. Sumir eiga bara nóg með sig. Í öðrum tilfellum eru foreldrar ekki til staðar, búa e.t.v. annars staðar á landinu eða erlendis.

Barn sem lifir við þessar aðstæður situr ekki við sama borð og börn sem eiga foreldra í betri efnahagsstöðu. Það ríkir því sannarlega mikill ójöfnuður eins og staðan er í Reykjavík í dag sem ætti að geta séð vel um alla sína þegna. Ójöfnuður sem þessi kemur eins og alltaf verst niður á þeim sem minnst mega sín. Börnin þurfa að geta fundið til öryggis í tilveru sinni ef þau eiga að geta vaxið og dafnað áhyggjulaus.

Flokkur Fólksins sem nú bíður fram í fyrsta sinn í Reykjavík leggur höfuðáherslu á fólkið sem byggir borgina okkar. Hér hefur ríkt lóðarskortur árum saman. Nánast engin venjuleg fjölskylda eða einstaklingur geta keypt dýrar eignir.

Flokkur fólksins vill stuðla að samvinnu ríkis, borgar og lífeyrissjóðanna svo þeim sem tekjulægri eru sé gert kleift að koma sér upp öruggu heimili. Félagslegt húsnæði er nauðsynlegt. Í lok árs 2017 voru 954 fjölskyldur á biðlista eftir félagslegu húsnæði.

Byggja þarf íbúðir af hagkvæmni þannig að borgarar hefðu bolmagn á að kaupa eða leigja. Hægt er að setja kvaðir á byggingalóðir og byggja húsnæði ætlað efnaminna fólki t.d. ungu fólki. Þegar meira framboð er þá verður meiri stöðugleiki og leiguverð lækkar. Í Reykjavík í dag er ekki gert ráð fyrir að venjuleg fjölskylda búi þar.

Húsnæðisöryggi er grundvöllur að hagsæld og hamingju. Við skulum ekki líða frekari vanrækslu í þessum málum!

Fólkið fyrst!


Vinátta ekki í boði borgarstjórnar

Fátt skiptir meira fyrir börnin okkar en að þau læri góða samskiptahætti. Flokkur fólksins vill að einskis sé freistað til að kenna börnunum um leið og þroski og aldur leyfir umburðarlyndi fyrir margbreytileikanum og að bera virðingu fyrir hverjum og einum.

Flokkur fólksins vill að  Vináttuverkefni Barnaheilla á Íslandi verði umsvifalaust tekið inn í alla leik- og grunnskóla borgarinnar. Fram til þessa hefur Dagur B. sagt nei við Vináttu. Margsinnis hefur verið rætt við hann um verkefnið en hann hefur tregast til.

Blær stærri

Vinátta er forvarnaverkefni gegn einelti, danskt verkefni að uppruna og nefnist Fri for mobberi á dönsku.   Það er gefið út með góðfúslegu leyfi og í samstarfi við systursamtök Barnaheilla; Red barnet – Save the Children og Mary Fonden í Danmörku.

Vinátta hefur fengið einstaklega góðar viðtökur á Íslandi og breiðst hratt út. Verkefnið hefur náð mikilli útbreiðslu en í lok árs höfðu leikskólum sem vinna með Vináttu fjölgað um helming á einu ári. Eru þeir nú rúmlega 100 talsins eða 40% allra leikskóla á landinu. Þýðing og aðlögun grunnskólaefnis fyrir 1.–3. bekk hófst á fyrri hluta ársins og á haustdögum fór það í tilraunakennslu í 15 grunnskólum. Byrjað var að undirbúa þýðingu og aðlögun á ungbarnaefni fyrir 0–3ja ára í lok árs. Það er óhætt að segja að Vinátta hefur hlotið gríðarlega góðar viðtökur en áætla má að fjöldi þeirra sem hafa sótt námskeið hjá Barnaheillum um notkun verkefnisins sé að nálgast um 1000 starfsmenn leikskóla og grunnskóla.

Vinátta 1

Vinátta fékk hvatningarverðlaun Dags gegn einelti árið 2017.

Reykjavík er eitt af fáu sveitarfélögum sem styrkir ekki Vináttu. Kostnaður við að taka verkefnið inni í skóla sem er að meðaltali 100.000 sem hlýtur að teljast lítilræði ef  árangur, hamingja og gleði sem það skilar sér til barnanna, foreldra og starfsfólks skóla er skoðað.

Mælikvarðinn á ágæti verkefnisins Vináttu er sú mikla útbreiðsla sem það hefur hlotið á stuttum tíma. Umsagnir frá starfsfólki Vináttu-leikskólanna hafa allar verið á sama veg, jákvæðar með eindæmum.

Flokkur fólksins vill útrýma einelti, í það minnsta gera allt sem hugsast getur til að það megi vera hverfandi.  Með þátttöku sem flestra leikskóla og grunnskóla í Vináttu eru lögð lóð á þær vogaskálar.

Hvert er vandamálið hjá borgarstjórn Reykjavíkur þegar kemur að Vináttuverkefni Barnaheilla? Skipta börnin í Reykjavík ekki meira máli en svo að ekki sé hægt að styrkja verkefni sem einhugur er um að skili frábærum árangri?

Vináttu hrundið af stað 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband