Bloggfærslur mánaðarins, maí 2018

Einu barni sem líður illa í skólanum er einu barni of mikið!

Allt of oft berast fréttir af slæmri líðan og gengi barna í grunnskólum landsins og að árangur íslenskra nemenda sé áberandi verri en nemenda á hinum Norðurlöndunum. Sumum nemendum líður svo illa í grunnskólanum að þeir geta ekki beðið eftir að útskrifast. Þau kvarta yfir of miklum hávaða í bekknum og eiga erfitt með að einbeita sér. Mörg segjast ekki skilja námsefni eða ná ekki fyrirmælum. Sumum er strítt, þau lögð í einelti og margir krakkar segjast ekki eiga neina vini. Í þessu samhengi má spyrja, er skólinn í núverandi mynd að virka?

Í lögum um grunnskóla og í aðalnámsskrá er skýrt tekið fram að nemendur eigi rétt á að fá námsþarfir sínar uppfylltar í almennum skóla án aðgreiningar og án tillits til líkamlegrar eða andlegrar getu (lög um grunnskóla nr. 91/2008).

Flokkur fólksins telur að ekki allir nemendur séu að fá námsþarfir sínar uppfylltar án tillits til færni og getu. Í því sambandi má nefna börn sem hneigjast til verklegs náms. Val í verknámi er takmarkað og því lítið svigrúm til að rækta fjölbreyttari færni á því sviði. Þau börn sem finna sig ekki í núverandi fyrirkomulagi eiga á hættu að brotna niður því þau upplifa sig ýmist vera ómöguleg eða týnd. 

Vanlíðan barna er ekki kennurum að kenna heldur mikið frekar sá þröngi stakkur sem þeim er gert að vinna samkvæmt. Flokkur fólksins vill að hlustað sé betur á foreldra og fólkið á gólfinu. Leggja þarf allt kapp á að að skólar fái frelsi til að þróa fjölbreytni í námsvali, ólíkar leiðir í gegnum námið og fjölbreyttar námsaðstæður. Börn eiga að geta farið á sínum hraða í gegnum námið og hafa meira val þegar kemur að verklegum og skapandi þáttum.

Það sem er öllum börnum sameiginlegt er að þau þarfnast umhyggju, hlýju og hvatningar. Þau þarfnast samveru, öryggis og vináttu. Sérhver einstaklingur þarf að fá að vera hann sjálfur í hópi jafningja.

Endurskoða þarf núverandi kerfi skóla án aðgreiningar. Ekki dugar að vera sammála um stóru drættina þegar ljóst er að okkur er að mistakast. Flokkur fólksins hefur hagsmuni barnsins ávallt í fyrirrúmi. 
Kjörorð okkar er Fólkið fyrst!

Höfundur skipar 1. sæti Flokks fólksins í Reykjavík


Það er ekki ofsögum sagt að það er neyðarástand í húsnæðismálum í Reykjavík

Um 150 eldri borgarar bíða nú eftir dvalar- og hjúkrunarrými. Nokkrir hafa beðið í 2 ár. Biðlisti eftir heimaþjónustu frá heimili til hjúkrunarheimilis er líka langur. Það er einnig bið í dagvistun. Segja má að hvert sem litið er í kerfi borgarinnar hvað varðar húsnæði og dvalarrými eru langir biðlistar.


Um 500 manns eru á biðlista hjá Brynju hússjóði og langur biðlisti er hjá Félagsbústöðum. Hér er aðeins verið að tala um eldri borgara og öryrkja. Tvöfaldur þessi hópur og gott betur af barnafjölskyldum og einstaklingum bíður eftir félagslegu húsnæði.

Flokkur fólksins vill að lífeyrissjóðum verði veitt heimild með lögum til að stofna óhagnaðardrifin leigufélög sem leigja íbúðir á verði sem samræmist greiðslugetu fólks. Fleiri  eru færir til að fjármagna húsnæðisuppbyggingu sem þarf að eiga sér stað hratt og markvisst. Í þessu sambandi má nefna verkalýðsfélögin og Íbúðalánasjóð. 

Húsnæðismarkaðurinn verður að fara að komast í eðlilegt horf. Hlutverk borgarinnar er að veita lóðir, sjá til þess að skipulagið sé í lagi og greiða götur verktaka.  Í þessu ferli mega engar tafir verða því verkefnið er risastórt og vinnst ekki á einu bretti.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík


Ég fer í sturtu í sundi þegar ég þarf að fara í bað

„Við mamma búum í einu litlu herbergi. Mamma og pabbi misstu allt í Hruninu. Við áttum fyrirtæki. Ég veit ekki hvenær við fáum íbúð. Ég hlakka mest til að fá íbúð þar sem ég get farið í sturtu. Við höfum ekkert svoleiðis núna. Ég fer í sturtu í sundi þegar ég þarf að fara í bað. Ég veit það þýðir ekki að kvarta. Það er bara engin peningur til. Ef ég eignaðist pening myndi ég kaupa mér föndurdót. Mér finnst allt í lagi að vera í gömlum fötum úr Rauða Kross búðunum á meðan mér er ekki strítt.“

 

Einstætt foreldri með 300.000 kr. á mánuði í ráðstöfunartekjur sem leigir íbúð á 200.000 kr. líður skort á öllum öðrum sviðum. Fjölskyldan á oft ekki fyrir mat. Að koma húsnæðismálum í eðlilegt horf er forgangsmál hjá Flokki fólksins. Við viljum ganga til samstarfs við ríkið og  lífeyrissjóðina og byggja íbúðir víða um borgina. Þetta þarf að gerast hratt. Því fyrr sem framboð eykst því fyrr kemst húsnæðismarkaðurinn í eðlilegt horf. Byggja þarf hagkvæmt en vandað húsnæði og tryggja að það sem er byggt sé á færi efnaminni fólks, eldri borgara og öryrkja að leigja eða kaupa.

Það ófremdarástand sem ríkt hefur í húsnæðismálum hefur komið illilega niður á börnunum. Fjárhagslega aðþrengdir foreldrar þurfa að velta fyrir sér hverri krónu. Þeir þurfa eðli málsins samkvæmt að forgangsraða ef endar ná ekki saman. Að borga himinháa leigu verður að vera efst á forgangslistanum.  Næst kemur matur á borðið. Annað, skemmtun, afþreying, er einfaldlega ekki í boði.

Ég hef á ferli mínum sem sálfræðingur talað við tugi barna sem líða vegna fátæktar foreldra sinna. Þau finna áþreifanlega fyrir því að sitja ekki við sama borð og börn efnameiri foreldra. Þau fá ekki sömu tækifæri og þau, ekki sömu upplifun og reynslu af ýmsu sem kostar peninga.  Sjálfsmat þeirra er oft neikvætt og baráttan fyrir að vera samþykktur meðal jafningja er hörð. Vanmáttur og minnimáttarkennd þjaka mörg þessara barna. Í þessum tilfellum er það algengt að fjölskyldurnar hafi flutt oft og börnin hafa gengið í fjóra jafnvel fimm grunnskóla. 

Drengur:

 „Ég er oft leiður því ég get sjaldnast fengið það sama og vinir mínir. Ekki til peningur segir mamma þegar ég spyr hana hvort ég geti t.d. fengið tölvuleik. Kannski í afmælis eða jólagjöf segir pabbi. Það þýðir lítið að tala um þetta. Verst þykir mér að geta ekki boðið vinum mínum heim. Ég vil ekki að þeir sjái hvað er þröngt hjá okkur. Svo ef einhver vinur minn yrði svangur þá er oft ekki mikið til í ísskápnum.“

Liður í að útrýma fátækt er að koma húsnæðismálunum í fullnægjandi horf svo lunginn af tekjum láglaunafólks fari ekki í leigu. Það verður að ganga rösklega til verks í að bæta húsnæðisöryggi efnalítilla fjölskyldna, öryrkja, eldri borgara, einstaklinga og ungs fólks. Flokkur fólksins vill stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjanda.
Krafan er skýr og hún er að allir geti haft öruggt húsnæði.

Kolbrún Baldursdóttir skipar 1. sæti Flokks fólksins í Reykjavík.

 

 


Dylgjur og bull

 

Hér er upptaka frá fundinum með ÖBI. Í panel var Flokkur Folksins sakaður af fulltrúa núverandi meirihluta um dylgjur þegar nefndar voru tölur þeirra sem bíða eftir félagslegu húsnæði og bull þegar verið var að ræða um biðlista barna eftir sérfræðiþjónustu skólanna. 

https://www.facebook.com/NPA.midstodin/videos/10160814486930497/ 


Skóli án aðgreiningar er ekki að virka fyrir alla

Skóli án aðgreiningar er það skólakerfi sem boðið hefur verið upp á síðustu áratugi. Fyrirkomulagið hefur ekki gengið upp. Til þess að svo hefði mátt vera hefði þurft mun meira fjármagn inn í skólana en veitt hefur verið síðustu árin. Nauðsynlegt hefði verið að hafa fleiri þroskaþjálfa, talmeinafræðinga, sálfræðinga og annað aðstoðarfólk til að styðja við kennara og þá nemendur sem þarfnast sérúrræða og kennslu aðlagaða að sínum þörfum.

Flokkur fólksins vill mæta námsþörfum allra barna án tillits til færni þeirra og getu. Við viljum að fjölbreyttum skólaúrræðum verði fjölgað til að hægt sé að sinna nemendum sem þarfnast sérúrræða þegar almennur hverfisskóli hentar ekki.

Að sinna börnum er grunnstefið í stefnu Flokks fólksins. Sem oddviti og sálfræðingur á heilsugæslu og í skóla til fjölda ára er það mat mitt að þegar kemur að skólaúrræðum og þjónustu við skólabörn hafi borgarmeirihlutinn stigið allt of fast á bremsurnar.

Flokkur fólksins getur ekki liðið að sparað sé þegar börn eru annars vegar. Við vitum öll að innstreymi í borgarsjóð er á annað hundrað milljarðar. Við höfum því vel efni á að sinna börnunum okkar með fullnægjandi hætti.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband