Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2020

Sorpa í rusli

Hvernig komið er fyrir Sorpu bs. er slæmt og ein af björgunaraðgerðum verður að hækka gjaldskrána. Í borgarráði var sótt um samþykkt á viðbótarláni. Tveir aðilar sem eru að hjálpa til finnst mér vel kunna að teljast vanhæfir og er þá ekki verið að gagnrýna faglega færni þeirra. Hér má t.d. nefna stjórnarformann Félagsbústaða og fyrrverandi fjármálastjóra borgarinnar. Hér er bókun mín:
 
Þær ógöngur sem stjórn SORPU hefur komið fyrirtækinu í eru óásættanlegar. Reykjavíkurborg er stærsti eigandi SORPU og mun bera hitann og þungann af greiðslu þess láns sem nú er sótt um samþykki fyrir sem og fyrri lánum. Það blasir við að til að fyrirtækið haldist á floti mun verða seilst í vasa borgarbúa og sorphirðugjald hækkað. Talað eru um að selja metan en metan ætti helst að gefa til að hvetja til orkuskipta. Stjórn situr og er allt um kring þrátt fyrir að hafa sýnt vítavert andvaraleysi. Stjórn og fjármálastjóra rann ekki í grun að Sorpa væri á leið á hvínandi kúpuna. Allt er framkvæmdarstjóranum að kenna en þó sagt að sé ekkert saknæmt. Hefði stjórn fylgst grannt með þá hefði ekkert af þessu komið þeim í opna skjöldu í það minnsta. Nú er beðið um 600 milljóna skammtíma lán til viðbótar við 500 m.kr. sem þegar er heimild fyrir. Hér sést óreiðan í hnotskurn sem er afleiðing af eindæma lélegri stjórnun. Sumir þeirra sem boðið er að koma að borðinu nú til að skoða hvað gerðist og hvað verður gert til að bjarga eru vanhæfir. Hér má t.d. nefna stjórnarformann Félagsbústaða og fyrrverandi fjármálastjóra.
rusl 3

Sorpa með allt niður um sig

Í morgun var fundur um málefni Sorpu sem okkur borgar- og bæjarfulltrúum var boðið á en eins og menn vita þá hefur minnihluti sveitastjórnar enga aðkomu að málefni byggðasamlaga eins og Sorpu og Strætó bs.

Ég hef lagt það til munnlega og skriflega í bókunum að stjórn víki og skipta þarf líka um endurskoðendur sem og alla sem áttu að hafa eftirlit. Í skýrslu innri endurskoðunar fær stjórn áfellisdóm fyrir andvaraleysi. Það er eins og stjórnin hafi bara beðið eftir að fá gögn á silfurfati í stað þess að eiga frumkvæði af því að nálgast þau. Sorpa er einfaldlega með allt niður um sig og það var ljóst í fyrra þegar milljarða bakreikningur kom vegna byggingu nýrrar jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi.

Þetta fyrirtæki er með ólíkindum. Eins og vitað er framleiðist mikið af metani í Álfsnesi og í stað þess að koma því á bíla er það brennt á báli en það verður að gera ef metan er ekki nýtt til að það fari ekki út í andrúmslofti. Það er þetta með hægri og vinstri höndina í borgarstjórnarmeirihlutanum, Sorpa brennir metani og Strætó notar jarðeldsneyti á vagnanna utan örfárra. Þessi tvö fyrirtæki eru bæði í eigu borgarinnar að stórum hluta en þau geta ekki talað saman til að annað get nýtt það sem hitt framleiðir.

Til að bíta höfuðið af skömminni hefur skipulags- og samgönguráð samþykkt að taka metanbíla af lista vistvænna bíla að því, eins og sagt er í nýjum reglum, að það er ekki hægt að tryggja að þeir aki á vistvæna orkugjafanum. 

Á þriðjudaginn í næstu viku er fundur borgarstjórnar. Þá verður Flokkur fólksins með tillögu er varðar notkun metans í stað þess að brenna það á báli. Það er ekki fyrsta tillaga Flokks fólksins um notkun metans. 

Tillagan hljóðar svona: 

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela fulltrúa sínum í stjórn Sorpu að leggja fram tillögu um að söluverð metans verði lækkað og miðist til frambúðar við kostnað Sorpu við það að flytja það frá framleiðslustað á sölustað.

Metanbílar hafa verið teknir af lista vistvænna bíla af því, eins og sagt er í reglum, ekki er hægt að tryggja að þeir aki á vistvæna orkugjafanum. Það eru því engar ívilnanir frá borginni fyrir eigendur metanbíla lengur, en samkvæmt nýjum reglum Reykjavíkurborgar um bíla mega þeir sem teljast vistvænir leggja gjaldfrjálst í 90 mínútur í gjaldskyld stæði. Þetta eru reglur sem eru ekki til þess gerðar að hvetja fólk í orkuskiptin. Á sama tíma er Sorpa, sem er byggðasamlag, að brenna metani á báli í stórum stíl. Metanið er því verðlaust á söfnunarstað. Flokkur fólksins vill með þessari tillögu enn og aftur leggja áherslu á mikilvægi þess að nýta þennan vistvæna orkugjafa sem nóg er til af og verður enn meira þegar ný jarðgerðarstöð í Álfsnesi er komin í fulla virkni. SORPA veit augljóslega um flesta notkunarmöguleika en metan selst ekki að sjálfu sér. Metan þarf að selja á hinn almenna bílaflota í Reykjavík. Verð á metani þarf þess vegna að vera samkeppnishæft til samaburðar við aðra orkugjafa svo bíleigendur kaupi bíla sem ganga fyrir metani. 

 

Sorpumynd


Gagg og væl minnihlutans

Hún nafna mín sendi okkur í minnihlutanum tóninn í vikunni í leiðara Fréttablaðsins. Það er bara gaman af því. Hún talar eins og við hötum göngugötur en svo einfalt er málið ekki.

Hef ekkert á móti göngugötum per se. Ég vil bara að haft sé samráð við rekstraraðila á svæðinu, að aðgengi fyrir fatlaða sé gott (og í samræmi við lög), að borin sé virðing fyrir þeim sem búa ekki í miðbænum heldur koma lengra að til að sinna erindum og sækja vinnu og sem þurfa og vilja nota bíl sinn. Leysa þarf jafnframt umferðarhnúta og hafa klár bílastæði fyrir þennan hóp sem og utanbæjarfólk. Einnig þarf að horfast í augu við þá staðreynd að eldri borgarar, margir hverjir, eru ekki hrifnir af bílastæðahúsum. Það er ekki þannig að flestir búi við hlið vinnustaðar síns og öll þekkjum við hvernig almenningssamgöngur virka hér eða öllu heldur virka ekki.  Flóknara gagg og væl er það nú ekki hjá okkur í Flokki fólksins


Börn aftur tekin að veikjast í Fossvogsskóla

Börn eru tekin að veikjast aftur í Fossvogsskóla eftir því sem ég hef frétt. Í morgun í borgarráði lagði ég fram 2 tillögur og eina fyrirspurn í tengslum við Fossvogsskóla og myglu í skólahúsnæði borgarinnar:
 
Tillaga Flokks fólksins að borgin komi sér upp verkferlum þegar myglumál í skólum koma upp
 
Flokkur fólksins leggur til að borgin komi sér upp verkferlum þegar myglumál koma upp í skólum. Fram til þessa er aðeins verið að sjá toppinn á ísjakanum. Eftir að meirihlutinn í borginni hefur vanrækt að halda við skólahúsnæði árum saman er komið að skuldadögum.
Fleiri myglumálum eiga örugglega eftir að koma fram í dagsljósið næstu árin og þá þarf að vera til faglega samþykkt verklag. Í þessum málum ríkir óreiða. Í húsnæði eins og Fossvogsskóla þar sem áratuga vanræksla verður til þess að húsið nánast eyðileggst er enn vandi þótt farið hefur verið í endurbætur. Nú eru börn aftur farin að veikjast. Hefjast verður handa að nýju með því að gera almennilegar mælingar og í framhaldi fara í þær framkvæmdir mælingar sýna að þurfi að gera. En þar sem enginn verkferill er til þegar mál af þessu tagi koma upp gerist ekki mikið og mörgum finnst að sópa eigi vandanum undir teppi. Borgarfulltrúi skynjar að lítið er eftir af trausti í garð meirihlutans í borgarstjórn, skóla- og frístundaráðs og Heilbrigðiseftirlitsins. Allir eru orðnir þreyttir á ástandinu og ekki síst hvað kerfið er seint að taka við sér og hvað langan tíma það tekur að bregðast við.
 
Tillaga Flokks fólksins að gerð verði faglegri úttekt á loftgæðum í Fossvogsskóla.
 
Lagt er til að gerð verði faglegri úttekt á loftgæðum í Fossvogsskóla. Foreldrar hafa ítrekað reynt að komast í samband við embættismenn borgarinnar en það gengur illa. Það hefur aldrei verið gerð alvöru úttekt eftir að sagt var að „verki“ var lokið.
Heilbrigðiseftirlitið hefur komið þarna, gengið í gegn en slík heimsókn hefur aldrei skilað sér segja foreldra barna í Fossvogsskóla. Flokkur fólksins vill að skóla- og frístundarráð taki málið alvarlega og bregðist við með öðru en þögn Eftir að hafa rætt við foreldra er það upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins að margir treysti Heilbrigðiseftirlitinu ekki lengur og ekki heldur mælitækjum þeirra. Ef ekki er eitthvað sýnilegt er hreinlega metið að ekkert sé að. Slík vinnubrögð eru með eindæmum ófagleg ef rétt reynast. Nú eru börn að veikjast aftur. Málið þolir því enga bið.
 
Fyrirspurn um stöðu mála í Fossvogsskóla
 
Flokkur fólksins óskar eftir að spyrja um stöðu húsnæðismála í Fossvogsskóla. Þar kom aftur upp leki í nóvember þar sem yngstu börnin eru og aftur eru komin upp alvarleg veikindi. Börn eru ítrekað að veikjast og ekki næst samband við Heilbrigðiseftirlitið til að gera alvöru mælingar. Er þetta komið út í það að borgin axli ekki lengur ábyrgð og að foreldrar og foreldrafélag verði að taka málið í eigin hendur, kaupa mælingar sjálft. Foreldrar eru ekki tilbúnir að fórna heilsu barna sinna degi lengur á meðan borgarmeirihlutinn stingur hausnum í sandinn og lætur sem ekkert sé. Að minnsta kosti 7 börn sýna einkenni nú og einhverjir af foreldrum og kennurum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af ástandinu þarna og hvað skóla- og frístundarráð og Heilbrigðiseftirlitið er lengi að taka við sér og lætur eins og vandinn sé jafnvel bara léttvægur? Þetta er í það minnsta upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins
 
 

Skjalaskandallinn til borgarlögmanns? Hvort á maður að gráta eða hlægja?

15. janúar 2019 var þessi tillaga mín og Miðflokks um að fela borgarlögmanni að vísa málinu til þar til bærra yfirvalda til rannsóknar felld. Það var okkar mat að það væri eina leiðin til að ljúka þessu máli fyrir alvöru, að fá það á hreint af óháðum aðilum hvort um misferli hafi verið að ræða 
 
Málinu er hvergi nærri lokið. Með nýrri skýrslu borgarskjalavarðar um frumkvæðisathugun hennar skellur þetta spillingarmál á okkur aftur eins og höggbylgja og nú verra en áður.
 
Nú er sú hugmynd uppi, hugmynd Sjálfstæðismanna, að málið fari ekki lengra en á borð borgarlögmanns sem rannsaki það sjálfur. Ég veit ekki hvort á að gráta eða hlægja en það hljóta allir að sjá vandamál með hæfi borgarlögmanns hér. En borgarstjóri elskar að sjálfsögðu þessa hugmynd og útilokar hana ekki eins og sagt var í fréttum. Ég tel borgarlögmann fullkomlega vanhæfan vegna innri tengsla í ráðhúsinu og ferlisins við ráðningu hans. 

Frístundakortið ekki fyrir börn fátækra foreldra

Á næsta fundi borgarstjórnar 18. febrúar vil ég ræða enn meira um afbökun reglna frístundakortsins og minna aftur á upphaflegan tilgang þess. Ég mun tengja umræðuna við tillögu mína um að fjölga stöðugildum hjá Leikni sem er lítið íþróttafélag í Efra Breiðholti. Félagið berst í bökkum og er að reyna að halda úti fótboltadeild með aðeins einn starfsmann. Í hverfi 111 býr hæsta hlutfall fjölskyldna með fjárhagsaðstoð og hæsta hlutfall borgara af erlendum uppruna. Þar er einnig lægsta hlutfall barna sem stunda íþróttir en í þessu hverfi er jafnframt Frístundakortið minnst nýtt af öllum hverfum eða innan við 70%. Í sumum öðrum hverfum er notkun Kortsins yfir 90%. Ef horft er á íþróttir einungis þá er notkun þess einnig minnst í hverfi 111 í samanburði við önnur hverfi(aðeins 21% stúlkna og 43% drengja). 

Ég tel að ein af ástæðum þess að börnin eru ekki að nota Frístundakortið í hverfi 111 sé sú að foreldrar sem eru í fjárhagserfiðleikum eru tilneyddir til að nota rétt barna sinn til frístundakortsins til að greiða frístundaheimilið eða tungumálakennslu auk þess sem gefa þarf upp rétt Frístundakortsins til að hægt sé að sækja um fjárhagsaðstoð, skuldaskjól eða afskriftir skulda hjá borginni. Svona er nú komið fyrir Frístundakorti barnanna.

Haustið 2018 voru 6.298 börn í 1.-4. bekk. Frístundakortið var nýtt upp í greiðslu fyrir dvöl 1.503 barna á frístundaheimili eða 23,9% þeirra.

Upphaflegur tilgangur Frístundakortin var að öll börn án tillits til efnahags foreldra geti lagt stund á íþróttir. Árið 2009 var af tilstuðlan VG reglum um Frístundakortið breytt, fyrst þannig að hægt var að nota það til að greiða frístundaheimili en svo var haldið áfram að gengisfella Kortið með því að tengja það við fjárhagsaðstoð og skuldir foreldra. Þar með gat barnið ekki notað það til að greiða með æfingagjöld t.d. til að leggja stund á fótboltaiðkun hjá Leikni. 

Hægt er að fara aðrar leiðir til að hjálpa fólki í fjárhagsvanda en að hrifsa af börnunum rétt þeirra til að nota Frístundakortið. Ég hef bent á styrki á grundvelli 16. gr. A. Eins og staðan er nú er ekki hægt að sækja um styrk samkv. þeirri grein nema uppfylla skilyrði um fjárhagsaðstoð og til að uppfylla skilyrði um fjárhagsaðstoð þarf að gefa eftir rétt barnsins til Frístundakortsins. Svona ganga nú kaupin á eyrinni fyrir sig í borginni. 

Börn eru á Frístundaheimili til þess að foreldrar geti unnið úti.  Eins og þessum málum er háttað í dag er verið að beita börn efnaminni foreldra órétti. Það er verið að gefa þeim tækifæri með hægri hendi en hrifsa það til baka með þeirri vinstri.

 

 


Skepnurnar í skjól áður en óveðrið skellur á!

Vona að bændur og allir sem bera ábyrgð á dýrum sem eru almennt úti á vetrum komi þeim í skjól fyrir morgundaginn eins og framast er kostur.
Það hefur enginn gleymt hvernig fór fyrir veslings skepnunum í óveðrinu í desemberdýrin


Speak English?

Ég er alin upp í vesturbæ Reykjavíkur og miðbærinn var leiksvæðið mitt. Í hálfa öld hef ég fylgst með miðbænum sem hefur verið í alls kyns birtingarmyndum. Nú er hann að taka á sig mynd sem ekki hefur sést fyrr. Íslendingum hefur fækkað í bænum og nánast hvert sem litið er, á veitingahús eða í verslun er spurt hvort maður tali ensku? "Já ég tala ensku" svo langar mig mjög oft að bæta við, "en þegar ég heimsæki miðbæinn minn langar mig bara helst að tala Íslensku".

Þegar ég kem inn í rammgerða Íslenska verslun eins og Rammagerðina langar mig helst alls ekki að tala ensku við afgreiðslufólkið. En ég verð að gera það því annars skilja þau mig ekki. 

Ég vil að miðbærinn sé fyrir alla borgarbúa og að utanbæjarfólki sé boðið velkomið að heimsækja hann með því að auðvelda aðgengi. Til þess að aðkoma að miðbænum sé eftirsóknarverð þarf að létta á umferðinni með því að breyta ljósastýringum og hafa bílastæði tiltæk. Bílastæðahús eru ekki að gera sig fyrir alla.
Það væri líka voða gaman að geta talað móðurmálið í bænum svona alla vega sem oftast.

 

Umræða um lokanir gatna: Laugavegar, Bankastrætis og Skólavörðustígs og þá bláköldu staðreynd að fjöldi fyrirtækja hafa yfirgefið bæinn hefur verið hávær. Verslanir þrífast ekki nema inn í þær komi viðskiptavinir. Eftir að þessum götum lokaði fyrir umferð allt árið um kring hurfu kúnnar og þar með tugir verslana sem nú gera það gott annars staðar þar sem aðgengi er betra fyrir alla.

Í bænum er vissulega fólk á ferð. Þar býr fólk sem er eðli málsins samkvæmt á ferð um bæinn og svo eru það ferðamennirnir sem hefur reyndar fækkað og munu sennilega fækka enn meira t.d. vegna uppkominnar skaðlegrar veiru, sem vonandi verður ekki að faraldri.  

Um fækkun Íslendinga í bæinn er varla lengur deilt. Meirihlutinn í borgarstjórn mótmælir því ekki einu sinni lengur þegar á þetta er minnt. Hann situr bara og þegir. Í borgarstjórn er ég fulltrúi flokks sem var stofnaður til að gæta m.a. hagsmuna öryrkja og eldri borgara. Áhersla mín sem borgarfulltrúi er á aðgengi þeirra sem eiga erfitt um gang að einhverjum orsökum. 

Ég og við í Flokki fólksins leggjum  mikla áherslu á að haft sé gott samráð við fólkið en því er ekki að skipta í þessum máli. Þeir flokkar sem eru við stjórn lögðu áherslu á lýðræði og samráð í kosningabaráttunni en það voru og eru bara orð og hafa í raun aldrei verið annað en orð.

Borgaryfirvöld eru ekki enn farin að virða ný umferðarlög sem tóku gildi 1. janúar 2020. Í þeim kveður á um að heimilt er fyrir P-merkta bíla að aka og leggja á göngugötu. Vegna hindrana komast engir P-merktir bílar niður neðri hluta Laugavegar eða Bankastrætis sem dæmi. 
Flokkur fólksins vill einnig hugsa um eldra fólk í þessu sambandi því stundum er það einfaldlega þannig að þegar fólk er komið yfir sjötugt þá treystir það sér ekki að ganga langt.

Miðbærinn hefur á hálfri öld verið alla vega og alls konar, allt frá því að vera galtómur og kuldalegur yfir í að vera um tíma hlýlegur og fullur af lífi og fjöri. Undanfarið ár hefur sigið á ógæfuhliðina og það fyrst og fremst vegna þess að borgaryfirvöld telja að lokanir gatna og breytingar á þeim yfir í að vera alfarið göngugötur allt árið um kring sé málið. Þetta halda þau af því að svona er þetta t.d. í Osló.

Ef rekstraraðilar finna að þetta hefur haft skaðleg áhrif á viðskipti þeirra og viðskiptavinir segjast ekki treysta sér lengur í bæinn vegna aðgengisvanda hljóta borgaryfirvöld að verða að staldra við og hlusta. Hvers lags yfirvöld eru það sem hlusta ekki á hvar og hvernig hjarta borgarbúa slær?

Eftir sitja einsleitar verslanir, veitinga- og skemmtistaðir og auðvitað nokkrar aðrar verslanir, misvel settar, sumar sem rétt svo skrimta. Lengi getur vont versnað. Nú standa framkvæmdir fyrir dyrum að breyta Laugavegi í göngugötu. Ég velti því fyrir mér hvort það bíði Laugavegar það sama og Hverfisgötunnar en þar töfðust framkvæmdir út í hið óendanlega með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum fyrir rekstraraðila eins og við hljótum öll að muna. 


Borgarmeirihlutinn háður SSH með allar ákvarðanir

Það voru heitar umræður um skýrslu innri endurskoðunar um Sorpu á fundi borgarstjórnar í gær. Stjórn ætlar ekki að axla ábyrgð nema í orðum í mesta lagi.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um Skýrslu innri endurskoðunar um Sorpu:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill ítreka þá tillögu sína úr borgarráði að stjórnarmaður borgarinnar axli ábyrgð og víki og helst á öll stjórnin að gera það einnig. Niðurstöður skýrslunnar eru afgerandi, stjórnunarhættir eru ámælisverðir, segir í skýrslunni. Skuld er skellt á framkvæmdarstjórann. Hann hefur vissulega mikla ábyrgð en hún er fyrst og fremst að halda utan um daglegan rekstur og vissulega að halda stjórn upplýstri um málefni sem tengjast Sorpu. En stjórnarmenn bera stærstu ábyrgðina. Stjórnarmenn skulu, eins og segir í skýrslu innri endurskoðunar, óska eftir og kynna sér öll þau gögn og allar þær upplýsingar sem stjórn telur sig þurfa til að stýra fyrirtækinu. Byggðasamlagskerfið er gallað kerfi eins og það er núna ef stjórn stendur sig ekki þá er varla von á góðu. Ekki er langt síða að á fundi borgarstjórnar var leitað samþykkis fyrir ábyrgð á láni til að mæta framúrkeyrslu Sorpu. Nú neyðist meirihlutinn til að skoða málið og treystir sér aðeins til að gera það undir verndarvæng SSH. Það hefði þurft að grípa fyrr í taumanna. Ef borgin ætlar að taka þátt í byggðasamlagi þá þarf hún sem stærsti eigandinn að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við ábyrgð og eignarhald og skipa þarf stjórn sem hefur einhverjar þekkingu á málefnum Sorpu.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og breytingatillögu meirihlutans sem meirihlutinn og Sjálfstæðismenn samþykktu:

Tillaga Sjálfstæðisflokksins er út af borðinu enda náði hún ekki nógu langt. Að því leyti er tillaga meirihlutans sem nú er lögð fram skárri enda meira í takt við tillögu Flokks fólksins frá í september 2019 þess efnis að „borgarstjórn samþykki að aðild borgarinnar að byggðasamlögum verði skoðað með tilliti til þess að auka lýðræðislega aðkomu borgarbúa að þeim“. Flokkur fólksins hefur ítrekað sagt allt frá upphafi kjörtímabils að byggðasamlög eins og þau starfa nú eru ólýðræðisleg og fjarlæg hinum almenna borgara. Tillaga Flokks fólksins var felld í september og Sjálfstæðisflokkur sat þá hjá. Sá hluti breytingartillögu meirihlutans sem er ásættanlegur er: „að farið verði yfir skipulag og stjórnarhætti byggðasamlaganna til að tryggja hagsmuni eigenda þeirra“. En það sem hugnast ekki Flokki fólksins er samkrull með utanaðkomandi ráðgjöfum og Samtökum Sveitarfélaga. Flokkur fólksins getur því ekki stutt þessa tillögu meirihlutans. Flokkur fólksins telur borgarmeirihlutann of háðan Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu með hin ýmsu mál. Reykjavík er sjálfstætt sveitarfélag, lang stærst og að á gæta fyrst og fremst hagsmuna borgarbúa. Ef byggðasamlag á að vera lýðræðislegt þurfa stjórnunarheimildir að vera í samræmi við ábyrgð en svo eru byggðasamlög náttúrulega ekkert lögmál.


Stjórn Sorpu á að víkja

Það er áberandi í skýrslu innri endurskoðunar um Sorpu bs að stjórn réði ekki við hlutverk sitt. Innri endurskoðandi vill að stjórn sé skipuð fagfólki en ekki kjörnum fulltrúum. Ég er reyndar ekki sammála því enda hér um að ræða eina af mikilvægustu stofnunum borgarinnar. Aftenging við kjörna fulltrúa gengur því ekki upp. En við lestur skýrslu innri endurskoðunar er alveg ljóst að stjórn er vanhæf og hefur flotið sofandi að feigðarósi.
 
Framkvæmdastjóri hefur gert það líka en hann er látinn taka allan skellinn. Að sögn fram­kvæmda­stjóra höfðu hvorki stjórn­ar­for­maður né aðrir stjórn­ar­menn frum­kvæði að því að afla upp­lýs­inga um heild­ar­kostnað á hverjum tíma til að gera við­eig­andi sam­an­burð við áætl­an­ir. Stjórn hefur skýra frumkvæðisskyldu þegar kemur að öflun upplýsinga samkvæmt eigendastefnu en sinnti henni ekki.
 
Í kjölfar áfellisdóms sem stjórnin fær í skýrslu innri endurskoðunar hlýtur stjórnarmaður Reykjavíkur í Sorpu að víkja úr stjórn? Auðvitað hefur borgin ekkert að segja um aðra stjórnarmenn hinna sveitarfélaganna jafnvel þótt borgin sé langstærsti eigandinn. En þetta er einmitt gallinn við byggðasamlög. Stærsti eigandinn greiðir hlutfallslega mest en ræður hlutfallslega minnst. Reykjavík fær ekkert mál í gegn nema tvö önnur sveitarfélög samþykki þau. Þannig eru reglur um byggðasamlög. Hversu lýðræðislegt er það þegar um er að ræða langstærsta eigandann og stærsta greiðandann þegar kemur að því að greiða fyrir framúrkeyrslu tilkomna vegna grófrar vanáætlunar?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband