Bloggfærslur mánaðarins, mars 2020
Fádæma hroki stjórnarmanns borgarinnar í Sorpu
6.3.2020 | 16:42
Við urðum bara að gera þetta sjálfar, þ.e. vísa braggamálinu áfram
4.3.2020 | 17:21
Eins og þeir vita sem hafa fylgst með borgarmálunum þá var tillögu okkar Vigdísar um að vísa skýrslum vegna Nauthólsvegar 100 braggans, til rannsóknar hjá viðeigandi aðilum vísað frá í borgarstjórn í gær. Sjálfstæðisflokkur og Sósíalistaflokkur sátu hjá við frávísunina. Það lá því beinast við að við tvær f.h. okkar flokka yrðum að gera þetta sjálfar og frá því var gengið í hádeginu í dag. Það verður að koma lúkning í þetta mál með einum eða öðrum hætti. Ef niðurstaðan verður sú að héraðssaksóknari vísi málinu frá eða komist að þeirri niðurstöðu að ekkert saknæmt hafi átt sér stað þá er það bara fínt enda er markmið okkar ekki að reyna að koma neinum illa. En sem kjörnir fulltrúar ber okkur að gera allt sem í okkar valdi stendur til að fá endanlega úr þessu máli skorið. Það skref höfum við nú tvær tekið. Auðvitað var leitt að hinir minnihlutaflokkarnir skyldu ekki standa með okkur í þessu lokaskrefi. Ég reyndi sem dæmi að fá Sjálfstæðimenn til að vera með í tillögunni en þau vildu það ekki. Þau vildu að borgarlögmaður rannsakaði málið en draga má hæfi hans alvarlega í efa vegna tengsla og fyrri ummæla og skrifa um málið. Þær niðurstöður yrðu bara aldrei trúverðugar.
Metan á kostnaðarverði og braggamálið í opinbera rannsókn var vísað frá í borgarstjórn
3.3.2020 | 20:08
Söluverð metans miðist við flutningsgjald á sölustað
2.3.2020 | 07:50
Eins og allir vita er offramboð af metani og það brennt á söfnunarstað til þess að það fari ekki út í andrúmsloftið. Þetta er mikil sóun á umhverfisvænum orkugjafa nú þegar við erum sem þjóð að hvetja til orkuskipta. Þess vegna legg ég það til á borgarstjórnarfundi 3. mars að söluverð metans miðist aðeins við flutningsgjald á sölustað.
Tillaga Flokks fólksins um að söluverð metans verði lækkað og miðist til frambúðar við kostnað Sorpu við það að flytja það frá framleiðslustað á sölustað
Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela fulltrúa sínum í stjórn Sorpu að leggja fram tillögu um að söluverð metans verði lækkað og miðist til frambúðar við kostnað Sorpu við það að flytja það frá framleiðslustað á sölustað.
Metanbílar hafa verið teknir af lista vistvænna bíla af því að ekki er hægt að tryggja að þeir aki á vistvæna orkugjafanum eins og segir í rökum. Það eru því engar ívilnanir frá borginni fyrir eigendur metanbíla lengur, en samkvæmt nýjum reglum Reykjavíkurborgar um bíla mega þeir sem teljast vistvænir leggja gjaldfrjálst í 90 mínútur í gjaldskyld stæði. Þessar reglur hvetja ekki fólk í orkuskiptin. Á sama tíma er Sorpa, sem er byggðasamlag, að brenna metani á báli í stórum stíl. Flokkur fólksins vill með þessari tillögu leggja áherslu á mikilvægi þess að nýta þennan vistvæna orkugjafa sem nóg er til af og verður enn meira þegar ný jarðgerðarstöð í Álfsnesi er komin í virkni. Til að selja metan á hinn almenna bílaflota í Reykjavík þarf það að vera samkeppnishæft við aðra orkugjafa svo bíleigendur kaupi bíla sem ganga fyrir metani. Það er betra að fá lítið fyrir það en ekki neitt og þurfa að brenna því. Að nota metan sparar auk þess innflutning á jarðefnaeldsneyti.
Greinargerð
Offramboð er af metani og þess vegna er því brennt á söfnunarstað. Mikilvægt er að koma því út fyrir lágt verð. Að öðrum kosti mun það ekki seljast. Nú er ljóst að Sorpa er á hvínandi kúpunni. Einhver umræða er komin í gang um að hefja sölu á metani og selja það dýrt, til að bjarga Sorpu. Ef reyna á að selja metan dýrt mun það hafa letjandi áhrif á fjárfestingu fólks á metanbílum. Það mun þá einfaldlega ekki seljast. Metansala mun að sjálfsögðu ekki bjarga Sorpu sem skuldar 4.1 milljarð. Ef hækka á verð á metani er það einfaldlega ávísun á að það mun ekki seljast og enn meira af því verður brennt á báli í Álfsnesi. Hver græðir á því? Flokkur fólksins vill að borgarbúar fái metan á bíla sína á eins ódýran hátt og hægt er og jafnvel gefins til að flýta fyrir orkuskiptum.
Afhendingarstöðum þarf svo að fjölga samfara aukinni notkun metans. Í þessu hefur ríkt hægagangur og menn virðast gleyma því að brennsla metans á báli er sóun. Notkun metans sparar innflutning á öðru eldsneyti sem er allra hagur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins heyrir ekki mikið af hvatningu um að nýta metan. Að metanbílar skyldu verða undanskildir frá vistvænum flokki bíla í nýjum reglum er með óllíkindum enda líklegt að bíll sem er metanbíll aki að mestu á metani þótt hann sé einnig bensínbíll og að bensínið á metanbílunum sé fyrst og fremst notað sem varaafl.
Það sem hér um ræðir er að borgin er að sóa orkugjafa sem væri þess í stað hægt að nýta öllum til góðs. Borgarfulltrúi Flokk fólksins hefur áður bent á að skynsamlegt væri að Strætó bs. eignaðist fleiri metanvagna og nýtti gasið frá Sorpu. Hér getur borgarstjórn beitt sér og á að gera það með því að hvetja þessi fyrirtæki til samtals og samvinnu og tryggja þannig að orkugjafi sem nóg er til af nýtist. til að tryggja hagræðingu og sparnaði.
Almennt séð þá er vont til þess að vita að Sorpa skuli ekki hafa reynt að markaðssetja metanið meira og einfaldlega fundið leiðir til að borgarbúar geti notið góðs af því á bíla sína sem lið í orkuskiptum og með umhverfissjónarmið að leiðarljósi