Bloggfærslur mánaðarins, mars 2020
Tímabært að hefja táknmálstúlkun á fundum borgarstjórnar
30.3.2020 | 08:30
Í fyrra lagði ég fram tillögu (sjá neðar) um að fundir borgarstórnar verði táknmálstúlkaðir. Tillögunni var vísað til forsætisnefndar og þaðan í umsagnarferli (sjá neðar) en eftir það hefur ekkert heyrst. ÖBI kannast ekki við að hafa fengið málið til umsagnar. Ég hef spurt Félag heyrnalausra en ekki fengið svar. Það er mikilvægt að koma þessu á núna. Eins og sjá má á síðustu dögum hefur færst í vöxt að fréttir og fundir ýmis konar séu táknmálstúlkaðar enda tíðindi válynd um þessar mundir og margt að gerast sem allir verða að fá upplýsingar um. Ég vil ýta við þessu máli núna, reyna að koma þessu á.
Hér er um mannréttindamál að ræða og með því að táknmálstúlka fundi borgarstjórnar er borgarstjórn að framfylgja lögum. Tillagan er liður í að rjúfa enn frekar einangrun heyrnarskertra og heyrnarlausra einstaklinga. Þessi hópur á rétt á því að fá upplýsingar úr samfélaginu og þ.m.t. að geta fylgst með umræðu á sviði stjórnmálanna og annað er snýr að störfum þeirra. Í 5. grein laganna um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra segir: Notendur íslenska táknmálsins eiga rétt á að upplýsingar sem birtar eru opinberlega samkv. Samning Sameinuðu þjóðanna sem brátt verður lögfestur.
BORGARSTJÓRN 3. september 2019: Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um táknmálstúlkun á fundum borgarstjórnar
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að borgarstjórnarfundir verði túlkaðir á táknmáli. Borgarstjórnarfundir eru tvisvar í mánuði að meðaltali 6-7 klukkustundir hver. Hér er um mannréttindamál að ræða og með því að táknmálstúlka fundi borgarstjórnar er borgarstjórn að framfylgja lögum.
Tillagan er liður í að rjúfa enn frekar einangrun heyrnarskertra og heyrnarlausra einstaklinga. Þessi hópur á rétt á því að fá upplýsingar úr samfélaginu og þ.m.t. að geta fylgst með umræðu á sviði stjórnmálanna. Íslenska og táknmál heyrnarlausra eru jafn rétthá. Talið er að um 350-400 einstaklingar reiða sig á íslenskt táknmál til tjáningar og samskipta. Að táknmálstúlka fundi borgarstjórnar er vel gerlegt. Hægt er að sjá fyrir sér að túlkunin yrði í útsendingunni frá fundinum,þ.e. sér myndavél væri á túlkinum og túlkunin í glugga á skjánum. Þá getur fólk farið inn á útsendinguna hvar sem það er statt í borginni. Kostnað við að táknmálstúlka borgarstjórnarfundi er lagt til að verði tekið af liðnum ófyrirséð. Verkið yrði boðið út samkvæmt útboðsreglum borgarinnar. Í útboði þarf að tryggja að þeir sem gera tilboð í verkið séu með menntun á sviði táknmálstúlkunar. Þær tæknilegu breytingar sem þyrftu að koma til færu einnig í útboð.
Greinargerð
Í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 7. júní 2011 3 gr. segir að Íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Segir ennfremur að stjórnvöld skulu hlúa að því og styðja. Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst. Sama rétt eiga nánustu aðstandendur. Í 5. grein laganna um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra segir:
Notendur íslenska táknmálsins eiga rétt á að upplýsingar sem birtar eru opinberlega og fræðslu- og afþreyingarefni sem ætlað er almenningi verði gert þeim aðgengilegt með textun á íslensku eða túlkun á íslenskt táknmál eftir því sem við á.
Óheimilt er að neita heyrnarlausum, heyrnarskertum eða daufblindum manni um atvinnu, skólavist,tómstundir eða aðra þjónustu á grundvelli heyrnarleysis eða þess að hann notar táknmál. Vísað er einnig í Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) en hann er alþjóðasamningur sem felur í sér skyldur aðildarríkja til þess að tryggja réttindi fatlaðs fólks. Íslensk stjórnvöld undirrituðu samninginn árið 2007, fullgiltu hann 2016 en hafa enn ekki lögfest hann. Alþingi samþykkti vorið 2019 þingsályktunartillögu sextán þingmanna að ríkisstjórninni yrði falið að undirbúa lögfestingu SRFF og að frumvarpið skuli lagt fyrir Alþingi eigi síðar en 13. desember 2020. Lögfesting samningsins mun tryggja að fatlað fólk á Íslandi geti byggt rétt sinn á samningnum með beinum hætti. Það þýðir verulega réttarbót. Í samningnum segir: Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.
- desember 2019
Fundur Aðgengis- og samráðsnefndar
Aðgengis- og samráðsnefnd leggur fram svohljóðandi bókun:
Aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks tekur undir það sjónarmið að það sé gott og æskilegt markmið að tryggja aðgengi að fundum borgarstjórnar fyrir heyrnaskert og heyrnarlaust fólk. Nefndin vill þó koma því á framfæri að fólk með heyrnarskerðingu notar ekki endilega táknmál og því kunni að vera að rittúlkun á fundum borgarstjórnar væri nærtækara markmið sem myndi nýtast breiðari hópi, heyrnarlausum, heyrnarskertum sem og heyrnarskertum sem nota táknmál. Aðgengis- og samráðsnefnd vill jafnframt koma því á framfæri að enginn notandi táknmáls er nú í nefndinni og telur nefndin því að Félag heyrnarlausra sé betur til þess fallið að meta hvort æskilegt sé að forgangsraða fjármunum og mannafla í táknmálstúlkun borgarstjórnarfunda frekar en í aðra viðburði á vegum Reykjavíkurborgar. Leggur nefndin jafnframt til að tillagan verði einnig send Heyrnarhjálp, félagi heyrnarskertra á Íslandi, til umsagnar.
Fylgigögn
Sumarlokanir leikskóla barn síns tíma
29.3.2020 | 11:48
Sumarlokanir eða sumaropnanir öllu heldur voru ræddar í borgarstjórn í vikunni. Ég legg áherslu á að auka þjónustu leikskólanna þannig að foreldrar hafi fullt val þegar kemur að leikskólavist barna þeirra á sumrin. Nú verða aðeins 6 leikskólar opnir í ákveðnar vikur í sumar á meðan allir aðrir loka.
Einhver börn þurfa að færast á milli leikskóla. Sum börn eru viðkvæm fyrir slíku raski. Sumarlokanir leikskóla eru að verða barn síns tíma. Það að fyrirskipað sé að loka leikskólum samfellt í einhverjar ákveðnar 4 vikur á sumrin samræmist e.t.v. ekki því þjónustustigi sem væntingar standa til í dag.
Lokanir sem þessar koma illa við sumar fjölskyldur og kannski helst einstæða foreldra sem ekki allir fá frí í vinnu sinni á sama tíma og leikskóli barns lokar.
Það sumar sem nú gengur í garð verður án efa óvenjulegt vegna aðstæðna, COVID-19 og einnig vegna nýafstaðinna verkfalla. Mikilvægt er að taka sérstaklega mið af ólíkum þörfum foreldra á komandi sumri.
Gera þarf grundvallarbreytingar á þessu fyrirkomulagi fyrir sumarið 2021. Þá ætti markmiðið að vera að bjóða fjölskyldum borgarinnar upp á fulla þjónustu og sveigjanleika og að foreldrar hafi þá val um hvenær þeir taka sumarleyfi með börnum sínum. Samhliða verður mannekluvandi leikskólanna vissulega að vera leystur.
Líf og heilsa nr. 1
26.3.2020 | 16:49
Blaðamannafundur er nýafstaðinn en þar stóðum við meiri- og minnihlutinn í borgarstjórn saman sem ein heild. Ekkert annað er í boði núna. Í borgarráði i morgun voru fyrstu viðbrögð kynnt. Flokkur fólksins hefur lagt fram 5 tillögur um viðbrögð til að hjálpa þeim sem minnst mega sín, minnihlutahópum eins og heimilislausum sem nú eiga sérstaklega erfitt. En hér eru tvær bókanir Flokks fólksins framlagðar í borgarráði sem snúa beint að viðbrögðum og mögulegum aðgerðum:
Fyrstu aðgerðir til viðspyrnu vegna Covid-19
Líta þarf til fjölmargra hluta í því ástandi sem nú ríkir. Líf og heilsa koma þar fyrst. Leggjast þarf á eitt að öllum verði tryggð atvinna þegar lífið kemst aftur í eðlilegt horf. Huga þarf sérstaklega að minnihlutahópum, hvernig létta megi á þeim. Allar tillögur um að vakta og afla upplýsinga til að greina þörfina eru afar mikilvægar. Tillögur að fresta greiðslum, lækka og fella niður gjöld og frysta lán munu hjálpa mörgum en þær á eftir að útfæra frekar. Aldrei má gleyma að halda samskiptaleiðum opnum á meðan á öllu þessu stendur. Meðal tillagna sem Flokkur fólksins hefur lagt fram eru:
-Að komið verði á sérstakri símsvörun vegna þess að fólk nær ekki alltaf sambandi við þjónustumiðstöðvar
-Að skóla- og velferðaryfirvöld beini þeim tilmælum til skólasamfélagsins að huga sérstaklega að líðan barna sem eiga erfitt með að tjá hugsanir og líðan.
-Að Félagsbústaðir felli niður leigu í 2 til 3 mánuð. Fordæmi eru nú þegar fyrir slíku
-Að Félagsbústaðir hætti að senda leiguskuldir til innheimtu hjá lögfræðingum og frysti þær sem nú eru í innheimtuferli
-Að skóla- og frístundaráð innheimti ekki gjöld fyrir skóla- eða frístundavist, eða annað fyrir þá daga sem börn hafa ekki getað mætt.
Líta þarf í mörg horn
Borgarfulltrúi vill nefna að ekki er vitað hvernig mál munu þróast og hversu lengi veiruástandið varir. Til dæmis er ekki vitað hversu margir missa tekjur að stórum hluta. Finna þarf fjármagn til að mæta alls kyns óvæntum útgjöldum sem þetta ástand útheimtir. Borgarfulltrúi telur að geyma ætti einhver þeirra fjárfreku verkefna t.d. endurgerð opinna svæða, torga og fleira þess háttar. Halda þarf þó úti nægum verkefnum til að allir haldi vinnu en á sama tíma að vernda borgarsjóð. Horfa þarf í hverja krónu til að geta komið inn með aukna beina aðstoð við fólkið á hinum ólíku sviðum. Sparnaðar- og hagræðingarhugmyndir eiga eftir að koma inn sem sýna hvernig hægt er að mynda rými fyrir lækkanir, frestanir og niðurfellingar gjalda og annað það sem mun hjálpa fólki sem berst í bökkum. Það er vandasamt að finna þessa fínu línu sem er fjármagn vegna óvæntra útgjalda en á sama tíma að hafa næg atvinnutækifæri. Borgarfulltrúi vill ekki að nokkur verði án atvinnu. Flýta á lækkun fasteignaskatta af atvinnuhúsnæði sem kostar 470 milljónir. Fjármögnun liggur ekki fyrir þ.e. hvort eigi að taka lán til að mæta þeirri aðgerð?
Félagsbústaðir hætti að senda skuldir í innheimtu hjá lögfræðingum
26.3.2020 | 14:53
Nú senda Félagsbústaðir allar skuldir í innheimtu hjá lögfræðingum. Ég hef lagt til að Félagsbústaðir falli frá þessu og gefi aftur fólki tækifæri til að semja um skuldir sína á skrifstofunni. Sú ákvörðun að beina öllum ógreiddum leigugjöldum til innheimtufyrirtækis var vond og sársaukafull fyrir marga.
Flokkur fólksins lagði fram tillögu 2019 í kjölfar þess að ákvörðunin var kynnt á fundi velferðarráðs að fallið yrði frá þessari ákvörðun hið snarasta.
Vitað er að þegar skuld er komin í innheimtu hjá lögfræðingum þá leggjast innheimtugjöld ofan á skuldina.
Nú ríkir erfitt ástand hjá mörgum vegna Covid-19 og sýnt þykir að einhverjir munu missa vinnu sína eða mæta öðrum erfiðleikum sem veiruváin veldur fólki og samfélaginu. Mikilvægt er að fyrirtæki eins og Félagsbústaðir sýni sveigjanleika, lipurð og mannlegheit og umfram allt að taka mið af þessum erfiðu aðstæðum sem nú ríkja.
Áður hef ég gagnrýnt lögfræðikostnað fyrirtækisins.
Lögfræðikostnaður Félagsbústaða á fimm ára tímabili vegna innheimtuaðgerða og útburðarmála nam alls 111, 626,386 milljónum króna á fimm ára tímabili. Þetta kemur fram í svari Félagsbústaða vegna fyrirspurnar Flokks fólksins fyrir borgarráði um lögfræðikostnað Félagsbústaða frá 2013 til 2018.
Félagsbústaðir felli niður leigu í 2 til 3 mánuði
26.3.2020 | 08:49
Í dag á fundi borgarráðs mun ég leggja fyrir tillögu um að Félagsbústaðir felli niður leigu í 2 til 3 mánuði vegna kórónuveirunnar og skoði jafnframt að veita aukna greiðslufresti í þeim erfiðu aðstæðum sem kórónuveiran hefur skapað. Fordæmi um aðgerðir af þessu tagi er nú þegar til. Reikna má með að fjölmargir eigi eftir að verða fyrir barðinu af veiruvánni og þá ekki síst fjárhagslega. Fólk verður fyrir tekjumissi á næstu vikum og mánuðum vegna ástandsins. Hjá Félagsbústöðum leigir viðkvæmur hópur og margir berjast í bökkum fjárhagslega.Í þeim aðstæðum sem nú ríkja er mikilvægt að létt verði áhyggjum af fólki eins og hægt er.
Má ég vera með?
22.3.2020 | 09:25
Sem borgarfulltrúi hefði ég haldið að núna sætum við saman meiri- og minnihlutinn í borgarstjórn og ynnum að aðgerðarplani og mótvægisaðgerðum vegna Covid-19. En því er ekki að skipta.
Ég veit svo sem ekki hvað meirihlutinn er að gera en ekki hefur verið óskað eftir aðkomu minnihlutans að þeirri vinnu eftir því sem ég best veit.
Í svona ástandi er það mín sannfæring að við séum sterkari saman en sundruð. Við getum verið sundruð en ekki á hættutímum. Ég, sem kjörinn fulltrúi ber ábyrgð og hef skyldur gagnvart borgarbúum og mitt hlutverk, á þessum fordæmalausa tíma, er að koma að hugmyndavinnu og útfærslu um hvernig huga megi að fólkinu í borginni á meðan varist er og barist gegn Covid-19. Í borgarráði, þann 19. mars lagði ég fram tvær tillögur sem beinast annars vegar að upplýsingagjöf til fólks sem er einangrað og í neyð og hins vegar að hvernig við hlúum að börnum sem eru sérlega viðkvæm vegna t.d. kvíða. Báðum þessum tillögu var hins vegar frestað og komast þar að leiðandi ekki inn í velferðarráð þar sem hægt hefði verið að ræða þær frekar. Stefnt er að fundi í velferðarráði í næstu viku. Mér finnst það blasa við að aðgerðir sem eru mótaðar í breiðri sátt og með aðkomu sem flestra er auðveldara að styðja við og fylgja eftir. Einu tillögur minnihlutans sem fengu framgang á fundinum voru tillögur Sjálfstæðismanna.
Við erum sterkari saman en sundruð og á svona tímum eigum við að vinna saman
- Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að komið verði á a.m.k. tímabundið sérstakri símsvörun hjá Reykjavíkurborg.
Borið hefur á því að fólk nái ekki sambandi við þjónustumiðstöðvar borgarinnar. Á þessum óvissutímum er fólk með alls kyns spurningar meðal annars um þjónustu á vegum borgarinnar. Fréttir hafa auk þess borist af fólki í neyð, fólki sem treystir sér ekki út og á ekki mat. Ákveðinn hópur fólks er ekki með tölvur og/eða internet og því þarf að tryggja að þessi hópur geti kallað eftir hjálp án vandræða og fengið nauðsynlegar upplýsingar um þjónustuna sem það þiggur eða annað sem tengist borginni án þess að ýmist þurfa á bíða á línunni eða ná ekki í gegn. Álagið er án efa mikið á þjónustumiðstöðvunum og hafa því ekki allir sem telja sig þurfa náð sambandi við félagsráðgjafa. Einnig getur fólk þurft á annars konar aðstoð að halda og vantar upplýsingar um hvert það geti leitað. Í rauninni er ómögulegt að vita allt um það sem mögulega gæti bjátað að hjá fólki á þessum tímapunkti. Því er lagt til að gripið verði til frekari ráðstafana til að mynda örugga samskiptaleið og það er m.a. gert með því að koma á laggirnar tryggri og öruggri símsvörun. - Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð sem og velferðaryfirvöld beini þeim tilmælum til starfsmanna skóla og skólaþjónustu að huga sérstaklega að andlegri líðan barna í því ástandi sem nú ríkir vegna COVID-19.
Mestar áhyggjur þarf að hafa af þeim börnum sem eru lokuð, og eiga erfitt með að tjá hugsanir og líðan. Þau kunna að hafa dregið rangar og skaðlegar ályktanir af umræðu um veiruna sem brýnt er að leiðrétta hið fyrsta til að þau geti fundið til öryggis og vissu um að ekkert slæmt muni koma fyrir þau eða þeirra nánustu. Auk aldurs og þroska hafa fjölmargar aðrar breytur, ytri sem innri breytur, áhrif á hvernig börn vinna úr upplýsingum. Orðræðan um faraldinn er í fjölmörgum birtingarmyndum og eðli málsins samkvæmt oft afar tilfinningaþrungin. Útilokað er að halda börnum frá umræðunni enda snýst samfélagið allt í kringum þennan vágest. Börn eru misviðkvæm að eðlisfari. Sum hugsa meira um hættur, sjúkdóma og slys á meðan önnur eru upptekin við annað. Börn með kvíðaröskun eru, í aðstæðum sem þessum, útsettari fyrir öðrum vandamálum t.d. ofsakvíða. Þessum börnum þarf því að veita sérstaka athygli. Börn sem eru lokuð, fámál um líðan sína og hugsanir geta auðveldlega falið vandamál sín það vel að fullorðnir verði þeirra ekki auðveldlega varir.
Er hugsað til barna, þeirra viðkvæmustu
19.3.2020 | 14:45
Takk Kári
13.3.2020 | 19:09
Við erum ótrúlega heppin sem einstaklingar og þjóð að eiga Kára að og þá háþróuðu vísindastöð sem hann rekur. Ég vil þakka Kára hans framlag í baráttunni við Covid-19. Hér eru engin gróðrarsjónamið í gangi heldur aðeins einskær áhugi á að nýta getu og færni í þágu almennings.
Hvassahraun?
13.3.2020 | 14:30
Hér er bókun mín:
Eins og málið horfir við í dag er óvissan um þennan stað því mikil. Ef mælingar og tilraunir reynast ekki hagstæðar þá er málið á núllreit. Það mun ekki koma í ljós fyrr en eftir nokkur ár þegar niðurstöður mælinga og flugtilrauna liggja fyrir og þá sennilega milljónir ef ekki milljarðar farnir út um gluggann. Ef til kemur að Hvassahraun stenst skoðun er ekki sanngjarnt að borgin greiði helming af hönnunarkostnaði flugvallar í Hvassahrauni. Sá flugvöllur verður ekki innan borgarmarka Reykjavíkur. Ef til kæmi þá er nær að þau sveitarfélög þar sem flugvöllurinn verður tækju þátt í hönnunarkostnaðinum.
Fræða en ekki hræða
9.3.2020 | 08:50
Um fátt annað er rætt nú en Covid-19 vírusinn. Mér verður hugsað til barnanna og hvort við, hinir fullorðnu, séum að vanda okkur hvernig við tölum ef börn eru í návist okkar. Um þennan vágest eins og annan sem kann að steðja að þurfum við að ræða af yfirvegun ef börn heyra til. Oft gleymum við fullorðna fólkið að þegar við erum að tala saman þá eru börn að hlusta. Þeirra túlkun og ályktun geta gert þau enn hræddari en ástæða er til. Þau eru jú bara börn. Okkar hlutverk er að fræða þau án þess að hræða og fullvissa þau um að þau séu örugg og að þau þurfi ekkert að óttast.
Fræðsla um erfið mál verður ávallt að markast af aldri barna og þroska og henni þarf að vera fylgt vel eftir. Það skiptir öllu máli að sníða upplýsingar og umræðu eftir aldri, þroska og persónu barnsins ef barnið á ekki að verða heltekið af áhyggjum. Mikilvægt er að kenna börnum hreinlæti og umgengnisvenjur við svona aðstæður og halda þeim nægjanlega upplýstum en ekkert er fengið með því að hræða þau eða gera þau taugaóstyrk.
Börn eru misviðkvæm að eðlisfari. Sum hugsa meira um hættur, sjúkdóma og slys á meðan önnur eru upptekin við annað. Börn með kvíðaröskun taka allt inn á sig sem er í umræðunni og líklegt er til að valda áhyggjum. Afleiðingar láta oft ekki á sér standa, kvíði, lystarleysi og svefnleysi geta fylgt í kjölfarið.
Börn eru næm á líðan foreldra og skynja fljótt ef þeirra nánustu eru með áhyggjur eða eru stressuð. Ef fullorðna fólkið sýnir taugaveiklun og stjórnlausa hræðsluhegðun í návist barna munu börnin verða skelfingu lostin. Foreldrar, afar og ömmur sem eru yfirkomin af skelfingu geta oft ekki leynt því. Börn hlusta á raddblæ og fylgjast grannt með svipbrigðum sinna nánustu til að meta kvíða- og áhyggjustig þeirra. Ef börn sjá að þeir sem eiga að gæta öryggi þeirra eru lamaðir af ótta er öryggiskennd kippt undan fótum þeirra. Fullorðnir eru haldreipi barnanna og það haldreipi þarf að vera sterkt. Þess vegna skiptir öllu máli að útskýra, fræða og svara spurningum barna af yfirvegun og öryggi.
Börn heyra fréttir og sé eftir því tekið að barn er farið að fylgjast með fréttum af Covid-19 vírusnum er mikilvægt að fullorðinn sé til staðar til að útskýra og svara spurningum. Það er mikilvægt að foreldrar geti leiðrétt mögulegar mistúlkanir og misskilning sem kann að koma upp hjá barni sem farið er að fylgjast með fjölmiðlum.