Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2020

Heima sem lengst

Flokkur fólksins hefur barist fyrir bættum kjörum og aðstæðum eldri borgara og öryrkja bæði á Alþingi og í Reykjavíkurborg. Til þess að það geti verið raunverulegur kostur fyrir eldri borgara að vera sem lengst heima þá er mikilvægt að gera nokkrar breytingar á verkferlum þjónustunnar og taka inn fleiri þjónustuþætti. Þjónustuþörf er mismunandi eins og gengur en stundum vantar ekki mikið upp á til að viðkomandi geti búið lengur á heimili sínu.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram í velferðarráði 19. ágúst 14 tillögur sem sneru að bættri þjónustu við eldri borgara í heimahúsum og fjölgun þjónustuþátta. Öllum nema fjórum var hafnað. Frávísun var m.a. á grundvelli þess að verklagsreglur og framkvæmdaferill væru settar af starfsmönnum velferðarsviðs en ekki velferðarráði. Hvatinn að gerð tillagnanna var frétt um að matarsending til eldri borgara hefði verið skilin eftir á hurðarhúni eftir að sendill hafði hringt dyrabjöllu sem ekki var svarað.

 

Til þess að draga úr hættu á misskilningi milli þjónustuveitanda og þjónustuþega er greinilegt að breyta verður verkferlum. Hvað viðkemur þessum þjónustuþætti sérstaklega, lagði fulltrúi Flokks fólksins einnig til að maturinn væri sendur út sama dag og hann er framleiddur og að umbúðum verði breytt til að auðvelda þjónustuþegum að opna þær. Eins og umbúðir eru núna er erfitt að rífa plastið af bakkanum. 

Meðal tillagna var einnig ein tillaga sem laut að hlutverki sendilsins. Ef enginn skilaboð eða fyrirmæli liggja fyrir um annars konar afhendingu matarins þá er hægt að ganga út frá því sem vísu að þjónustuþegi taki á móti matnum úr hendi sendils. Ef þjónustuþegi svarar hvorki dyrabjöllu eða síma ætti sendill að hringja í ættingja og upplýsa um stöðuna. Ef enginn ættingi er til staðar þarf að upplýsa þjónustumiðstöð. Með símtali sendils til ættingja (eða þjónustumiðstöðvar) er ættingi kominn með upplýsingar um að þjónustuþegi svari hvorki dyrabjöllu né síma þrátt fyrir að hann viti að matarsending sé væntanleg. Ættingi (þjónustumiðstöð) getur þá tekið ákvörðun byggða á þessum upplýsingum um hvað skuli gera í stöðunni. Þetta gæti verið vísbending um að þjónustuþegi sé í vanda og kalla þurfi á lögreglu/sjúkrabíl.

 

Þegar eldri borgarar eru annars vegar eru allir þeir sem hafa við þá samskipti hluti af öryggisneti. Safnist sem dæmi matur upp hjá þjónustuþega sem óskað hefur eftir að hann sé skilinn eftir fyrir utan dyr hlýtur sendill að láta ættingja eða þjónustumiðstöð vita sem myndu í framhaldi leita orsaka.

Í öllu falli þarf matarsendingin að komast til skila enda vara sem búið er að greiða fyrir. Ekki er boðlegt að fara aftur til baka með matarsendinguna og ætlast til að þjónustuþegi sæki hana sjálfur, sendi leigubíl eftir henni eða fái hana daginn eftir. Þegar ekki er komið til dyra til að taka við matnum er heldur ekki réttlætanlegt að skilja matinn eftir á hurðarhúninum og láta þar við sitja nema fyrirmæli hafi komið um að það sé í lagi.

Fjölga þjónustutilboðum

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að útvíkka þurfi einnig ákveðna þjónustuþætti og bæta fleirum við þá þjónustu sem nú býðst til þess að auka möguleikana á að viðkomandi geti búið lengur heima. Létta þarf fjárhagslega undir með mörgum eldri borgurum. Lagt var til að þeir sem búa í öðru húsnæði en þjónustuíbúð ættu að fá niðurgreiðslur á þeim þáttum sem eru að jafnaði innifaldir í þjónustuíbúð s.s. rafmagn, húsgjald og þrif í görðum.

 

Einnig var lagt til að velferðaryfirvöld taki þátt í kostnaði við öryggishnapp. Rök meirihlutans í velferðarráði fyrir að fella þá tillögu voru "að það sé varasamt að setja það fordæmi að borgin fari að fyrra bragði og óumbeðin inn á verksvið ráðuneytis og sendi þar með þau skilaboð að kostnaðarþátttaka ráðuneytis sé óþörf“.

En hver er eiginlega forgangsröðunin hér? Hvort er það þjónustuþeginn eða hræðsla velferðaryfirvalda við að gefa fordæmi?


Ekki ábyrgð velferðarráðs?

Það er sérkennilegt að vísa frá og fella tillögur með vísan í að verklagsreglur og framkvæmdaferill séu settar af starfsmönnum velferðarsviðs en ekki velferðarráði. Auðvitað kemur það velferðarráði við ef verklagsreglur og framkvæmdaferill þjónustu velferðarsviðs við eldri borgara í heimahúsi þarfnast betrumbóta eða er ábótavant.

Mannlegi þátturinn má aldrei gleymast þegar verið er skipuleggja þjónustu fyrir borgaranna. Velferðaryfirvöld ættu ávallt að hafa fullt samráð við þjónustuþega og hugsa hvert skref út frá þörfum hans. Hlusta þarf á þjónustuþegana og aðstandendur þeirra. Það er á ábyrgð velferðarráðs sem er yfir velferðarsviði að tryggja að allir þessir þættir séu í lagi.

 

Birt í Morgunblaðinu 31.8.2020


Greinilega eldfimt og ofurviðkvæmt

Af óskiljanlegum ástæðum var tillögu Flokks fólksins um að borgin kynnti sér starfshætti t.d. Þjóðverja í aðgerðum er varða rakaskemmdir vísað frá á fundi borgarráðs í morgun.
Málið var greinilega eitthvað eldfimt því ekki fengust neinar skýringar á frávísuninni.
Tillagan var einföld og mild í sjálfu sér og sneri að því að hvetja umhverfisráð/svið að kynna sér starfshætti frá fleiri þjóðum svo sem Þjóðverjum eða Dönum en þessar þjóðir hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða myglu- og rakaskemmdir í opinberum byggingum. 

Ég reiddist því ég hafði lagt vinnu í þessa tillögu og rætt við marga. Staðgengill formanns borgarráðs sem stýrði fundi fleygði þessari tillögu út eins og óhreinni tusku án skýringa nema bara af því að hún hafði valdið. Hvað á maður að halda þegar svona brútal vinnubrögð eru viðhöfð? Af hverju mátti þessi tillaga ekki fara í skoðun? 

 

Hér er bókun við frávísuninni:

Tillaga Flokks fólksins að umhverfis- og skipulagssvið kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum t.d. Þjóðverjum og Dönum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir hefur verið vísað frá á fundi borgarráðs án nokkurra raka. Staðgengill formanns borgarráðs segir við frávísun tillögunnar að henni beri ekki skylda til að rökstyðja eitt eða neitt. Af einhverjum ástæðum virðist málið ofurviðkvæmt og eldfimt, svo eldfimt að ekki er einu sinni hægt að senda tillöguna til frekari skoðunar eða umsagnar hjá umhverfissviði?

Fulltrúi Flokks fólksins á því ekki annarra kosta völ en að leggja tillöguna fyrir borgarstjórn. Tillagan var um að bæta loftgæðamál vegna rakaskemmda og annarra ástæðna í skólum en það er stórt vandamál víða. Afleiðingar hafa verið skelfilegar fyrir marga. Víða í þeim löndum sem náð hafa hvað mestum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir t.d. í Þýskalandi eru notuð sérhæfð loftefnahreinsitæki til að bæta loftgæði tímabundið í skólastofum og öðrum rýmum sem eru loftmenguð. Þessi tækni hefur ekki verið mikið notuð hér nema í kannski einum skóla og gafst það vel. Flokkur fólksins lagði til að umhverfisyfirvöld kynntu sér aðferðir í öðrum leiðandi löndum í stað þess að trúa í blindni á aðferðir einstakra verkfræðistofa hér á landi.

 

 

Tillagan í heild

Tillaga Flokks fólksins að umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum í aðgerðum sem varða myglu- og rakaskemmdir.

Tillaga Flokks fólksins að umhverfis- og skipulagsráð/svið Reykjavíkurborgar kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum  t.d. Þjóðverjum og Dönum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í opinberu húsnæði. Loftgæðamál  vegna rakaskemmda og annarra ástæðna er stórt vandamál í sumum skólum og vinnustöðum Reykjavíkurborgar og fer stækkandi. Afleiðingar hafa verið skelfilegar fyrir marga. Víða í þeim löndum sem náð hafa hvað mestum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir t.d. í Þýskalandi eru notuð  sérhæfð loftefnahreinsitæki  til að bæta loftgæði tímabundið í skólastofum og öðrum rýmum sem eru loftmenguð og þegar verið er að vinna í menguðum rýmum við hlið rýma sem eru í notkun, til þess að bæta líðan nemenda og starfsfólks og gefa sérfræðingum meira svigrúm til að meta skemmdir og grípa til aðgerða. Þá eru menguðu rýmin innsigluð og aðskilin frá öðrum rýmum og loftefnahreinsitækin notuð til aðstoðar. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavíkurborg skoði þessar aðferðir með opnum hug. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins hefur kynnt sér þá var þessi leið farin í einum af skólum borgarinnar og tókst vel til. Loftefnahreinsitækin virkuðu og ættu því að virka samhliða viðgerðum í öðrum skólum Reykjavíkurborgar til að bæta líðan  og minnka kostnað.

Greinargerð

Loftgæðavandinn í skólum og öðrum byggingum í eigu borgarinnar er ekki nýr. Vandinn er mikið tilkominn vegna áralangs vanrækslu borgaryfirvalda að viðhalda húsakosti skóla og fleiri bygginga borgarinnar. Afleiðingar hafa verið slæmar fyrir fjölda nemenda og starfsfólks. Nemendur hafa mátt dúsa of margir í litl­um loft­gæðum og jafnvel þótt skólastjórnendur hafi ítrekað kvartað hefur verið brugðist seint og illa við í mörgum tilfellum. Nemendur og starfs­fólk hafa kvartað yfir slapp­leika, höfuðverk, auknu mígreni og ann­arri van­líðan vegna ástands­ins í sumum skólum. Spurning er hvort bestu aðferðum hefur verið beitt í glímunni við raka og myglu. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til hér  að fulltrúar Fasteignasvið Reykjavíkurborgar kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum  t.d. Þjóðverjum  sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í opinberu húsnæði.
Hér er um að ræða aðferðir sem skilað hafa góðum árangri í öðrum löndum eins og Danmörku og Þýskalandi. Einnig hafa þessar aðferðir verið notaðar hér á landi í öðrum sveitarfélögum og á vegum Ríkiseigna eftir því sem borgarfulltrúi Flokks fólksins kemst næst. Ekki þarf að rýma heilu byggingarnar, heldur er hægt að einangra ákveðin skemmd svæði og halda starfsemi áfram með sem minnstu raski. Þessar aðferðir bæta líðan nemenda og starfsfólks fyrir og á framkvæmdatíma og getur minnkað kostnað.

Auðvitað koma loftefnahreinsitæki aldrei í staðinn fyrir viðgerðir, en virka vel sem aðstoð á framkvæmdatíma og einnig fyrir mjög næma einstaklinga þó loftgæði teljist almennt í lagi. Sérfræðingar Fasteignasviðs Reykjavíkurborgar verða að kynna sér aðferðir í öðrum leiðandi löndum og ekki trúa í blindni á aðferðir einstakra verkfræðistofa hér á landi. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að borgaryfirvöld skoði þetta með opnum hug. Hér eru á ferðinni aðferðir sem skila árangri og kosta minna.


Er ellikerling mætt?

Flokkur fólksins berst fyrir bættum kjörum og aðstæðum eldri borgara og öryrkja bæði á Alþingi og í Reykjavíkurborg. Það fréttist á dögunum að matarsending til eldri konu hefði verið skilin eftir á hurðarhúni hennar og sú skýring gefin að hún hefði ekki heyrt í bjöllunni. Þetta er óásættanlegt. Ég ákvað því sem fulltrúi Flokks fólksins í Reykjavík að rýna í hvernig þjónustu velferðarsviðs við eldri borgara í heimahúsum væri háttað. Í þeirri vinnu sem ég vann með þjónustuþegum og aðstandendum kom ýmislegt í ljós sem betur mætti fara. Afraksturinn voru 14 tillögur sem lagðar voru fram í velferðarráði 19.8. Allar nemar fjórar voru felldar eða vísað frá.

Öll eigum við eftir að eldast en á meðan ellikerling er ekki farin að hrjá þá sem komnir eru af besta skeiði þá er fátítt að hún valdi manni hugarangri. Við megum hins vegar ekki gleyma þeim sem báru okkur á höndum sér, sem núna vilja njóta ævikvöldsins áhyggjulaus. Einn góðan veðurdag verðum við í þessum sömu sporum.

 

Til þess að heimadvöl sé raunverulegur kostur fyrir eldri borgara þarf ýmislegt fleira að koma til í þjónustuþáttum velferðarsviðs og auðvitað ríkisins þar sem það á við. Mannlegi þátturinn má aldrei gleymast þegar verið er skipuleggja þjónustu. Velferðaryfirvöld ættu ávallt að hafa fullt samráð við þjónustuþega og hugsa hvert skref út frá þörfum hans.

 

Að búa heima með reisn

Þær tillögur sem Flokkur fólksins lagði á borð velferðarráðs í gær lutu m.a. að breyttum verklagsreglum hvað varðar heimsendingar á mat og hlutverk sendils, framleiðslu matar og næringargildi hans. Einnig var lagt til að matarsendingar til eldri borgara sem mælast undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins verði gjaldfrjálsar. Jafnframt að auka þurfi þjónustu sjúkraþjálfunar og heimahjúkrunar.

Flokkur fólksins lagði einnig fram tillögur um ýmsar þjónustunýjungar þ.m.t. útvíkkun á þjónustu heimilisþrifa sem tekur til þvottar, skipta á rúmi, flokkun sorps og sorphirðu. Í tillögupakkanum er einnig lagt til að stöðumat á færni verði tíðar og að dregið verði úr ábyrgð ættingja. Ekki allir eldri borgarar í heimahúsi eiga ættingja sem getur sinnt þessum þáttum. Þá ætti að bjóða eldri borgurum sem búa heima aðstoð með hár og neglur.

 

Hádegismatur á hurðarhúni

Breyta þarf verklagsreglum og framkvæmdaferli Vitatorgs varðandi matarsendingar til eldri borgara í heimahúsi. Senda ætti matinn út sama dag og hann er eldaður og breyta þarf umbúðum til að auðvelda þjónustuþegum að opna þær. Auðvitað á ekki að skilja hádegismatinn eftir á hurðarhúni nema móttakandi hafi gefið sérstök fyrirmæli um það.

Gera ætti ráð fyrir að móttakandi matarskammta ætli sér að taka sjálfur við matnum sínum nema annars konar fyrirmæli liggja fyrir um afhendingu. Ef móttakandi opnar ekki til að taka við matnum sínum er góð regla að hringja í viðkomandi. Ef síma er ekki heldur svarað er hægt að hringja í tengilið (ættingja) sem tekur ákvörðun um framhaldið. Ef ekki er skráður ættingi getur verið ástæða til að upplýsa viðkomandi þjónustumiðstöð.

 

Heima er best

Þeir eldri borgarar sem búa í eigin íbúðum mæta annars konar hindrunum en þeir sem búa í þjónustuíbúð. Þeir ættu að eiga þess kost að sækja um niðurgreiðslu á þeim þáttum sem eru að jafnaði innifaldir í íbúð í þjónustukjarna. Til dæmis má nefna afslátt af fasteignagjöldum og rafmagni. Einnig væri sanngjarnt að velferðaryfirvöld tækju þátt í húsgjaldi og niðurgreiddu þjónustu sem snýr að garðhirðu, flokkun á sorpi og sorphirðu. Sumir eldri borgarar treysta sér einfaldlega ekki út úr húsi og allra síst ef hálka er og ófærð.

 

Að lokum

Það er að mörgu að hyggja þegar hugsað er um okkar elstu einstaklinga. Öll munum við örugglega eftir dæminu um eldri borgara sem kom heim eftir legu á sjúkrahúsi og hreinlega gleymdist. Hann átti aðeins malt og lýsi í ísskápnum. Með framlagningu þessara tillagna var það von fulltrúa Flokks fólksins að þær fengju flestar framgang svo skoða mætti innihald þeirra frekar. Allar tillögurna voru unnar með eldri borgara og aðtandendum. Afgreiðsla þeirra fór hins vegar þannig að allar nema fjórum var ýmist vísað frá eða þær felldar.

 

 


Er rafbíll ekki vistvænn ferðamáti?

Það er verið að ræða hverfisskipulag Breiðholts á Morgunvaktinni á RÚV. Nú hefst viðvera á morgun í Gerðubergi og í næstu viku í Mjódd til að ræða þetta skipulag.
Áhersla er lögð á að gera vistvænum ferðamátum hátt undir höfði við borgargötur og að aðgengi allra sé tryggt, óháð hreyfigetu segir í nýju hverfisskipulagi Breiðholts.
Helstu samgöngutengingar ásamt hjólreiðarstígakerfi og gönguleiðir á að festa í sessi.
En hvergi í þessu skipulagi er minnst á raf- eða metanbílinn þegar talað er um vistvænar samgöngur í hverfisskipulagi Breiðholts.
En er ekki rafbíll vistvænn ferðamáti?

Flokkur fólksins lagði fram tillögu í síðustu viku um að skipulagsyfirvöld borgarinnar setji rafmagns- og metan bíla á lista yfir það sem þau kalla vistvænan ferðamáta. Nú eru aðeins 10 ár þangað til að bannað verður að flytja inn bensín- og dísilbíla.
Ég og við í Flokki fólksins vinnum fyrir eldri borgara og öryrkja.
Eldri borgarar og hreyfihamlaðir nota frekar bíl en hjól til að ferðast um. Samhliða þessum hugmyndum verður að fara að taka raf- og metanbíla inn í flokk vistvænna ferðarmáta.

Í Reykjavík vil ég hvíla

Það styttist í að jarða þurfi Reykvíkinga í Kópavogi.

Ég er borin og barnfæddur Reykvíkingur og þegar ég er öll vil ég vera jarðsett í Reykjavík og hvergi annars staðar. Eftir að hafa hlustað á viðtal við forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma í þættinum Morgunvaktinni í vikunni varð ég hugsi. Þar kom fram að lengi hefur verið ljóst að grafarsvæði í Reykjavík munu brátt klárast og ekki verði til skiki til að jarða í Reykjavík. Leita verður á náðir Kópavogsbæjar til að fá pláss þegar tilvistin á þessari jörðu lýkur.

Ástæðan er sú að borgar- og skipulagsyfirvöld hafa dregið lappirnar í að fullklára nýjan kirkjugarð við Úlfarsfell. Útsvarsfé borgarbúa hefur farið í aðrar framkvæmdir en að byggja nýjan kirkjugarð. Í máli forstjórans kom fram að lengi hafi verið uppi áform um að byggja nýjan kirkjugarð við Úlfarsfell en að brösuglega hafi gengið að fá Reykjavíkurborg til að setja verkefnið í forgang.

Það er bagalegt að borgin skuli hunsa þetta tímabæra verkefni þegar ljóst er hve skammur tími er til stefnu þar til grafarsvæði í borginni klárast. Einnig kom fram í viðtalinu að mikið vanti af fjármunum til að viðhalda eldri kirkjugörðum og þá sérstaklega Hólavallakirkjugarði. Eftir hrun hafi verið skorið hressilega niður hjá kirkjugarðsumdæmunum og aldrei hafi sá niðurskurður gengið til baka þrátt fyrir góðærisárin undanfarið. Hætta er á að Hólavallakirkjugarður fari að drabbast niður og eldri leiði að skemmast ef ekki verði gripið inn í.

 

Til að vekja athygli á þessu og ýta við borgar- og skipulagsyfirvöldum lagði Flokkur fólksins fram tillögu á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur í vikunni sem hljóðar svo:

 

Í Reykjavík hafa borgar- og skipulagsyfirvöld sýnt getuleysi þegar kemur að þessum málaflokki. Það líður að því að plássin fyrir kistur í Gufuneskirkjugarði klárist en reiknað er með plássi fyrir kistur í mesta lagi 3-4 ár í viðbót og þá þarf að fara að jarða Reykvíkinga í kirkjugarðinum í Kópavogi.

 

Kirkjugarðurinn við Úlfarsfell hefur lengi verið í undirbúningi. Skipulagsyfirvöld hafa dregið það árum saman að hefja framkvæmdir. Ítrekað hefur skipulagsyfirvöldum verið gert ljóst að brýn þörf er á nýjum grafarsvæðum og að hraða þurfi framkvæmdum á kirkjugarðinum við Úlfarsfell en skipulagsyfirvöld hafa látið málið sem vind um eyru þjóta. Það er miður að borgaryfirvöld sjái ekki nauðsyn þess að fullklára kirkjugarð þar sem Reykvíkingar sem óska þess að vera jarðaðir í kistu fái að hvíla.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur auk þess til að gert verði átak í Hólavallagarði en honum þarf að halda betur við en gert hefur verið. Aðeins hluti garðsins hefur verið tekinn í gegn en annar hluti hans er að grotna niður. Skipulagsyfirvöld borgarinnar hafa til margra ára ekki sýnt Hólavallagarði nægjanlega virðingu og ekki úthlutað til hans nauðsynlegum fjármunum til að halda honum við.

 

Ég vona innilega að tillaga þessi verði hvatning fyrir skipulagsyfirvöld Reykjavíkur að bretta upp ermarnar og setja framkvæmdir á kirkjugarðinum við Úlfarsfell í forgang.

 

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins

Grein birt á visi.is 14.8.  


Skipulagsyfirvöld telja það ekki þeirra að efla göngugötuna í Mjódd

Tillaga Flokks fólksins um að efla göngugötuna í Mjódd var felld á fundi skipulagsráðs í morgun. Hér má sjá tillöguna og bókun meirihlutans og bókun Flokks fólksins.

BORGARRÁÐ 23. júlí 2020: Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um eflingu starfsemi í Mjódd.

Flokkur fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld leggi sitt að mörkum til að efla starfsemi í Mjódd. Úr göngugötunni í Mjódd er aðkoma í fjölmargar verslanir og þangað koma margir. Gera mætti fjölmargt fyrir götuna til að gera hana meira aðlaðandi. Stundum er þar götumarkaður en fjölmargt annað mætti koma til sem laðaði að aldna sem unga. Yfirbyggð gata eins og göngugatan í Mjódd og það útisvæði sem er þar í kring s.s. litlu torgin við innganga til norðurs og suðurs bíður upp á ótal tækifæri. Þar mætti sem dæmi spila tónlist, söng, dans og annað sem gleðja myndu gesti og gangandi. Þá er einnig ónotuð lóð við Álfabakka 18. Ekki er séð að nein sérstök stefna ríki um Svæðið í Mjódd. Vel mætti vinna markvisst að því að gera þetta svæði að helsta kjarna Breiðholtsins. Með því að glæða götuna lífi mun það auka aðsóknina og breikka hóp viðskiptavina. Takist vel til myndu fleiri fyrirtæki og verslanir vilja vera á svæðinu sem er sérstaklega vel staðsett því aðkoma er góð úr mörgum áttum. Gera ætti göngugötuna í Mjódd að afþreyingarmiðaðri göngugötu og er þá átt við göngugötu sem fólk sækir í ýmist til að versla, fá sér kaffi og/eða upplifa viðburði.

Tillögunni fylgir greinargerð.

Fellt með fjórum greiddum atkvæðum, fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurborg heldur ekki viðburði í verslunarkjörnum í einkaeigu en meirihlutinn hefur á þessu kjörtímabili lagt vinnu við að fegra ásýnd svæðis í kringum Mjóddina og er sú vinnan enn þá yfirstandandi. Vinna við Borgalínu mun fara í gang þegar annar áfangi fer í vinnu og þá gefst tækifæri til að skipuleggja svæðið í heild sinni. Tillagan er því felld.

Áheyrnarfulltrú Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um eflingu starfsemi í Mjódd hefur verið felld af skipulagsyfirvöldum. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins þegar bókun meirihlutans er skoðuð að skipulagsyfirvöld hafi ekki mikinn áhuga á öðrum göngugötum en þeim sem tilheyra miðbænum. Á göngugötum í miðbænum halda borgaryfirvöld oft viðburði. Á þeim götum eru verslanir líka í einkaeigu fjölmargra. Reykjavíkurborg hefur reyndar haldið viðburð í göngugötunni í Mjódd svo fyrir því er fordæmi, því miður eru þeir allt of fáir. Borgin á eignir í Mjóddinni og ber ákveðna ábyrgð ásamt fleirum á bílastæðunum, aðgengi og öryggi þar. Hvernig á að túlka þetta öðruvísi en skipulagsyfirvöld hafi minni áhuga á úthverfum en miðbænum? Vinna við borgarlínu þarf ekki að koma í veg fyrir að lífga megi upp göngugötunni í Mjódd. Eitt útilokar ekki annað í þessum efnum. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar endurgerð torga. Ef lífgað yrði upp á göngugötuna myndu fleiri ganga um torgin.

 

 


Dýrkeypt bið

Það styttist í skólabyrjun. Stundum er eins og stjórnvöld geri sér ekki grein fyrir hversu dýrkeypt það getur verið fyrir börn að bíða lengi eftir þjónustu fagaðila s.s. skólasálfræðinga. Í febrúar voru 674 börn á biðlista eftir fyrstu og frekari þjónustu, af þeim biðu 429 börn eftir fyrstu þjónustu. Ákall foreldra og skóla má sjá í fjölmörgum greiningum sem gerðar hafa verið á þörfum skólasamfélagsins. Kallað er eftir auknum stuðningi við bæði nemendur og starfsfólk og markvissari og aukinni þverfaglegri samvinnu. Skólastjórnendur hafa kallað eftir að fá fagfólk skólaþjónustunnar meira inn í skólana til að létta álagi á kennara. Það hlýtur að vera flestum ljóst að skólasálfræðingum þarf að fjölga til að möguleiki verði á að taka á áralöngum kúfi og nýjum kúfi sem spáð hefur verið að komi í haust vegna áhrifa og afleiðinga COVID-19.

Dýkeyptar afleiðingar biðar

Börn sem fá ekki aðstoð með vandamál sín þróa oft með sér djúpan sálrænan vanda sem vex og getur allt eins orðið óviðráðanlegur. Sagt er að málum sé forgangsraðað og að þau mál sem ekki þoli bið séu tekin framar á biðlistann. En þola einhver mál bið? Hér er verið að tala um börn en ekki fullorðna. Þau mál sem fá forgang eru oft komin á alvarlegt stig. Börn sem eru jafnvel farin að skaða sjálfa sig og eru jafnvel með sjálfsvígshugsanir. Vandi af því tagi skellur ekki á á einum degi heldur er hann jafnvel búinn að krauma mánuðum saman. Börn sem hafa ekki fengið faglega greiningu á vanda sínum líða kannski sálarkvalir alla skólagönguna. Þetta eru oft börnin sem láta lítið fyrir sér fara í skólanum, eru e.t.v. með athyglisbrest, eru feimin og óörugg. Smám saman laskast sjálfsmatið og sjálfsöryggið hverfur. Þetta eru stundum börnin sem lögð hafa verið í einelti sem ýmist hefur farið dult eða ekki náðst að taka á. Hvað er að gerast í huga barns sem beðið hefur mánuðum saman eftir aðstoð til að létta á vanlíðan og leysa vanda þess? Vanlíðan sem fær að krauma og grafa um sig getur á einni svipstundu orðið bráðavandi sem ekki hefði orðið ef fullnægjandi hjálp hefði verið veitt fyrr. Margra mánaða bið eftir aðstoð getur reynst dýrkeypt og jafnvel kostað líf.


Oft eru íslensk börn borin saman við börn í nágrannalöndum. Þar eru ekki svona margar greiningar segja yfirvöld. En munurinn er sá að í þeim löndum sýna kannanir einnig að börnum líður mun betur en á Íslandi. Skóla- og velferðaryfirvöld bera íslensk börn gjarnan saman við börn nágrannalanda okkar þegar hentar t.d. þegar þarf að rökstyðja að ekki þurfi að láta meira fé í málaflokkinn. Miklu fé er vissulega varið í sérkennslu en hún er hvorki samræmd milli skóla né árangursmæld. Vanlíðan barna á Íslandi og þróun í þeim efnum má sjá m.a. í niðurstöðum PISA, skýrslum landlæknisembættisins og fleiri rannsóknum. 

Tilvísunum hefur fjölgað

Af einhverjum orsökum hefur fjölgun beiðna eftir þjónustu fagfólks skólaþjónustu aukist um 23% á milli ára. Þetta er áhyggjuefni og er það á ábyrgð skóla- og velferðaryfirvalda Reykjavíkurborgar að komast að hverju þetta sætir. Þessari fjölgun þarf að mæta með öðru en að láta börn dúsa á biðlista.

 

Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur til lausna sem ýmist hefur verið vísað frá eða felldar. Nýlega lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að leitað verði eftir formlegu samstarfi við Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) í þeim tilgangi að stytta biðlista. Um væri að ræða mál þar sem t.d. aðkoma barnalæknis er nauðsynleg. Af þessu er nú þegar kominn vísir en mikilvægt er að formgera samstarfið til að gera það gegnsætt og skilvirkara. Með samstarfinu er börnum hlíft við lengri bið á biðlista eftir sérfræðiþjónustu. Þessari tillögu var vísað í vinnuhóp.

 

Tillögur sem Flokkur fólksins hefur lagt fram og hafa verið felldar eða vísað frá eru:

1. Að fjölga stöðugildum sálfræðinga 
2. Að færa aðsetur skólasálfræðinga frá þjónustumiðstöðvum inn í skólana 
3. Að börn skulu ávallt hafa biðlistalaust aðgengi að fagfólki skólaþjónustu 
4. Að skólasálfræðingar heyri undir skóla- og frístundarráð í stað velferðarráðs 

Einnig hafa verið lagðar fram fyrirspurnir, m.a. um samsetningu biðlista, ástæður tilvísunar og hvað sé verið að gera fyrir börnin og foreldrana á meðan á biðinni stendur.

 

Til að uppræta biðlista eða stytta þá þarf að fjölga stöðugildum sálfræðinga. Málum hefur fjölgað en ekki stöðugildum sálfræðinga. Ef horft er til fjölda stöðugilda má gróflega áætla að hver sálfræðingur/stöðugildi þjónustar 1000 börn. Í raun má því segja að það sé útilokað fyrir sálfræðing að sinna þessum fjölda barna svo vel sé, jafnvel þótt megnið af þessum börnum þurfi aldrei á þjónustu sálfræðinga að halda. Dæmi eru um að einn sálfræðingur sinni þremur skólum. Fyrir þann sálfræðing fer einnig tími í að fara á milli skóla og þjónustumiðstöðvar sem hann hefur aðsetur á. Þessi staða og skortur á úrræðum og almennum bjargráðum hafa ekki síður alvarlegar afleiðingar fyrir tvítyngd börn í leik- og grunnskólum.

Grein birt í Morgunblaðinu 8.8. 2020


Að miða niðurgreiðslu við fæðingardag er ósanngjarnt

Ég lagði fram tillögu í borgarráði 14. maí að niðurgreiðsla vegna dagforeldra miðist við afmælismánuð barns en ekki afmælisdag. Ekkert hefur spurst af henni. Ég bað fjármálastjóra að taka saman fyrir mig hver yrði kostnaðurinn við þessa breytingu. Hann vísaði fyrirspurninni til skóla- og frístundaráðs en þaðan hefur heldur ekki heyrst múkk.
 
Þetta skiptir heilmiklu máli ef barn er fætt seint í mánuðinum.
 
Hér er tillagan:
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að niðurgreiðsla vegna dagforeldra miðist við afmælismánuð barns en ekki afmælisdag
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að niðurgreiðsla vegna dagforeldra miðist við afmælismánuð barns en ekki afmælisdag. Það e.a.s. að niðurgreiðslan miðist við mánuðinn sem barn er níu mánaða, (sex mánaða hjá einstæðu foreldri), en ekki afmælisdag barnsins.
 
Fordæmi eru fyrir þessu í öðrum sveitarfélögum í nágrenni Reykjavíkur sem miða niðurgreiðslu vegna dagforeldris við fæðingarmánuð barns en ekki fæðingardag. Að miða niðurgreiðslu við fæðingardag er ósanngjarnt. Foreldrar þeirra barna sem fædd eru seint og jafnvel síðustu daga mánaðar sitja ekki við sama borð og foreldrar barna sem eru fædd fyrr í mánuðinum. Samkvæmt þessari tillögu skulu framlög hefjast í þeim mánuði sem barn er 9 mánaða en ekki skal miða við afmælisdag barns. Ástæða er sú að ef barn er fætt seint í mánuðinum fá foreldrar enga niðurgreiðslu á þeim mánuði. Um þetta munar hjá langflestum foreldrum. R20050146
 
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband