Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2021

Atvinnumál eldri borgara í Reykjavík, umræða í borgarstjórn 2. mars

Að beiðni fulltrúa Flokks fólksins verður umræða um atvinnumál eldri borgara í Reykjavík á dagskrá á fundi borgarstjórnar 2. mars.

Fólk er nauðbeygt til að hætta að vinna 70 ára. Þetta eru náttúrulega ekkert annað en aldursfordómar. Það er einnig brot á mannréttindum að skikka fólk til að hætta störfum þegar það vill fátt annað gera en að halda áfram í vinnu sinni. Iðulega er kallað eftir störfum fólks þótt það verði sjötugt.

Þótt fólk verði sjötugt þýðir ekki að heilastarfsemi þess stöðvist. Í dag er fólk um 70 ára aldur í betri stöðu en fyrir áratugum. Heilsan er betri enda hefur tækninni fleygt fram.

Víða í Evrópu hefur fólk rétt til að vinna eins lengi og það vill. Flokkur fólks berst fyrir rétti og frelsi fólks til að vinna eins lengi og það vill. Samhliða þarf að afnema krónu á móti krónu skerðinguna og hætta að skerða lífeyri vegna vinnutekna, með svo grófum hætti. Gengið hefur verið allt of langt í okkar samfélagi að meina fólki að vinna þegar það nær ákveðnum aldri. Þetta ætti að vera valkostur umfram allt.

Reykjavíkur borg getur gert margt í þessum efnum. Borgarstjóri hefur lofaði að beita sér í þessu málefni en ekki hefur bólað á því.

 

Í kjarasamningum kemur fram að það er heimilt yfirmanni að "endurráða mann/konu, sem náð hefur 70 ára aldri og látið hefur af föstu starfi hjá stofnun eða fyrirtæki Reykjavíkurborgar í annað eða sama starf á tímavinnukaupi, allt að hálfu starfi, án þess að það hafi áhrif á rétt hans til töku lífeyris."

Þetta dugar skammt fyrir þann sem vill halda áfram að vinna fulla vinnu.

Hvað getur borgin gert? Borgin getur:

1. Breytt almennu viðmiði um 70 ára eftirlaunaaldur t.d. hækka það í 73 ár.
2. Þrýst á ríkið að draga úr skerðingum á ellilífeyri vegna atvinnutekna t.d. að frítekjumark vegna atvinnutekna yrði hækkað úr 100.000 kr. í 200.000 kr. eða afnumið alfarið
3. Skapa störf sem henta eldri borgurum og halda þeim í virkni. Hægt er að nýta mannauðinn betur. Eldri borgarar búa yfir mikilli reynslu og þekkingu sem getur nýst áfram, t.d.í ráðgjafarhlutverki

 

 

 


Borgin búin að afsala sér völdum til Vegagerðarinnar?

Borgarlínan er á dagskrá í borgarstjórn.
Hér er bókun fulltrúa Flokks fólksins:

Borgarlína er stórt verkefni. Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt margra spurninga en fátt er um svör enda lítið vitað fyrir víst hvað varðar stóra og mikilvæga þætti. Þetta er risavaxið verkefni sem Strætó á að reka. Í  Silfrinu  14. 2. kom fram hjá fyrrverandi starfsmanni verkefnisins að Vegagerðin væri í raun stjórnandi verksins en þar er ekki mikil þekking á samgöngum í þéttbýli. Hefur borgin afsalað sér völdum og ábyrgð til Vegagerðarinnar sem kemur að verkefninu fyrir hönd ríkisins? 
 

Að mati fulltrúa Flokks fólksins virðist sem verkefnið  sé dæmigert byggðarsamlagsverkefni þar sem borgin ræður of litlu og þarf að beygja sig fyrir hagsmunum ríkisins og annarra sveitarfélaga. Hlutur borgarinnar er rýr í stjórnun en rík í fjárhagslegri ábyrgð.

Hvers vegna hefur Vegagerðinni svo mikið umboð, stofnun sem hefur engan áhuga sýnt á samgöngum í þéttbýli, til að  taka að sér stærsta skipulags- og byggðarþróunarverkefni allra tíma á Íslandi?
Svipað er með 3ja áfanga Arnarnesvegar. Vegagerðin fær nærri fullt umboð til framkvæmda en  Reykjavíkurborg horfir á.  “Þetta stendur jú í samgöngusáttmálanum” segir meirihlutinn".

 


Hagsmunafulltrúi aldraðra - taka 2

Í annað sinn á kjörtímabilinu leggur Flokkur fólksins fram tillögu um að stofnað verði embætti hagsmunafulltrúa aldraðra í Reykjavík. Markmiðið með embætti hagsmunafulltrúa aldraðra er að hann skoði málefni eldri borgara og haldi utan um hagsmuni þeirra, fylgist með aðhlynningu og aðbúnaði þeirra. Hagsmunafulltrúi aldraðra kortleggur stöðuna í húsnæðismálum aldraðra, heimahjúkrun og dægradvöl og fylgist með framkvæmd heimaþjónustu. Hann skal leggja sjálfstætt mat á það hvort borgaryfirvöld uppfylli skyldur sínar gagnvart öldruðum. Hann fylgist einnig með hvort einkaaðilar uppfylli kröfur laga um aðgengi og banni við mismunun þegar kemur að réttindum eldri borgara. Hann tæki á móti ábendingum frá borgurum um málefni eldri borgara og fræðir eldri borgara um eigin réttindi. Auk þess ber hagsmunafulltrúa aldraðra að hafa frumkvæðiseftirlit með högum eldri borgara, sérstaklega með tilliti til þess að koma í veg fyrir félagslega einangrun, næringarskort og almennt bágan aðbúnað.

Hagsmunafulltrúi aldraðra skal vekja athygli stjórnvalda og almennings á málum sem hann telur að brjóti á réttindum eldri borgara. Einnig skal hann gera tillögur um úrbætur á réttarreglum sem snerta aldraða og hafa frumkvæði að stefnumarkandi umræðu í samfélaginu um málefni aldraðra.
Lagt er jafnframt til að Öldungaráð Reykjavíkur komi að mótun hlutverks embættis hagsmunafulltrúa og að hagsmunafulltrúi gefi Öldungaráði reglulega skýrslu um starfsemi embættisins.

Utanumhald og heildarsýn

Með því að stofna embætti hagsmunafulltrúa aldraðra í Reykjavík næst betri heildarsýn yfir málefni eldri borgara og eldri borgarar fá sinn málsvara sem þeir geta leitað til með eigin málefni telji þeir brotið á réttindum sínum.
Hagsmunafulltrúa aldraðra er samkvæmt tillögunni ætlað að vekja athygli á réttinda- og hagsmunamálum aldraðra almennt, jafnt á opinberum vettvangi sem og hjá einkaaðilum, leiðbeina öldruðum um réttindi sín innan borgarkerfisins og bregðast við telji hann að brotið sé á þeim.

Þjónusta við aldraða dreifist á ríki, sveitarfélög, félagasamtök og einkaaðila. Lög og reglur um málaflokk aldraðra eru flókin, ekki síst á sviði skatta, almannatrygginga og heilbrigðismála. Aldraðir eru stór og fjölbreyttur hópur sem er misjafnlega fær um að gæta eigin réttinda og hagsmuna. Markmiðið með þessari tillögu er ekki að hagsmunafulltrúi eldri borgara taki við starfsemi Öldungaráðs Reykjavíkur. En ráðning hagsmunafulltrúa myndi tryggja það að faglega menntaður einstaklingur í launaðri stöðu sinni virkri réttargæslu í þágu eldri borgara. Þá getur slíkt embætti veitt Öldungaráðinu aðstoð í sínum störfum þar sem hagsmunafulltrúi gæti þá fylgst með því að ábendingum Öldungaráðs sé fylgt eftir í framkvæmd. Það er rík þörf á að aldraðir eigi málsvara í Reykjavík sem gætir réttinda og hagsmuna aldraðra og leiðbeinir þeim um rétt þeirra.

Taka 2

Tillagan um stofnun embættis hagsmunafulltrúa eldri borgara var áður flutt af fulltrúa Flokks fólksins í borgarstjórn vorið 2019 en var þá felld í kjölfar umsagnar Öldungaráðs Reykjavíkur. Þáverandi Öldungaráð Reykjavíkur veitti neikvæða umsögn á þann veg að embætti hagsmunafulltrúa aldraðra væri óþarft þar sem nú þegar væri verið að fjalla um þessi mál. Þess utan væri starfandi Umboðsmaður borgarbúa sem fer meðal annars með málefni eldri borgara eins og segir í umsögninni. Umsögnin kom á óvart fyrir nokkrar sakir en ekki síst í ljósi þess hversu brösuglega gekk að reka embætti Umboðsmanns borgarbúa. Fram kom hjá umboðsmanninum þegar hann var beðinn um álit á afgreiðslu tillögunnar að mikið álag væri á embættið og málsmeðferðartími langur. Ef embættið ætti að anna öllum þeim málum sem það fæst við þyrfti fjármagn og mannafla ekki hvað síst svo það geti haft frumkvæði að því að nálgast jaðarsetta hópa, svo sem aldraða. Embætti Umboðsmanns borgarbúa var stuttu síðar lagt niður.

Flokkur fólksins á Alþingi hefur einnig lagt í þrígang fram tillögu um hagsmunafulltrúa aldraðra á vegum ríkisins. Öldungaráð Reykjavíkur sendi inn sömu neikvæðu umsögnina, „að hagsmunafulltrúi aldraðra væri óþarfur þar sem verið væri að vinna þessi störf af starfsmönnum velferðarsviðs og hagsmunafélaga.“

Annan tón kvað við í síðari umsögn Öldungaráðs Reykjavíkur við þingsályktunartillögu Flokks fólksins um hagsmunafulltrúa aldraðra dagsett 14. október 2019. Þá fagnar Öldungaráðið tillögunni og hvetur til þess að félags- og barnamálaráðherra leggi fyrir árslok 2020 fram frumvarp til laga um embætti hagsmunafulltrúa aldraðra. Félag eldri borgara hefur hins vegar ávallt verið hlynnt og stutt hugmynd um hagsmunafulltrúa aldraðra.

Það er skylda sveitarfélags að sjá til þess að haft sé frumkvæði að því að nálgast jaðarsetta hópa, svo sem aldraða. Það er jákvætt ef Öldungaráð er starfrækt á vegum borgarinnar en engu að síður er þörf á embætti sem sinnir virkri réttindagæslu í þágu eldri borgara. Þannig fá eldri borgarar bæði sína fulltrúa þegar kemur að stefnumótun Öldungaráðsins og framkvæmd í formi hagsmunafulltrúa.

Birt í Morgunblaðinu 16.2. 2021


Börn vilja meiri jafnréttisfræðslu

Samþykkt var í vikunni að vísa tillögu fulltrúa Flokks fólksins um úttekt á jafnréttisfræðslu í skólum til umsagnar starfshóps um kynja- og hinsegin fræðslu. Ég var að vonum ánægð með það.

Tillagan gengur út á að skoða hvernig jafnréttisfræðslu er háttað og hvernig hún hefur þróast undanfarna áratugi.

Allt frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976 hefur íslenskum skólum verið skylt að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna og að undirbúa bæði stráka og stelpur til jafnrar þátttöku í fjölskyldu- og atvinnulífi.

Það skiptir miklu máli að tryggja gæði jafnréttisfræðslu og að börn sitji við sama borð þegar kemur að jafnréttisfræðslu, þ.e. að það sé ekki mikið misræmi á slíkri fræðslu milli skóla/hverfa.

Undanfarið hefur komið fram sú skoðun hjá börnum og ungmennum að þau vilja meiri jafnréttisfræðslu. Þess vegna er brýnt að kortleggja fræðsluna og hvernig hún er lögð upp í skólunum. Einnig er þörf á að athuga stöðu jafnréttisfræðslu með tilliti til óska nemenda um frekari jafnréttisfræðslu og hvort tilefni sé til að gera breytingar til úrbóta almennt eða í einstökum skólum.

Til að vita með vissu hvar skóinn kreppir er fyrsta skrefið að kanna hvaða jafnréttisfræðsla krökkum og foreldrum þeirra finnst vera gagnleg og góð og hvaða þætti hennar mætti bæta og dýpka og hvaða og hvernig fræðslu hreinlega vantar. Einhverjir vita kannski ekki einu sinni að til eru jafnréttislög. Enn fremur þyrfti að kanna sérstaklega hvort og þá að hvað miklu leyti jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum borgarinnar er samræmd milli skóla.

Mig langar að læra á píanó

Í september 2019 lagði ég fram tillögu um að að stofnaðar verði skólahljómsveitir í öllum 10 hverfum borgarinnar. Í dag eru aðeins fjórar skólahljómsveitir í Reykjavík. Á sjöunda hundrað nemendur stunda nám í þessum hljómsveitum. Nemendur í grunnskólum borgarinnar eru hins vegar tæp 15 þúsund. Vel má því gera því skóna að mun fleiri nemendur hefðu áhuga á að sækja um aðild að skólahljómsveit. Eins og staðan er í dag er ekki boðið upp á tónlistarkennslu í öllum grunnskólum. En engin viðbrögð hafa borist enn við þessari tillögu þótt liðið sé á annað ár.

Í ljósi nýútkominnar skýrslu stýrihóps borgarinnar um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík ákvað ég að leggja fram þessa tillögu aftur. Reyndar hafði mig minnt að hún hafi verið felld á sínum tíma en það reyndist víst ekki vera. 

Ástæða fyrir að ég vil fá þessa tillögu afgreidda með rökum er að í vinnu stýrihópsins um uppbygging tónlistarkennslu í grunnskólum fólst ekki að skoða samhliða leiðir til að draga úr ójöfnuði þegar kemur að tækifærum til tónlistarnáms.

Ef tekið er dæmi þá standa börn ekki jafnfætis þegar kemur t.d. að því að læra á hljóðfæri eins og píanó. 
Þegar kemur að tónlistarnámi á ójöfnuður rætur sínar að rekja til bágs efnahags foreldra.

Ef horft er til skólahljómsveita þá eru þær mikilvæg mótvægisaðgerð til að jafna tækifæri barna til tónlistarnáms. Á meðan grunnskólar bjóða ekki upp á kennslu á hljóðfæri eins og píanó þá eru það aðeins börn efnameiri foreldra sem fá það tækifæri sýni þau áhuga á píanónámi. Þátttaka í skólahljómsveit gæti verið valmöguleiki þannig að þeir sem hafa áhuga á að ganga í skólahljómsveit fái þar tækifæri til að læra á hin ýmsu hljóðfæri, stór og smá. Með því er dregið úr ójöfnuði og mismunun á  grundvelli efnahags foreldra þegar kemur að tækifæri til að velja sér hljóðfæri til að læra á.


Nám í einkareknum tónlistarskóla er dýrt. Tónlistarskólinn á  Klébergi, Kjalarnesi er eini tónlistarskólinn sem er alfarið rekinn af Reykjavíkurborg. Borgin er með þjónustusamninga við 17 einkarekna tónlistarskóla. Þeir njóta styrkja frá Reykjavíkurborg en setja sína eigin gjaldskrá.

 

Hlutverk og markmið skólahljómsveita er að stuðla að aukinni hæfni nemenda til að flytja, greina og skapa tónlist og til að hlusta á tónlist og njóta hennar; til að jafna tækifæri nemenda til tónlistarnáms; efla félagsleg samskipti; til að efla sjálfsaga, samvinnu og sjálfstæð vinnubrögð; stuðla að aukinni tónlistarþekkingu og veita nemendum tækifæri til að koma fram; stuðla að tónlistaruppeldi annarra ungmenna með því að koma fram á vegum grunnskólanna.


Ráðgjöf og útvistun

Stjórnsýslan í Reykjavík er umfangsmikil. Þar vinna margir sérfræðingar. Það sem þó einkennir þessa stjórnsýslu er að við langflest verk þarf að kaupa þjónustu frá sérfræðingum úti í bæ.

Verkum er  útvistað í vaxandi mæli. Nýlega var nokkrum reynslumiklum tölvuþjónustumönnum borgarinnar sagt upp og verkefnum þeirra útvistað. Þetta var að sögn gert í hagræðingarskyni. Flestum er ljóst að kostnaðurinn við útvistun verður á endanum meiri en sá kostnaður sem felst í að vinnan sé unnin af fastráðnum starfsmönnum og með útivistun byggist ekki upp dýrmæt reynsla og þekking innan borgarinnar.

Fulltrúa Flokks fólksins óar við þessum endalausu ráðgjafakaupum sviða borgarinnar og þá helst þjónustu og nýsköpunarsviðs og skipulags- og samgöngusviðs. Annað dæmi er að nýlega voru lögð fram ýmis erindisbréf um stofnun starfshópa á vegum skipulags- og samgöngusviðs. Í öllum þessum erindisbréfum kemur fram að hóparnir megi kaupa ráðgjöf, eins og það sé aðalatriðið með tilvist þeirra. Það vekur upp spurningar hjá fulltrúa Flokks fólksins að þegar strax í upphafi, í erindisbréfum, eru veittar víðtækar heimildir til þjónustukaupa. Sporin hræða.

Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á að það þarf að sýna aðhald. Verið er að sýsla með fé borgarbúa.  Ráðgjöf utanaðkomandi verktaka t.d. við endurbyggingu braggans kostaði mikið en skilaði litlu. Hver man ekki eftir dönsku stráunum og kostnaðinn við ráðgjöfina um að planta dönskum stráum við Braggann, eða þá Pálmatrjánum sem áttu að rísa í Vogunum,  Um slíkt eru fjölmörg dæmi hjá þessum meirihluta í borgarstjórn.

Oftast er þó verið að vinna tímabær verkefni sem fulltrúi Flokks fólksins er ekki að amast við, en það vekur spurningar hversu mikið fjármagn fer í aðkeypta þjónustu þrátt fyrir að borgin skarti tugum sérfræðinga sem einmitt eru ráðnir vegna sérfræðiþekkingar sinnar. Stórar verkfræðistofur virðast jafnvel hafa verk fyrir borgina sem meginstoð starfsemi sinnar. Í stað fjárausturs til einkafyrirtækja væri nær að  byggja upp þekkingu á mikilvægum málaflokkum innan borgarkerfisins. 

Í reglum Reykjavíkurborgar um framkvæmd fjárhagsáætlunar er kveðið á um að sviðstjórar og stjórnendur skuli hafa frumkvæði að því að innleiða umbætur í rekstri til að bæta þjónustu, auka skilvirkni og lækka kostnað. Ef horft er til uppsagna tölvuþjónustustarfsmanna er tilefni til að efast um að það skili svo miklum sparnaði. Hvernig er hægt að bæta þjónustu með því að leggja niður gæðavottað þjónustuteymi?  Hvernig mun það skila lægri kostnaði þegar verktakar kosta mun meira en fastir starfsmenn? Það vekur furðu að borgin sjái ekki hagkvæmni í því að byggja upp þekkingu og reynslu hjá eigin starfsfólki og kjósi þess í stað að útvista stórum hluta þeirra verka sem þarf að vinna á vegum borgarinnar.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur 

Birt í Fréttablaðinu 3.2. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband