Bloggfærslur mánaðarins, maí 2021
Klám og klámáhorf grunnskólabarna. Við höfum sofnað á verðinum
26.5.2021 | 10:59
Rannsókn og greining birti í febrúar 2021 niðurstöður könnunar um klám og klámáhorf grunnskólabarna. Niðurstöður sýndu m.a. að um 30% stúlkna í 10. bekk hafa sent af sér ögrandi myndir eða nektarmyndir og um 6% hafa selt slíkar myndir. Um 24% stráka í 10. bekk hafa verið beðin um að senda slíka mynd og 15% hafa gert slíkt. Þessar niðurstöður komu flestum á óvart.
Það er mikið áfall fyrir foreldra að uppgötva að börn þeirra hafi sent kynferðislegar sjálfsmyndir sem eru jafnvel komnar í sölu og dreifingu á netinu. Það er ekki síður áfall og byrði að bera fyrir unga manneskju að slíkar sjálfsmyndir séu í umferð. Þegar brotið er á ungu fólki eða börnum með þessum hætti er mikilvægt að bjóða upp á áfallahjálp, ráðgjöf og eftirfylgni til lengri tíma.
Í ljósi þessara niðurstaðna lagði Flokkur fólksins fram tillögu í borgarstjórn 18. maí sl. um að auknu fjármagni verði veitt til skólanna þ.e. kennara og starfsfólk frístundaheimila og einnig Ráðgjafateymis um kynferðisofbeldi í skóla- og frístundastarfi (Jafnréttisskólans) til að efla fræðslu og forvarnir grunnskólabarna um skaðsemi og afleiðingar klámáhorfs. Tillögunni var vísað frá og fylgdi borgarstjóri frávísuninni sjálfur úr hlaði með þeim rökum að unnið væri nú þegar að forvörnum vegna klámáhorfs barna á vettvangi borgarinnar. Það er hins vegar mat mitt að gera megi mun betur í þessum málum og sérstaklega styðja við innviði skóla og starfsfólk frístundaheimila. Það er ljóst af þessum niðurstöðum að dæma að við höfum sofnað á verðinum.
Hafa ber einnig í huga að skólaþjónustan er löngu sprungin en hennar hlutverk er einnig að styðja við kennara, starfsfólk, nemendur og foreldra með ráðgjöf og fræðslu. Eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað vakið athygli á, þá bráðvantar fleiri fagaðila hjá skólaþjónustu borgarinnar sem anna engan veginn beiðnum um sálfræði- og félagslega aðstoð. Biðlisti barna eftir þjónustu fagaðila skólanna í Reykjavík hefur lengst um 77 börn á tveimur mánuðum. Þann 1. mars voru 956 börn á bið eftir skólaþjónustu.
Þeim hefur fjölgað síðan þá og voru 1. maí sl.1.033. Ekki er séð að neitt sé verið að gera af hálfu meirihlutans til að grípa fyrr inn í málefni barnanna á biðlistanum sem heldur áfram að lengjast með hverjum degi sem líður.
Ný norm hafa myndast
Ástæður fyrir hinum geigvænlegu niðurstöðum úr könnun Rannsóknar og greiningar eru flóknari en svo að þær verði reifaðar hér. Víst má þó telja að það er eitthvað að breytast varðandi viðhorf til þessara mála og ný norm hafa myndast. Hópi barna finnst það ekki tiltökumál að senda sjálfsmyndir en því miður eru þau ekki að átta sig á hættunni sem þessu fylgir og afleiðingum sem myndsendingunum, dreifingu og sölu geta fylgt.
Fram hefur komið hjá forstöðumanni Barnahúss að á fyrstu þremur mánuðum þessa árs hafi 15 börn undir 15 ára aldri komið í Barnahús eftir að hafa sent kynferðislegar sjálfsmyndir. Þau voru innan við tíu allt árið í fyrra. Þetta sýnir að klámáhorf barna er að aukast. Stundum hafa börnin verið þvinguð til að senda slíkar myndir og sláandi er að sjá hversu mörg barnanna hafa kynnst gerandanum í gegnum netið.
Víða er unnið gott starf bæði í skólum, af fagteymi á vegum borgarinnar og samtökum foreldra og barna s.s. Heimili og skóla, Samfok og fleirum. Í skólum eru kennarar og frístundafólk að takast á við þessi mál þegar þau koma upp. Umfram allt þarf að styrkja innviði skólanna til að geta sinnt forvörnum í auknum mæli og til að skólinn geti tekið á málum sem kunna að koma upp. Tryggja ber einnig að kennarar og annað starfsfólk eigi vísan stuðning og fræðslu hjá skóla- og frístundasviði.
Fræða þarf börn og ungmenni um þessi mál, hjálpa þeim að þjálfa gagnrýna hugsun, hvetja þau til að vingast ekki eða eiga í samskiptum á netinu við aðila sem þau vita ekki í raun hver er og gera sér grein fyrir hversu hættulegt það er að þiggja greiðslu fyrir kynferðislegar myndsendingar.
Spurt hefur verið um hvort foreldrar geti og eigi að hafa óheftan aðgang að snjalltækjum barna sinna. Á því leikur enginn vafi enda foreldrar ábyrgir fyrir net- og skjánotkun barna sinna. Margir foreldrar veigra sér hins vegar við því að setja reglur sér í lagi ef börn þeirra mótmæla slíku eftirliti. Virða á aldurstakmark leikja og samfélagsmiðla. Það eru ekki sett að ástæðulausu. Foreldrar og ungmenni þurfa að eiga samtal um netið og skjánotkun. Best af öllu er ef hægt er að sammælast um reglur og jafnvægi.
Skólastjórnendur, starfsfólk frístundaheimila og hagsmunasamtök þurfa að taka höndum saman með það að markmiði að stuðla að vitundarvakningu og styrkja foreldra til að setja börnum sínum viðeigandi reglur og fylgjast grannt með net- og tölvunotkun barna sinna.
Það er mikilvægt að einskis verði látið ófreistað til að snúa við þeirri þróun sem sýnilega hefur orðið og færa hana til betri vegar. Hér má einnig nefna áhrif fjölmiðlanna. Fjölmiðlar gegna ábyrgðarhlutverki í þessari umræðu sem og annarri.
Grein birt í Morgunblaðinu 26.5. 2021
SPORLOF var það heillin
25.5.2021 | 11:33
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/05/23/rumar_tvaer_milljonir_i_sporlof/?fbclid=IwAR2sf-DVah_OYXwakpapopP0z_e_9zpaurbY6MAkg1ePT111vVQiG7pSw-8
77 börn á tveimur mánuðum
19.5.2021 | 09:53
Látum drauma allra barna rætast, ekki bara sumra
18.5.2021 | 16:15
Í borgarstjórn var verið að ræða um Menntastefnu Reykjavíkurborgar til 2030 og get ég ekki annað en tönglast á 1033 barna biðlista eftir sálfræðiþjónustu og fleirum fagaðilum skólanna. Stefnan er metnaðarfull og full af flottum hugmyndum. Blessunarlega líður fjöldann allan af börnum vel í skólum sínum. Starfsfólk vinnur óeigingjarn starf og margir eru undir miklu álagi.
Bókun Flokks fólksins er eftirfarandi:
Margt er gott í þessari stefnu en stefna leysir engin vandamál nema henni sé fylgt eftir með framkvæmdum. Mestu skiptir að börn stundi nám þar sem þeim líður vel og mæta þarf þörfum allra barna. En það er ekki raunin á vakt þessa, né síðasta meirihluta. Flokkur fólksins greiddi atkvæði með stefnunni á sínum tíma í þeirri von að tekist væri á við það sem þarf að laga.
Vandinn er m.a.:
Skólaþjónustan er sprungin og ekki er hreyfður fingur til að bæta þar úr þrátt fyrir hávært ákall.
"Skóli án aðgreiningar" fær ekki nægt fé til að bera nafnið með rentu. Ekki öll börn stunda nám þar sem þau finna sig meðal jafningja Sérskólaúrræði eru löngu yfirfull.
Of mikið álag er á mörgum kennurum/sérkennurum og starfsfólki
Ekki eru neinar samræmdar árangursmælingar á hvort sérkennsla skilar sér.
"Snemmtæk íhlutun" er auðvitað sjálfsagt mál og hefur alltaf verið en kemur ekki í staðin fyrir sértækar greiningar. Hætta er á að barni sé ekki veitt rétt meðferð vegna þess að aldrei var kannað hver raunverulegur vandi þess er.
Samkv. PISA 2018 lesa um 34% drengja um 15 ára sér ekki til gagns og 19% stúlkna. Nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings hefur fjölgað hlutfallslega.
Um afglæpavæðingu neysluskammta og aðgengi að vímuefnum
15.5.2021 | 11:32
Ég bæði, sem sálfræðingur og borgarfulltrúi styð umsögn samráðshóps Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni (afglæpavæðingu neysluskammta)og hef bókað um þessa ánægju mína í borgarráði.
Í umsögninni segir að með afglæpavæðingu neysluskammta má gera ráð fyrir að aðgengi að vímuefnum verði meira. Það er þekkt staðreynd að aukið aðgengi að vímuefnum eykur neyslu. Þessi breyting, verði hún að lögum, getur auðveldað unglingum að verða sér út um vímuefni og því aukið neyslu þeirra.
Það er vissulega jákvætt og mikilvægt að draga úr neikvæðu viðhorfi til hópa sem neyta vímuefna en það er áhyggjuefni að það hafi einnig jákvæð áhrif til vímuefnanna sjálfra í samfélaginu og þá sérstaklega meðal unglinga.
Áhyggjur eru einnig af því að miðað er við 20 ára aldurstakmark í 18. gr. áfengislaga nr. 75/1998, því skýtur skökku við að í frumvarpinu sé miðað við 18 ára aldur en ekki 20 ára eins og í áfengislögunum.
Í bókun Flokks fólksins segir:
Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að löggjöfin þarf ávallt að hugsa fyrst og fremst um hagsmuni barna og í öllum lagasetningu sem snerta mögulega börn og ungt fólk þarf að gera áhættumat með tilliti til barna og unglinga, sbr. 3. gr. barnasáttmálans.
Drullukast dauðans í borgarstjórn
12.5.2021 | 07:54
Enda þótt ég ætli ekki að gerast neinn sérstakur verndari borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks þá er það innbyggt í mig að koma þeim til varnar sem sparkað er í. Heift meirihlutans í garð borgarfulltrúa Sjálfstæðismanna í borgarstjórn birtist í myndum sem stríða langt umfram siðareglur sem meirihlutinn setti sjálfum sér. En svona hatur og heift sem borgarfulltrúinn og Píratinn Dóra Björt sýndi í garð borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks í dag á fundi sem ræða átti Ársreikning borgarinnar 2020 hlýtur að éta manneskju upp að innan. Ég gat ekki orða bundist.
Fjármál borgarinnar eru í volli
4.5.2021 | 20:08
Taka á lán sem þýðir hærri afborgun lána. Spurt er um hvert verið er að stefna með borgina hvert er markmiði nú þegar harðnað hefur á dalnum og minna er um peninga á sama tíma og áhrif og afleiðingar COVID eru í algleymingi? Á ekki að skerpa á áherslum? Hvað er mikilvægast, hver er forgangsröðunin? Er það stafrænt kerfi á heimsmælikvarða með því að setja 10 milljarða í þjónustu- og nýsköpunarsviðs næstu tvö árin en hluti þess fer í að finna upp hjól sem búið er að finna upp og þarf aðeins að aðlaga að borginni? Eða eru það borgarbúar, velferð þeirra og líðan, börnin, fjölskyldur, eldri borgarar, öryrkjar og borgarbúar allir? Meirihlutinn hefur svarað þessum spurningum, þeirra forgangsröðun er skýr.