Bloggfærslur mánaðarins, júní 2021
Dýrmætur tími fyrir börnin hefur glatast
29.6.2021 | 09:10
Loks er meirihlutinn í borgarstjórn að taka við sér þegar kemur að því að ráðast til atlögu gegn löngum biðlistum. Meirihlutinn lagði fram á dögunum pakka af tillögum um að taka á biðlistum barna til fagfólks skólaþjónustu og færa jafnframt fagfólk nær börnunum í skólunum. Sálfræðingar eiga þó ekki að hafa fullt aðsetur innan skólanna eins og fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá og hefur ítrekað lagt til. Það er auk þess vilji margra skólastjórnenda enda þjónar slíkt fyrirkomulag best börnum og starfsfólki. Hér talar fulltrúi Flokks fólksins af 10 ára reynslu sinni sem skólasálfræðingur.
Nú bíða 1056 börn eftir þjónustu fagfólks skóla. Biðlistinn hefur verið að lengjast jafnt og þétt síðustu árin. COVID-ástandið bætti ekki úr en nú bíða sem dæmi 434 börn eftir þjónustu talmeinafræðings. Fulltrúi Flokks fólksins hefur frá upphafi kjörtímabils barist fyrir því að fagfólki verði fjölgað og að farið verði markvisst og kerfisbundið í að stytta biðlista barnanna. Talað hefur verið fyrir daufum eyrum allt kjörtímabilið. Segir í nýlegum pistli formanna skóla- og frístundaráðs og velferðarráðs að sérstakt átak verður gert í að styðja við börn sem leitað hafa eftir þjónustu sálfræðinga og talmeinafræðinga skólaþjónustunnar í vetur en umsóknum um skólaþjónustu hefur fjölgað hratt undanfarið í tengslum við Covid-faraldurinn.
Hugsanlega má reikna með að eitthvað af umbótatillögum meirihlutans á skóla- og velferðarsviði verði orðnar að veruleika rétt fyrir borgarstjórnarkosningar sem verða í maí á næsta ári. Er það ekki dæmigert að efna eigi loforð rétt fyrir kosningar sem gefin voru fyrir síðustu kosningar? Nái þessi meirihluti aftur kjöri má ætla að sama gerist og síðast, hin fögru loforð fara í skúffu og þegar líður aftur að kosningum verði aftur dustað af þeim rykið?
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar vissulega að stíga eigi þetta skref og samþykkti allar þessar tillögur. Segja má betra seint en aldrei. Allt sem er gott fyrir börnin þótt skrefin séu lítil styður fulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn. Hins vegar hefur dýrmætur tími tapast. Fyrir tugi barna sem hafa verið á biðlistum er ansi seint í rassinn gripið. Þau hafa mátt bíða mánuðum saman og jafnvel árum með vandamál sín óleyst í þeirri von að brátt komi nú röðin að þeim og þau fái fullnægjandi þjónustu í formi einstaklingsmiðaðrar faglegrar aðstoðar. Mörg hafa útskrifast úr grunnskóla án þess að hafa fengið aðstoð ýmist að hluta til eða öllu leyti.
Stafræn umbreyting sett ofar en aðstoð við börn í vanda
Á meðan börnin hafa beðið hefur hins vegar ekki flækst fyrir meirihluta borgarstjórnar að ákveða að ráðstafa 10 ma.kr. í stafræna umbreytingu eða öllu heldur stafræna umbyltingu. Fyrir brot af þessum tíu milljörðum mætti gera mikið fyrir börnin í borginni og aðra viðkvæma hópa. Ekki er um það deilt að stafrænar lausnir eru af hinu góða. Nauðsynlegt er að einfalda ákveðna ferla til að flýta afgreiðslu sem dæmi. En meðhöndla þarf fjármuni borgarinnar af skynsemi og ábyrgð. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að það hafi ekki verið gert þegar kemur að innleiðingarferli stafrænnar umbreytingar í borginni. Um þau mál hafa verið lagðar fram fjöldi bókanna og fyrirspurna. Eitt er víst að engin stafræn umbreyting mun verða til þess að grynnka á biðlistum á meðan ekki er nægt fagfólk ráðið til verksins, hvorki talmeinafræðingar né sálfræðingar. Þess utan þarf enga 10 ma.kr. til að taka nauðsynleg skref í einföldun rafrænna ferla. Hluti þessa fjármagns hefði átt að ráðstafa til að styrkja skólaþjónustu grunnskólanna og ráða fleira fagfólk, sálfræðinga og talmeinafræðinga.
Þær eru ófáar tillögurnar sem fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram á kjörtímabilinu sem lúta að lausnum á biðlistavanda borgarinnar. Biðlistar í borginni eru eins og illkynja mein sem vaxið hefur hratt síðustu árin. Allar tillögur Flokks fólksins hafa verið felldar eða þeim vísað frá meira og minna. Vaxandi vanlíðan barna hefur verið staðfest af Landlæknisembættinu, í könnunum Velferðarvaktarinnar og nú síðast í nýrri íslenskri rannsókn sálfræðideildar HR og Rannsóknar og greiningar. Niðurstöður bera að sama brunni þ.e. að börn og ungmenni sýna aukin þunglyndiseinkenni og segja andlega líðan sína verri en áður. Áhrif og afleiðingar COVID hefur bæst ofan á þá slæmu stöðu sem fyrir var.
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur
Grein birt í Fréttablaðinu 29. júní 2021
Styrkir fyrir glerskipti vegna hljóðvistar
25.6.2021 | 09:08
Breikka Breiðholtsbraut frá Jafnaseli að Rauðavatni
24.6.2021 | 13:15
Þessi bútur brautarinnar er á annatímum löngu sprunginn, ekki síst síðla fimmtudags og föstudags þegar fólk streymir út úr bænum. Umferðarteppur eru af þeirri stærðargráðu að umferðarteppan nær niður alla Breiðholtsbrautina og situr fólk fast á brautinni í óratíma. Ástandið mun ekki batna þegar að Arnarnesvegurinn mun tengjast Breiðholtsbrautinni. Eðlilegt hefði verið að tvöföldun Breiðholtsbrautar væri gerð á undan tengingu við Arnarnesveg. Þetta ætti að vera algert forgangsmál.
Tillagan um vinnumiðlun eftirlaunafólks felld í borgarstjórn
20.6.2021 | 12:55
Aðstæður þessa hóps eru afar ólíkar. Stór hópur eftirlaunafólks hefur verið á vinnumarkaði á öllum sínum fullorðinsárum og hefur haft mikla ánægju af vinnunni enda er hún oft einnig áhugamál fólks. Allt samfélagið myndi njóta góðs af því að nýta þekkingu og kunnáttu eldra fólks eins lengi og fólk hefur vilja til að vinna tímabundið.
Það eru mannréttindi að fá að vinna eins lengi og kraftar leyfa og áhugi er fyrir hendi og auðvitað án skerðinga og njót umfram allt afraksturs vinnu sinnar eins og aðrir.
Eftirlaun og launuð vinna
14.6.2021 | 07:29
Á fundi borgarstjórnar 15. júní mun fulltrúi Flokks fólksins leggja til að borgarstjórn samþykki að setja á fót Vinnumiðlun eftirlaunafólks í Reykjavík.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavík stofni Vinnumiðlun eftirlaunafólks. Um er að ræða hugmynd að sænskri fyrirmynd þar sem eftirlaunafólk getur skráð sig og tekið að sér afmörkuð verkefni tímabundið. Sambærileg hugmynd er nú til skoðunar á Húsavík og hefur verið fjallað um verkefnið í tímariti LEB (Landssamband eldri borgara). Hugmyndin er að nýta þekkingu og verkkunnáttu eldri borgara og eftirlaunafólks og vinna í leiðinni gegn einmanaleika sem margir þeirra upplifa. Hugsunin að baki Vinnumiðlun eftirlaunafólks er að sýna að þótt fólk sé komið á ákveðinn aldur þýði það ekki að fólk geti ekki gert gagn lengur. Aðstæður þessa hóps eru afar ólíkar. Stór hópur eftirlaunafólks hefur verið á vinnumarkaði allt sitt fullorðinslíf og hefur haft mikla ánægju af vinnu sinni enda er hún oft einnig áhugamál fólks.
Allt samfélagið myndi stórgræða á að nýta þekkingu og kunnáttu eldra fólks eins lengi og fólk hefur vilja til að vinna. Allir græða á því að vera út í samfélaginu, taka þátt og komast í virkni. Það dregur úr einmanaleika og vinnur gegn þunglyndi hjá þeim sem glíma við það. Hér er ekki verið að tala um sjálfboðastarf heldur launuð störf. Það er fátt sem hefur eins mikið tilfinningalegt gildi eins og að upplifa sig virkan og að maður sé að gera gagn.
Hvernig mun vinnumiðlunin virka?
Vinnumiðlun eftirlaunafólks myndi virka þannig að fólk sem vill vinna skráir sig og síðan geta einstaklingar og fyrirtæki leitað til vinnumiðlunarinnar ef þeim vantar fólk í ákveðin verkefni. Þegar búið er að skrá sig er farið yfir hvað viðkomandi hefur gert áður, við hvað þeir hafa starfað og hvar færni þeirra og áhugi liggur. Sá sem skráir sig til vinnu ræður því hvenær hann vinnur og hversu mikið. Sumir vilja ráða sig í starf hálfan daginn, aðrir geta hugsað sér að starfa tvo daga í viku og svo framvegis. Nú er hægt að vinna sér inn 100 þúsund krónur á mánuði án þess að ellilífeyrir skerðist. Auðvitað er ekkert sanngirni í þessu. Úrræðið myndi að sjálfsögðu virka betur ef dregið er úr skerðingum vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega. Eftirlaunafólk á að fá að vinna eins lengi og það vill án skerðinga og njóta afraksturs vinnu sinnar eins og aðrir. Meirihlutinn í borgarstjórn getur ef hann vill ákveðið að fylgja ekki almannatryggingarkerfinu og boðið eldra fólki upp á úrræði til að auka virkni og tekjur.
Vinnumiðlunin yrði milliliður. Hún myndi síðan annast innheimtu hjá fyrirtæki/stofnun þar sem viðkomandi vinnur og greiða svo laun til þátttakenda. Fjölmörg störf koma til greina fyrir þennan hóp enda er mannauðurinn mikill og fólk með langa reynslu. Fyrirkomulagið gengur vel í Svíþjóð og er auk þess til skoðunar á Húsavík. Því ætti Vinnumiðlun eftirlaunaþega að geta blómstrað í Reykjavík. Oft kemur upp sú staða að fyrirtæki vanti starfskraft með stuttum fyrirvara eða tímabundið. Hægt er að hugsa sér alls konar birtingamyndir í þessu sambandi. Fulltrúi Flokks fólksins vonar að fulltrúar meirihlutans í borgarstjórn og aðrir kjörnir fulltrúar sjái kostina við þessa tillögu og vísi henni þangað sem hún á heima til frekari skoðunar og þróunar.
Grein birt í Morgunblaðinu 14. júní 2021
Myndavélar á alla leikvelli
10.6.2021 | 19:49
Það heyrir til mannréttinda að tryggja börnum fyllsta öryggi í borginni hvar sem er. Það er þekkt að þeir sem vilja skaða börn leita iðulega á staði og á svæði sem tryggt má vera að finna börn. Börnin í borginni verða að geta verið örugg á svæðum sem þeim er ætlað að leika sér á. Vissulega kemur myndavél ekki í veg fyrir að glæpur sé framinn en myndavél hefur fælingarmátt og gerist eitthvað er hægt að skoða atburðarás í myndavél og hver var aðili/aðilar í málinu.
Þessi tillaga er lögð fram í ljósi nýlegs atviks þar sem reynt var að hrifsa barn á brott sem var við leik á leikvelli í borginni. Þetta er ekki eina tilvikið af þessum toga. Í Reykjavíkurborg eru hvergi myndavélar á leiksvæðum barna svo vitað sé. Þetta á jafnt við um leiksvæði sem eru eldri sem og nýuppgerð. Fulltrúi Flokks fólksins telur að sómi væri af því ef mannréttindaráð léti kostnaðarmeta þessa tillögu og í framhaldinu beita sér fyrir því að fá hana samþykkta.
Afsökunarbeiðni lágmark
1.6.2021 | 20:42
Málefni Fossvogsskóla