Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2022

Bruðlið burt úr borginni

lokkur fólksins kallar eftir að borin sé meiri virðing fyrir verðmætum í borginni. Margar fjárfestingar borgarinnar eru í senn ómarkvissar og óhagkvæmar og staðið er í samkeppnisrekstri sem ætti að vera utan verkahrings borgarinnar.

Flokkur fólksins vonar að á næsta kjörtímabili verði við stjórnvölinn meirihluti sem er tilbúinn til að eyða biðlistum, tryggja börnum fagþjónustu, taka á fátæktarvandanum og vinna í málefnum öryrkja og eldri borgara. Auka þarf jöfnuð, losa um höft og frelsisskerðingar og tryggja réttlæti fyrir alla samfélagshópa.

Vinna á hverfaskipulag með fólkinu og að samgöngumálum með þarfir allra í huga. Frumskilyrði er að borin sé virðing fyrir fjármunum borgarbúa en þó fyrst og fremst virðing fyrir fólkinu sjálfu og þörfum þess.

SORPA ekki einsdæmi

SORPA var nýlega dæmd til að greiða Íslenskum aðalverktökum tæpar 90 m.kr. vegna mistaka við útboð byggingar á gas- og jarðgerðarstöð á Álfsnesi, GAJA.

GAJA er ónothæf og óljóst hvenær hún verður virk. SORPA hefur hækkað gjaldskrána úr öllu hófi til að mæta dýrkeyptum mistökum. Sá er hængur á stjórn SORPU að þar er ekki gerð nein krafa um að stjórnarmenn hafi reynslu, þekkingu eða skilning á þessum málum.

Vert er að skoða hvort röð mistaka hjá SORPU megi mögulega setja á reikning meints þekkingarleysis stjórnarmanna?

Stafræn sóun

Ég hef gagnrýnt stafræna sóun í eitt ár. Eyðsla fjármuna er í engu samræmi við tilbúnar afurðir. Enn er beðið eftir nauðsynlegum stafrænum lausnum sem ýmist eru enn á tilrauna- eða þróunarstigi, eða á byrjunarstigi innleiðingar löngu eftir áætlun. Fulltrúi Flokks fólksins hefur beðið innri endurskoðun að fara ofan í kjölinn á þessu máli.

Hægt er að reka borgina betur. Það er eins og það gleymist að verið er að sýsla með skattfé borgarbúa. Flokkur fólksins lagði til að fenginn yrði ráðgjafi til að fara yfir rekstur helstu deilda, með það að markmiði að hagræða. Tillagan var felld


Röð mistaka kemur illa við pyngju borgarbúa

Flokkur fólksins hefur ítrekað gagnrýnt meirihluta borgarstjórnar fyrir bruðl með fjármuni Reykvíkinga og kallað eftir nauðsynlegri virðingu fyrir verðmætum, aga og ráðdeild. Borgarbáknið hefur þanist út, margar fjárfestingar eru í senn ómarkvissar og óhagkvæmar og staðið er í samkeppnisrekstri utan verkahrings borgarinnar.

Útboðsklúður SORPU BS.

Hjá  SORPU reka hver mistökin önnur á kjörtímabilinu, þar sem enn og aftur þarf að greiða skaðabætur fyrir mistök stjórnenda. SORPA er dæmd til að greiða Íslenskum aðalverktökum tæpar 90 milljónir króna vegna mistaka við útboð byggingar á gas- og jarðgerðarstöð á Álfsnesi. SORPA braut lög um opinber innkaup þegar fyrirtækið samþykkti að ganga til samninga við Ístak. Stjórn SORPU ber á þessu ábyrgð og þarf að axla hana. Sá er hængur á stjórn SORPU að þar er ekki gerð nein krafa um að stjórnarmenn hafi reynslu eða þekkingu á þessum málum. Því spyr fulltrúi Flokks fólksins hvort þetta meinta kunnáttuleysi tengist röð mistaka sem átt hefur sér stað hjá fyrirtækinu allt kjörtímabilið?

GAJU ævintýrið ofl.

GAJA, gas- og jarðgerðarstöð er ónothæf og óljóst hvenær hún verður virk. SORPA hefur hækkað gjaldskrána úr öllu hófi og þurft að greiða fyrrum framkvæmdastjóra háar skaðabætur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til stjórnarformaður, sem nú er fulltrúi Reykjavíkurborgar, sé valinn að nýju og fenginn verði aðili sem hefur nauðsynlega sérmenntun/þekkingu á málefnum og verkefnum SORPU, haldgóða  reynslu en umfram allt skilning á þessum málum. Finna þarf aðila sem kann að hlusta á ráðleggingar annarra, varnarorð ef því er að skipta og beri gæfu til að sækja nauðsynlega þekkingu sem er fyrir hendi meðal annarra þjóða sem ýmist hafa verið farsælar í þessum málum eða hafa þurft að súpa seyði af mistökum. Það er nefnilega hagkvæmara að læra af mistökum annarra en af ítrekuðum eigin mistökum. Hjá SORPU hefur verið gerð röð mistaka sem koma nú illilega niður á borgarbúum. Vert er að skoða að Reykjavíkurborg stígi út úr samkeppnisrekstri sem þessum og bjóði hann þess í stað út. Ekki er að sjá að þessi rekstur gangi vel og íbúum Reykjavíkur hagkvæmur, undir stjórn b.s. kerfisins.

Stafræn sóun

Fulltrúi Flokks fólksins hefur í heilt ár staðið vaktina við að fylgjast með innleiðingu stafrænna lausna hjá Reykjavíkurborg. Enn er beðið eftir nauðsynlegum stafrænum lausnum en samt hafa milljarðar verið settir í ráðgjöf hjá erlendum fyrirtækjum, tilraunir og þróun á lausnum sem flest stór fyrirtæki og minni sveitarfélög eru jafnvel löngu komin með. Það er með öðrum orðum hamast við að finna upp hjólið og greitt rausnarlega fyrir með peningum Reykvíkinga.

Fjölda starfsmanna hefur verið sagt upp störfum og í staðinn hefur verkefnum verið útvistað eða aðrir starfsmenn ráðnir sem áður voru á einkamarkaði. Ekki hefur verið sýnt fram á hagkvæmni eða ávinning af þessum  uppsögnum. Þróunar- og tilraunastarfsemi hefur verið í gangi eins og Borgin sé hugbúnaðarfyrirtæki á einkamarkaði sem æðir áfram á ævintýralegri vegferð, spreðandi fjármunum eigenda sinna á báðar hendur.

Hvar eru svo allar afurðirnar? Fulltrúi Flokks fólksins reynir eftir bestu getu að fylgjast með og vakta meðhöndlun fjármagns borgarbúa sem er hans skylda. Fleiri hafa tekið undir gagnrýni Flokks fólksins og spurt áleitinna spurninga. Flokkur fólksins hefur beðið innri endurskoðun að fara ofan í kjölinn á þessu alvarlega máli.

Allt eru þetta mál sem að mati okkar í Flokki fólksins er  hægt að taka á og með því fara betur með skattfé okkar. Lögð hefur verið fram tillaga um að fá ráðgjafa til að fara yfir rekstur helstu deilda til að kanna hvort að ekki megi hagræða en núverandi meirihluti hefur hafnað því. Tillagan var felld.

Úrbætur á næsta kjörtímabili

Flokkur fólksins elur þá von að á næsta kjörtímabili verði við stjórnvölinn meirihluti sem er tilbúinn að bretta upp ermar og taka til hendinni. Eyða biðlistum, tryggja börnum og unglingum næga fagþjónustu, taka á fátæktarvandanum og vinna í málefnum öryrkja og eldri borgara.

Við í Flokki fólksins viljum auka jöfnuð, losa um höft og frelsisskerðingar og köllum eftir réttlæti fyrir alla samfélagshópa. Við viljum vinna hverfaskipulag með fólkinu og vinna í samgöngumálum með þarfir allra í huga hvernig svo sem þeir kjósa að fara um borgina.

Til að ná fram endurbótum sem þjóna hagsmunum borgarbúa er frumskilyrði að borin sé virðing fyrir fjármunum þeirra, en þó fyrst og fremst virðing fyrir fólkinu sjálfu og þörfum þess.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn
Birt á visi.is 24. janúar 2022

 peningarmynd 1


Reykjavík ekki í hópi Barnvænna sveitarfélaga

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins var lögfestur með lögum nr. 19/2013. Hann hefur lagagildi hér á landi og bein réttaráhrif. Sáttmálinn hefur ekki verið innleiddur í Reykjavík líkt og gert hefur verið í Kópavogi. Flokkur Fólksins leggur til á fundi borgarstjórnar 18. janúar að skipaður verði stýrihópur sem greini og leggi mat á hvað vanti upp á til að hægt sé að innleiða Barnasáttmálann í Reykjavík. Þar með verði Reykjavík komin í hóp Barnvænna sveitarfélaga en hugmyndafræði þeirra byggist á alþjóðlegu verkefni UNICEF. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum. Verkefnið er samstarfsverkefni UNICEF og félagsmálaráðuneytisins.

Innleiðing Barnasáttmálans skiptir sköpum um málefni barna, sérstaklega nú þegar fátækt fer vaxandi og kannanir sýna aukna vanlíðan barna. 

Til þess að unnt sé að innleiða Barnasáttmálann þarf fyrst að vinna ítarlega greiningarvinnu á högum og aðstæðum barna í Reykjavík. Nokkur brýn mál sem snúa m.a. að aðbúnaði barna og  öryggi í leik- og grunnskólum, rétt barna til sálfræði- og talmeinaþjónustu þarfnast úrbóta. Börn eiga einnig rétt á að taka þátt í ákvörðunum er varða þau sjálf þar sem þess er kostur. Það er ekki hvað síst á vettvangi sveitarfélaga, sem sinna fjölþættri þjónustu við börn, sem tryggja þarf að réttur barna til þátttöku í ákvörðunum er varða þau sjálf sé virtur í hvívetna.

Fossvogsskóli, ákvæði Barnasáttmálans brotin

Ástandið vegna myglu í Fossvogsskóla og fleiri leik- og grunnskólum hefur valdið nemendum og foreldrum þeirra streitu og áhyggjum með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum. Í tilviki Fossvogsskóla reyndu foreldrar ítrekað að ná eyrum yfirvalda og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna mygluástandsins en skellt var skollaeyrum við ákalli þeirra. Nú hafa borgaryfirvöld viðurkennt  að bregðast hefði átt við fyrr og hlusta betur. Það er fagnaðarefni að umboðsmaður barna hefur kallað eftir því að Reykjavíkurborg láti framkvæma óháða úttekt á viðbrögðum og aðgerðum skóla- og borgaryfirvalda vegna ástands húsnæðis Fossvogsskóla.

Foreldrar í vanskilum óöryggir um vistun barna sinna á leikskóla

Nokk­ur fjöldi barna, sem bú­sett eru í Reykja­vík­ur­borg, eiga á hættu að fá ekki boðaða vist í leik­skóla vegna van­skila for­eldra við sveit­ar­fé­lagið. Dæmi eru einnig um að for­eldr­ar hafi fengið til­kynn­ing­ar um upp­sögn á vist­un­ar­samn­ingi við leik­skóla af sömu ástæðum.

Ákvörðun sveit­ar­fé­lags um að synja for­eldr­um í erfiðri stöðu um vist­un fyr­ir barn í leik­skóla er ein­göngu til þess fall­in að auka á erfiðleika viðkom­andi heim­il­is með því að gera for­eldr­um síður kleift að stunda vinnu utan heim­il­is og fram­færa börn sín. 

Erfið skuldastaða foreldra getur haft alvarleg áhrif á mörg börn. Samkvæmt Barnasáttmálanum ber að tryggja að börn fái, óháð aðstæðum for­eldra þeirra, notið rétt­ar síns til fram­færslu, mennt­un­ar og þroska. Hlúa á sér­stak­lega að börn­um, sem búa við fá­tækt á heim­ili sínu, á öllum sviðum daglegs líf.  

Í þessu sambandi má einnig nefna afgreiðslu vanskilamála vegna skólamáltíða. Af 9.514 útgefnum reikningum í hverjum mánuði fóru 4,2% til innheimtufyrirtækisins og voru 1,5% ennþá ógreiddir 1. nóvember 2021. Ef foreldrar geta ekki greitt skuldina safnast dráttarvextir sem elta fátæka foreldra næstu árin. Engu barni er þó sagt upp mataráskrift eftir því sem næst er komist.

Biðlistar rótgróið mein í Reykjavík

Á heildarbiðlista eru nú 1680 börn og bíða flest börn eftir sálfræðingi. 
Börn eiga rétt á sálfræðiþjónustu á vegum Skólaþjónustunnar en gengið hefur hægt að grynnka á biðlistanum.


Hinn 1. nóvember 2021 voru 400 börn á biðlista eftir þjónustu talmeinafræðings. Ábyrgð borgarinnar er mikil og byggist m.a. á samkomulagi ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um skiptingu ábyrgðar vegna talmeinaþjónustu við börn frá árinu 2014. Reykjavíkurborg á samkvæmt samkomulaginu að veita börnum með vægari frávik þjónustu innan leik- og grunnskóla sveitarfélaga. 

Tugir barna bíða þess utan eftir annars konar fagþjónustu sem borginni er skylt að veita þeim samkvæmt sveitastjórnalögum.

Reykjavíkurborg á hraða snigilsins

Að ofangreindu má sjá að brýnt er að hefja vinnu til að komast að raun um hvað þarf að bæta í aðstæðum barna og réttindamálum þeirra með það fyrir augum að innleiða Barnasáttmálann í Reykjavík. Daglega eru ákvæði hans brotin.

Eftir því sem næst verður komist liggur nú fyrir borgarráði erindi frá UNICEF þar sem Reykjavíkurborg er boðið að taka þátt í verkefninu sem hér hefur verið lýst, Barnvæn sveitarfélög. Það erindi var sent til umsagnar skóla- og frístundasviðs og fleiri sviða. Ekki er vitað hvar í kerfinu erindið liggur. Málið liggur í láginni. Fulltrúi Flokks fólksins fer fram á að nauðsynlegar umsagnir frá fagsviðunum berist hið snarasta svo að taka megi ákvörðun um þátttöku í verkefninu sem leiðir til innleiðingar Barnasáttmálans í Reykjavík.

Greinin er birt í Morgunblaðinu 17.1. 2022

innleiðin b mynd


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband