Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2023

Rangt er að leggja niður Borgarskjalasafn

Nú hefur leynd verið létt af KPMG skýrslunni um Borgarskjalasafn sem kemst að þeirri niðurstöðu að:

"Óbreytt ástand er ekki möguleiki"

Þetta er gildishlaðin fullyrðing. KPMG skýrslan er ekki vandað plagg að mati okkar í Flokki fólksins. Niðurstaðan er pöntuð. Flokkur fólksins telur að borgarstjóri og hans fólk sé fyrir löngu búið að ákveða að leggja niður Borgarskjalasafn. Einungis voru höfð tvö viðtöl við borgarskjalavörð og teymisstjóra eftirlits og rafrænna skila. Vinnan núna er því ólík vinnu með KPMG árið 2018. Ekkert hefur verið fundað með öllum starfsmönnum Borgarskjalasafns, engir stefnumótunar- eða verkefnafundir haldnir með starfsmönnum og greinendur hafa ekki kynnt sér ítarlega verkefni eða störf safnsins. Ekki var haldinn fundur með forstöðumanni Borgarskjalasafns til að kynna drög að tillögum. Hér er ekki um neina stefnumótunarvinnu að ræða heldur er aðeins keyrt áfram og yfir alla sem málið varðar. Þetta eru allt upplýsingar frá starfsfólkinu.

Skýrslan er neikvæð, og fjallað er með niðurrífandi hætti um Borgarskjalasafn. Allt gert til að láta Safnið líta illa út til að réttlæta að skella í lás. Ekki er minnst á styrkleika Safnsins, aðeins einblínt á vandamálin. Fela á verkefnið öðrum í stað þess að skoða leiðir til að efla safnið. Hávær mótmæli eru um áformin og telur Flokkur fólksins að borgarstjóri eigi umsvifalaust að draga þessa tillögu til baka og biðja starfsfólk Borgarskjalasafns afsökunar. Illa hefur verið komið fram í þessu máli á allan hátt.

 


Ekki í skólann

Umræða um skólaforðun hefur aukist síðan Velferðarvaktin hóf að gera könnun á umfangi hennar. Um þúsund íslensk börn glíma við skólaforðun og treysta sér ekki til að mæta í skólann. Ætla má að fjöldinn sé mun meiri. Þær ástæður eða orsakir sem helst eru nefndar tengjast andlegri vanlíðan, kvíða og þunglyndi.

Dæmi um aðrar ástæður er félagskvíði þ.e. þegar barn treystir sér ekki til að yfirgefa heimilið til að vera með jafnöldrum. Einnig erfiðleikar í námi ef vandinn er vitsmunaþroski eða aðrar raskanir. Algengar ástæður eru einelti eða önnur ógn sem tengist skólanum hvort sem það er innan veggja skólans eða á skólalóð.

Ef skólaforðun hefur staðið yfir langan tíma er ekki ósennilegt að barnið sé komið með viðvarandi kvíða gagnvart öllu sem tengist skólagöngunni. Það hefur misst úr náminu og miklar fyrir sér að taka upp þráðinn að nýju. Það hefur einnig misst tengsl við skólafélaga og óttast að vera ekki tekinn aftur í hópinn, eða upplifir sig jafnvel aldrei hafa verið hluti af hópnum. Barnið forðast skólann og vill ekki fara í hann því það treystir því ekki að neitt hafi breyst eða geti breyst í skólaaðstæðunum.

Grafast fyrir um orsakir

Eitt er víst að skólaforðunin á sér einhverja upphafsorsök eða ástæður. Það gæti hafa verið eitt tilvik eða uppsöfnuð vanlíðan sem tengist skólanum sem rekja má til margra þátta sem foreldrar og barnið sjálft á jafnvel erfitt með að skilgreina lengur.

Öll mál af þessu tagi þarf að vinna á einstaklingsgrunni og engin tvö mál eru eins. Fyrirfinnist undirliggjandi ástæða þarf að taka á henni og ekki linna látum fyrr en ástæðan er fundinn og vandinn er kominn í lausnarfarveg. Eina lausn skólaforðunar er að barnið sæki skólann á ný með reglubundnum hætti. Í algerum undantekningum þegar fyrirséð er eftir að reynt hefur verið til þrautar, fær barnið heimakennslu í samræmi við lög.

En fyrst þurfa allir aðilar sem koma að máli barns með skólaforðun (barnið sjálft, foreldrar þess, skólayfirvöld og fagfólk skóla) að reyna til þrautar, eða þar til barnið upplifi skólagönguna ekki ógnandi á neinn hátt.

Sé ástæðan innra með barninu (klínískur kvíði, þunglyndi, fælni) þarf að aðlaga skólaaðstæður að þörfum þess. Dæmi er um að skólatíma barns sé breytt, styttri viðvera, smærri hópar og að tekið sé á móti barninu með sérstökum hætti og að það hafi vissan tengilið innan skólans sem er ávallt til staðar fyrir barnið.

Sé ástæðan í umhverfi barnsins þarf að taka á því. Hér gæti verið um að ræða vanmátt gagnvart námi eða að barni er strítt, það lagt í einelti. Aðlaga þarf námskrána að þörfum barnsins og að sjálfsögðu vinna úr eineltismálum séu þau orsakaþáttur fyrir skólaforðun. Námsráðgjafi og sálfræðingur skóla eru hér lykilaðilar svo og hjúkrunarfræðingur. Ekki síður skiptir máli skilningur skólayfirvalda, starfsfólks og samhugur bekkjarfélaga. Við komu barns í skólann eftir skólaforðun skiptir máli að búið sé að ræða við bekkinn og að bekkurinn taki vel á móti nemandanum þegar hann kemur aftur í skólann. Góður fyrsti dagur eftir skólaforðunartímabil getur skipt sköpum.

Umfram allt þarf að grafast fyrir um grunninn að skólaforðunni og rekja þróunina til að geta fjarlægt það sem kom skólaforðuninni af stað. Þetta þarf að gerast áður en skólaforðunarvandinn festir sig í sessi sem almenn regla frekar en undantekning.

 

Skólakerfið

Börn upp til hópa eru sátt og líður vel í skóla sínum. Vandinn liggur í skorti á fagfólki til að hjálpa öllum þeim börnum sem þess þurfa. Fagfólki hefur ekki fjölgað í grunnskólum borgarinnar sem er ekki í neinu samræmi við fjölgun nemenda.  Reykjavíkurborg hefur ekki viljað leiðrétta laun sálfræðinga í samræmi við menntunarstig þeirra og þess vegna gengur illa að fá þá til starfa. Öll þekkjum við biðlistann sem fengið hefur að lengjast stjórnlaust.


Í raun breytir engu hversu hátt er hrópað. Skólastjórnendur, foreldrar, ungmennaráð og börnin kalla út í tómið. Foreldrar barna í vanda sem þessum eru í angist sinni og upplifa sem kerfið hafi gefist upp á barni sínu. Barnasáttmálinn sem lögleiddur er á Íslandi hefur ekki verið innleiddur í Reykjavík. Ef horft er á Barnasáttmálann má segja að brotið sé daglega á börnum í Reykvísku skólakerfi.Skólaforðunarmál sem komin eru á efri stig verða ekki leyst án fagfólks. Einhver einn þarf að halda utan um málið, sjá til þess að fundir séu haldnir, viðtöl höfð og máli fylgt eftir til að forðast að það dagi uppi í kerfinu og hver bendi á annan. Það er til mikils að vinna að taka á þessum erfiðu málum og gera það faglega.

Afleiðingar langvinnar skólaforðunar getur leitt til félagslegrar fötlunar einstaklingsins sem kemur niður á möguleikum þess að stunda nám eða vinnu.  Það er ekki aðeins skaði þess einstaklings heldur samfélagsins alls. 

Flokkur fólksins hefur ítrekað rætt skólaforðun í borgarstjórn og kallað eftir samræmdum viðmiðum sem sátt ríkir um. Einnig er kallað eftir viðbrögðum skólayfirvalda og að þau sýni ábyrgð í verki.

Birt í Morgunblaðinu 28 febrúar 2023


Kallað út í tómið

Nýlega er afstaðinn fundur með ungmennaráðum í borgarstjórn sem er árlegur viðburður. Í annað sinn á stuttum tíma leggur ungmennaráð fram tillögu um að aðgengi að sálfræðingum verði stórbætt. Flokkur fólksins hefur margsinnis sl. 5 ár lagt fram sambærilegar tillögur og þá bent á hvað þurfi að gera til að aðgengi barna að fagþjónustu skóla verði bætt.

Biðlisti barna í grunnskólum Reykjavíkur eftir þjónustu einna helst sálfræðinga og talmeinafræðinga er nú 2291 sem bíða eftir fyrstu og frekari þjónustu frá fagfólki skólanna. Árið 2018 biðu um 400 börn.Hægt er að fylgjast með biðlistatölum á vef Reykjavíkurborgar (velstad).

Fyrir tveimur vikum var þessi tala 2049 börn

Flokki fólksins finnst það átakanlegt að hlusta á kall barnanna sem því miður kalla bara út í tómið. Ég sem sálfræðingur til meira en 30 ára og skólasálfræðingur um 10 ára skeið vil sjá sálfræðingana vera hluta af menningu skólanna, með aðsetur í skólum og að börnin, foreldrar og kennarar hafi auðvelt aðgengi að þeim.

Með því að hafa sálfræðingana staðsetta á Miðstöðvum hefur myndast gjá á milli barna og sálfræðiþjónustu og hana þarf að brúa. Ef aðsetur allra sálfræðinga væru í skólunum sjálfum gætu þeir betur sinnt ráðgjöf við kennara og starfsfólk og verið til taks komi upp erfið mál. Tími sálfræðinganna myndi nýtast betur og fjármagn sparast. Sem borgarfulltrúi stóð ég í þeirri meiningu að þegar verkefnið Betri borg fyrir börn var sett á laggirnar, fyrst í Breiðholti, ætti að færa sérfræðiþjónustu meira út í skólana enda hafa skólastjórnendur kallað eftir því í mörg ár.

Hlutverk sálfræðinga eins og það gagnast börnum best

Hlutverk skólasálfræðinga ætti að vera fyrst og fremst að vera nálægt börnunum: Þeir ættu reglulega að ganga í bekkina í forvarnarskyni, ræða við börnin um einelti og bjóða foreldrum einnig upp á reglulega fræðslu.

Starf skólasálfræðinga er afar margbreytilegt en felur í megin dráttum í sér ráðgjafarviðtöl, skimun, greiningu, fræðslu, og stuðning, eftirfylgd með málum og aðra aðkomu vegna vanda barna í leik- og grunnskólum.

Horfa verður á þá staðreynd að vanlíðan og óhamingja barna hefur verið að aukast síðustu misseri og hefur það verið staðfest með fjölda rannsókna m.a.frá Landlæknisembættinu og Velferðarvaktinni sem hefur gert reglulegar kannanir. Nýlega kom út ársskýrsla velferðarsviðs. Í skýrslunni eru birtar upplýsingar um algengustu ástæður tilvísana eftir faglegri þjónustu fyrir börn og af hverju unglingar leita eftir viðtölum við sálfræðinga.

Langmesta aukningin milli ára er vegna tilfinninga- og félagslegs vanda eða um 63%, og vegna málþroskavanda, 62%. Börnum með hamlandi einbeitingarvanda hefur fjölgað frá 280 í 456 börn. Fjölgun tilvísana/beiðna vegna vitsmunaþroskavanda hefur einnig aukist t.d. vegna lesskilningsvanda.

Börn í vanda og vanlíðan þurfa aðstoð sálfræðinga.Birtingamyndir vanlíðan barna og unglinga er kvíði, þunglyndi, skólaforðun og sjálfsskaði en sjálfsskaði hefur færst í vöxt meðal barna. Börn sem stunda sjálfskaða fela atferlið iðulega fyrir foreldrum eins og þau geta. Nýjustu rannsóknir sýna að um 18% unglinga stunda sjálfsskaða.

Vandinn hverfur ekki þótt hunsaður

Ef tilfinninga-, vitsmuna- og/eða félagslegur vandi barna er hunsaður, hverfur hann ekki. Því lengur sem börn bíða án nauðsynlegrar þjónustu vegna sálræns vanda aukast líkur á að vandinn versni og verður þá enn flóknari og erfiðari viðureignar. Ef barn fær ekki hjálp við hæfi er hætta á að sjálfsmyndin beri hnekki. Verið er að leika sér að eldinum með því að láta börn bíða eftir viðeigandi aðstoð við sálrænum vanda sem og öðrum vanda að sjálfsögðu. Biðin er foreldrunum ekki síður erfið og óvissan með öllu óþolandi.

Fjölmörg dæmi eru um að börn hafa beðið í allt að 2 ár á biðlista eftir sálfræðiaðstoð skólanna sem er lögbundin þjónusta. Mörg hafa útskrifast án þess að fá faglega þjónustu eða jafnvel fyrstu hjálp. Efnaminni foreldrar hafa ekki ráð á að kaupa þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Líklegt má telja að ákveðinn hópur barna með náms-, félags- og tilfinningalegan vanda haldi út í lífið án þess að hafa fengið nokkra aðstoð.

Höfundur er sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.


Heimgreiðslutillaga Flokks fólksins lögð fram enn á ný í borgarstórn

Tillaga okkar Flokks fólksins í borgarstjórn á morgun er að borgarstjórn samþykki að greiða foreldrum styrk kjósi þeir að vera áfram heima með börnum sínum eftir fæðingarorlof. Við höfum kallað þetta heimgreiðslur.
Þessi tillaga hefur verið lögð fram áður af Flokki fólksins bæði á þessu kjörtímabili og því síðasta en var hafnað af meirihlutanum. Eftir því sem ég best veit kom þessi hugmynd fyrst fram hjá Ingu Sæland fyrir borgarstjórnarkosningar 2018 og var hún meðal okkar kosningaloforða. Fleiri flokkar hafa tekið upp þessa tillögu Flokks fólksins sem er auðvitað ánægjulegt

Hér er tillagan:

Borgarstjórn Reykjavíkur 7. febrúar 2023

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um heimgreiðslur til foreldra sem bíða eftir leikskólaplássi í ljósi manneklu á leikskólum

Lagt er til að á meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss sé foreldrum boðnar heimgreiðslur þ.e. mánaðarlegan styrk á meðan að beðið er eftir  leikskólaplássi. Þetta úrræði væri val fyrir foreldra fyrstu tvö ár barnsins. Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðsluúrræðið myndi létta á biðlistum leikskólanna sem eru í sögulegu hámarki vegna manneklu, myglu í leikskólahúsnæði og seinkun á verkefninu Brúum bilið.

Sjá má greinagerðina með tillögunni hér:
https://kolbrunbaldurs.is/borgarstjorn-7-februar-2023/


Heimgreiðslur, mannekla í leikskólum og  viðbrögð skólayfirvalda vegna skólaforðunar

Næstu mál Flokks fólksins í borgarstjórn 7. febrúar snúa annars vegar að tillögu um heimgreiðslu vegna alvarlegra manneklu í leikskólum og langs biðlista og hins vegar að umræðu um orsakir skólaforðunar og viðbrögð skólayfirvalda og fagfólks skóla þegar barn glímir við skólaforðun.

 

Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til í borgarstjórn að foreldrar yngstu barnanna hafi val um að þiggja heimgreiðslur meðan beðið er eftir leikskólaplássi. Þetta úrræði væri val fyrir foreldra fyrstu tvö ár barnsins. Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin. Heimgreiðsluúrræðið myndi því mögulega stytta biðlista leikskólanna sem eru í sögulegu hámarki vegna manneklu, myglu í leikskólahúsnæði og seinkun á verkefninu Brúum bilið.

 

Skólaforðun, orsakir og úrræði

Hitt mál Flokks fólksins fyrir borgarstjórn er umræða um  orsakir skólaforðunar og viðbrögð skólayfirvalda og fagfólks skóla þegar barn glímir við skólaforðun.

Umræða um skólaforðun hefur aukist nokkuð síðan Velferðarvaktin fór að kanna umfang hennar. Nýlega var haldið málþing um skólaforðun. Skólaforðun felst í því að börn og ungmenni forðast að fara í skólann af einhverri ástæðu/ástæðum. Um þúsund íslensk börn eru talin glíma við skólaforðun og treysta sér ekki til að mæta í skólann.

Skólaforðun er ekki nýtt vandamál.  Þær ástæður eða orsakir sem helst eru nefndar eru mest raktar til andlegrar vanlíðunar og kvíða. Ástæður og orsakir kvíða geta verið margvíslegar og margslungnar.

Borgarfulltrúi  Flokks fólksins kallar eftir umræðu um helstu orsakir og það faglega umhverfi, ferli sem mál af þessu tagi fara í Reykvískum grunnskólum. Kallað er eftir umræðu um samræmd viðmið við að greina skólaforðun og hvernig þau viðmið geta nýst. Einnig er óskað eftir viðbrögðum meirihlutans við þeirri staðreynd að fagfólki skólans hefur ekki fjölgað síðustu ár samhliða fjölgun nemenda.

Öll þekkjum við biðlistann hjá Skólaþjónustunni í Reykjavík. Með hverri viku lengist listinn. Gera má því skóna að ákveðinn fjöldi barna á biðlistanum glími við skólaforðun.

Allir helstu lykilaðilar hafa rætt um biðlista barna til sálfræðinga og öðru fagfólki jafnt í ræðu, riti og á málþingum. Margir foreldrar  í angist sinni upplifa sem kerfið hafi gefist upp á barni sínu og fjölskyldunni.

Barnasáttmálinn sem lögleiddur er á Íslandi hefur ekki verið innleiddur í Reykjavík. Ef horft er til innihalds  Barnasáttmálans má segja að brotið sé daglega á börnum í Reykvísku skólakerfi.

Í þessum málum sem öðrum tengdum börnum er ekki í boði að gera ekki neitt, eða gera lítið sem ekkert.  Áhrif og afleiðingar langvinnrar skólaforðunar getur leitt til félagslegrar fötlunar einstaklingsins sem kemur niður á möguleikum hans að fara í frekara nám eða að stunda vinnu. Ef ekki næst að finna viðunandi lausn getur það litað allt líf þessara einstaklinga sem er ekki aðeins skaði þeirra heldur samfélagsins alls.

Það er von okkar í Flokki fólksins að um þessi mál verði gagnleg umræða á þriðjudaginn næstkomandi og að tillögunni um heimgreiðslur verði vísað til frekari skoðunar en ekki vísað frá eða felld.

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn

 Birt á visi.is 3. febrúar 2023


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband