Mótmæli að Innri endurskoðun ráðist í heildarúttekt á braggabullinu

Því var mótmælt í morgun á fundi borgarráðs að Innri endurskoðun verði falið að ráðast í heildarúttekt á öllu því ferli sem endurgerð braggans fól í sér.  

Eftirfarandi bókun var gerð af borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Innri endurskoðun hér eftir vísað í sem IE getur varla talist óháð í þetta verkefni vegna ákveðinna „tengsla“ og þeirra upplýsinga sem hún hefur haft allan tímann um framvindu endurbyggingar braggans. Í því ljósi munu niðurstöður heildarúttektar IE, þegar þær liggja fyrir varla álitnar áreiðanlegar. Hér er ekki verið að vísa í neina persónulega né faglega þætti starfsmanna IE heldur einungis að IE hefur fylgst með þessu máli frá upphafi í hlutverki eftirlitsaðila og getur því varla talist óháð. Annar þáttur sem gerir IE ótrúverðuga sem rannsakanda er að hún sá ekki ástæðu til að koma með ábendingar í ferlinu jafnvel þótt framúrkeyrslan blasti við. Sem eftirlitsaðili og ráðgjafi borgarstjóra hefði IE átt að benda á þessa óheillaþróun og skoða strax hvort verið væri að fara á  svig við vandaða stjórnsýsluhætti. Að IE ætli nú að setja upp rannsóknargleraugun og skoða ferlið með hlutlausum hætti er þar að leiðandi óraunhæft að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og mun varla leiða til trúverðugra rannsóknarniðurstaðna. 

Fulltrúi frá Innri endurskoðun var þessu ekki sammála og til að gæta alls réttlætis birtist hér viðbrögð IE:

Hér er enn og aftur misskilningur á hlutverki IE.

Við höfum gjarnan skilgreint innra eftirlit upp í þrjár varnarlínur. Gróflega er það svo að í fyrstu línu eru framkvæmdirnar, annarri línu þeir sem bera ábyrgð á verklaginu og gerð verkferla. Í þriðju línu er Innri endurskoðun sem hefur það hlutverk að meta virkni innra eftirlits á hverjum tíma. Það er það sem Innri endurskoðun hefur haft að leiðarljósi í öllum sínum störfum. Til þess að halda óhæði okkar er mikilvægt að tryggja að við séum utan við framkvæmd stjórnkerfisins. Við höfum í gegnum tíðina gert úttektir á sviði innkaupa, útboða og stjórnsýslu til að meta og sannreyna virkni innra eftirlits og höfum komið ábendingum á framfæri m.a. við borgarráð. Það er ekki á ábyrgð né hlutverk Innri endurskoðunar að vera þátttakandi í framkvæmdum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband