Er heimilið griðastaður barnsins þíns?

Ég vil í þessum pistli vekja athygli á heimilisofbeldi. Sem barn bjó ég um tíma við slíkt ofbeldi auk þess sem ég hef sem sálfræðingur ríka reynslu af því að ræða við foreldra og börn sem búið hafa við heimilisofbeldi.

Ofbeldi á heimilum er eitt duldasta ofbeldi sem fyrirfinnst. Heimilisofbeldi birtist í mörgum myndum. Það getur birst í ógnandi hegðun í samskiptum fólks sem býr undir sama þaki, í líkamsmeiðingum, kynferðislegu ofbeldi, einangrun, kúgun, niðurlægingu og hótunum. Áður fyrr var yfirleitt rætt um heimilisofbeldi í þeim skilningi að þar væri átt við átök milli fullorðinna. Sá skilningur hefur breyst í kjölfar reynslu og rannsókna. Rannsóknir sýna að börn telja sig sjálf með þegar þau eru beðin um að skilgreina hvað felst í orðinu heimilisofbeldi, jafnvel í þeim tilfellum sem ofbeldið beinist ekki beinlínis að þeim sjálfum.

Börnin á ofbeldisheimilum


Það er óhemju mikið lagt á börn sem alast upp við ótryggar fjölskylduaðstæður svo sem heimilisofbeldi. Heimilið á að vera griðastaður barna sem og fullorðinna. Börn sem búa við heimilisofbeldi lifa í viðvarandi ótta og upplifa sig stundum vera í bráðri lífshættu. Þetta eru börnin sem aldrei geta vitað fyrirfram hvernig ástandið er heima. Þau forðast jafnvel að koma heim með vini sína og sum reyna að halda sig mest annars staðar ef þau eiga þess kost. Börn sem eiga yngri systkini finnst mörgum þau verða að vera til staðar til að geta verndað þau ef ástandið verður sérstaklega slæmt á heimilinu.

Áhrif og afleiðingar heimilisofbeldis á börn eru iðulega margslungin og afleiðingar geta verið alvarlegar. Barn sem elst upp við ofbeldi á heimili sínu fer á mis við margt. Á ofbeldisheimili er andrúmsloftið oft þrungið spennu og kvíða og því er ef til vill fátt um gleði og kátínu. Börn sem alast upp við óöryggi og ótta vegna langvarandi heimilisofbeldis verða oft fyrir einhverjum sálrænum skaða. Sjálfsmynd þeirra verður fyrir hnjaski. Mörg missa trú á sjálfum sér og finnst jafnvel erfitt að treysta öðrum. Þau finna fyrir kvíða, jafnvel þunglyndi og geta átt erfitt með að takast á við verkefni daglegs lífs. Afleiðingar heimilisofbeldis geta fylgt einstaklingnum alla ævi.

Ef horft er til íslensks samfélags þá hefur orðið þróun í málefnum barna sem búa við ofbeldi á heimilum á undanförnum árum. Nýjar verklagsreglur lögreglu, barnaverndar og félagsþjónustu sem þróaðar hafa verið og varða viðbrögð við tilkynningum um heimilisofbeldi er dæmi um jákvæða breytingu í málefnum barna sem búa við ofbeldi. Samkvæmt þeim er þess gætt, þegar brugðist er við tilkynningu um heimilisofbeldi, að börn á heimili fái tafarlaust aðstoð barnaverndarstarfsmanns og að sérstaklega sé hugað að velferð barna á vettvangi og að auki bjóðist þeim sálfræðistuðningur í kjölfarið.

Árið 2016 var lögfest sérákvæði í almenn hegningarlög sem lýsir heimilisofbeldi refsivert með skýrum hætti. Nú er ekki lengur nokkrum vafa undirorpið að börn sem búa við heimilisofbeldi eru talin þolendur ofbeldisins og skulu njóta verndar samkvæmt ákvæðinu.

Við getum sannarlega verið sátt við þá vitundarvakningu sem átt hefur sér stað í samfélaginu í þessum málum. Við eigum Kvennaathvarfið sem er að gera vel við þá sem þangað leita, ekki síst börnin. Kvennaathvarfið stendur opið öllum þeim konum og börnum sem þurfa að flýja heimili sín vegna ofbeldis af hálfu maka eða annarra heimilismanna. Í vitundarvakningu þjóðarinnar felst m.a. að hlúa sérstaklega að börnum í viðkvæmri stöðu eins og þeirri sem hér hefur verið lýst. Að trúa þeim ávallt þegar þau segja frá ofbeldi og bregðast strax við með aðgerðum til að koma þeim til hjálpar. Ef fjölskyldumeðlimur bregst, þarf barnið að geta treyst á aðra fullorðna í lífi sínu til að fara með sig í öruggt skjól. Allir í nærumhverfi barnsins skipta máli við þessar aðstæður, ömmur, afar, frændur, frænkur, kennarar, þjálfarar sem og aðrir sem umgangast barnið í námi og leik. Þessir aðilar þurfa líka að standa vaktina og á þessari vakt má aldrei sofna.

Greinin var birt í Morgunblaðinu 10.12. 2018

.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband