Ísköld þögn meirihlutans við umræðunni um atvinnumál eldri borgara í Reykjavík

BARA ÞÖGN
Atvinnumál eldri borgara í Reykjavík var til umræðu í borgarstjórn í kvöld að beiðni fulltrúa Flokks fólksins. Ég er eiginlega í nettu sjokki, bara miður mín því enginn úr meirihlutanum sýndi þessu málefni áhuga. Enginn þeirra óskaði eftir að taka til máls og tjá sig. Mér finnst anda ansi köldu frá meirihlutanum í garð þessa aldurshóps.
Hér er bókun í málinu:
Fulltrúi Flokks fólksins er í áfalli yfir að enginn úr meirihlutanum sýndi umræðunni um sveigjanleg starfslok eldri borgara áhuga. Enginn þeirra setti sig á mælendaskrá. Hvernig á að skilja þetta? Borgin ætti að hætta að nota aldursviðmið og leyfa þeim sem það geta og vilja að halda áfram að sinna starfi sínu þótt sjötugsaldri sé náð. Borgin ætti líka að þrýsta á ríkið að draga úr skerðingum á lífeyri vegna atvinnutekna svo sem að frítekjumark vegna atvinnutekna yrði hækkað úr 100.000 kr. í 200.000 kr. eða afnumið alfarið.
Í kjarasamningi segir að yfirmanni sé heimilt að "endurráða mann/konu, sem náð hefur 70 ára aldri í annað eða sama starf á tímavinnukaupi, allt að hálfu starfi, án þess að það hafi áhrif á rétt hans til töku lífeyris." Einnig segir að ákvörðun um ráðninguna skal tekin af borgarstjóra að fenginni umsögn yfirmanns viðkomandi stofnunar.“ Þetta minnir á bænaskjal eins og Íslendingar sendu til einvaldskonungana í Kaupmannahöfn fyrr á öldum. Eftir að hafa farið á milli manna í embættiskerfinu lendir ákvörðum hjá borgarstjóra. Borgin hlýtur að geta gert betur en þetta í stað þess að stefna að því leynt og ljóst að losa sig við fólk úr störfum aðeins vegna þess að það hefur náð ákveðnum aldri. En orð eru til alls fyrst en í þetta sinn kom ekki eitt orð frá meirihlutanum, bara ísköld þögnin.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband