Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Afskráning lána til kaupa á hlutabréfum ósanngjarnt gagnvart almenningi


Enn hefur það ekki verið staðfest hversu margir starfsmanna bankanna, FL Group (Flugleiða), Exista, Sjóvá, TM og e.t.v. margra annarra fyrirtækja fengu milljóna/milljarða að láni til að kaupa hlutabréf samkvæmt kaupréttarsamningum.

Voru þessi lán þurrkuð út með einu pennastriki skömmu fyrir fall bankanna?
Ef svo er þá stríðir þessi gjörningur gegn öllu því sem teljast má sanngjarnt og eðlilegt.

Hvatinn af því að taka lán til hlutabréfakaupa samkvæmt kaupréttarsamningum er vonin um aðgræða. Græða milljónir á milljónir ofan hefur þá verið hugsun þeirra sem nýttu sér þetta.

Aðeins lykilaðilar bankanna hafa geta verið þeir sem ákváðu að þessi lán skyldu afskráð á þeirri stundu þegar ljóst var hvert stefndi.  Sjálfsagt hefur þeim verið það ljúft enda hafa þeir þá sjálfir verið hluti af þessum hópi. Þegar hrunið blasti við þá var lánið bara strokað út og viðkomandi skuldarar hreinsaðir af öllum kröfum eins og þeir hefðu aldrei tekið neitt lán.

Í hlutabréfakaupum fylgir eðli málsins samkvæmt áhætta. En ekki hjá þessum hlutabréfakaupendum. Þeir gátu ekki tapað, bara grætt.

Óréttlætið sem í þessu felst hefur að gera með ójafnræði.

Á meðan þessir aðilar ganga í burtu frá skuldbindingum sínum við lánastofnunina er öðrum sem tóku lán til að greiða niður húsin sín eða skuldir gert að standa við sínar út í ystu æsar.

Nú er verið að vinna að björgunaraðgerðum upp á líf og dauða. Á meðan er e.t.v. ekki svigrúm til að rannsaka og skoða öll vafamál sem litið hafa dagsins ljós síðustu vikur.

Ég vona samt að rannsókn afskráningu þessara lána sé ofarlega á forgangslistanum.


Karl Tómasson (VG) ræðir persónuleg mál í einlægu viðtali á ÍNN í kvöld kl. 9

Karl Tómasson VG og forseti bæjarstjórnar í viðtali á ÍNN í kvöld kl. 9.

Karl ræðir á mjög svo einlægan hátt um ýmis viðkvæm og persónuleg málefni.

Hann segir frá áfalli sem hann varð fyrir, baráttunni í kjölfarið og loks sigri.

Hann ræðir um sjálfan sig í tengslum við pólitíkina í Mosfellsbæ og lýsir því hvernig reynsla það var fyrir hann og fjölskyldu hans að vera þolendur bloggdólga.


Ég sé enga með kryppu.

Þetta eru orð barns sem skyldi ekkert í því að hann sá enga með kryppu, hafandi hlustað á allt það krepputal sem tröllríður öllu þessa dagana.

Ekki láta ykkur dreyma um að ung börn, flest hver, skilji brot af þeirri umræðu sem þau heyra nú í kringum sig hvort heldur á heimilinu eða í fjölmiðlum.

Ég vil ítreka við foreldra að gæta orða sinna þar sem litlu eyrun eru einhvers staðar í næsta nágrenni.

Æskilegt væri ef foreldrar og forráðamenn könnuðu nú hjá börnum sínum hvar þau eru stödd í allri þessari umræðu t.d. hvað þau hafa heyrt, hvort og hvað það er sem þau ekki skilja osfrv.

Fjölskyldan er best til þess fallin að fylgjast með hugrenningum barnanna enda þótt skólinn komi vissulega sterkt inn líka. Það er sennilegt að útskýra þurfi mörg hugtök sérstaklega fyrir ungum börnum og ítreka við þau að ekkert sé að óttast hvorki nú né í framtíðinni.


Hvað getur mildað hina sívaxandi reiði fólks?

Reiði og sá ógnarkraftur sem sú tilfinningin ber í sér er nú eins og snjóbolti á hraðri leið niður fjallshlíð. Óbeisluð, stjórnlaus reiði getur valdið miklum skaða. Sá sem er stjórnlaus af reiði, allt að því viti sínu fjær hefur tapað dómgreindinni og getur á ögurstundu verið vís til að gera hluti sem hann annars léti sér ekki detta í hug að gera. Sérlega hættulegar aðstæður eru þegar margir reiðir koma saman. Þá myndast múgæsing sem sagan sýnir að getur enda með skelfingu.

Reiði fólks er nú orðin slík að æ erfiðara er að segja því að stilla sig, sýna ábyrgð, halda andliti og fleira í þeim dúr. Mér er skít sama viðhorfið hefur tekið völdin.

Sú reiði sem hér um ræðir er mikið til vegna þess að fólkið er búið að tapa því sem það átti. Það er fé þeirra í bankanum, atvinnan og þar með launin og það versta er að æran hefur einnig beðið hnekki.  Annar flötur sem einnig liggur til grundvallar reiðinni er að framtíðarsýnin er biksvört. Talað er um 2-3 ár þar til hægt er að sjá fyrir sér að þjóðin rétti úr sér.  Eftir það eru álíka mörg ár ef ekki fleiri í að ná upp einhverjum dampi.

Fólk sem komið er vel yfir miðjan aldur sér fram á að restin af starfsævi þeirra einkennist af þessu dapra þjóðfélagsástandi. Samt eru það fæstir af þeim sem fylla hóp þeirra sem mæta á Arnarhól eða fyrir framan Alþingishúsið og kasta eggjum. Miðaldra hópurinn og eldri borgarar er reiði hópurinn sem situr heima og hugsar sitt.

Framhaldið
Reiði fólks fer vaxandi í sama mæli og atvinna minnkar. Fyrir suma eru þetta mikil viðbrigði frá því sem var þegar þeir höfðu örugga vinnu og jafnvel nóg milli handanna. Fyrir aðra sem hafa haft lítið milli handanna hefur einfaldlega vond staða versnað.

Hvernig er verið að reyna að milda reiði fólksins?
Ef draga á úr reiði fólksins þarf að framkvæma og framkvæmdin þarf að vera sýnileg og áþreifanleg sem allra fyrst. Fátt mun milda reiðina meira en að fólki sjái að persónulegur skaði þeirra verði lágmarkaður. Eitthvað róttækt þarf að gera varðandi atvinnuástandið sem er í uppsiglingu. Lán og greiðslubyrði koma næst  upp í hugann.  Framkvæmd þess að lengja í lánum, greiðslufrestir og annað þar að lútandi er í farvatninu en þyrfti e.t.v.  að vera áþreifanlegri  og sýnilegri. 

Það sem einnig er líklegt til að milda reiði fólks er ef t.d. hin nýju bankaráð myndu gefa út þá yfirlýsingu að spilling af öllu tagi heyri fortíðinni til, að ofurlaun verði ekki liðin, að enginn fari í það minnsta upp fyrir ráðherralaun. Annað sem til bóta væri er ef mjög fljótlega verði störf bankastjóra hinna nýju banka auglýst og í þau ráðnir fagaðilar, aðrir en þeir sem voru að velkjast um í því peningakerfi sem kollsteypti þjóðinni.


Stykkishólmur miðbær hlaut Skipulagsverðlunin 2008. Þrjár viðurkenningar voru einnig veittar.

Vinningshafar og hluti af dómnefndinni

Skipulagsverðlaun 2008 hlaut:

Stykkishólmur miðbær - deiliskipulag

Verðlaunin eru tileinkuð Stykkishólmsbæ fyrir stefnu og framfylgd á deiliskipulagi.

Í deiliskipulag miðbæjar Stykkishólms sem samþykkt var 31 október. 2003, er sett

fram sú megin stefna að styrkja gamla bæjarkjarnann, þétta byggðina, skilgreina

bæjarrými og með það að markmiði að bæta við það sem fyrir er fremur en að

gera gagngerar breytingar. Skipulagið er stefnulýsing bæjaryfirvalda um þann

menningararf sem fólgin er í gamla bæjarkjarnanum og yfirlýsing um að þau ætluðu

að standa vel að verki þegar að framkvæmdum kæmi.

 

Viðurkenningar hlutu:

Hjálmar Sveinsson, dagskrárgerðarmaður

Ríkisútvarpið hefur öðrum fjölmiðlum fremur haldið

uppi umfjöllun um skipulagsmál í seinni tíð. Má

þar einkum nefna þættina Spegilinn og Krossgötur.

 

Hjálmar Sveinsson tekur við verðlaunum sínum

Hjörleifur Stefánsson, arkitekt

Einn af þeim fræðimönnum sem unnið hafa hvað mest

starf að greiningu og mótun gamallar byggðar í seinni tíð

er Hjörleifur Stefánsson arkitekt. Um þetta hefur hann

skrifað og ritstýrt nokkrum bókum um þau efni.

 

Myndlistaskólinn í Reykjavík

Í skólastarfi landsins hefur manngerðu umhverfi og mótun þess verið of lítið sinnt. Þó

hafa einstakir skólar og kennarar tekið slík verkefni fyrir og þá ekki síst sem hluta af

myndlistarkennslu. Myndlistaskólinn í Reykjavík hefur um langt árabil boðið upp á

listasmiðjur eða listbúðir fyrir börn og unglinga þar sem nemendurnir fræðast um hús

og borgir og móta síðan hugmyndir sínar í hinn fjölbreyttasta efnivið.

Dómnefnd skipuðu eftirtaldir:

Tilnefndir af SFFÍ

Birgir Hlynur Sigurðsson, skipulagsfræðingur SFFÍ, formaður

dómnefndar.

Trausti Valsson, skipulagsfræðingur SFFÍ.

Tilnefnd af AÍ:

Málfríður K. Kristiansen, arkitekt FAÍ.

Tilnefndur af FÍLA:

Björn Axelsson, landslagsarkitekt FÍLA.

Tilnefndur af VFÍ:

Þórarinn Hjaltason, verkfræðingur VFÍ.

Tilnefndur af Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga:

Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður Skipulagsráðs Reykjavíkur.

Tilnefnd af Fulltrúaráði íbúasamtaka:

Kolbrún Baldursdóttir.

.

 


Skipulagsverðlaunin 2008 veitt í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag kl. 15.00

Skipulagsverðlaunin 2008 verða veitt í dag á Alþjóðlega skipulagsdeginum 8. nóvember í Ráðhúsi Reykjavíkur kl. 3

Það er Skipulagsfræðingafélag Íslands sem veitir verðlaunin annað hvert ár, að þessu sinni í samvinnu við Skipulagsstofnun.

Markmið verðlaunanna er að hvetja til umræðu um skipulagsmál og vekja athygli á því besta sem er að gerast á sviði skipulags á hverjum tíma.


Skipulagsverðlaunin eru veitt fyrir framlag til skipulagsmála sem tilnefnt hefur verið af sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum eða einstaklingum, og á einhvern hátt hefur aukið umræðu og skilning á skipulagsmálum. Má þar nefna fyrirlestraraðir, íbúaþing, umfjöllun í fjölmiðlum, starfsemi íbúasamtaka, rannsóknir o.s.frv. sem eru tákn fyrir nýja hugsun,  þróa áfram íslenska skipulagshefð og er íbúunum og samfélagi þeirra til hagsbóta.

Ítarlegri upplýsingar um Skipulagsverðlaunin 2008 er að finna á vef Skipulagsfræðingafélags Íslands, www.skipulagsfraedi.is.

Saga Alþjóðlega Skipulagsdagsins

Fyrst var efnt til alþjóðlega skipulagsdagsins árið 1949 að frumkvæði Carlos Maria della Paolera, prófessors við Háskólann í Buenos Aires.  Dagurinn er nú haldinn hátíðlegur í u.þ.b. 30 löndum víðsvegar um heim þar sem fagfélög og áhugamenn beina athyglinni að hlutverki skipulags í viðleitninni til að bæta umhverfi okkar og samfélag.



Eru þetta ekki hæpnar bankastjóraráðningar, tvöföld ráðherralaun og bílastyrkir?

Því hefur verið lýst yfir að um sé að ræða skammtímaráðningar þessara nýju bankastjóra sem allir eiga rætur að rekja í það fjármálaumhverfi sem við erum að yfirgefa enda búið að kollsteypa þjóðfélaginu.

Hverjir eru þessir nýju bankastjórar?
Glitnisbankastjórinn hefur nýlega prýtt forsíður blaðanna vegna meintra hlutabréfakaupa í gamla Glitni sem láðist að afskrifa í Kauphöllinni. Hvort hin meintu kaup haldi er ekki vitað eða í það minnsta hefur það ekki verið upplýst hvernig málinu lyktaði. Áður en hrunið skall á var bankastjórinn, um tíma, yfirmaður Markaðssviðs Glitnis. 

Bankastjóri Kaupþings var formaður svokallaðrar Skilanefndar en var áður hjá Icebank.
Margir hafa lýst furðu sinni á því að hann skyldi fara frá því að vera formaður Skilanefndar yfir í að verða bankastjóri Kaupþings.

Bankastjóri Landsbankans var fyrir hrunið framkvæmdarstjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans og bar þar með ábyrgð á öllum lánum til  fyrirtækja.

Á það skal lögð áhersla hér að allt er þetta prýðisfólk, vel menntað og eldklárt á sínu sviði.

Leynd launa loks aflétt.
Loksins í dag var upplýst á hvaða launum Elín Sigfúsdóttir er á.  Áður var vitað hvaða laun hinir tveir bankastjórarnir þiggja.  Þessar tölur voru þó ekki opinberaðar fyrr en ítrekað var búið var  að kalla eftir þeim.

Pirringur.
Vegna þess að svo gríðarlega margir eiga nú um sárt að binda, sker í hjartað að lesa að a.m.k. tveir af þessum aðilum aka um á bifreiðum sem skráðar eru á bankann.

Fjöldi manna er að taka á sig launaskerðingar, lægra hlutfall vinnu svo ekki sé minnst á þá sem eru atvinnulausir.  Þess vegna er ekki erfitt að skilja að það fer illa í fjölmarga þegar bankastjórar nýju bankanna neituðu í fyrstu að upplýsa um laun sín, eru á tvöföldum launum ráðherra og þiggja síðan hlunnindi eins og bílastyrki og jafnvel eitthvað fleira.

Við viljum komast út úr þessu rugli sem ríkt hefur í bankageiranum undanfarin ár.
Þessi atriði sem hér hafa nefnd styðja ekki þá trú og vissu að það sé að gerast.

Við lifum í þeirri von að hægt sé að byrja upp á nýtt. Ef vel á að takast til þarf að vanda val sérhvers manns í þessar mikilvægu stöður. Vissulega er þetta hæft fólk margt hvert en það er að koma úr stórkostlega menguðu umhverfi.



IMF lánið lífsspursmál, erfitt að rökræða við bjargvætti sína á ögurstundu

Lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er grunnur þess að íslendingar eigi sér viðreisnar von.

Um þetta eru flestir af færustu hagfræðingum bæði hér á landi  og erlendis sammála um.

Þegar þjóð er komin í þá aðstöðu að vera rúin öllu trausti á heimsvísu eins og íslenska þjóðin er núna er samningsréttur hennar lítill sem enginn.

Ráðamönnum þjóðar sem svona er komið fyrir stendur því hvorki til boða að setja mörg skilyrði eða gera kröfur ef því er að skipta.

Það er erfitt ef ekki vonlaust að ætla að rökræða við bjargvætti sína á ögurstundu.

Það er vissulega sárt fyrir sjálfsvirðingu stoltrar þjóðar að þurfa að bíta í það súra epli að einhver utanaðkomandi verði að koma henni til hjálpar með þessum hætti sem nú blasir við.

En flestir vilja fá áframhaldandi tækifæri til að lifa lífinu og það með eins sómasamlegum hætti og hugsast getur miðað við þessar erfiðu aðstæður.

Síðar kemur vonandi betri tíð og þá er hægt að byggja upp sjálfsvirðinguna á ný og öðlast fyrri reisn.


Þeldökkur maður, en fyrst og fremst góður og hæfileikaríkur maður, næsti forseti Bandaríkjanna.

Þau fimm ár sem ég bjó í Bandaríkjunum hefði ég seint trúað því að sá dagur kæmi á meðan ég væri enn ofanjarðar að þeldökkur maður yrði forseti Bandaríkjanna.

Vissulega eru það tímamót að þeldökkur einstaklingur hefur náð kjöri til að gegna æðsta embætti þess lands. En það er ekki vegna litarháttarins sem Obama hefur náð þessum tímamótasigri heldur vegna þess að hér er á ferðinni góður og hæfileikaríkur maður.

Obama hefur sýnt að hann er heilsteypt persóna sem hefur kjark og þor til að standa og falla með eigin sannfæringu og trú.  Þegar hann kemur fram, hvort heldur hann situr fyrir svörum eða heldur ræður, myndar hann tengsl við áheyrendur sínar.

Það er þessi manneskjulegi þáttur í honum sem heillað hefur fjöldann. Sé hann spurður spurninga sér maður að hann hlustar og gerir sér síðan far um að svara skilmerkilega og umfram allt málefnalega. Obama hefur gefið af sér mynd mannelskandi manns sem hefur ríka réttlætiskennd og gnótt af hinu svo kallaða common sense.

Þess vegna vann hann þessar kosningar í dag.

Sigur hans er eiginlega of góður til að vera sannur. Allt sem er of gott til að vera satt óttast maður að hverfi. 

Og þá kemur þessi spurning: Mun Bandaríska þjóðin og allir hinir fá að njóta góðs af hæfileikum Obama um ókomin ár í embætti forseta USA.

Í Bandaríkjunum,  þessu mannmarga landi býr suðupottur af fólki af ólíkum uppruna, hópar sem eiga jafnvel fátt sameiginlegt annað en að vera íbúar þessarar heimsálfu.

Meðal fólksins eru öfgahópar, hópar sem eru ekki sáttir við úrslit kosninganna og vilja brugga honum banaráð.

Ég vona að Obama fari aldrei neitt opinberlega án þess að vera t.d. í skotheldu vesti. Lífverðir hans gera eflaust allt sem í mannlegu valdi er mögulegt til að gæta hans. Það dugar bara ekki alltaf til.

Oft áður höfum við hins vegar orðið áþreifanlega vör við að sagan hefur tilhneigingu til að endurtaka sig sbr. það sem hefur nú ný gerst, þ.e.  að enn á ný er skollin á fjármálakreppa. 

Til að forðast að fremsta megni að sá þáttur sögunnar sem fjallar um morð á leiðtoga endurtaki sig þarf hinn nýkjörni Obama og þeir sem hans gæta að vera vel á varðbergi og nýta til þess allan tiltækan búnað til af verja líf og limi hins verðandi forseta. 


Ragnheiður Ríkharðsdóttir fékk bágt fyrir...

... hjá sumum, aðrir hrósuðu henni og enn stærri hópur sagði ekki neitt.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir ritaði grein í Morgunblaðið í dag sem bar yfirskriftina
Hingað og ekki lengra.

Í henni fjallar hún um efnahagsvandann og ýmislegt honum tengdum þar á meðal mikilvægi þess að seðlabankastjóri og seðlabankaráð víki enda ríki hvorki traust né trúnaður gagnvart þessum aðilum lengur. Í kjölfarið segir hún að hægt verði að byggja upp traust og trúnað á ný, samhliða því að breyta lögum um Seðlabanka Íslands, stjórnskipulag bankans, stöðu og markmið.

Það hlýtur ávalt að vera hróssins vert að stíga fram og segja einlæga skoðun sína á öllum málum. Sá sem finnur þörf á að tjá sannfæringu sína um viðkvæm málefni og veit að það muni falla misvel í kramið hjá vinum og félögum, stendur frammi fyrir því að ákveða:

-hvort  hann eða hún skuli bara þegja og halda skoðunum sínum útaf fyrir sig eða
-hvort þessar skoðanir skuli opinberaðar með þeim afleiðingum sem því kann að fylgja.

Stundum kemur einfaldlega að þeim tímapunkti að viðkomandi getur ekki haldið lengur aftur að sér og finnst hann verða að tala hreint út. Þegar svo er komið er ekki lengur spurning um einhverja rétta tímasetningu heldur upplifir manneskjan að hún sé hreinlega tilbúin að standa og falla með skoðun sinni.

Fyrir þá sem vinna í hópum eða flokkum þar sem lögð er áhersla á hópkennd og að standa saman út á við, getur þetta verið erfitt.  Þarna togast á tveir andstæðir pólar, annars vegar þessi knýjandi þörf að tala hreint út og hins vegar að finnast maður verða að þegja vitandi það að skoðun manns muni valda einhverjum usla verði hún tjáð.

Fólk sem lætur slag standa og tjáir sig með rökum um viðkvæm málefni, hvaða svo sem málefni það er,  er hugað og gegnheilt fólk.

Þetta eru þeir einstaklingar sem eru ekki tilbúnir þegja þunnu hljóði þegar þeim finnst mikið liggja við.  Þegar þeir, undir slíkum kringumstæðum, finna þessa knýjandi þörf, þá taka þeir einmitt afstöðu, taka af skarið og axla síðan á orðum sínum ábyrgð.

Auðvitað er þetta alltaf spurning um hvernig hlutirnir eru sagðir.
Taktík og tímasetning skiptir oft miklu ef ekki öllu máli.

Þó skal haft i huga að mjög margt ef ekki flest, hversu óþægilegt sem það kanna að vera, er hægt að segja með þeim hætti að það skapi litla ólgu eða virki á nokkurn hátt ógnandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband