Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

It is not over until it´s over

Það er ekki gott að segja hvernig málum lyktar vestan hafs nú þegar kl. er 19.00 á íslenskum tíma.
Allt bendir til þess að Barack Obama verði næsti forseti Bandaríkjanna.

Þvílík tímamót nái Obama kjöri!!!

Ekkert er þó fast í hendi fyrr en lokaniðurstöður liggja fyrir eða allt að því. 

Spennandi nótt framundan, sumir ætla að vaka, aðrir fara bara að sofa og fá fréttirnar í bítið.


Stytta þarf binditíma verðtryggðra reikninga

Þeir sem eiga einhverjar krónur aukalega spyrja sig nú hvar best sé að geyma þær. 

Möguleikarnir eru verðtryggðir reikningar, með 4-5% vöxtum og óverðtryggðir innlánsreikningar svo sem vaxtaþrepareikningar með 14- 15% vöxtum.

Fjármálaráðgjafar reyna að ráðleggja fólki heilt enda þótt þeir vilji stíga varlega til jarðar eins og gefur að skilja eftir það sem á undan er gengið. 

Flestir ráðleggja fólki, nú sem oft áður, að setja ekki öll egg í eina körfu.

Margir vilja meina að skynsamlegast í stöðunni sé að setja peningana sína inn á verðtryggða reikninga þar sem verðbólgan er mikil og gæti átt eftir að aukast.

Verðtryggðir reikningar eru bundnir samkvæmt lögum í 36 mánuði sem er of langur tími ef tekið er mið af því að efnahagsumhverfi þjóðarinnar er vísast til að taka breytingum næstu misseri. Sem dæmi, taki verðbólgan að lækka verulega eru aðrir ávöxtunarmöguleikar vænlegri en verðtryggðir reikningar.

Þess vegna hugsar fólk sig tvisvar um áður en það setur megnið að sparnaði sínum inn á verðtryggðan reikning þar sem ekki er hægt að hreyfa við innistæðunni næstu þrjú árin.

Það yrði því til bóta ef ríkisvaldið myndi endurskoða þessi lög með það í huga að lækka binditíma verðtryggðra reikninga. 


ADHD á ÍNN í kvöld

Athyglisbrestur og ofvirkni er umræðuefni
Í nærveru sálar í kvöld.

Rætt er við Ingibjörgu Karlsdóttur, félagsráðgjafa og formann ADHD samtakanna.

Þetta er upplýsandi þáttur um þessa taugaþroskaröskun sem einkennir að því er talið 7.5% barna og 4.4% fullorðna. Meðal þess sem rætt er um í þessu sambandi er:

Orsakir og aukningu
Einkennin og áhrif á félagslegt umhverfi
Athyglisbrestur án ofvirkni
Áhrif á fjölskylduna
Greining og meðferð fyrir börn og fullorðna
Hvað getur skólinn gert?
Neikvæðar afleiðingar ef ekki meðhöndlað rétt
ADHD hjá fullorðnum - fylgiraskanir
Nýjustu rannsóknir


Staksteinar sækja á

Síðustu misseri hafa Staksteinar oft verið hreinlega slakir. Ekki er betur séð en að það kveði við nýjan tón þar nú.  Það gætir meira raunsæis en oft áður í þessum skrifum og minna er um að verið sé að reyna að fegra oft annars miður fallegar myndir hvort heldur af mönnum eða málefnum.

Í gær var gaman að lesa Staksteina þar sem höfundur þeirra minnir Sjálfstæðismenn á kjörorðið stétt með stétt. Segir þar:

Þeir þurfa til dæmis að rifja kjörorðið upp, í stað þess að láta kenna sér um að hér hafi vaxið upp firrt yfirstétt, sem steypti landinu í glötun.

Hefur hugmyndin um stétt með stétt þá hreinlega bara þynnst út í gegnum árin?
 

Áhættufjárfestinga - klúður bankastjóra Nýja Glitnis.

Með allri virðingu fyrir þeirri konu sem nú vermir bankastjórastól Nýja Glitnis er spurt hvort hún sé ekki vanhæf til að gegna þessu embætti nú þegar á sama tíma er verið að rannsaka meint kaup hennar á hlutabréfum fyrir 184 milljónir?

Hlutirnir voru keyptir á sérkjörum 29. mars 2007 þegar Birna var framkvæmdarstjóri viðskiptabankasviðs Glitnis.

Þessi kaup segir Birna að hafi aldrei átt sér stað, aldrei gengið í gegn vegna formgalla í samningum.

Bréfin standa nú í núlli.

Bréfin eru hins vegar enn skráð í Kauphöllina og segja sérfræðingar þar og víðar að þar með sé gengið út frá því að viðskiptin hafi átt sér stað enda voru bréfin aldrei afskráð. 

Þetta er eitt enn dæmið um þetta gamla rugl sem tíðkast hefur hér undanfarin ár, kaupréttarsamningar, áhættufjárfestingar manna og kvenna í toppstöðum.

Það sem manni finnst að skipti máli nú eftir allt sem á undan er gengið er að valdir séu nýir og ferskir einstaklingar í stjórnunarstöður en ekki einhverjir sem hafa velkst um í undangengnu kaosi.

Þjóðin er að byrja upp á nýtt og ef vel á að takast til þarf að vanda val sérhvers manns í þessar mikilvægu stöður. Vissulega er þetta hæft fólk margt hvert en það er að koma úr stórkostlega menguðu umhverfi.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband