Bloggfærslur mánaðarins, október 2009
Minn líkami, mín sál. Kennum börnum að varast og verjast þeim sem vilja vinna þeim mein.
25.10.2009 | 17:05
Hvernig geta foreldrar og skóli sameinast um að fræða börnin um með hvaða hætti þau geta greint vafasamar kringumstæður og varist áreiti einstaklinga sem hafa það að ásetningi að vinna þeim mein?
Þau börn sem eru í hvað mestri áhættu eru fyrst og fremst þau sem ekki hafa fengið næga og viðeigandi fræðslu um hvað það er í þessu sambandi sem þau þurfa að vera sérstaklega á varðbergi gagnvart. Til þess að geta varast hættur þurfa börn, eins og aðrir, að hafa einhverja hugmynd um hvernig hætta kann að birtast þeim og hvaða atferli og hegðun einstaklinga kunni að reynast þeim skaðleg.
Í Í nærveru sálar á ÍNN þann 26. október verður farið í stórum dráttum yfir hvernig foreldrar og skóli geta sameinast um að fræða börnin um þessi mál. Farið verður yfir hvaða aðrir hópar barna eru í áhættu, hver helstu grunnhugtök fræðslunnar eru og hvaða lesefni er fáanlegt. Áhersla er lögð á að skólinn og foreldrar vinni saman að þessu verkefni.
Hafi skólinn það á stefnuskrá sinni að bjóða upp á fræðslu um þessi mál, er mikilvægt að foreldrar séu upplýstir um það, að þeim séu kynnt helstu áhersluatriði, hugtök fræðslunnar og hvenær hún á að fara fram. Með þeim hætti geta foreldrar fylgt umræðunni eftir á heimilunum og svarað spurningum sem upp kunna að koma í kjölfarið. Þessi umræða er vandmeðfarin vegna þess að, sé hún ekki nógu vel undirbúin eða illa matreidd, er hætta á að hún valdi börnunum kvíða og ótta.
Forvarnir í formi fræðslu sem byrja snemma gera börnin hæfari í að lesa umhverfið, meta aðstæður og greina muninn á atferli sem annars vegar telst rétt og eðlilegt og hins vegar ósiðlegt og ólöglegt. Sterkt innra varnarkerfi er ein besta vörnin sem börnin hafa völ á til að sporna gegn ytri vá sem þessari.
Meira um þessi mál í Í nærveru sálar á ÍNN, mánudaginn 26. október kl. 21.30
Fjölmiðlar | Slóð | Facebook
Opin á morgun milli 13:00 og 17:00. Sýning á trélist. Hráefni: heimaræktaður viður.
20.10.2009 | 15:31
Í Árskógum 4, gegnt Mjóddinni, hægra megin við Breiðholtsbrautina.
Jón Guðmundsson er plöntulífeðlisfræðingur og trérennismiður og vinnur eingöngu úr innlendum viði auk rekaviðar. Hann hefur verið í stjórn Félags trérennismiða á Íslandi frá árinu 2000 og verið með á samsýningum félagsins frá árinu 1998.
Heimaræktaður viður getur verið mikilvægt hráefni í listsköpun svo og framleiðslu nytjahluta. Nýting þessa hráefnis er sjálfstætt markmið. Í lauftrjám má finna margs konar áferð, liti og mynstur.
Við vinnslu viðarins er ávallt reynt að ná fram sérstöðu hvers viðarbútar, svo sem einstakt viðarmynstur. Suma viðarbúta er hægt að renna svo þunnt að hægt er að nota þá í lampaskermi, en nærri allir henta í skálar og krúsir. Einkenni rekaviðarins er að þar má finna maðksmogna búta sem kemur skemmtilega út í trélist.
Sýningin er opin virka daga frá kl. 09:00 til 17:00 og um helgina 24. -25. október frá kl. 13:00 til 17:00. Heitt kaffi á könnunni um helgina. Til sýnis eru 22 hlutir.
Menning og listir | Breytt 24.10.2009 kl. 20:47 | Slóð | Facebook
Mönnum sem beita maka sína ofbeldi stendur til boða meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar
18.10.2009 | 13:29
Heimilisofbeldi er eitt af þeim vandamálum sem er hvað mest falið. Þess vegna er erfitt að gera sér grein fyrir algengi þess.
Sá sem fyrir því verður upplifir oft mikla skömm og finnst jafnvel sem sökin sé af einhverjum ástæðum sín. Gerendum finnst erfitt að taka ábyrgð á ofbeldinu og telja oft að sökin sé raunverulega þolandans fremur en þeirra sjálfra. Þeir upplifa líka skömm og finnst mörgum því erfitt að koma fram í dagsljósið að sjálfdáðum og leita sér hjálpar.
Í þættinum Í nærveru sálar á ÍNN hefur áður verið rætt um heimilisofbeldi en á síðasta ári kom í viðtal í þáttinn framkvæmdarstýra Kvennaathvarfsins.
Gestir þáttarins 19. október eru sálfræðingarnir Andrés Ragnarsson og Einar Gylfi Jónsson en þeir annast meðferðarprógramm fyrir karla sem beita maka sína ofbeldi. Um er að ræða sérúrræði fyrir karla en þeir eru í meirihluta þeirra sem beita maka sína ofbeldi og þá sérstaklega sé um að ræða líkamlegt ofbeldi. Konur hafa einnig verið uppvísar að því að beita maka sína ofbeldi en hvað algengi varðar er að sama skapi erfitt að segja til um. Gera má því skóna að sé konan gerandi sé oftast um að ræða andlegt ofbeldi.
Eitt og annað þessu tengt verður krufið s.s. mögulegar orsakir fyrir því að einstaklingur beitir ástvin sinn ofbeldi, áhrifin á fjölskylduna og afleiðingar til skemmri og lengri tíma fyrir meðlimi fjölskyldunnar og fjölskylduna í heild.
Verkefnið Karlar til ábyrgðar www.karlartilabyrgdar.is var sett á laggirnar fyrir tíu árum. Sýnt hefur verið fram á að það hafi skilað árangri fyrir marga sem lokið hafa meðferðinni takist þeim á annað borð að horfast í augu við vandamálið og taka ábyrgð á ákvarðatöku sinni og hegðun.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook
Gullregn og Gráelri á markaðinum í Mjódd, laugardaginn 17. október.
16.10.2009 | 20:58
Íbúasamtökin Betra Breiðholt standa fyrir markaði í göngugötunni í Mjódd laugardaginn 17. október og hefst hann kl. 11:00 og stendur til að minnsta kosti 14:00.
Ýmislegt verður til sölu, fatnaður: barna- og fullorðins, ýmsir hlutir og einnig tré s.s Gullregn og Gráelri sem hægt er að setja niður hvenær sem er. Gjafverð að sjálfsögðu.
Markaðurinn er hugsaður til að skapa vettvang fyrir íbúana til að hittast og eiga saman góða stund.
Réði Bakkus ríkjum á þínu bernskuheimili?
11.10.2009 | 10:49
Ekkert barn er eins og þess vegna er upplifun þeirra á félagslegu umhverfi sínu einnig mismunandi. Sum börn alkóhólista eru svo heppin að eiga aðra fjölskyldumeðlimi að sem láta sér hag þeirra varða t.d. afa og ömmu, frænda eða frænku. Önnur eru ekki eins heppin.
Barn sem elst upp við alkóhólisma á heimili fer oftar en ekki á mis við stuðning, hvatningu og er jafnvel ekki að fá þá umönnun sem börnum er nauðsynlegt til að þau þrífist og þroskist.
Glími þetta sama barn einnig við vandamál eins og ofvirkni, athyglisbrest eða eru að takast á við einhver afbrigði námserfiðleika sem þarfnast sérstakrar aðhlynningar getur staða þess verið sérlega bágborin og það átt erfitt uppdráttar í lífinu. Veganesti þessara barna er rýrt og oft fátt annað en brotin sjálfsmynd og félagslegt óöryggi.
Þrátt fyrir erfiða bernsku koma margir ótrúlega sterkir út í lífið, með gott innsæi og heilbrigða sýn á lífið og tilveruna. Það eru ótal margar breytur sem þarna hafa áhrif. Persónuleikaeinkenni og persónulegir styrkleikar eins og félagsfærni, léttleiki og góð nærveru eru t.d. þættir sem auðvelda einstaklingnum að takast á við erfiðar aðstæður og mynda tengsl til framtíðar.
Algengustu einkenni margra fullorðinna barna alkóhólista sem líkleg eru til að lita líf þeirra alla vega á fyrri hluta fullorðinsáranna eru t.d. sjálfsgagnrýni, vanmáttartilfinning og ótti við höfnun. Margir hafa tilhneigingu til að misskilja og mistúlka orð og aðstæður. Einnig ber oft á erfiðleikum með að tjá tilfinningar. Öfgafull samskipti og atferli eru ekki óalgeng hjá þessum hópi. Fullkomnunarárátta, tiltektarþörf eða að skapa óreiðu í nærumhverfi og jafnvel í samskiptum þekkja jafnframt margir sem hafa þessa reynslu.
Hafa skal í huga að mörg fullorðin börn alkóhólista þekkja ekki annað en óskipulag og óreiðu. Ákveðinn hópur fullorðinna barna alkóhólista glímir einnig við fíkn af einhverju tagi og ef marka má rannsóknir þá er ekki óalgengt að þessir einstaklingar hvort sem þeir eru sjálfir fíknir eða ekki, velji sér maka sem á við fíknivanda að stríða.
Í nærveru sálar mánudaginn 12. október kl. 21.30 verða þessi mál rædd.
Við höfum valkosti. Engin er, frekar en hann vill, tilneyddur til að vera fangi fortíðardrauga. Það eru til úrræði: fólk, stofnanir og samtök sem hafa það meginhlutverk og markmið að hjálpa og styðja fullorðin börn alkóhólista til að hrista upp í gömlum þreyttum hlutverkum sem mótuðust í kringum alkóhólistann á bernskuheimilinu. Lærum að njóta lífsins til að geta lifað því lifandi meðan það varir.
Gestur þáttarins er Hörður Oddfríðarson, ráðgjafi hjá SÁÁ. Hann mun jafnframt upplýsa um úrræði fyrir fullorðin börn alkóhólista á vegum Samtakanna.
Á geðveikum geðgóðum nótum
4.10.2009 | 11:12
Við ræðum í þættinum um geðraskanir en fyrst og síðast bataleiðir og í því sambandi, mikilvægi þess að hafa val milli úrræða. Það sem hentar einum hentar ekki endilega öðrum. Allir geta þó teygt sig eftir úrræði sem hverjum og einum hentar og þannig hafið bataferil sinn. Batinn kemur hins vegar sjaldnat á silfurfati. Til að ná viðunandi bata og viðhalda honum krefst oftast mikillar vinnu þar sem viðkomandi verður að setja sig í forgang og hlúa öllum stundum að sál og líkama. Fjölmargir hafa náð undraverðum bata en hafa skal í huga að sjúkdómurinn kann að vera enn til staðar enda þótt náðst hafi að beisla einkenni hans. Þess vegna er svo mikilvægt að vera vel vakandi yfir einkennunum og því betur sem viðkomandi er farinn að þekkja sjálfan sig og eðli sjúkdóms síns því færari verður hann í að átta sig á og greina ef merki eru um að bakslag sé í nánd. Þá er tímabært að huga að og grípa til fyrirbyggjandi aðgerða.
Þeir sem hafa sagt batasögur sínar vilja með frásögninni leggja sitt af mörkum til að draga úr fordómum sem enn virðast ríkjandi í garð fólks með geðröskun. Í bókinni Geðveikum batasögum segja 13 aðilar frá oft afar tyrfnum vegi í átt til bata, hvenær vendipunktur varð á veikindaferlinu og hvað það var sem kom þeim mest til hjálpar við að koma undir sig fótunum á ný. Þó er mjög mikilvægt að gera sér einnig grein fyrir að það er ekki alltaf einhver einn ákveðinn vendipunktur í ferli sem þessu heldur geta þeir verið margir.
Hvort sem um er að ræða geðraskanir, aðra sjúkdóma eða einfaldlega eitthvað annað í lífinu þá er sjaldnast til einhver ein uppskrift sem hentar öllum. Það er heldur ekki endilega einhver einn rauður þráður sem einkennir sjúkdóminn eða leiðir til bata. Sjúkdómar eru sjúkdómar einstaklinga. Einkennin birtast með misjöfnu hætti og kalla fram ólíkar upplifanir allt eftir því hver á í hlut og hvernig aðstæðum hvers og eins er háttað. Þó er það eitt sem öllum gefst kostur á og það er þiggja aðstoð frá þeim fjölmörgum félögum og stofnunum sem bjóða fram björg.
Á ÍNN 5. október kl. 21.30.
Eftirtaldir aðilar munu kynna starfsemi sína í Mjóddinni 10. Október á Alþjóða geðheilbrigðisdeginum.
- Björgin www.bjorgin.is
- Fjölsmiðjan www.fjolsmidjan.is
- Fjölskyldumiðstöðin Háaleitisbraut 13
- Geðsvið LSH Bergþór fulltrúi notenda, Páll Matt framkvæmdarstjóri geðsviðs, Fjölskyldubrúin og Sálfræðiþjónusta geðsviðs. www.lsh.is
- Helga Pálsdóttir (Sölubás)
- Hjálparsími Rauða krossins 1717 og Rauða kross húsið www.redcross.is
- Hlutverkasetur www.hlutverkasetur.is
- Hringsjá, (nemar og fl.) www.hringsja.is
- Hugarafl www.hugarafl.is
- Iðjuþjálfun Hringbraut + Iðjuþj./vinnusalur á Kleppi
- KlúbburinnGeysir www.kgeysir.is
- Landlæknisembættið www.landlaeknir.is
- Lausnin og 12 spora samtök saman á borði www.lausnin.is
- Liðsmenn Jerico www.jerico.is
- Lýðheilsustöð www.lydheilsustod.is
- Manía, geðverndarfélag HÍ www.mania.is
- Rauða kross athvörfin (Dvöl, Lækur, Vin) www.redcross.is
- Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Búsetukjarnar viðsvegar úr bænum www.rvk.is
- Þjónustumiðstöð Vesturbæjar www.rvk.is
Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook