Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Barn á rétt á að líða vel í skólanum sínum. Sérsveitarhugmyndin kynnt.

eineltimbl0068488.jpgBarn á rétt á að líða vel í skólanum sínum.  Hér er sett fram hugmynd um hvernig hægt er að virkja utanaðkomandi fagteymi til að leysa mál sem skóli ræður ekki við að leysa.

Alveg eins og foreldrum ber að tryggja öryggi barna sinna á heimili ber skólum að tryggja öryggi þeirra á skólatíma.

Fleiri skólar en færri, trúi ég, að sinni þessari skyldu sinni með sóma. Með reglulegu millibili berast þó tíðindi af því að barn hafi orðið fyrir ítrekuðu ofbeldi, andlegu og eða líkamlegu af hálfu skólafélaga sinna. Afleiðingar eineltis eru alvarlegar og í sumum tilvikum svo alvarlegar að sá sem fyrir því hefur orðið bíður þess aldrei bætur. 

Það er tímabært að horfa af fullri alvöru á þá staðreynd að enda þótt all-flestir skólar fylgi eineltisáætlun, sumar hverjar þaulrannsakaðar og vel útfærðar, þá ráða ekki allir skólar við að leysa úr þyngstu eineltismálunum sem upp koma.  Einnig er tímabært að horfast í augu við þá staðreynd að enn eru til skólar sem hafa enga slíka áætlun. Af hverju skólar eru svo misútbúnir eða mishæfir til að takast á við þennan vágest má eflaust rekja til ýmissa þátta í innviðum þeirra s.s. stjórnunarhátta, stefnu eða stefnuleysi og eða þeirri menningu sem sérhver skóli býr yfir. 

Mikið hefur verið rætt um þessi mál undanfarin misseri og ár. Þegar upp koma svæsin tilvik hefst umræða um að við þetta sé ekki hægt að búa lengur og að nú þurfi eitthvað að fara að gerast í þessum málum. Fagfólk, foreldrar þolenda og fullorðnir þolendur eineltis rísa upp og láta í sér heyra. Haldin eru þing, farið er á fundi stjórnvalda: sviðsstjóra, deildarstjóra og annarra stjóra sem eru yfir þessum málaflokki í sveitarfélagi og í ráðuneytum. Greinar eru skrifaðar, blogg og viðtöl tekin bæði við þolendur, foreldra, aðstandendur og stjórnvöld.

Vissulega hefur heilmikið þokast áfram í þessum málum og æ fleiri skólar hafa aukið áherslur sínar á forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir. Rætt er við börnin um samskipti og að þeim beri að koma vel fram hvert við annað. Það bætast æ fleiri skólar í hóp þeirra skóla sem hafa eineltisáætlanir. Margir skóla endurskoða sínar áætlanir reglulega og endurbæta það ferli sem eineltismál fara í, komi þau upp, og ítrekað er brýnt fyrir starfsfólki skóla að halda vöku sinni og láta vita um leið og tilefni eru til afskipta.

En betur má ef duga skal því enn er að fréttast af málum sem komið hafa upp og hafa fengið að grassera með skelfilegum afleiðingum. Dæmi eru um að sagt sé frá því að skóli hafi  jafnvel hunsað að horfast í augu við svæsið eineltismál eða telji sig hafa unnið í því að bestu getu jafnvel þótt aðstandendur þolanda fullyrði að málið sé enn með öllu óleyst. Það er í svona tilvikum sem fólk fyllist vanmætti og spurt er hvort ekki sé neitt við ráðið?

Hugmynd til lausnar.
Það er með einföldum hætti hægt að búa til kerfi sem færi í gang ef skólinn hefur ekki geta leitt einstakt eineltismál til lykta. Hér er mikilvægt að taka fram að með þessari hugmynd er ekki verið að taka ábyrgðina af skólastjórnendum heldur er hér átt við að teymið komi einungis til hafi ekki tekist að mati þolanda og foreldra hans eða skóla að leysa málið innan skólans.

Til að þessi hugmynd geti orðið að veruleika þurfa stjórnvöld að leggja henni lið.

Hugmyndin er þess: Ráðuneyti og/eða sveitarfélag standi að myndun fagteymis sem samanstendur t.d. af sálfræðingi, lögfræðingi, kennara og námsráðgjafa (3-5).

Þeir sem geta virkjað teymið.

1. Foreldrar/forráðamenn þolanda

2. Skólastjórnendur geta líka óskað eftir aðstoð teymisins t.d. telji þeir sig ekki ráða við að leysa málið hjálparlaust.

Teymið þarf að hafa fullt sjálfstæði í vinnubrögðum og með hvaða hætti það velur að vinna í málinu enda sérhvert mál einstakt og útheimtir mismundandi útfærslur.

Óski foreldri eftir að teymið vinni í eineltismáli síns barns, verður leiðin fyrir fagfólkið að vera greið inn í viðkomandi skóla. Teymið þarf að fá fullan aðgang að öllum þeim sem að málinu koma. Teymisfólkið þarf að fá aðstöðu til að taka viðtöl í viðkomandi skóla og geta treyst á fulla samvinnu við skólastjórnendur og annað starfsfólk skólans.

Ávinningur fyrir skólastjórnendur að geta leitað til teymisins.
Ætla mætti að skólastjórnendum þætti það kostur að geta leitað til utanaðkomandi fagteymis komi upp alvarlegt vandamál í skólum þeirra. Í sumum tilvikum mun það jafnvel nægja að teymið veiti aðeins leiðbeiningar og ráðgjöf um með hvaða hætti skólinn geti tekið á málum en skólinn, eftir sem áður, leysi málið. Stundum þarf ekki annað til en að fá utanaðkomandi aðila til að leggja mat á hlutina og varpa fram nýrri sýn til að lausnir blasi jafnvel við.

Komi sérsveitarteymið að máli hvort heldur foreldrar eða skóli kalli það til er meginmarkmið þess að vinna í málinu með það fyrir augum að leiða það til lausnar hverjar svo sem lausnir þess kunna að verða.  Teymið vinnur með hagsmuni þolandans að leiðarljósi og mikilvægt er að hann og aðstandendur hans upplifi og finni í reynd að málið hafi verð unnið með faglegum hætti.   

 

 


66% foreldra telja að þeir þurfi frekari upplýsingar um öryggi á Netinu.

Rafrænt einelti, smella hér til að sjá þáttinn frá því í gærkvöldi á ÍNN.
Meðal efnis:

Hlutverk Heimili og skóla:
Þetta eru hagsmunasamtök foreldra sem leitast við að vekja athygli foreldra á hættum á Netinu og hvað felst í  jákvæðri netnotkun. Einnig annast samtökin fræðslu til foreldra um hvernig þeir geta staðið saman með skólanum t.d. gegn einelti.

SAFT –er skammstöfun fyrir  Samfélag, fjölskylda og tækni.
V
akningarátak um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi. Verkefnið er hluti af Safer Internet Action Plan, aðgerðaáætlun Evrópusambandsins um öruggari netnotkun og er styrkt af ESB.
Samningsaðili við ESB er Heimili og skóli - landssamtök foreldra, sem sér um að annast útfærslu verkefnisins fyrir Íslands hönd.

Samkvæmt foreldrakönnun SAFT telja :

66% foreldra að þeir þurfi frekari upplýsingar um öryggi á Netinu.
20% foreldra sem eiga börn sem nota netið hafa leitað sér tæknilegra ráða varðandi netnotkunina.
10% hafa leitað sér uppeldislegrar ráðgjafar varðandi netnotkunina og 1% lögfræðilegra ráða.
74% telja mjög eða frekar mikla þörf fyrir vefsíðu þar sem á einum stað er hægt að leita sér ráðgjafar um tæknileg,uppeldisleg og lögfræðileg málefni tengd netnotkun.

Jákvæð netnotkun, helstu netheilræðin og margt fleira.

 

 

 


Manni óar við þessum tölum

Það eru stjarnfræðilegar upphæðir sem sagt er t.d. að Björgólfur Guðmundsson skuldi Landsbankanum og hann er ekki sá eini.
Tæpa 60 miljarða Devil
Hugsanir sem fljúga í gegnum hausinn við svona upplýsingar eru hvað þetta var nú allt mikil geggjun.

DV í dag er einnig stútfullt af fréttum af auðmönnum, hvað þeir skulda og hvert þeir hafa flúið.  Það er ekki hjá því komast að fyllast reiði þegar maður les svona fréttir.
 
Hvað voru þessir menn að hugsa?  

 


Hvernig tökum við á rafrænu einelti?

Eineltisserían heldur áfram á ÍNN enda umræða sem seint verður tæmd einfaldlega vegna þess að enn hefur ekki nema hluti þjóðarinnar vaknað til vitundar um þetta skaðræði. Eineltismál koma upp víða í okkar samfélagi og ekki nóg með það heldur lifa góðu lífi innan einstakra stofnanna eins og skóla, íþróttahreyfinga og vinnustaða.

Í næsta þætti ræðum við um rafrænt einelti og til leiks koma tvær ungar konur sem hafa gert á því rannsókn hér á landi. 

Hvernig tökum við á þessum vandamáli?
Myndbrot úr myndinni Odd girl out verður sýnt en myndina i heild sinni er hægt að sjá á You Tube.
Sjá hér annað myndbrot um rafrænt einelti.

Síðan er það umræðan um jákvæða tölvunotkun og ábyrgð foreldra að kenna börnum sínum að umgangast Netið með það fyrir augum að varast hættur sem þar leynast og einnig að forðast að taka þátt í neikvæðum samskiptum: andlegu ofbeldi, níði, lygum eða skítkasti sem allt er til þess fallið að varpa rýrð á aðra manneskju.
Hefjist slíkur vítahringur eru afleiðingarnar oft skelfilegar eins og dæmin hafa sýnt okkur. 

ALLT SEM ÞÚ GERIR Á NETINU ENDURSPEGLAR HVER ÞÚ ERT
KOMDU FRAM VIÐ AÐRA EINS OG ÞÚ VILT LÁTA KOMA FRAM VIÐ ÞIG
ÞÚ BERÐ ÁBYRGÐ Á ÞVÍ SEM ÞÚ SEGIR OG GERIR Á NETINU

Foreldrar þurfa að gera sér grein fyrir þeim ótal hættum sem Netið geymir og kenna börnum sínum að varast þær en umfram allt fylgjast sjálfir með Netnotkun barna sinna:

1. Uppgötvið Netið saman og hvetjið til góðra netsiða
2. Gerðu samkomulag við barnið um Netnotkun á heimilinu.
3. Hvettu barnið til að vera gætið þegar það veitir persónulegar upplýsingar.
4. Ræddu um þá áhættu sem fylgir því að hitta Netvin.
5. Kenndu barninu þínu að skoða efni á Netinu með gagnrýnum hætti.
6. Haltu vöku þinni það er vel hugsanlegt að barnið rekist á efni á Netinu einungis ætlað fullorðnum.
7. Komdu upplýsingum um það sem þú telur ólöglegt efni til réttra aðila.
8. Kynntu þér Netnotkun barnsins þíns.
9. Mundu að jákvæðri þættir Netsins eru mun fleiri en hinir neikvæðu.

(sjá meira um þetta efni á heimiliogskoli.is og einnig á vef Lögreglustjórans á höfuborgarsvæðinu)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband