Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

Skerpa á ákvæði um jöfnuð í Stjórnarskránni

mbl0181747.jpgSkerpa þarf á ákvæði í stjórnarskránni um jöfnuð í íslensku samfélagi.  Ástandið er slæmt eins og staðan er í dag.

Ójöfnuður virðist vera mjög mikill og bilið milli ríkra og fátækra hefur aukist ef eitthvað er.

Þessi litla en kraftmikla þjóð á að geta leyst þetta vandamál og það fljótt og vel. Sáttmáli eins og stjórnarskráin þarf að orða þetta skýrt og greinilega.

Endilega takið þátt í umræðu um endurskoðun stjórnarskrár Íslands og stjórnlagaþing hér.


Stjórnlagaþing: Hvert viljum við stefna og hverjar eru veigamestu áherslurnar?

Ég hef mikla löngun til að taka þátt í að byggja upp þjóðfélagið sem við búum í og gera það enn betra. Þess vegna hef ég boðið mig fram til stjórnlagaþings. Margt í stjórnarskránni hefur staðið tímans tönn, stendur enn og mun gera ágætlega í komandi framtíð. Ekki þarf að breyta bara breytinganna vegna. 

Af hverju vil ég taka þátt í þessu verkefni?
Eftir áratuga reynslu af því að vinna með fólki finnst mér ég hafa nokkurn skilning á þörfum þess og væntingum til framtíðar og hvernig samfélag hentar að búa börnum okkar. Nú gefst tækifæri til að kryfja öll helstu grunnatriði þjóðarinnar með sjónarhorn fjöldans að leiðarljósi. Ein aðalforsenda framfara og vellíðunar er að eiga vandaða og góða stjórnarskrá. Til að eignast haldbæra og nýtilega stjórnarskrá þarf hún að vera auðskilin, beint lýðræði og stuttar boðleiðir þurfa að vera ríkjandi þar sem mannréttindi og samfélagsleg ábyrgð eru veigamiklir þættir.

Það er óskandi að þeir sem valdir verða á stjórnlagaþing verði hópur fólks sem ber gæfu til að vinna saman að þessu mikilvæga og virðulega verki sem endurskoðun stjórnarskrár Íslands er. Stjórnlagaþingmenn fá í hendurnar hráefni til að vinna úr sem m.a. er komið frá þjóðfundi. Mikilvægt er að raddir almennings nái eyrum stjórnlagaþingmanna.  Á þingið þurfa að veljast víðsýnir, andlega þroskaðir og vel gerðir einstaklingar sem kunna að hlusta, geta hugsað af skynsemi og innsæi og sem hafa það góða sjálfsmynd að þeir geri sér grein fyrir að enda þótt viðhorf þeirra og skoðanir kunni að mátast vel við þá sjálfa, er ekki víst að þær séu í þágu þjóðar sem heild.

Eftirfarandi þættir endurspegla það sem ég vil m.a. leggja áherslu á:

  1. Beint lýðræði hefur að gera með hvernig fulltrúar eru valdir til þess að stjórna. Beint lýðræði vísar til þess að einstaklingurinn sem slíkur eigi þess kost á að velja ráðamann án milligöngu annarra einstaklinga. Hver og einn fullveðja þjóðfélagsþegn á að eiga þess kost að hafa, með lýðræðislegri kosningu, áhrif á hverjum hann treystir til að gæta hagsmuna sinna í veigamiklum málum sem ekki bara lúta að nútíð og nánustu framtíð heldur hefur ekki síður að gera með komandi kynslóðir.

Hvernig er þetta í dag?
Eins og staðan er nú kjósum við menn og konur til valda sem velja síðan aðra til setu í nefndir og ráð. Í nefndum og ráðum eru síðan enn aðrir valdir og þeim fært upp í hendurnar völd til að taka ákvarðanir í veigamiklum, afmörkuðum þáttum, sumum hverjum sem varða mikla hagsmuni þjóðarinnar. Hér er langur vegur í það sem kallað er beint lýðræði. Ef litið er til baka má sjá mörg dæmi þess að fólkið í landinu fékk ekkert tækifæri til að koma sínum skoðunum og óskum á framfæri.  Oft hefur hópur aðila sem valinn er af einum eða fáum fengið tækifæri til að véla með dýrmætustu eign og auðlindir þjóðarinnar, skipulag og uppbyggingu borga og sveitarfélaga.  Hér hefur því verið um verulegan lýðræðishalla að ræða. Þegar aðstæður eru með þessum hætti eiga hagsmunaaðilar auðveldara með að véla um mikilvæg málefni þjóðarinnar. Þessu á stjórnarskráin að taka á.

Í hnotskurn: Allir þeir sem setjast í nefndir og ráð sem fara með stærstu og brýnustu hagsmunamál þjóðarinnar þurfa að vera valdir beint af kjósendum.

  1. Landið ætti að vera eitt kjördæmi og atkvæðavægi allra jafnt.  Einnig yrði til bóta ef hin svokölluðu prófkjör (persónukjör) fari fram á sama tíma og kosinn er stjórnmálaflokkur/samtök. Þetta myndi þá virka þannig að í stað þess að stjórnmálaflokkur raði fólki á lista spilar hann fram hópi fólks sem kjósendur raða sjálfir innan þess flokks sem þeir kjósa.

Fáir og öflugir flokkar sem keppa um sæti á Alþingi er æskileg staða. Margir litlir flokkar eða stjórnmálasamtök sem koma manni á þing veikir þingið og bíður frekar upp á þá hættu að völd komist til hagsmunaaðila.

  1. Kveðið er á um þrískiptingu ríkisvaldsins í stjórnarskránni. Ég tel að ráðherrar eigi að koma úr  þingmannahópi. Ef ekki þá er hætta á að ráðherra verði einangraður og skorti viðeigandi bakland og stuðning. Ennfremur kann hann þá að skorta aðhald sem eykur líkur á agaleysi hans sjálfs. Ráðherra sem er einnig þingmaður ákveðins flokks hefur með því viðeigandi bakland. Flokkurinn þarf að taka ábyrgð á honum og getur skipt honum út fyrir annan sem betur er fallinn til embættisins hverju sinni. Áfram ætti að vera sá möguleiki að ráða tímabundið til embættisins fagráðherra án pólitískra tengsla þegar brýn nauðsyn vegna sértækra úrlausnarefna kallar á slíkt.
  2. Fjárframlög til stjórnmálaflokka og einstaklinga í framboði verði heimil en þurfa að vera opin á öllum tímum. Gegnsæi skiptir í þessu sambandi meginmáli. Með gegnsæi liggur fyrir með opinberum hætti hvaða hagsmunaafl/öfl hafa styrkt frambjóðanda og um hversu mikla fjármuni.
  3. Dómarar og aðrir þeir sem fara með löggjafarvaldið skulu metnir af óhlutbundinni ráðningarnefnd og skal sá hæfasti ráðinn til embættis hverju sinni. Ef einhver vafi leikur á um hæfi aðila í ráðningarnefnd við ráðningu einstaklings skal viðkomandi nefndarmaður víkja sæti.
  4.  Allar stéttir ættu að eiga siðareglur.
  5. Ákvæðið sem snýr að undirskrift forseta undir löggjafarmál má ætla að sé barn síns tíma.  Lög ættu að taka gildi ef meirihluti á Alþingi samþykkir þau. Þau þurfa ekki frekari staðfestingar við.
  6. Auðlindir ættu að vera eign þjóðarinnar og á engin, einstaklingur, hópur eða samtök, rétt á að nýta þær sjálfkrafa. Samningar sem hafa að gera með auðlindir skulu vera opinberir frá upphafi þ.e. aðdragandinn að slíkum samningi og samningarferlið.  Komi í ljós að 20% atkvæðabærra manna sé ósátt við þann gjörning sem fyrirhugaður er, ætti málið að vera borið undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.
  7. Það sem bera á undir þjóðina:
     a) Veigamikil mál sem varða nýtingu (leigu) eða afhendingu til lengri tíma á einni af helstu auðlindum þjóðarinnar.
    b) Mál sem varða þjóðina sem fullvalda ríki, þátttöku þjóðar eða tengsl við alþjóðasamfélagið eða önnur alþjóðasambönd/samtök skulu borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Samþykki fæst með hreinum meirihluta þeirra sem greiða málinu atkvæði.
  8. Ísland ætti ávallt að vera hlutlaust þegar kemur að ákvörðun um ófrið eða innrásir í önnur lönd. Komi tillaga um að Ísland ætti að styðja eða ganga í stuðningslið með þjóð hvort heldur hún berst fyrir frelsi eða landi ætti sú tillaga einnig að vera borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu.
  9. Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar er tiltölulega nýr en betur má ef duga skal. Þennan kafla er hægt að betrumbæta enn frekar.
  10. Stjórnarskránni á að vera hægt að breyta þegar krafa kemur upp um breytingar. Ekki er nauðsynlegt að hún sé endurskoðuð ef það er mat þorrans að þess sé ekki þörf.

 


Samverustund í Guðríðarkirkju í tilefni árlegs baráttudags gegn einelti og kynferðislegu áreiti

Hæðni og hunsun ein af birtingarmyndum eineltis.

Helgistund og dagskrá tileinkuð fullorðnum þolendum og aðstandendum þeirra í Guðríðarkirkju föstudagskvöld kl. 20 í tilefni árlegs baráttudags gegn einelti og kynferðislegu áreiti. Vöfflukaffi og umræður.

Þrátt fyrir vaxandi umræðu í samfélaginu og vilja fjölmargra til að fyrirbyggja einelti virðist sem vandamálið  spretti víða upp og lifi jafnvel ágætu lífi. Gera má því skóna að vandinn sé viðameiri en margur heldur vegna þess að fjölmargir þolendur treysta sér ekki til að opinbera einelti gagnvart sér. Á vinnustaðnum eru stjórnendur ábyrgir fyrir líðan starfsfólks. Í það minnsta ber þeim að sjá til þess að ekki viðgangist ofbeldi af neinu tagi á vinnustaðnum. Hvort takist að leysa vandann byggir alfarið á vilja og getu stjórnanda. Ef stjórnandi er jafnframt gerandi er ljóst að þolandi hefur oft ekki margra kosta völ en að hætta störfum.

Nánar um birtingarmynd eineltis

Hunsun og afskiptaleysi er ein birtingarmynd eineltis. Þolandinn lýsir þessu stundum þannig að það sé eins og hann sé ósýnilegur. Samstarfsmenn neita að vinna með honum, forðast að sitja hjá honum, litið er framhjá honum eins og hann sé ekki til staðar eða aldrei horft á hann. Upplýsingum er e.t.v. haldið frá viðkomandi, hann ekki látinn vita ef eitthvað stendur til og honum ekki boðið með þangað sem öðrum er boðið. Hvísl, baktal, undirróður, augnagotur eru jafnframt birtingarmyndir eineltis sem erfitt getur verið að staðreyna.
Meira áberandi birtingarmyndir er til dæmis þegar neikvæðum skilaboðum er komið áleiðis með rafrænum hætti. Búinn er til hópur á Facebook sem hefur það að markmiði að gera grín að, níða og hæða einhvern einn einstakling. Einnig þegar send eru skilaboð til eins eða fleiri með sms eða á MSN eða skrifað um hann á blogg- eða spjallsíðum.

Frekari dæmi eru t.d. beinar og óbeinar aðfinnslur við manneskjuna sem vísar til útlits eða atferlis. Stundum er eitthvað sagt á þessum nótum og síðan sagt að verið sé að grínast.  Slíkar aðfinnslur geta verið hvort heldur þegar enginn heyrir til eða í viðurvist annarra.  Einnig er ítrekuð gagnrýni, athugasemdir og jafnvel ásakanir um eitthvað sem ekki á við rök að styðjast.

Meira um þessi mál hér:
Hæðni og hunsun ein af birtingarmyndum eineltis.


Óskiljanlegt

Fáir einstaklingar nýta úrræði um sértæka skuldaaðlögun.

Ég skil þetta ekki alveg. Af hverju hafa ekki fleiri en raun ber vitni kynnt sér þau úrræði sem þó eru í boði? Til dæmis, hvað með alla þá sem lýsa vanda sínum í fjölmiðlum þessa dagana. Eru þeir búnir að máta sig við þær leiðir sem boðið er upp á?


Ekki um að ræða trúnaðarsamtal þegar börn ræða við fagaðila

Misskilningur að það ríki einhver sérstakur trúnaður milli barns/unglings og fagaðila

Sá misskilningur virðist vera meðal einstakra fagaðila að í viðtölum við unglinga ríki fullur trúnaður. Unglingarnir sjálfir sem leita t.d. til námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðings telja einnig oft að um sé að ræða trúnaðarsamtal.  Einstaka sinnum fréttist af tilvikum þar sem fagaðili í skóla hefur á þessari forsendu látið hjá líða að upplýsa forsjáraðila um mikilvæg atriði sem fram hafa komið í viðtali við unglinginn með þeim afleiðingum að hagsmunum hans hafi ekki verið gætt sem skyldi.

Hið rétta er að í reynd ríkir enginn trúnaður milli fagaðila og unglings í viðtölum sé viðkomandi undir 18 ára aldri.  Fagaðili þarf þess vegna að gæta þess að setja sig ekki í þá stöðu að hann og unglingurinn búi einir yfir trúnaðarupplýsingum sem eru alvarlegs eðlis.  Að sjálfsögðu ber fagaðila ávallt að meta hvaða upplýsingar eru af þeim toga að greina verði forsjáraðilum frá þeim.  Komi hins vegar fram upplýsingar, vísbendingar eða grunsemdir um að hagsmunum unglingsins eða annarra barna sé með einhverjum hætti ógnað ber fagaðila að upplýsa forsjáraðila um það. Öðruvísi geta þeir ekki brugðist við með viðeigandi hætti hvort heldur með fyrirbyggjandi aðgerðum svo sem fræðslu og leiðbeiningum eða öðrum lausnarmiðuðum leiðum.  

Mun unglingurinn þá ekki segja frá?

Þau rök hafa heyrst í þessu sambandi að unglingurinn muni síður tjá sig um áhyggjuefni sín geti hann ekki treyst á fullan trúnað. Það kann að vera mat einhverra að einmitt þess vegna sé þagmælska fagaðilans mikilvæg. Hin hliðin á málinu er sú að ákveðin áhætta fylgir því að lofa unglingi fullum trúnaði vegna þess að málefni hans geta þróast á þann veg að fullorðnir verði með einum eða öðrum hætti að koma að málinu.  Áhyggjuefni eða vandamál unglinga sem kunna að virðast léttvæg í viðtali geta tekið á sig alvarlegri myndir þegar fram líða stundir. Unglingurinn getur líka í viðtali við fagaðilann opinberað mál sem sá síðarnefndi sér í hendi sér að forsjáraðilar verði að fá upplýsingar um til að eiga möguleika á að aðstoða barn sitt. Hafi fagaðilinn þá áður lofað trúnaði á hann fárra kosta völ en að brjóta hann.

Til að fyrirbyggja að þessi staða komi upp er góð regla að upplýsa skjólstæðinga undir 18 ára aldri í upphafi samtals að þar sem hann er ekki orðinn sjálfráða sé ekki um eiginlegt trúnaðarsamtal að ræða. Komi upp í viðtalinu málefni sem fagaðilinn metur svo að forsjáraðilar þurfi að fá vitneskju um er sanngjarnt og eðlilegt að gefa unglingnum kost á að segja forsjáraðilum sjálfur frá því með eða án aðstoðar fagaðilans. Sé þessi valmöguleiki ekki fýsilegur unglingnum kemur það í hlut fagaðilans að upplýsa forsjáraðila um málið.  Hvenær og með hvaða hætti málið verður upplýst frekar er sjálfsagt að leggja undir stálpaðan ungling til að koma í veg fyrir að honum finnist að komið hafi verið aftan að sér eða gengið framhjá sér með einhverjum hætti.

Hvaða málefni er ekki hægt að halda frá forsjáraðilum?

Með reynslunni lærist fagaðila að leggja mat á málefni, alvarleika þeirra og hugsanlegar afleiðingar. Ef skjólstæðingur er undir 18 ára aldri ber fagaðila að upplýsa foreldra ef unglingurinn segir t.d. frá því að hann haldi að hann hafi einhverja sjúkdóma eða ef hann upplýsir að hafa verið beittur ofbeldi þar á meðal einelti eða áreitni af einhverjum toga. Sama á við ef unglingurinn upplýsir að hann búi yfir álíka upplýsingum um aðra undir sjálfræðisaldri. Eins ber fagaðila að upplýsa forsjáraðila ef fram kemur í viðtalinu að  hann stundi atferli sem geti verið honum andlega eða líkamlega skaðlegt eða viðhafi sjálfskaðandi/andfélagslega hegðun sem gæti haft skaðleg áhrif og alvarlegar afleiðingar fyrir hann. Hér er einungis drepið á því helsta sem upp gæti komið í  viðtali við skjólstæðinga undir 18 ára aldri og sem mikilvægt er að upplýsa til þess að hægt sé að fylgja málum eftir með nauðsynlegum úrræðum.

Hver er afstaða forsjáraðila?

Án þess að ætla að tala máli allra forsjáraðila tel ég þó engu að síður líklegt að þeir séu oftast nær sáttir við fyrirkomulag af þessu tagi leiti barn þeirra til fagaðila, hvort heldur innan skóla eða utan. Forsjáraðilar, sem sjá að barninu sínu líður illa eða hefur áhyggjur sem það getur ekki tjáð sig nægjanlega vel við heimilisfólkið, hvetja iðulega til þess að barnið ræði við fagaðila skólans, námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðing eða óska eftir að sálfræðingur komi að málefnum barnsins.  Fæstir forsjáraðilar gera kröfu um að fá vitneskju um allt það sem barnið segir í slíkum viðtölum.  Flestir treysta einfaldlega dómgreind sérfræðinga til að leggja mat á upplýsingarnar og vinsa úr þær sem þurfa að berast foreldrum eigi þeir að geta rækt forsjárskyldur sínar með ábyrgum hætti.

Grein áður birt á www. pressan.is og í Skólavörðunni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband