Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2019
Viðbrögð meirihlutans lýsa ótta og vanmætti
15.1.2019 | 19:26
Tillögu um að vísa skýrslu Innri endurskoðunar um braggann til þar til bærra yfirvalda hefur verið felld af meirihlutanum. Í bókun okkar Flokks fólksins og Miðflokksins er eftirfarandi:
Það er ill-skiljanlegt því það er hagur okkar allra að þetta mál verði hafið yfir allan vafa þegar kemur að meintu misferli. Borgarbúar eiga rétt á að þetta mál verði rannsakað til hlítar og að engir lausir endar verði skildir eftir. Við berum ábyrgð sem kjörnir fulltrúar og eftirlitshlutverk okkar með fjárreiðum borgarinnar er ríkt. Þessu eftirlitshlutverki erum við að sinna með tillögu þessari. Þetta mál hefur misboðið fjölmörgum Reykvíkingum og landsmönnum einnig. Meirihlutinn hefði átt að taka þessari tillögu fagnandi og sterkast hefði verið ef hann sjálfur hefði átt frumkvæðið af tillögu sem þessari. Þess í stað er brugðist illa við eins og birst hefur á fundi borgarstjórnar og í fjölmiðlum. Viðbrögðin lýsa ótta og vanmætti. Það er mat okkar að eina leiðin til að ljúka þessu máli fyrir alvöru er að fá úrskurð þar til bærra yfirvalda á hvort misferli kunni að hafa átt sér stað. Hvað sem öllu þessu líður stendur eftir að svara því hver ætlar að taka hina pólitísku ábyrgð í þessu máli.
Kæra nafna. Mig langar að vísa í leiðara sem þú skrifar í Fréttablaðið í morgun og segja þér að innra með mér finn ég hvorki til heiftar né ofsa í garð meirihlutans í tengslum við braggamálið og allt sem snýr að því. Ef skilgreina á einhverjar tilfinningar í þessu sambandi er það kannski helst vonbrigði og sorg vegna þess hvernig farið hefur verið með fé borgarbúa og vegna allrar þeirra misfellna sem nefndar eru í skýrslu Innri endurskoðunar. Tillaga Flokks fólksins og Miðflokksins að vísa skýrslu Innri endurskoðunar til þar til bærra yfirvalda til frekari yfirferðar og rannsóknar er ekki gert til að klekkja á neinum í pólitískum tilgangi.
Auðvitað velta margir fyrir sér hvort hér sé um misferli að ræða. Sveitarstjórnarlög hafa verið brotin, innkaupareglur borgarinnar brotnar og skoða þarf hvort lög um skjalavörslu hafa mögulega verið brotin. Ég sé ekki betur en að siðareglur hafi einnig verið brotnar þótt það teljist ekki refsivert. Borgarstjórn öll ætti að taka undir tillögu Flokks fólksins og Miðflokksins að fela þar til bærum yfirvöldum frekari yfirferð á málinu og rannsókn. Það er einnig mikilvægt að fela sama embætti að fara yfir niðurstöður Borgarskjalasafns á skjalamálum í málinu þegar þær liggja fyrir. Við verðum að hnýta alla lausa enda og gera allt til að geta byrjað að byggja aftur upp traust borgarbúa á kerfinu og fólkinu sem stýrir því.
Við viljum braggamálið til héraðssaksóknara
10.1.2019 | 16:30
Hér er upplýst að borgarfulltrúi Miðflokksins og og Flokks fólksins ætla að flytja tillögu á næsta borgarstjórnarfundi, sem haldinn verður þriðjudaginn 15. janúar n.k., um að vísa skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkur sem ber heitið Nauthólsvegur 100 til héraðssaksóknara til frekari yfirferðar og rannsóknar. Innri endurskoðandi hefur eftirlátið borgarfulltrúum úrvinnslu skýrslunnar og teljum við okkur vera að bregðast ríku eftirlitshlutverki okkar sem kjörinna fulltrúa ef við myndum ekkert aðhafast í kjölfar hennar. Mjög alvarlegar athugasemdir og ábendingar eru í skýrslunni m.a. um alvarleg lögbrot sem of langt mál er að fara yfir í bókun þessari. Rökstyðjum við þessa ákvörðun okkar m.a. á 140 gr. og 141. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem fjalla skyldur opinberra starfsmanna í störfum sínum.
Voru kannski fleiri verkefni hjá borginni stjórnlaus? Hvað með Gröndalshúsið, Vitann og Aðalstrætið?
10.1.2019 | 16:27
Flokkur fólksins lagði til í morgun á fundi borgarráðs til að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Gröndalshúsinu og gert var á endurbyggingu braggans á Nauthólsvegi 100. Gröndalshúsið fór 198 milljónir fram úr áætlun. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust og uppfullt af misferlum. Eftir því sem fram hefur komið hjá Innri endurskoðun er á borði skrifstofunnar úttekt á framkvæmdum við Mathöll Hlemmi, Sundhöll, Vesturbæjarskóla og hjólastíg við Grensásveg.
Greinargerð
Svört skýrsla IE liggur fyrir um braggann þar sem staðfest er að innkaupareglur hafi verið brotnar, sveitarstjórnarlög brotin sem og fjölmargar siðareglur. Sem dæmi var leitað eftir verktökum og starfsmönnum í verkið í gegnum kunningjaskap. Verkið kostaði 425 milljónir króna af skattpeningum borgara Reykjavíkur, langt umfram það sem áætlað var.
Í ljósi þessa er full ástæða til að skoða önnur verkefni sem farið hafa fram úr áætlun með það fyrir augum að rannsaka hvort svipað var viðhaft og við braggaverkefnið. Nefna má að verkefni í tengslum við braggann voru ekki boðin út, kostnaðareftirlit var ábótavant, ekki voru gerðir samningar, margar vinnustundir skrifaðar og á einum tímapunkti voru 18 verktakar í vinnu. Reikningar voru samþykktir en ekki fylgst með að útgjöld væru innan fjárheimildar. Í frumkostnaðaráætlun vantaði marga þætti og sú áætlun sem gerð var, var ekki virt. Innkauparáð fékk ekki réttar upplýsingar og síðast en ekki síst borgarráð fékk rangar og villandi upplýsingar. Það er því full ástæða til að skoða önnur verkefni sem voru í gangi undir stjórn þessara sömu einstaklinga, á svipuðum tíma og sem voru keyrð langt fram úr áætlun. Í þessu sambandi þarf sérstaklega að skoða hlutverk, embættisfærslur, stjórnsýsluhætti og ábyrgð borgarritara og borgarstjóra og umfram allt skoða tölvupósta milli þeirra og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, bæði þá sem vistaðir hafa verið í skjalavörslukerfi borgarinnar sem og þá sem ekki hafa verið færðir þangað.
Einnig var lagt til að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Aðalstræti 10 og bragganum á Nauthólsvegi 100. Aðalstræti 10 fór 270 milljónir fram úr kostnaðaráætlun. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust.
Flokkur fólksins leggur til að Innri endurskoðun geri jafnframt sambærilega úttekt á Vitanum við Sæbraut og gert var á endurbyggingu braggans á Nauthólsvegi 100. Vitinn fór 75 milljónir fram úr áætlun og er framkvæmdum ekki lokið. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust.
Gæludýr geta dimmu í dagsljós breytt
9.1.2019 | 20:54
Í árslok 2018 voru 2550 íbúðir í eigu Félagsbústaða af öllum gerðum og eru þær dreifðar víðsvegar um Reykjavík. Fyrir stjórn Félagsbústaða liggur nú tillaga um að hunda- og kattahald í félagslegu húsnæði í eigu borgarinnar verði leyft. Tillagan var lögð fyrir á fundi borgarstjórnar 13. september 2018. Enn hafa engin viðbrögð borist frá stjórn Félagsbústaða þrátt fyrir að ítrekanir hafi verið sendar. Leyfið yrði vissulega háð sömu skilyrðum og eru í Samþykkt um hundahald í Reykjavík dags. 16. maí 2012.
Eins og vitað er hafa margir sem flutt hafa í félagslegar íbúðir í eigu borgarinnar þurft að láta frá sér gæludýrin sín þar sem ekki er leyfi fyrir þeim í húsnæðinu. Harmur sá sem að fólki er kveðinn þegar það er nauðbeygt að láta frá sér dýrið sitt sem jafnvel hefur verið hluti af fjölskyldunni árum saman er þyngri en tárum taki. Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að samþykkja þessa tillögu enda er nú þegar að finna fordæmi í einu af nágrannasveitarfélögum okkar.
Jákvæð áhrif óumdeilanleg
Ekkert getur komið í stað tengsla við aðra manneskju en gæludýr getur uppfyllt þörf fyrir vináttu og snertingu. Gæludýr, þar með taldir hundar og kettir, eru hluti af lífi fjölmargra og skipa stóran tilfinninga- og félagslegan sess í hjörtu eigenda þeirra. Öll þekkjum við ýmist persónulega eða hjá vinum og vandamönnum hvernig gæludýr geta dimmu í dagsljós breytt, ekki síst hjá þeim sem eru einmana. Átakanleg eru þau fjölmörgu tilvik þar sem fólk hefur orðið að láta frá sér hundana sína vegna þess að þeir eru ekki leyfðir í félagslegum íbúðum á vegum borgarinnar.
Margar rannsóknir hafa sýnt fram á góð áhrif af umgengni manna við dýr. Rannsóknir sýna að umgengni við dýr eykur tilfinningalega og líkamlega vellíðan og eykur m.a. sjálfstraust, einbeitingu, athygli sem og minnkar streituviðbrögð. Dýr veita einstaklingnum vinskap, líkamlega snertingu og sýna áhuga og væntumþykju án nokkurra skilyrða. Ást til gæludýrs getur verið djúpstæð. Hundar og kettir eru til dæmis oft hluti af fjölskyldunni. Sú sorg sem nístir þegar gæludýr fellur frá eða er aðskilið frá eiganda sínum þekkjum við mörg, ef ekki af eigin reynslu þá annarra.
Að banna gæludýr eins og hunda og ketti í félagslegu húsnæði borgarinnar er ómanneskjulegt og ástæðulaust. Þess er vænst að jákvæð viðbrögð frá stjórn Félagsbústaða berist hið fyrsta enda er hér um réttlætismál að ræða. Það eru margir sem bíða!
Einmana og vannærðir
3.1.2019 | 12:33
Við höfum ekki staðið okkur nægjanlega vel þegar kemur að sjá um eldri borgara og þá sem glíma við aldurstengda sjúkdóma? Það eru vondar fréttir sem lesa má í Fréttablaðinu í dag en þar er sagt frá rannsókn þar sem kannað var næringarástand sjúklinga eftir útskrift af öldrunardeild Landspítalans. Næringarástand hópsins er slæmt og margir hafa einnig veika maka að hugsa um segir í fréttinni. Þeir elstu eru bæði einmana og vannærðir. Vandinn er margþættur, skortur á rýmum og erfiðleikar við að manna félagsþjónustuna enda láglaunastörf.
Flokkur fólksins hefur ítrekað minnst á óviðunandi aðstæður sumra eldri borgara bæði fundi borgarstjórnar, í borgarráði og á fundi velferðarráðs og komið með tillögur í þessu sambandi. Tillagan um Hagsmunafulltrúa aldraðra sem hefur það hlutverk að halda utan um þennan málaflokk, fylgjast með að þjónusta sé fullnægjandi og engin einn sé einhvers staðar aleinn og vannærður er enn á borði velferðarsviðs. Fella átti þessa tillögu á fundi velferðarsviðs í desember þegar ég innti eftir því hvort Öldungaráð Reykjavíkur hefði fengið hana til umsagnar og kom þá í ljós að svo var ekki. Gerð var krafa um að Öldungaráðið fengi hana til umsagnar áður en hún yrði felld. Í ljósi þessarar niðurstaðna er alveg ljóst að þessi tillaga á fullt erindi inn á borð borgarmeirihlutans og ætti að fá jákvæða afgreiðslu þar.
Málið er að meirihlutinn í borginni er sífellt að fullyrða og fullvissa borgarfulltrúa minnihlutans um að þessi mál séu í góðu lagi en nú má heldur betur sjá að svo er aldeilis ekki.
Lengi hefur verið vitað að ástandið er verra í Reykjavík en út á landi. Auk mannekluvanda hefur einnig verið skortur á hjúkrunarrýmum. Hvað við kemur hjúkrunarrýmum í Reykjavík hefði borgaryfirvöld þurft að sýna mun meiri fyrirhyggju eins og með önnur húsnæðismál í borginni. Það hefur ekki verið byggt nóg undanfarin ár. Á Landspítala bíður fólk sem ekki þarf að dvelja á sjúkrahúsi en hefur engan stað að hverfa á þar sem ekki er til hjúkrunarrými í sveitarfélaginu þar sem viðkomandi getur verið nærri ástvinum sínum. Þeir eldri borgarar sem eiga heimili að hverfa til eftir sjúkrahúsvist, hafa sumir hverjir ekki getað farið heim því starfsfólk vantar í heimaþjónustu. Það fólk verður því að dvelja áfram á Landspítala. Og eins og fram kemur í þessari rannsókn er fólk stundum sent heim allt of snemma þar sem aðstæður eru óviðunandi vegna mannekluvanda í heimaþjónustu.