Bloggfærslur mánaðarins, maí 2019

Sérskólar, afgangsstærð í borgarkerfinu

Brúarskóli stækkaður?

Á dagskrá borgarstjórnar í dag er tillaga Flokks fólksins þess efnis að byggt verði við Brúarskóla til þess að hann geti stækkað og tekið við fleiri nemendum. Staðsetning Brúarskóla í Vesturhlíð er afar hentug m.a. vegna þess að hún er ótengd  íbúðarhverfi og verslunum.  Mikil friðsæld er í hverfinu, gott næði til að vinna með börnin en samt stutt í allar áttir. Mikilvægt er að skólinn verði til framtíðar á þeim stað sem hann er. Í dag eru 24 börn í skólanum en lagt er til að skólinn verði stækkaður til að geta að minnsta kosti bætt við 6-8 nemendum. Núna eru 19 börn á biðlista. Brúarskóli er einn sinnar tegundar. Börn sem eiga við djúpstæðan hegðunarvanda að stríða sem rekja má til ólíkra orsaka og raskana stunda þar nám. Skólinn er tímabundið úrræði og ávallt er markmiðið að börnin aftur fari í heimaskólann. Meðallengd skólavistar er 15-18 mánuðir. Brúarskóli sinnir fleiri hlutverkum og eitt þeirra er ráðgjafahlutverk við aðra skóla. Sérhæft ráðgjafarteymi fer á vettvang í skóla sé þess óskað. Í Brúarskóla eru 2 þátttökubekkir í tengslum við skólann, annar í Húsaskóla og hinn í Ingunnarskóla og eru samtals 10 börn í þessum bekkjum. Brúarskóli sinnir auk þess kennslu á Stuðlum og BUGL. Skólinn er rekinn af Reykjavíkurborg með stuðning úr Jöfnunarsjóði.

 

Ráðþrota foreldrar

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins þekkir til mála þar sem foreldrar og kennarar eru ráðþrota. Ýmislegt hefur kannski verið reynt til að barni þeirra geti liðið vel í skólakerfinu sem er í mörgum tilfellum vanbúið til að mæta öllum þörfum barnanna. Enda þótt skólastefna Reykjavíkurborgar kallist „skóli án aðgreiningar“ vantar mikið af þeirri þjónustu í almenna skóla sem þarf til að sinna börnum með ákveðnar sérþarfir. Sum börn passa heldur ekki í þær sérdeildir sem reknar eru í skólunum. Sérskólar í Reykjavík hafa orðið út undan, eru jafnvel einhvers konar afgangsstærðir og hafa þar af leiðandi ekki fengið næga athygli borgaryfirvalda.  Sérskóli eins og Klettaskóli er einnig yfirfullur. Lagt hefur verið til af Flokki fólksins að stækka úrræði eins og Klettaskóla en sú tillaga var felld. Í ljósi þeirrar staðreyndar að Brúarskóli annar ekki eftirspurn er orðið tímabært að stækka skólann til að hægt verði að fjölga börnum upp í alla vega 30 nemendur. Skóla- og frístundarráð er hvatt til að vinna þétt með starfsfólki skólans hvað varðar framtíðarskipulag skólans.

 

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins


Hver er staða fatlaðra barna með innflytjenda-bakgrunn?

Flokkur fólksins er umhugað um líðan allra barna og hefur lagt fram fjölda tillagna sem snúa að bættri þjónustu við börn. Eins og allir vita er biðlisti í flesta þjónustu barna í Reykjavík. Biðlistar virðast vera orðnir rótgróið vandamál hjá borgaryfirvöldum.

Tillaga frá Flokki fólksins um að borgin greini stöðu fatlaðra barna með innflytjenda-bakgrunn var lögð fram í borgarráði 2. maí.
Lagt er til að Reykjavíkurborg láti greina stöðu fatlaðra barna með innflytjenda-bakgrunn til að varpa ljósi á á stöðu þeirra í íslensku samfélagi. Skoða þarf hverjar eru aðstæður þessara barna og þarfir, hvernig er þjónustu við þau háttað og hvað má gera til að tryggja að hún komi sem best til móts við þarfir barnanna?
 

Miðbærinn, fyrir hverja?

Allt stefnir nú í að gerðar verði stórvægilegar breytingar á miðborginni og Hlemmi í óþökk fjölmargra, þar með talda rekstrar- og hagsmunaaðila en einnig fjölmargra Reykvíkinga. Breytingarnar eru varanlegar lokanir á helstu götum fyrir bílaumferð. Nýjasta útspil meirihlutans samkvæmt því sem komið hefur fram í fréttum eru áætlanir um að loka fyrir umferð bifreiða umhverfis Hlemm. Einnig að loka fyrir umferð Rauðarárstígs og Snorrabrautar, sunnan við Hlemm sem og loka fyrir bílaumferð að Hlemmi úr austurátt, á kaflanum frá Fíladelfíu að Hlemmi. Önnur þróun hefur einnig verið að eiga sér stað í miðbænum sem veldur mörgum áhyggjum. Byggðar hafa verið fjöldinn allur af rándýrum lúxusíbúðum. Nú er svo komið að offramboð er af þessum einsleitu eignum og hundruð íbúða eru á sölu eða að koma á sölu í miðborginni. Salan á þessum eignum hefur ekki gengið sem skyldi. Íbúðirnar á Hafnartorgi eru einungis ætlaðar auðjöfrum. Hvar eru ódýru íbúðirnar? Hvar er fjölbreytnin?  Allt er þetta að gerast í miðri óvissu um ferðaþjónustuna en mikið af íbúðum á þessu svæði tengjast henni. Einhverjir verktakar halda nú að sér höndum og bíða eftir að verslunarrekstur fari af stað. En þvert á móti eru verslunareigendur í hópum að flýja þetta svæði. Átti ekki að gæða miðborgina lífi? Mannlausar íbúðir og tóm verslanarými er myndin sem miðborg Reykjavíkur er að taka á sig.

Þöggun er ein birtingarmynd kúgunar

Sá sem leyfir sér að tala um ástandið sem er að skapast í miðbænum og lýsa áhyggjum sínum er snupraður fyrir að vera  að „tala miðbæinn niður“, eins og það er orðað. Að snupra fólk sem lýsir áhyggjum sínum af stöðu mála í miðborginni með þessum hætti er ekkert annað en taktík til að þagga niður í fólki. Með þessu er verið að varpa ábyrgðinni á þá sem vilja ræða málin með opinskáum hætti og tjá skoðanir sínar. Verði miðbærinn að draugabæ verður þeim sem „töluðu hann niður“  kennt um? Það er vissulega handhægt fyrir þá sem vilja ekki hefja lýðræðislega umræðu að beita þöggunaraðferð sem þessari.

Tala og hlusta

Öll umræða er af hinu góða, allar upplýsingar eru til gagns og það versta sem hægt er að gera í lýðræðissamfélagi er að reyna að þagga niður umræðu af ótta við að sú hlið málsins sem hugnast ekki valdhöfum og peningaöflum nái eyrum almennings. Meirihluti borgarstjórnar, ekki síst Viðreisn og Píratar, er sífellt að státa sig af því að virða lýðræði. Er það lýðræðislegt að hunsa óskir á þriðja hundrað rekstraraðila um samráð? Meirihlutinn í borgarstjórn státar sig af því að hafa notendasamráð í öllum verkferlum. Er það dæmi um notendasamráð að vinna ekki með notendum að svo víðtækri skipulagsbreytingu sem hér um ræðir? Hagsmunaaðilar hafa fullyrt að ýmist hafi ekkert samráð verið haft við þá eða mjög lítið í besta falli. Í könnunum sem valdhafar vísa í stendur ekki steinn yfir steini hvað varðar að „meirihluti borgarbúar“ sé himinlifandi yfir þessum breytingum. 

Áfram er gengið á lagið

Nú hefur borgarmeirihlutinn ákveðið að ganga enn lengra án þess að spyrja kóng né prest. Nú er Rauðarárstígur, Snorrabraut og Hlemmur einnig undir. En miðborg Reykjavíkur er ekki eign borgarstjóra. Borgarfulltrúi Flokks fólksins krefst þess að haft verði samráð við fólkið sem reynt hefur að ná eyrum ráðandi afla í borginni. Haldi áfram sem horfi er hér verið að misbjóða fólki með grófum hætti. Ótti Flokks fólksins um að miðbærinn verði einungis fyrir túrista, auðjöfra og auðvitað æðstu valdhafa borgarinnar virðist vera að sanngerast. Þar sem þessir hópar munu aldrei ná einir og sér að halda uppi mannlífi í borginni stefnir hratt í að miðbær Reykjavíkur verði að draugabæ.

Grein birt á visi.is 2. maí


Engin gögn falin ofan í skúffu

Á fundi borgarráðs þann 19. júlí 2018 var samþykkt að skipa þverpólitískan stýrihóp í þeim tilgangi að endurskoða stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins sem jafnframt er sálfræðingur og sérfræðingur í eineltismálum var formaður hópsins. Vinna stýrihópsins hófst formlega í október og lauk í febrúar 2019. Afrakstur stýrihópsins var lagður fyrir borgarráð til samþykktar 7. mars og borgarstjórn 19. mars. Í stýrihópnum voru nokkrar breytingar gerðar á stefnunni og öllu fleiri á verklaginu. Sérstaklega má fagna auknu gegnsæi og tímamörkum sem nú hefur verið sett á vinnslu eineltismála hjá Reykjavíkurborg.

Helstu efnislegar breytingar í stefnunni

Í stefnunni sjálfri var ákveðið að hafa forvarnarkaflann ítarlegri en í fyrri stefnu. Einnig var tekin ákvörðun um að breyta skilgreiningu eineltis lítillega. Stýrihópurinn var sammála um að nota ekki hugtakið „síendurtekin“ eins og er í reglugerð ráðuneytisins nr. 1009/2005 en þar er skilgreining eineltis þannig að það sé ófrávíkjanlegt skilyrði að hegðunin sé SÍ-endurtekin. Þessu hefur fylgt nokkur vandi. Einstaka rannsakendur hafa nefnilega gengið svo langt að fullyrða að „síendurtekin hegðun“ merki að háttsemin þurfi að vera viðhöfð vikulega yfir það tímabil sem kvörtunin nær til ef hún eigi að flokkast undir skilgreiningu um einelti. Þrenging skilgreiningarinnar með þessum hætti árið 2015 hefur haft fælingarmátt. Sumir þolendur segja að ekki þýði að leggja inn kvörtun þar sem skilgreiningin er allt of þröng. Skilgreiningin í hinni endurskoðuðu stefnu Reykjavíkurborgar er því eftirfarandi:
Einelti er endurtekin ótilhlýðileg háttsemi sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem með því að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Helstu breytingar á verklagi

Í hinni endurskoðuðu stefnu og breyttu verklagi er gerð skýrari grein fyrir hvað felst í frumkvæðisathugun atvinnurekanda og í hvaða tilvikum ber að gera hana. Skv. 7. gr. reglugerðar 1009/2015 ber atvinnurekanda að bregðast við berist honum ábending. Frumkvæðisrannsókn er þó ekki rannsókn á málum tiltekins starfsmanns líkt og þegar tilkynning berst frá þolanda heldur er þá framkvæmd almenn könnun á tilteknum atriðum á starfsstöð (vinnustaðamenningu, stjórnunarháttum).
Í hinu endurskoðaða verklagi er lögð áhersla á aukið gegnsæi í verkferlum samkvæmt upplýsingalögum og nýjum persónuverndarlögum. Aðeins er hægt að taka við tilkynningu undir nafni. Ef tilkynning er ekki undir nafni fer rannsókn ekki af stað en atvinnurekandi getur hafið frumkvæðisrannsókn samkvæmt ofangreindu. Tilkynnandi getur dregið tilkynningu sína til baka hvenær sem er og mikilvægt er að það sé þá gert með skriflegum hætti.
Málsaðilar, þolandi og meintur gerandi hafa aðgang að öllum upplýsingum og gögnum sem tengjast málinu að teknu tilliti til laga um persónuvernd og vinnslu persónu- og upplýsingalaga nr. 140/2012. Þeir sem rætt er við (vitni) fá að vita það fyrir fram að ferlið er opið og gegnsætt gagnvart aðilum máls sem munu sjá skráningar allra viðtala. Aðilar sem rætt er við fá tækifæri til að lesa yfir það sem hafa á eftir þeim í álitsgerð um málið og þeim gefin kostur á að lagfæra framburð sinn óski þeir þess. Á fundum í tengslum við málið er rituð fundargerð sem farið er yfir í lok fundar. Fundargerðir skulu vera á stöðluðu formi. Ef aðilar óska eftir afriti af fundargerð er hún afhent.

Óhæði rannsakenda

Sá sem tilkynnir mál er eigandi málsins ef þannig má að orði komast. Teymi hefur leiðbeinandi hlutverk og leiðbeinir viðkomandi við að kæra til lögreglu ef mál eru þess eðlis. Ef fagaðili utan eineltisteyma borgarinnar er falið að rannsaka málið t.d. vegna vanhæfis eða tengsla rannsakenda borgarinnar við aðila málsins skal leita samþykkis þess sem tilkynnti málið (þolanda). Til að niðurstaða könnunar verði trúverðug skal tryggja óhæði rannsakenda ekki ósvipað þegar dómstóll kallar til dómkvaddan matsmann. Tilkynnandi verður að fá tækifæri til að hafa hönd í bagga með hverjir rannsaka mál hans. Hann þarf að geta treyst því að sá sem fenginn er til að rannsaka málið sé sannarlega óháður.
Aðrar nýjungar eru þær að sett hafa verið inn tímamörk rannsóknar og verði tafir skal upplýsa aðila máls. Einnig er opnað fyrir þann möguleika að ef ekki næst einróma niðurstaða fulltrúa teymis við rannsókn gefst færi á að skila séráliti sem tilgreinir afstöðu.

Við endurskoðun stefnunnar og verklags var tekið tillit til ábendinga sem borist hafa frá starfsfólki sem hafa verið aðilar máls. Umsagnir voru fengnar frá starfsfólki með reynslu af vinnslu mála af þessu tagi og hafðar voru til hliðsjónar ábendingar frá starfsfólki mannauðsþjónustu og fagsviða borgarinnar. Haldinn var upplýsingafundur með Persónuvernd. Sú gullna regla sem stýrihópurinn fylgdi við endurskoðun stefnunnar og verklags var sanngirni, meðalhóf og gegnsæi.
Grein þessi er birt í Morgunblaðinu 2. maí


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband