Bloggfærslur mánaðarins, september 2019

Nauthólsvegur 100 ekki gleymdur

Á fundi borgarráðs var lagt fram yfirlit yfir ábendingar og niðurstöður í skýrslu innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100.
Það er gott að vita til þess að ekki sé búið að gleyma braggamálinu og öðru þar sem farið var á svig við sveitarstjórnarlög s.s. ekki gerðir samningar og ekki farið í útboð svo fátt sé nefnt. Skýrslan um braggann er ein sú svartasta sem sést hefur og áfellisdómur á borgarkerfið. Fleiri slíkar skýrslu fylgdu í kjölfarið. Í skýrslunni rakti innri endurskoðandi fjölda atriða sem brást, þætti sem ekki er hægt að setja á reikning mistaka. Margstaðfest hefur verið að ábendingar hafa verið hunsaðar árum saman og hafa eftirlitsaðilar ítrekað bent á það í opinberum gögnum.

Hvað þessu yfirliti líður og að fara eigi í að laga hluti þá er engu að síður langt í land með að byggja upp traust í garð borgarkerfisins.
En vonandi liggur núna einhver alvara hér að baki!

 


Mistök Sorpu kosta borgina 1.6 milljarð

Það er þungt í mér vegna bakreiknings Sorpu upp á 1.6 milljarð sem borgarbúar eiga að greiða. Þessi byggðasamlög eru tómt rugl, þau koma alla vega illa út fyrir borgina sem er meirihlutaeigandi en ræður engu í þessum stjórnum. Formaðurinn í Sorpu er Kópavogsmaður. Hér er bókun Flokks fólksins í málinu sem rætt var í borgarráði í morgun:
 
Kostnaður við framkvæmdir Sorpu er vanáætlaður um 1.6 milljarð. Reikningurinn er sendur til eigendanna. Ætlar borgarmeirihlutinn að sætta sig við þetta? Stjórn Sorpu ber ábyrgð en stjórnkerfi Sorpu er ekki í lagi, frekar en hjá öðrum byggðasamlögum. Byggðasamlög, eru ekki góð tilhögun þar sem ábyrgð og ákvarðanataka fara ekki saman. Í þessu tilfelli er Reykjavík með einn fulltrúa í stjórn af 6 (17 % vægi), en á rúm 66 % í byggðasamlaginu. Ábyrgð fulltrúa Reykjavíkur er um 20 sinnum meiri er stjórnarmanns frá fámennasta sveitarfélaginu. Formaður Sorpu ætti því að koma frá Reykjavík. Sorpa ætlar að fresta framkvæmdum. Frestun er tap á umhverfisgæðum og fjármunum. Fresta á kaupum á tækjabúnað til að losa matvöru úr pakkningum. Ótal margt þarf að skoða annað t.d. er Sorpa ekki að flokka nægjanlega mikið á söfnunarstað. Flokkun er forsenda fyrir því að nýta úrganginn. Verðmæti eru í úrgangi sem verða að engu þegar mismunandi vöruflokkum er blandað saman. Hér er tekið undir orð formanns borgarráðs í fjölmiðlum að svona eigi ekki að geta gerst. Borgarfulltrúi er á móti því að veðsetja útsvarstekjur borgarinnar vegna vanáætlunar Sorpu sem sögð er vera vegna mistaka. Flokkur fólksins sættir sig ekki við skýringar sem hér eru lagðar fram og krefst þess að stjórnin axli á þessu ábyrgð.

Tillagan um að táknmálstúlka borgarstjórnarfundi vísað áfram

Tillaga Flokks fólksins að táknmálstúlka borgarstjórnarfundi var vísað til forsætisnefndar. Mér fannst viðtökurnar engu að síður frekar neikvæðar sem sést í þessari bókun:

Hér er um mannréttinda- og réttlætismál að ræða og á meirihlutinn ekki að sjá eftir fé sem fer í að túlka borgarstjórnarfundi. Íslenska og táknmál eru samkvæmt lögum jafn rétthá. Borgarfulltrúa þykir miður að hlusta á viðbrögð meirihlutans en borgarfulltrúi Samfylkingar í ræðu sinni talaði strax tillöguna niður og vildi meina að túlkun eins og þessi kostaði mikið álag, mikið fé og að ekki hefðu heyrst háværar raddir eftir þessari þjónustu o.s.frv. 

Það er ekki borgarfulltrúa að meta hvort táknmálstúlkun er erfið eða flókin eða kalli á mikinn undirbúning heldur þeirra sem ráðnir yrðu til að túlka. Að öðru leyti fagnar borgarfulltrúi Flokks fólksins að tillögunni var alla vega vísað áfram en hvorki felld né vísað frá á þessu stigi.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband